Ungt fólk spyr . . .
Skiptir máli hvaða kvikmyndir ég horfi á?
‚KVIKMYNDIR hafa eiginlega engin áhrif á mig,‘ staðhæfir unglingsstúlka að nafni Karen, ‚vegna þess að ég fer í bíó til að skemmta mér — spennunnar vegna.‘ Unglingar virðast margir telja sig ónæma fyrir áhrifum kvikmynda. En Georgia er á öðru máli. Hún hefur séð margar myndir bannaðar börnum innan 16 ára og segir: „Maður gleymir aldrei þessum atriðum . . . Því meira sem maður hugsar um þau, þeim mun sterkari verður löngunin til að gera það sem maður hefur séð.“a
Kvikmyndir njóta gríðarlegra vinsælda meðal unglinga. Stór hluti kvikmyndahúsagesta er unglingar. Auk þess horfa unglingar gjarnan á myndbönd eða sjónvarpskvikmyndir heima hjá sér. Að sjálfsögðu þurfa allir að slaka á og gera sér eitthvað til dægrarstyttingar af og til. Slíkt getur verið bæði hressandi og örvandi fyrir hugann. Unglingum finnst gjarnan að þeir geti lífgað upp á leiðinlegt síðdegi eða kvöld með því að sjá kvikmynd. En skiptir máli hvers konar kvikmyndir horft er á?
Stefnan í nútímakvikmyndagerð
„Sællífi, kynlíf, ofbeldi, ágirnd og eigingirni“ eru, að sögn barnasálfræðingsins Roberts Coles, það sem lögð er áhersla á í flestum kvikmyndum sem framleiddar eru nú til dags. Könnun á vegum dr. Vince Hammonds leiddi einnig í ljós að „flestar kvikmyndir sýndar í iðnríkjum heims sýna að minnsta kosti eitthvert ofbeldi, margar talsvert eða mjög mikið.“ Dr. Hammond og samstarfsmenn hans skoðuðu 1000 kvikmyndir frá fjölmörgum löndum. Niðurstaða þeirra var þessi: „Framleiðsla ofbeldiskvikmynda er alþjóðlegt vandamál.“
Hryllingsmyndir um fólk sem Satan hefur tekið sér bólfestu í, nauðganir og blóðsúthellingar með sem djöfullegustum hætti eru sérstaklegar vinsælar meðal unglinga. Haft er eftir dr. Neil Senior í tímaritinu Seventeen að þessar kvikmyndir „lýsi öllu því sem enginn vill að hendi fjölskyldu hans.“ Þrátt fyrir það horfa unglingar á þessar kvikmyndir stórum hópum.
Framleiðsla kynferðislega „djarfra“ kvikmynda hefur einnig aukist verulega. Prófessor við kanadískan háskóla segir að ‚flestir leigjendur djarfra myndbanda í Kanada séu unglingar á aldrinum 12 til 17 ára og hugsanlegt sé að þau brengli viðhorf þeirra til kynlífs.“
En kvikmyndaframleiðendur virðast kæra sig kollótta. Tímaritið Variety skýrir svo frá að ofbeldis- og kynlífsmyndum fari fjölgandi á markaðinum en heilnæmar fjölskyldukvikmyndir séu varla framleiddar nú orðið. Er hugsanlegt að grófar kvikmyndir geti haft neikvæð áhrif á þig?
Árás á augu og eyru
Kvikmyndir hafa mjög sterk áhrif á skilningarvitin. Jesús sagði að ‚augað væri lampi líkamans.‘ (Matteus 6:22) Það sem þú sérð getur haft djúptæk áhrif á þig. „Hugurinn fylgir augunum,“ eins og alfræðibók orðar það. Að jafnaði stýrir hugurinn því hvað augun horfa á og hafa í brennidepli. Þegar þú hins vegar situr og horfir á myndir í yfirstærð sem hreyfast um tjaldið er hætta á að þú gefir huga þinn að hluta eða öllu leyti á vald kvikmyndarinnar og framleiðanda hennar. Sumir verða svo gagnteknir af kvikmynd að þeir þurfa að fá kröftugt olnbogaskot í síðuna til að losna úr álögum hennar.
„Eyrað sem heyrir“ hefur líka sterk áhrif á hugsanir þínar og verk. (Orðskviðirnir 20:12) Myndin og hið talaða orð er samtvinnað tónlist sem getur örvað tilfinningarnar, vakið upp ótta, spennu, reiði og ástríðu. Af þessu leiðir að kvikmyndir geta orkað svo sterkt á fólk að sumir eiga jafnvel erfitt með að gera greinarmun á ímyndun og veruleika.
Árás á huga og siðferði
Sjónarmið eða viðhorf kvikmyndarinnar getur líka haft mikil áhrif á viðbrögð þín við henni. Kvikmyndaframleiðendur reyna að láta áhorfendur finna til samkenndar með persónum myndarinnar — jafnvel þótt söguhetjan sé glæpamaður, valdasjúkur eða haldinn kvalafýsn.b Ef þú ert ekki varkár gætir þú farið að halda með glæpamanni!
Lítum á sem dæmi hvernig áhorfendur brugðust við hryllingsmynd um brjálæðing með rakhníf á fingrum sem risti í sundur hvaðeina sem varð á vegi hans. Þeir hvöttu hann áfram með hrópum og köllum! Er áhorfendur sáu þetta gegnum linsu kvikmyndagerðarmannsins virtust þeir missa alla siðferðisvitund — og samkennd með fórnarlömbunum.
Þetta stingur mjög í stúf við áminningarorð Biblíunnar um að gleðjast ekki yfir ógæfu annars manns! (Orðskviðirnir 17:5) Það gengur í berhögg við hina gullnu reglu Jesú — að ‚gera öðrum eins og við viljum að þeir geri okkur.‘ (Matteus 7:12) Getur það að hvetja morðingja með hrópum og köllum samrýmst hvatningu Biblíunnar um að vera „meðaumkunarsamir“? (Efesusbréfið 4:32, ísl. bi. 1859) Er það ekki jafngildi þess að stilla sér í flokk með ‚söfnuði illvirkjanna‘? — Sálmur 26:4, 5.
Hin lævísu áhrif
Þú álítur kannski að áhrif kvikmyndar séu skammvinn, og auðvitað er ekki líklegt að þú farir að æða um og rista sundur hvern sem fyrir er, aðeins af því að þú sást það í kvikmynd. Nýsjálenskt dagblað vekur hins vegar athygli á „að æ fleira bendi til tengsla milli ofbeldiskvikmynda og ofbeldishneigðar sumra sem sjá þær.“ Bókin Adolescence vitnar einnig í fjölmargar rannsóknir á sambandi ‚ofbeldis í sjónvarpi og árásarhneigðar‘ og viðurkennir að „vaxandi rök“ séu fyrir tengslum þar á milli.
Fjölmiðlar hafa sagt fréttir af voðaverkum og glæfraskap sem sótt hefur innblástur til kvikmynda. Til dæmis dó unglingur af völdum meiðsla sem hann hlaut er hann reyndi að standa á höndum á vélarhlíf bifreiðar sem ekið var á fleygiferð. Hann hafði skömmu áður séð slíkt atriði í vinsælli kvikmynd. Það er því alls ekkert fráleitt að halda því fram að kvikmynd geti haft áhrif á það sem þú gerir.
Áhrif kvikmyndanna eru þó yfirleitt langtum lævísari en þetta. Reyna ekki margir af jafnöldrum þínum að líkja eftir kvikmyndastjörnum í tali, klæðnaði og öðru ytra útliti? Eru það ekki merki þess að kvikmyndir hafi sterk áhrif á fólk? Í öðrum tilvikum virðist það hafa siðspillandi áhrif á unglinga að sjá óheilnæmar kvikmyndir. Vísindamaðurinn dr. Thomas Radecki staðhæfir til dæmis að fólk verði „ónæmara fyrir ofbeldi“ ef það horfir á ofbeldiskvikmyndir í verulegum mæli.
Biblían segir: „[Jehóva] rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki [ofbeldi], hatar hann.“ (Sálmur 11:5) Geta ofbeldiskvikmyndir í stórum stíl haft áhrif á viðhorf þín til ofbeldis? Gæti þér farið að finnast það skemmtilegt eða jafnvel spaugilegt? Er jafnvel hugsanlegt að þú finnir hjá þér ríkari tilhneigingu til að útkljá vandamál og ágreining með valdi? Orðskviðirnir 10:23 komast vel að orði: „Heimskingjanum er ánægja að fremja svívirðing.“
Og hvað um kristið siðferði? Er hætta á að nektar- og kynlífsatriði í kvikmyndum geti komið þér til að gleyma hve sorglegar afleiðingar kynlíf fyrir hjónaband hefur og hve rangt það er? Gæti það dregið úr ‚hatri þínu á hinu illa‘? — Sálmur 97:10.
Rithöfundurinn Jane Burgess-Kohn segir frá ungri stúlku sem heitir Jeanie er horfði á „mjög kynæsandi“ kvikmynd ásamt piltinum sem hún fór út með. Jeanie viðurkennir að kvikmyndin hafi „kveikt í“ henni og komið henni til að eiga ástaratlot við piltinn. En hún gat ekki látið staðar numið þar. „Mér finnst leitt að þurfa að viðurkenna,“ segir hún, „að það var auðvelt það kvöld að telja mig á að hafa kynmök. Ég veit ekki enn hvernig á því stóð að ég lét alla skynsemi lönd og leið. Ég var ekki einu sinni sérstaklega hrifin af stráknum!“
Það leikur því enginn vafi á að kvikmyndir hafa sterk áhrif á hjarta þitt, hugsanir og hegðun. Þú ættir því að vera vandfýsinn á þær kvikmyndir sem þú sérð. Fjallað verður nánar um það mál síðar.
[Neðanmáls]
a Samkvæmt íslenskri löggjöf getur Kvikmyndaeftirlit ríkisins úrskurðað að ekki megi sýna kvikmynd börnum yngri en 10, 12, 14 eða 16 ára. Gert er ráð fyrir að kvikmyndir, sem sýna klámatriði eða ofbeldi, séu háðar slíkum takmörkunum. Því miður er næsta auðvelt fyrir börn og unglinga að fá slíkar myndir á myndbandaleigum.
b Tímaritið Science News segir frá tilraun er leiddi í ljós að áhorfendur urðu yfirleitt fyrir djúptækum áhrifum af því sem þeir sáu, „óháð því hve óraunveruleg kvikmyndin virtist,“ svo lengi sem þeir ‚fundu til sterkrar samkenndar með persónu í kvikmyndinni.‘
[Innskot á blaðsíðu 11]
„Maður gleymir aldrei þessum atriðum . . . Því meira sem maður hugsar um þau, þeim mun sterkari verður löngunin til að gera það sem maður hefur séð.“
[Innskot á blaðsíðu 12]
„Æ fleira bendir til tengsla milli ofbeldiskvikmynda og ofbeldishneigðar sumra sem sjá þær.“
[Mynd á blaðsíðu 10]
Oft sitja áhorfendur sem töfraðir og mana söguhetjuna til morðs, þjófnaðar og siðleysis.