Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g90 8.10. bls. 5-7
  • Getur þú treyst fréttunum sem þú færð?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Getur þú treyst fréttunum sem þú færð?
  • Vaknið! – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Fréttaval og framsetning
  • Þrýstihópar
  • Áhrif á almenning
  • Er hægt að treysta fréttunum?
    Vaknið! – 2014
  • Fréttaþyrst öld
    Vaknið! – 1990
  • Börn og samfélagsmiðlar – fyrri hluti: Ætti barnið mitt að nota samfélagsmiðla?
    Góð ráð handa fjölskyldunni
  • Hefur sjónvarpið breytt þér?
    Vaknið! – 1991
Sjá meira
Vaknið! – 1990
g90 8.10. bls. 5-7

Getur þú treyst fréttunum sem þú færð?

ÞANN 10. maí árið 1927 skýrði sérútgáfa franska dagblaðsins La Presse frá því að tveim frönskum flugmönnum, Nungesser og Coli, hefði tekist fyrstum manna að fljúga án viðkomu yfir þvert Atlantshaf. Á forsíðu voru myndir af flugmönnunum tveim ásamt lýsingu á komu þeirra til New York. En sagan var uppspuni einn. Í raun réttri var flugvélin týnd og flugmennirnir höfðu farist.

Fréttafölsun er algengari en ef til vill flesta grunar. Árið 1983 birtu kunn vikurit, einkanlega í Frakklandi og Vestur-Þýskalandi, glefsur úr dagbókum sem sagðar voru dagbækur Hitlers. Þær reyndust síðar vera falsaðar.

Árið 1980 birtist í dagblaðinu Washington Post saga af ungum fíkniefnaneytanda. Höfundinum voru veitt Pulitzer-verðlaunin fyrir, en það eru mestu heiðursverðlaun sem veitt eru blaðamönnum í Bandaríkjunum. Síðar kom í ljós að sagan var uppspuni frá rótum. Er þjarmað var að höfundi greinarinnar sagði hann starfi sínu lausu og skrifaði meðal annars: „Ég bið dagblaðið mitt, stéttarbræður mína, stjórn Pulitzer-sjóðsins og alla unnendur sannleikans afsökunar.“

En tilbúnar fréttir og uppspunnar sögur eru ekki eina hindrunin í vegi þeirra sem vilja komast að sannleikanum um það sem er að gerast í heiminum.

Fréttaval og framsetning

Blaðamenn og ritstjórar velja gjarnan til flutnings þær fréttir sem almenningur er hrifinn af en hafa kannski sáralítið gildi í raun. Æsifréttir og áberandi fréttamyndir eru látnar ganga fyrir í því skyni að auka sölu og fjölga lesendum, áhorfendum eða áheyrendum. Stjörnum í heimi skemmtanalífs og íþrótta er hampað hátt óháð því hvers konar fyrirmynd þær gefa hinum ungu. Ef einhver þeirra eignast elskuhuga, giftist eða deyr er það gjarnan talið fréttnæmt.

Í sjónvarpi ganga yfirleitt fyrir þær fréttir sem skírskota til augans. Forstöðumaður stórs sjónvarpsfélags lýsti yfir, að sögn tímaritsins TV Guide, að hann „sæktist eftir ‚augnablikum‘ í útsendingu — sársaukafullum, æsifengnum augnablikum í hverri fréttafrásögn til að lokka áhorfandann.“ Yfirleitt er lagt meira upp úr því að laða að áhorfendur en að mennta almenning.

Stundum er skýrt þannig frá atburðum að það gefur ekki rétta heildarmynd. Til dæmis sagði í vikulegum blaðauka við franska dagblaðið Le Monde frá því að „þrjú sjónvarpstæki hefðu sprungið [í Frakklandi] á aðeins fimmtán dögum.“ Þótt blaðið hafi greint frá þessu eins og það væri óvenjulegur atburður sprungu raunverulega færri sjónvarpstæki á þessu 15 daga tímabili en til jafnaðar.

Stundum er réttu máli hallað þegar sagðar eru fréttir af þýðingarmiklum atburðum. Tímaritið Parade Magazine segir að embættismenn og stjórnmálamenn „komi oft blekkingum sínum á framfæri í fjölmiðlum og brengli fréttirnar í því skyni að hafa áhrif á hugsun fólks. Þeir velja úr ákveðin atriði og fjalla um þau í stað þess að segja allan sannleikann.“

Þetta fer fyrir brjóstið á mörgum fréttaskýrendum. Hin franska alfræðibók Encyclopædia Universalis segir: „Frá því síðla á níunda áratugnum hafa allir helstu fjölmiðlar, þó einkum sjónvarpið, verið fordæmdir úr öllum áttum, jafnt af atvinnumönnum sem leikmönnum, manninum á götunni og framámönnum þjóðfélagsins, fyrir það hvað er sagt og hvað er látið ósagt, hvernig það er sagt og hvernig ýmislegt er gefið óbeint í skyn.“

Frjáls fréttamiðlun á alþjóðavettvangi er einnig vandamál og hefur orðið tilefni snarpra orðaskipta hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Þróunarlöndin finna að því að þeirra sé getið í fréttum aðeins ef þar verða náttúruhamfarir eða alvarlegir stjórnmálaörðugleikar. Franska dagblaðið Le Monde lét þess getið að ýmsar vestrænar fréttastofur flyttu mun meiri fréttir af þjóðum á norðurhveli jarðar en suðurhveli og bætti svo við: „Þetta hefur valdið alvarlegu ójafnvægi í skoðanamyndun almennings í iðnríkjum heims, sem og einnig í þróunarlöndunum.“

Þrýstihópar

Þrýstingur auglýsenda á fréttastjóra hefur enn fremur áhrif á þær fréttir sem almenningur fær. Á fimmta áratug aldarinnar hættu píanóframleiðendur að auglýsa í bandarísku tímariti er það birti grein um kosti gítarundirleiks við söng. Síðar birtist ritstjórnargrein í tímaritinu þar sem hlaðið var lofi á píanóið! Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að fjölmörg tímarit skuli fjalla tiltölulega lítið um hættuna af völdum tóbaksreykinga, í ljósi þess hve sígarettuauglýsingar eru drjúg tekjulind þeirra.

Lesendur eða áhorfendur eru einnig nokkurs konar þrýstihópur. Raymond Castans, fyrrum forstöðumaður vinsællar útvarpsstöðvar í Frakklandi, segir að áheyrendur hafi verið að mestu leyti íhaldssamir þannig að sýna hefði þurft aðgát til að styggja þá ekki. Er þá nokkuð undarlegt að í landi, þar sem ákveðin trúarbrögð eru ríkjandi, skuli miður fagrar staðreyndir um þá trú hafa verið þaggaðar niður eða lítið gert úr þeim?

Öfgahópar eða einstaklingar, sem finnst skoðunum þeirra ekki gerð nægileg skil í fjölmiðlum, beita fjölmiðla oft þrýstingi. Hryðjuverkamenn, sem rændu Aldo Moro, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu fyrir fáeinum árum, kröfðust þess að kröfum þeirra yrðu gerð full skil í sjónvarpi, útvarpi og ítölskum dagblöðum. Hryðjuverkamenn, sem ræna flugvélum og taka gísla, komast einnig í aðalfréttir sjónvarps og fá þannig þá athygli sem þeir sækjast eftir.

Fréttamenn eru stundum sakaðir um að fara troðnar slóðir, að viðhalda rótgrónum skoðunum eða hugmyndum. En er við því að búast að atvinnugrein, sem reynir að ná til sín sem flestum lesendum, áheyrendum eða áhorfendum, leggi áherslu á hugmyndir og skoðanir sem stangast á við hugmyndir og skoðanir flestra sem hún þjónar?

Annað skylt vandamál er það að rekstrarkostnaður dagblaða víða um lönd hefur farið vaxandi og leitt til samruna margra þeirra. Þannig hafa myndast bókstafleg „blaðaveldi“ í höndum fámennra hópa eða jafnvel eins einstaklings. Ef eigendum heldur áfram að fækka dregur það úr fjölbreytni þeirra skoðana sem komið er á framfæri.

Áhrif á almenning

Enginn vafi leikur á að fréttamiðlarnir eiga einnig sinn þátt í að móta siðferðisgildi þjóðfélagsins. Það gera þeir með því að lýsa sem eðlilegum ýmsum siðferðis- og lífsháttum sem hefðu verið taldir fráleitir fyrir aðeins fáeinum árum.

Snemma á níunda áratugnum átti miðaldra maður, sem er einn af vottum Jehóva, samtal við föður sinn um kynvillu, en faðir hans bjó þá skammt frá San Fransisco í Kaliforníu. Fyrr á ævinni hafði faðirinn látið son sinn vita að honum þætti kynvilla hneykslanleg. En þá, nokkrum áratugum síðar, höfðu fjölmiðlar haft þau áhrif á hinn aldraða föður að hann varði kynvillu sem boðlegan lífsstíl.

Frönsk alfræðibók, Encyclopédie de la Sociologie, staðhæfir: „Vel er hugsanlegt að útvarp og sjónvarp . . . innræti nýjar hugmyndir og hvetji til nýrra tískuhneigða sem geta jafnvel verið til vandræða. Með því að neytendur eru sólgnir í æsifregnir gera slíkir fjölmiðlar sem mest úr þeim strax í upphafi og ýkja þýðingu þeirra.

Hvað getum við gert ef við viljum ekki láta fjölmiðlana móta siðferðisgildi okkar og verðmætamat? Við ættum að fylgja hinum viturlegu ráðum Biblíunnar. Staðlar hennar og meginreglur gilda í hvaða þjóðfélagi sem er og á hvaða tímabili mannkynssögunnar sem verkast vill. Auk þess hjálpa þær okkur að skilja hve þýðingarmikið er að láta mótast eftir stöðlum Guðs, ekki þeim hugmyndum sem eiga vinsældum að fagna í heimi nútímans. — Jesaja 48:17; Rómverjabréfið 12:2; Efesusbréfið 4:22-24.

Þar að auki segir Ritningin frá þýðingarmiklum þætti fréttanna sem fjölmiðlar láta yfirleitt ógetið. Við skulum líta nánar á þennan þátt í næstu grein.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Öfgahópar fá alla þá athygli í fjölmiðlum sem þeir vilja.

[Rétthafi]

Ljósmynd: ANSA

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila