Hjálpaðu börnunum þínum að takast á við vandamálin í skólanum
VERSNANDI heimsástand hefur áhrif á okkur öll, þeirra á meðal börnin. Orð Guðs, Biblían, sagði nákvæmlega fyrir að á okkar dögum yrðu „örðugar tíðir“ og að „vondir menn og svikarar [myndu] magnast í vonskunni.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Nemendur þurfa því að glíma við alls konar vandamál í skólanum nú á tímum sem foreldrar þeirra þekktu varla. Hvað geta foreldrar gert til að hjálpa börnum sínum að takast á við þau?
Hópþrýstingur
Flest börn finna fyrir hópþrýstingi af og til. Ungur, franskur nemandi segir mæðulega: „Foreldrarnir og þjóðfélagið gerir það sem það getur en það er ekki nóg. Ungir afbrotamenn draga aðra unglinga með sér. . . . Foreldrar, sem hafa ekki stórn á börnum sínum, eru engir foreldrar.“
Ábyrgir foreldrar reyna að hjálpa börnum sínum að þroska með sér andlega eiginleika sem veita þeim þann innri styrk sem þarf til að standast skaðlegan hópþrýsting. „Við leggjum okkur virkilega fram við að hjálpa börnum okkar að byggja upp með sér sjálfsvirðingu,“ segir faðir, „þannig að þeim finnist þau ekki þurfa að njóta velþóknunar jafnaldra sinna. Ef þeim finnst ekki skipta máli að vera eins og önnur börn eiga þau auðveldara með að segja nei þegar þau eiga að segja nei.“ Þessi faðir tekur sér tíma til að fara í hlutverkaleik með fjölskyldunni í þeim tilgangi að kenn börnunum að takast á við erfiðar aðstæður. Þau hreinlega leika erfiðar aðstæður, sem gætu komið upp, og sýna með hvaða hætti megi takast á við þær. Þetta er góð leið fyrir foreldra til að styðja börnin og hjálpa þeim að byggja upp sjálfstraust.
Ljótur munnsöfnuður
Með hnignandi siðferði um heim allan verður ljótur munnsöfnuður sífellt algengari. Víða um lönd heyrast blótsyrði oft í sjónvarpi á besta áhorfstíma. Blótsyrðin bergmála því á skólalóðinni, göngunum og kennslustofunum.
Sumir kennarar taka sér sjálfir blótsyrði í munn og réttlæta það með því að þá geti nemendur sjálfir myndað sér skoðun um slíkt málfar. En slíkt gerir ekkert annað en að hjálpa nemendum að tileinka sér þetta óviðurkvæmilega málfar sem boðlegt, daglegt mál.
Vitrir foreldrar útskýra vingjarnlega fyrir börnum sínum hvers vegna slík orð leyfist ekki í fjölskyldunni. Þeir geta líka fyrirbyggt vandamál í sambandi við slæmt málfar í kennslunni með því að athuga kennsluskrá skólans til að kanna hvaða bækur barnið eigi að nota. Ef einhver þeirra inniheldur ljótan munnsöfnuð eða bregður upp siðleysi í máli eða myndum gætu þeir kannski farið fram á það við kennara barnsins að það verði valin önnur bók með boðlegu efni. Öfgalaus afstaða ber vott um sanngirni. — Filippíbréfið 4:5.
Siðleysi og fíkniefni
Kannanir hafa leitt í ljós að margir foreldrar viðurkenna að þeim finnist það „of feimnislegt eða vandræðalegt að glíma við efnið [kynfræðslu] heima fyrir.“ Þess í stað treysta þeir að skólinn veiti börnunum nákvæmar upplýsingar um kynferðismál. En Lundúnablaðið The Sunday Times hefur eftir reyndum kennara að óvenjutíðar þunganir meðal unglinga „tengist meira siðferði en getnaðarvörnum.“ Foreldrar eru í bestri aðstöðu til að setja þær hegðunarreglur sem þeir ætlast til að börnin fylgi.
Hið sama gildir um fíkniefnaneyslu. Skortur á handleiðslu foreldranna gerir vandamálið aðeins verra. „Því síður sem barninu finnst fjölskyldulífið aðlaðandi,“ segir Francoscopie 1993, „þeim mun meiri hætta er á að barnið finni sér eitthvað í staðinn. Fíkniefni eru oft eitt af því.“ „Það er erfitt að vera foreldri,“ viðurkennir Micheline Chaban-Delmas, forseti Toxicomanie et Prévention Jeunesse samtakanna (Fíkniefnanotkun og unglingavernd). „Maður verður að vera stöðugt á varðbergi; fíkiniefni eru oft leið til að vekja athygli foreldra á að eitthvað sé að. Ef unglingi finnst móðir sín eða faðir ekki gefa sér gaum, þá gæti honum fundist fíkniefni vera töfralausn á vandamálum sínum þegar honum eru boðin þau.“
Kanadískur faðir útskýrir hvernig þau hjónin sýna ósvikinn áhuga á skólanámi dóttur sinnar sem er á táningaaldri: „Við keyrum Nadine til og frá skóla. Oft spjöllum við um hvernig dagurinn hafi verið hjá henni þegar við sækjum hana. Ef við uppgötvum eitthvað af alvarlegu tagi ræðum við annaðhvort við hana um það strax eða tökum málið upp á ný við kvöldmatarborðið eða í umræðustund fjölskyldunnar.“ Þú getur líka sýnt barni þínu ósvikna umhyggju og ást með því að halda tjáskiptaleiðunum opnum.
Yfirgangur og ofbeldi
Yfirgangur er „eitt lúmskasta vandamálið í skólanum,“ segir Maureen O’Connor í bókinni How to Help Your Child Through School. Hún bendir einnig á að „óháð því hve miklum þjáningum slíkt veldur fórnarlömgunum séu þau oft ófús að segja fullorðnum frá því af ótta við að verða stimpluð ‚kjaftaskúmar.‘“
Því miður líta sumir kennarar á yfirgang sem eðlilega hegðun. En margir aðrir eru sammála kennaranum Pete Stephenson sem segist álíta að yfirgangur sé „viss tegund ofbeldis“ og heldur því fram að það sé „bjarnargreiði við yfirgangsseggina að leyfa þeim að fara sínu fram.“
Hvað geturðu þá gert ef barnið þitt verður fórnarlamb yfirgangsseggs? „Mikilvægustu verndina er að finna í því samfélagi fullorðinna sem [fórnarlömbin] lifa í,“ skrifar O’Connor. Ræddu málið við skilningsríkan kennara. Það fullvissar barnið þitt um að bæði þú og kennarinn álítið slíka árásarhegðun sem óaðgengilega. Margir skólar hafa tekið eindregna stefnu gagnvart yfirgangi sem kennarar ræða opinskátt í kennslustundum.
Natalie varð fyrir barðinu á yfirgangsseggjum vegna trúar sinnar. „Ég var smánuð af því að ég var ein af vottum Jehóva og sundum var dótið mitt jafnvel eyðilagt,“ segir hún. Til að leysa vandamálið ræddi hún þetta við foreldra sína sem stungu upp á að hún talaði við kennara sína. Hún gerði það. „Ég hringdi líka í foreldra tveggja bekkjarfélaga minna sem voru með yfirgang gagnvart mér,“ bætir hún við. „Það gengur miklu betur núna af því að ég gat útskýrt vandamálið fyrir þeim. Þannig ávann ég mér traust bæði kennara minna og flestra bekkjarfélaga.“
Stundum uppgötva foreldrar að það er barnið þeirra sem sýnir öðrum yfirgang. Þá ættu þeir að horfa gagnrýnu auga á það sem gerist innan veggja heimilisins. „Börn, sem eru fram úr hófi árásargjörn, eru yfirleitt frá heimilum þar sem foreldrarnir leysa ekki nægilega vel ágreiningsmál sín,“ segir Lundúnablaðið The Times og bætir svo við: „Ofbeldi er hegðun sem menn læra.“
Sums staðar er ofbeldi gríðarlega útbreitt. Þegar pólitísk ólga gerir skólagöngu nær óhugsandi hefur stundum reynst skynsamlegt fyrir börn, sem vilja varðveita hlutleysi, að halda sig heima. En ef átök brjótast út meðan þau eru í skólanum forða þau sér af skólalóðinni svo lítið beri á og halda sig heima uns ró er komin á.
Ófullnægjandi kennsla
Góð tjáskipti milli barnsins þíns og kennara þess geta bætt úr skák þegar ófullnægjandi kennsla er til vandræða. „Við hvetjum dóttur okkar alltaf til að hafa jákvæða afstöðu til kennslunnar,“ segja hjón. En þegar kennurum tekst ekki að gera námsefnið áhugavert missa börnin fljótt áhugann. Hvernig væri að hvetja barnið þitt til að tala við kennarann einslega ef þannig háttar til?
Hjálpaðu barninu þínu að búa til spurningar sem auðvelda því að skilja efnið og læra að nota það sem verið er að kenna. En það eitt tryggir ekki ósvikinn og varanlegan áhuga á efninu. Mikið veltur á fordæmi þínu sem foreldris. Sýndu að þú hafir áhuga á því sem barnið er að gera með því að ræða námsefnið og kennsluna við barnið þitt og bjóddu því hjálp til að viða að sér heimildum þegar heimaverkefnin kalla á slíkt.
Í skólanum eru börn fráskilinna foreldra eða börn sem búa við ofbeldi, misnotkun eða vanrækslu. Þau skortir oft sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Þau blanda geði við börn sem búa kannski við betri skilyrði. Flestir foreldrar gera sér ljóst að þeir þurfi að halda áfram að hjálpa börnum sínum að takast á við vandamálin sem koma upp í skólanum. En hvað um samskipti foreldra við kennarana? Hvers konar samband ætti að vera milli þeirra og hvernig má rækta það?
[Rammagrein/Mynd á blaðsíðu 23]
Sætir barnið þitt yfirgangi?
SÉRFRÆÐINGAR ráðleggja foreldrum að fylgjast með því hvort barnið sýni merki þess að það sæti yfirgangi eða sé lagt í einelti. Er það tregt til að fara í skólann, forðast skólafélaga eða kemur skrámað heim eða með fötin rifin?
Hvettu barnið til að segja þér nákvæmlega hvað gerðist. Þannig geturðu komist að raun um hvort yfirgangur eða einelti er raunverulega vandamálið. Ef svo er skaltu tala við skilningsríkan kennara.
Hjálpaðu barninu að takast á við vandann með því að stinga upp á að það haldi sig nærri traustum skólafélögum og forðist staði og aðstæður þar sem yfirgangur eða einelti getur átt sér stað. Barn með gott skopskyn, sem kann að svara fyrir sig undir erfiðum kringumstæðum, spjarar sig oft vel.
Gerðu þér ekki óhóflegar áhyggjur og hvettu barnið ekki til að gjalda í sömu mynt.