Foreldrar — verið málsvarar barnsins
Foreldrar vilja sonum sínum og dætrum það besta. Hinn kristni postuli Páll gaf feðrum þau fyrirmæli að ala börnin sín upp í aga Guðs. (Efesusbréfið 6:4) Salómon konungur til forna ráðlagði börnum og unglingum: „Taktu eftir því sem faðir þinn og móðir segja þér. Kennsla þeirra bætir skapgerð þína.“ — Orðskviðirnir 1:8, 9 Todayʼs English Version.
Hvernig getur skólinn þá stutt kennslu foreldranna? Og hvernig samband og samskipti ættu foreldrar og kennarar að eiga?
Hlutverk foreldra og kennara
„Foreldrarnir eru . . . mikilvægustu kennarar barna sinna,“ fullyrðir Doreen Grant sem er höfundur skýrslu um áhrif skólans á heimilið. Sem foreldri finnst þér kannski erfitt að meðtaka þá hugmynd.
Þú hefur kannski komist að raun um að kennsluaðferðir hafa breyst mikið síðan þú varst í skóla. Núna eru áður óþekktar námsgreinar á kennsluskrá skólanna, svo sem fjölmiðlafræði, kynfræðsla og rafeindafræði. Það hefur þau áhrif að sumir foreldrar reyna að hafa sem minnst samband við skólann. „Að tala við kennara barna sinna getur látið sjálfsöruggustu foreldra finnast þeir vera fimm ára krakkar,“ segir dr. Davið Lewis í bókinni Help Your Child Through School. „Í stað þess að ræða við kennarana um erfiðleika eða áhyggjur á jafnræðisgrundvelli hegða sumir þeirra sér eins og börn.“
Sumir foreldrar hafa ekkert samband við kennara barna sinna nema alvarleg vandamál steðji að. Og þá er það oftar en ekki til að kvarta. Engu að síður geta foreldrar haft veruleg áhrif á menntun barna sinna með samstarfi við kennara þeirra, sem og margir gera.
Ábyrgð ykkar sem foreldra útheimtir að þið fylgist vel með og hafið áhuga á því sem börnin ykkar læra í skólanum. Af hverju? Af því að í starfi sínu hafa kennararnir áhrif á siðferðisstaðla barna ykkar. Gildismat kennaranna hefur áhrif á nemendurna því að börnin taka þá sér til fyrirmyndar. Flestir kennarar taka samvinnu við foreldra nemenda sinna feginshendi.
Skólastjóri í suðurhluta Þýskalands skrifaði foreldrum: „Við kennararnir sjáum það greinilegar á þessu ári en nokkru sinni fyrr að heilu nemendaárgangarnir, einkum nýnemar [sex ára börn], eru að verulegu leyti harðlyndir, tilfinningalausir og illa upp aldir. Mörg börn kunna sér alls engar hömlur og takmörk lengur og þekkja ekki sektarkennd. Þau eru ákaflega eigingjörn og andfélagsleg og verða árásargjörn án nokkurrar sýnilegrar ástæðu, taka [aðra] kverkataki og sparka í þá.“
Skólastjórinn hélt áfram: „Jafnvel þótt þetta geri okkur kennurunum miklu erfiðara fyrir viljum við ekki kvarta. En við verðum að horfast í augu við það að þrátt fyrir alla sina viðleitni getur skólinn ekki menntað og alið upp börn einn síns liðs. Við viljum því hvetja ykkur, kæru foreldra, til að taka sjálfir meiri þátt í uppeldi barna ykkar og láta ekki sjónvarpinu eða götunni eftir þá ábyrgð sem þið berið að þroska persónuleika þeirra og kenna þeim hegðunarreglur.“ — Leturbreyting okkar.
Margir foreldrar eru eftir sem áður tregir til samstarfs, þrátt fyrir slík eindregin tilmæli kennara. „Það stafar ekki af því að þeim sé sama, að þeir megi ekki vera að því eða skorti sjálfstraust,“ fullyrðir David Lewis, „heldur að þeirri bjargföstu sannfæringu að það séu aðallega meðfæddir eiginleikar sem hafi áhrif á það hvort barnið stendur sig vel eða illa í skólanum og uppeldi ráði þar sáralitlu.“ En þessi skoðun er alröng.
Á sama hátt og vandamál heima fyrir hafa oft áhrif á frammistöðu barns í skólanum getur gott heimilislíf hjálpað barna að hafa fullt gagn af skólagöngunni. „Góður eða slæmur námsárangur veltur miklu meira á fjölskyldunni en skólanum,“ segir í niðurstöðum rannsóknar um fræðslumál. Bókin How to Help Your Child Trough School samsinnir því: „Jafnvel mjög önnum hlaðnir foreldrar ættu að gera sér ljóst að viðhorf þeirra — áhuginn sem þeir sýna og hvatningin og stuðningurinn sem þeir veita, jafnvel úr fjarlægð — getur skipt sköpum um framfarir barna.“
En hvernig geturðu þá náð gópri samvinnu við kennara barnsins þíns?
Vertu málsvar barnsins
(1) Hafðu virkan áhuga á því sem barnið þitt lærir í skólanum. Best er að byrja um leið og barnið hefur skólagöngu. Yngri börnin eru yfirleitt fúsari að þiggja aðstoð foreldranna en unglingar.
Lestu með barninu. „Um 75 prósent formlegs lærdóms eiga sér stað með lestri,“ að sögn Davids Lewis. Þú getur þannig átt verulegan þátt í að þroska lestrarkunnáttu barnsins. Rannsóknir benda til að börn sem fá lestrarhjálp heima fyrir, taki oft hraðari framförum en þau sem fá aðstoð sérkennara í skólanum.
Á svipaðan hátt geturðu hjálpað barninu þínu að læra skrift og meira að segja reikning. „Maður þarf ekki að vera snillingur í stærðfræði til að hjálpa barninu með undirstöðuatriði stærðfræðinnar,“ segir Ted Wragg sem er kennari. En jafnvel þótt þú þyrftir sjálfur á hjálp að halda á þessum sviðum skaltu ekki láta það fæla þig frá því að hafa ósvikinn áhuga á því sem barnið þitt er að læra.
(2) Ræddu við kennarann um námsefni barnsins. Með því að lesa námsskrá skólans eða skoða bækurnar, sem barnið kemur heim með eftir fyrsta skóladaginn að hausti, geturðu kannað hvað barninu verður kennt. Þannig er hægt að vera á varðbergi á þeim sviðum þar sem vandamál gætu komið upp. Síðan geturðu stuðlað að góðri samvinnu með því að hitta kennarann að máli til að ræða hvernig hægt sé að virða óskir þínar sem foreldris. Notfærðu þér fundi og foreldraviðtöl sem skólinn skipuleggur til að kennara geti kynnst foreldrum. Sé skólinn með opið hús eða kynningu skaltu nota tækifærið og ræða við kennara barnsins. Slík tengsl eru ómetanleg, einkum þegar vandamál skjóta upp kollinum.
(3) Hjálpaðu barninu að velja námsgreinar. Þekktu hvað barninu geðjast að og hvað ekki. Talaðu um verðug markmið. Ráðfærðu þig við kennarana til að fræðast um alla hugsanlega valkosti. Þeir vita af því ef kennslutími einhverra námsgreina skarast og hvernig það takmarkar valmöguleika.
Opinská tjáskipti geta komið í veg fyrir leiðindi. Algengt er að skólar þrýsti á skarpa nemendur að stefna á framhaldsmenntun. En nemendur, sem velja sér hina kristnu þjónustu að starfi, forðast yfirleitt að fara út í langskólanám. Þeir sem ákveða að afla sér viðbótarmenntunar velja námsgreinar sem gera þeim kleift að sjá fyrir sér. Samviskusamir kennarar halda stundum ranglega að þar með sé verið að hafna öllu því sem þeir hafa reynt að kenna barninu. Með því að skýra þolinmóðlega fyrir kennurunum möguleikana á viðbótarmenntun á þeim starfsvettvangi, sem barnið hefur valið sér, er hægt að fullvissa þá um að kristnir foreldrar vilji að börnin þeirra haldi áfram að læra.a
Rétta aðferðin
Hægt er að umflýja miklar áhyggjur og hugarangur út af menntun barns með því að muna að farsæl samvinna byggist á góðum tjáskiptum. — Sjá rammann með yfirskriftinni „Hvernig foreldrar geta átt góð tjáskipti við kennara.“
Í stað þess að kvarta og gagnrýna skaltu vera málsvari barnsins með samráði og samvinnu við kennarana. Þannig hjálparðu barninu að hafa sem mest gagn af skólagöngunni.
[Neðanmáls]
a Vottar Jehóva, sem velja sér fullt starf í hinni kristnu þjónustu, hafa tækifæri til að sitja tveggja vikna námskeið, Þjónustuskóla brautryðjenda. Sumir verða síðar meir hæfir til að gangast undir fimm mánaða trúboðsþjálfun í Gíleaðskóla Varðturnsfélagsins.
[Rammagrein á blaðsíðu 26]
Hvernig foreldrar geta átt góð tjáskipti við kennara
1. Kynnstu kennurum barnsins.
2. Fullvissaðu þig um staðreyndir áður en þú kvartar.
3. Ef þú reiðist eða kemst í uppnám, gefðu þér þá alltaf tíma til að jafna þig áður en þú talar við kennarann.
4. Skrifaðu niður spurninga sem þú ætlar að spyrja og þau markmið sem þú vonast til að ná, áður en þú hittir kennarann.
5. Komdu sjónarmiði þínu skýrt og skilmerkilega á framfæri og reyndu síðan að vinna með kennaranum að því að finna raunhæfar lausnir á vandamálum sem kunna að vera fyrir hendi.
6. Settu þig í spor kennarans. Spyrðu þig hvað þú myndir gera í hans sporum. Það hálpar ykkur að komast að viðunandi niðurstöðu.
7. Hlustaðu auk þess að tala. Vertu óragur að spyrja spurninga ef þú skilur ekki eitthvað. Ef þú ert ekki sammála því sem sagt er, skaltu segja það og útskýra kurteislega hvers vegna.
— Byggt á bókinni Help Your Child Trough School eftir dr. David Lewis.