Trúarbrögðin taka afstöðu
ÞJÓÐVERJAR réðust inn í Pólland hinn 1. september árið 1939. Þar með var síðari heimsstyrjöldin hafin. Þrem vikum síðar gat að líta eftirfarandi fyrirsögn í The New York Times: „Kirkjurnar hvetja þýska hermenn.“ Studdu kirkjufélögin í Þýskalandi virkilega stríðsrekstur Hitlers?
Friedrich Heer, rómversk-kaþólskur prófessor í sögu við Vínarháskóla, viðurkenndi að svo hefði verið: „Í sögu Þýskalands blasir við sú blákalda staðreynd að krossinn og hakakrossinn nálguðust æ meir uns hakakrossinn boðaði sigurboðskap fá turnum þýskra dómkirkja, hakakrossfánar birtust kringum ölturu og guðfræðingar, prestar, kennimenn og stjórnmálamenn kaþólskra og mótmælenda fögnuðu bandalaginu við Hitler.“
Já, kirkjuleiðtogar studdu stríðsrekstur Hitlers skilyrðislaust eins og rómversk-kaþólski prófessorinn Gordon Zahn skrifaði: „Kaþólskur Þjóðverji, sem leitaði andlegrar leiðsagnar og forystu trúarlegra yfirboðara sinna um þjónustu í herjum Hitlers, fékk eiginlega sama svar og hann hefði fengið frá nasistaleiðtoganum sjálfum.“
Trúfélög handan víglínunnar
En hver var afstaða kirkjufélaganna í löndum sem voru andstæðingar Þýskalands? The New York Times sagði hinn 29. desember 1966: „Áður fyrr studdi klerkaveldi kaþólskra á hverjum stað nánast alltaf stríð þjóða sinna, blessaði hersveitir þeirra og bar fram bænir um sigur, meðan annar hópur biskupa hinum megin víglínunnar bað opinberlega fyrir gagnstæðum málalokum.“
Naut þessi stuðningur við hersveitir andstæðinga samþykkis Páfagarðs? Íhugaðu málið: Hinn 8. desember 1939, aðeins þrem mánuðum eftir að síðari heimsstyrjöldin braust út, sendi Píus páfi tólfti frá sér hirðisbréfið Asperis Commoti Anxietatibus. Bréfið var stílað á herpresta í herjum hinna stríðandi þjóða og það hvatti herpresta beggja stríðsaðila til að treysta herbiskupum sínum. Bréfið áminnti herprestana „sem hermenn þjóðar sinnar til að berjast einnig fyrir kirkjuna.“
Trúarbrögðin ganga oft vasklega fram í því að búa þjóðir til stríðs. „Jafnvel í kirkjum okkar höfum við sett upp herfána,“ viðurkenndi mótmælendapresturinn Harry Emerson Fosdick sem nú er látinn. Og um fyrri heimsstyrjöldina sagði breski stórfylkisforinginn Frank P. Crozier: „Við höfum enga betri en kristnu kirkjurnar til að æsa upp blóðþorsta og við höfum notað þær takmarkalaust.“
En þetta var saga trúarbragðanna áður fyrr. Hvað um hlutverk þeirra nýverið í stríðinu í lýðveldum fyrrverandi Júgóslavíu þar sem flestir íbúanna er annaðhvort rómversk-kaþólskir eða rétttrúnaðarmenn?
Ábyrgð trúarbragðanna
Blaðið Asiaweek sagði í fyrirsögn hinn 20. október 1993: „Bosnía er miðpunktur trúarátaka.“ Fyrirsögn fréttaskýringar í blaðinu San Antonia Express-News hinn 13. júní 1993 hljóðaði svo: „Trúarhöfðingjar ættu að binda enda á hörmungarnar í Bosníu.“ Greinin sagði: „Trúarbrögð rómversk-kaþólskra, rétttrúnaðarmanna og múslíma . . . geta ekki skotið sér undan ábyrgð á því sem er að gerast. Ekki núna þegar allur heimurinn horfir á á kvöldin. Þetta er þeirra stríð. . . . Sú grundvallarregla að trúarleiðtogarnir beri ábyrgð á hernaði er ljós. Það er hræsni þeirra sem kemur honum af stað. Þeir gera það með því að blessa annan stríðsaðila umfram hinn.“
Hvers vegna er hatrið til dæmis svona magnað milli meðlima rómvers-kaþólsku kirkjunnar og rétttrúnaðarkirknanna? Páfar, patríarkar og aðrir kirkjuleiðtogar eru ábyrgir fyrir því. Allt frá því að leiðir skildu endanlega með þessum kirkjudeildum árið 1054 hafa leiðtogar þeirra alið á hatri og stríði milli meðlima þeirra. Svartfjallalandsblaðið Pobeda vísaði til þessarar kirkjusundrungar og afleiðinga hennar í grein hinn 20. september 1991 um bardagana þar að undanförnu. Greinin sagði undir fyrirsögninni „Morðingar í nafni Guðs“:
„Hér er ekki um að ræða stjórnmálaátök milli Tudjmans [forseta Króatíu] og Milošević [Serbíuleiðtoga] heldur er þetta trúarstríð. Rétt er að minna á að nú eru liðin þúsund ár síðan páfinn ákvað að losa sig við rétttrúnaðarkirkjudeildirnar sem keppinaut. . . . Árið 1054 lýsti páfinn rétttrúnaðarkikjuna ábyrga fyrir aðskilnaðinum. . . . Árið 1900 lagði fyrsta kaþólska þingið fram ítarlega áætlun um útrýmingu rétttrúnaðarmanna á 20. öldinni. Nú er verið að hrinda þessari [áætlun] í framkvæmd.“
En átökin nýverið eru ekki fyrsta dæmið um trúarátök á þessari öld. Fyrir 50 árum, í síðari heimsstyrjöldinni, reyndu rómversk-kaþólskir að útrýma rétttrúnaðarmönnum á svæðinu. Með stuðningi páfa tók þjóðernishreyfing Króata, nefnd Ustashi, völd í sjálfstæðri Króatíu. The New Encyclopædia Britannica skýrir frá því að þessi stjórn, sem naut blessunar Páfagarðs, hafi sýnt „óvenjumikla grimmd og meðal annars tekið hundruð þúsunda Serba og Gyðinga af lífi.“
Í bókinni The Yugoslav Auschwitz and the Vatican eru þessi fjöldamorð bæði skjalfest — yfir 800.000 manns samanlagt, og yfir 200.000 í fangabúðunum í Jasenovac einum — en aðild Páfagarðs að þeim er einnig skjalfest.
En rétttrúnaðarkirkjan hefur einnig stutt Serba í bardögum sínum. Haft er eftir einum serbneskum liðsforingja: ‚Patríarkinn er foringi minn.‘
Hvað hefði verið hægt að gera til að stöðva drápin sem hafa valdið því að aðeins í Bosníu og Hersegóvínu eru allt að 150.000 fallnir eða saknað? Fred Schmidt lýsti yfir í San Antonio Express-News að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ætti að „gefa út formlega ályktun um að hvetja páfann, patríarkann í Konstantínópel og [aðra leiðtoga] kaþólskra, austrænna rétttrúnaðarmanna og múslíma, sem hafa lögsögu í Bosníu-Hersegóvínu, til að fyrirskipa að bardögum skuli hætt þegar í stað og koma saman til að finna út hvernig fylgjendur þeirra geti fengið sig til að búa sem nágrannar með annarrar trúar fólki.“
Fréttaskýring í blaðinu Progress Tribune í Scottsdale í Arizona í Bandaríkjunum tók í sama streng og sagði að hægt væri að „stöðva stríðið ef trúarleiðtogarnir þar reyndu það í alvöru.“ Greinin stakk upp á að þeir gerðu það „með því að setja hvern þann safnaðarmann tafarlaust út af sakramentinu sem skyti sprengikúlu að Sarajevo.“
Ekkert raunverulegt friðarafl
En páfarnir hafa allir sem einn neitað að setja verstu stríðsglæpamenn út af sakramentinu, jafnvel þegar aðrir kaþólikkar hafa skorað á þá að grípa til slíkra aðgerða. Til dæmis sagði blaðið Catholic Telegraph-Register í Cincinnati í Ohio í Bandaríkjunum undir fyrirsögninni: „Píus páfi tólfti hefur verið hvattur til að setja Foringjann Adolf Hitler út af sakramentinu. . . . ‚Adolf Hitler,‘ sagði í [símskeytinu] ‚var af kaþólskum foreldrum, skírður til kaþólskrar trúar og alinn upp og menntaður sem slíkur.‘“ En Hitler var aldrei settur út af sakramentinu.
Hugleiddu einnig ástandið í sumum hlutum Afríku þar sem grimmilegur hernaður hefur geisað. Fimmtán rómversk-kaþólskir biskupar frá Afríkuríkjunum Búrúndi, Rúanda, Tansaníu, Úganda og Saír viðurkenndu að þrátt fyrir marga, skírða „kristna menn“ á svæðinu hafi „innbyrðis átök leitt til fjöldamorða, eyðileggingar og nauðungarflutninga.“ Biskuparnir viðurkenndu að undirrót vandans sé sú að „hin kristna trú hafi ekki haft næg áhrif á hugsunarhátt manna.“
Blaðið National Catholic Reporter sagði hinn 8. apríl 1994 að „fregnirnar af átökunum í smáríkinu í Afríku [Búrúndí], þar sem íbúar eru að stærstum hluta til kaþólskir, tækju páfann . . . ‚ákaflega sárt‘“. Páfinn sagði að í Rúanda, þar sem um 70 af hundraði landsmanna eru kaþólskir, „beri jafnvel kaþólskir ábyrgð“ á morðunum. Já, kaþólskir menn beggja vegna víglínanna hafa strádrepið hver annan, alveg eins og þeir hafa gert í ótal fyrri stríðum. Og eins og við höfum bent á hafa fylgismenn annarra trúfélaga farið eins að.
Eigum við þá að halda að öll trúarbrögð taki afstöðu í stríði? Eru til einhver trúarbrögð eða trúfélög sem eru raunverulegt friðarafl?