Eru trúarbrögðin hvati góðs siðgæðis?
MARGIR myndu svara þessari spurningu með því að taka í sama streng og George Bernard Shaw: „Trúarbrögð eru mikið afl — eini raunverulegi hvatinn í lífinu.“ Enski rithöfundurinn John Ruskin, sem uppi var á 19. öld, var á allt annarri skoðun. Hann sagði í háðsádeilu: „Trú þorparans er alltaf það viðbjóðslegasta í fari hans.“ Hvort sjónarmiðið heldur þú að sé nær sannleikanum?
Sumir kynnu að benda á einstakling sem varð „gjörbreyttur maður“ þegar hann ‚helgaði líf sitt Jesú Kristi‘ og halda því fram að þar sé ljóslifandi dæmi um að trúarbrögðin séu hvati góðs siðgæðis. Þannig lýsti alþjóðlegt tímarit „trúhvarfi“ Charles Colson, manns sem hafði átt aðild að Watergate-hneykslinu. Sumir kynnu að benda á þá sem segja að trúin hafi hjálpað þeim að snúa baki við vændi eða drykkjuskap. Í löndum, sem ekki teljast kristin, hefur verið dreift biblíum í milljónatali sem hefur vafalaust hjálpað mörgum að bæta siðferði sitt. Svo er að sjá sem trúarbrögðin hafi haft góð áhrif á siðgæði slíkra einstaklinga.
Neikvæða hliðin
En þá er á hitt að líta að sú trú, sem Hitler játaði, virðist ekki hafa haldið mikið aftur af honum. Það varð til þess að margt einlægra manna undraðist að Píus XII páfi skyldi aldrei svara umleitun þess efnis að bannfæra Hitler. Í blaðinu Catholic Telegraph-Register, gefið út í Cincinati í Ohio, sagði undir fyrirsögninni „Alinn upp í kaþólskri trú en svívirðir trúna, segir í skeyti til páfa“: „Skorað hefur verið á Píus XII að bannfæra Adolf Hitler ríkiskanslara.“ Hefði stríðinu lyktað með öðrum hætti en raun varð á og mannkyninu verið hlíft við miklum þjáningum ef páfinn hefði gert þetta? Því miður svaraði páfinn aldrei þessari áskorun.
Í sumum kaþólskum löndum Suður-Ameríku er mjög algengt að menn haldi frillu. Og í Norður-Ameríku skrifaði háttsettur kaþólskur prestur ritstjórnargrein með yfirskriftinni: „Lögheimilum vændi — það er prýðileg lausn.“ (Philadelphia Daily News) Líttu á ástandið í sumum löndum þar sem mótmælendatrú er ríkjandi. Þar eru makaskipti, kynlíf fyrir og kynlíf utan hjónabands afar algengt. Vikið er að einni af ástæðunum fyrir því í blaðagrein: „Prestar eru þögulir um kynlíf fyrir hjónaband.“ Greinin sagði: „Bandarískir prestar hafa verið syndsamlega þögulir í sambandi við kynlíf fyrir hjónaband. . . . Þeir óttast að þeir muni missa einhver sóknarbarna sinna.“ (Telegraph, North Platte, Nebraska) Í ljósi þessa má spyrja hvort öll trúarbrögð séu hvati góðs siðgæðis.
Í kristna heiminum kemur máttleysi trúarbragðanna sem hvati góðs siðgæðis skýrast í ljós á styrjaldartímum. Eftirfarandi yfirlýsingar hljóma nógu fallega. Athugaðu hvað þér finnst um þær. Árið 1934 skrifaði Walter W. Van Kirk, þáverandi deildarritari við Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku: „Prédikarar og leikmenn hafa tekið hátíðlega afstöðu gegn stríði. . . . Þessi friðarkrossferð kirknanna kemur til af þeirri sannfæringu að stríð gangi algjörlega í berhögg við prédikun og fordæmi Jesú Krists.“ (Religion Renounces War) Bókin vitnar í yfirlýsingar nokkurra kristinna klerka og segir síðan: „Mestan part hafa kirkjurnar látið skýrt í ljós að ekki megi lengur líta á þær sem bandamenn í þeirri iðju að drepa og limlesta menn. Prédikararnir . . . þvo hendur sínar af blóði samborgara sinna; þeir eru að slíta samstarfi við keisarann.“
Því miður varð veruleikinn allur annar en þessar bjartsýnisspár. Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út tók ekki eitt einasta af hinum stóru kirkjufélögum kristna heimsins eindregna afstöðu gegn stríðinu. Gerði kirkjan, þar sem þú býrð, það?
Siðferðilegar hömlur niðurbrotnar
Þessi stutta athugun hefur leitt í ljós að allt of oft hafa hin algengu trúarbrögð heimsins ekki verið sterkur hvati góðs siðgæðis. Tímaritið Look sagði: „Kirkjurnar . . . hafa brugðist í því að veita siðferðilega forystu, og þar sem þær bera mestu ábyrgðina er vanræksla þeirra alvarlegust.“ Dagblaðið The Courier-Mail í Brisbane í Ástralíu sagði um vanrækslu trúarbragða kristna heimsins í því að sporna gegn siðleysi í kynferðismálum: „Þegar biskupar og kanúkar . . . setja á blað að kynmök utan hjónabands geti verið góðverk sem ‚boðar dýrð Guðs,‘ . . . að saurlifnaður sé ekki slæmur í sjálfu sér og hjúskaparbrot þurfi ekki að vera rangt; þá hljóta venjulegur maður og kona, og þá einkum piltur eða stúlka á gelgjuskeiði, að eiga erfitt með að greina milli þess sem er rétt og rangt. Allur þessi áróður fyrir ‚nýju siðgæði‘ hefur brotið niður hinar siðferðilegu hömlur.“
Að mestu leyti hafa trúarbrögð heimsins ekki verið hvati góðs siðgæðis. Þau verða þess í stað að axla nokkurn hluta ábyrgðarinnar á hinu sorglega siðferðisástandi nútímans. En þar eð trú á að vera „traust og tilbeiðsla á goðmögnum og vættum“ (Orðabók Menningarsjóðs), ættu þá ekki trúarbrögðin að vera hvati góðs siðgæðis hvar sem þau eru iðkuð? Hvað er það sem vantar? Hvernig getur sú trú, sem þú játar, haft slík áhrif nú á tímum?