Ungt fólk spyr . . .
Hvað um bekkjarferðalög?
„MAÐUR fær frí úr skólanum.“ „Maður sér eitthvað nýtt til tilbreytingar.“ „Maður kynnist krökkunum betur.“ Þannig útskýrðu þrír þýskir unglingar hvers vegna þeim þættu bekkjarferðalög skemmtileg. Slíkar ferðir eru talsvert vinsælar meðal ungs fólks um heim allan.
En það eru ekki bara nemendur sem eru hrifnir af bekkjarferðalögum. „Vel skipulagt bekkjarferðalag er mjög gagnlegt fyrir ungling, víkkar sjóndeildarhring hans og hjálpar honum að standa á eigin fótum,“ fullyrðir kennari. „Auk þess styrkist sambandið milli kennarans og bekkjarins.“ Það orkar ekki tvímælis að samviskusamir kennarar og vel siðaður bekkur geta í sameiningu gert bekkjarferðalag bæði gagnlegt og ánægjulegt.
Engu að síður þarf að ýmsu að hyggja sem getur með réttu verið áhyggjuefni kristinna unglinga og foreldra þeirra. Til dæmis er það algengt, bæði hérlendis sem og víða annars staðar í Evrópu, að strákar og stelpur fari saman í útilegur eða löng bekkjarferðalög þar sem gist er eina eða fleiri nætur. Allt of oft hefur það vandamál í för með sér. Anna Lára, sem er 14 ára, segir: „Eftir nokkurra daga ferðalag fór allt úr böndum. Við fengum ekki einu sinni svefnfrið á nóttinni. Flestir í bekknum sýndu af sér tillitsleysi og eigingirni.“
Hvað ættirðu þá að gera ef bekkurinn er að undirbúa ferðalag og gert er ráð fyrir að allir séu með?
Reiknaðu kostnaðinn
Jesús Kristur sagði í Lúkasi 14:28: „Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ Áður en þú og foreldrar þínir ákveða hvort þú eigir að fara með í bekkjarferðalag ætti að skoða alla þætti málsins vel og vandlega. Hér fara á eftir nokkrar spurningar til umhugsunar:
Hvert verður farið? Það getur skipt máli hvort farið er í dagsferð til að skoða eitthvert safn eða í lengra ferðalag og gist næturlangt. Og ef foreldrarnir borga brúsann þurfa þeir að vega og meta hvort þeir hafi efni á því.
Hvað er á dagskrá? Ef hver dagur er vel skipulagður og fullsetinn heilnæmum og áhugaverðum viðfangsefnum hefur bekkurinn nóg að gera og það dregur úr hættunni á að eitthvað fari úrskeiðis. Skoðaðu því vandlega hvað er á dagskrá áður en þú ákveður hvort þú ferð í bekkjarferðalagið eða ekki. Það getur verið fræðandi að skoða safn eða fara í útivistarferð. En tilraunir með jóga og austurlensk trúarbrögð — eins og var á dagskrá í einu bekkjarferðalaginu — er tæplega við hæfi kristinna manna. — 1. Korintubréf 10:21.
Verður virk og stöðug umsjón með bekknum? Fimmtán ára kristin stúlka, Júlía, segir: „Ég var í mjög vel siðuðum bekk þannig að mamma og pabbi höfðu ekkert á móti því að ég færi með í ferðalagið. Kennararnir höfðu mjög gott eftirlit með okkur.“ En slík umsjón kann að vera fátíð nú orðið. Eins og þýskur kennari viðurkennir er „engin trygging“ fyrir góðri og áreiðanlegri umsjón. Ungur piltur hældist meira að segja um eftir bekkjarferðalag: „Við lékum á báða kennarana og gerðum svo bara það sem okkur sýndist.“
Sumir nemendur eru til vandræða jafnvel þótt kennararnir geri sitt besta til að halda þeim í skefjum. Fyrrverandi kennari segir: „Krakkarnir fundu upp á hugvitsamlegum leiðum til að smygla áfengi þannig að það var tilgangslaust að leita í herbergjunum þeirra. Þegar ein af stelpunum fór að æla rann upp fyrir mér hve stíft var drukkið.“ Ljóst er að það er ekki hlaupið að því að tryggja fullnægjandi umsjón á slíku ferðalagi. En þú getur sparað þér miklar áhyggjur og vandræði ef þú og foreldrar þínir kynnið ykkur vandlega hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar í sambandi við umsjón. Orðskviðirnir 22:3 segja: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.“
Hvernig bregðast skólafélagarnir venjulega við leiðbeiningum kennarannna? Það gefur þér góða hugmynd um hvernig þeir munu hegða sér á skólaferðalagi. Framhaldsskóli í Þýskalandi þurfti að stytta þriggja daga bekkjarferðalag vegna þess að óstýrilátir nemendur hreinlega sinntu ekki „skýrum og þolinmóðlegum fyrirmælum“ kennaranna.
Ung þýsk kona, Stephanie, fór í slík ferðalög meðan hún var í skóla. Af reynslu sinni mælir hún með að maður spyrji sig eftirfarandi spurninga: ‚Eru bekkjarfélagarnir nógu skynsamir til að hlusta á kennarana? Leitast skólinn við að halda uppi góðum orðstír? Eru kennararnir nógu ákveðnir til að veita viðeigandi forystu? Hegða unglingarnir sér vel? Nota þeir áfengi og fíkniefni?‘ Stephanie viðurkennir vissulega að margt sé „undir sjálfum manni komið, hvort maður láti auðveldlega undan eða ekki.“ En hvernig gætirðu beðið Jehóva að ‚leiða þig ekki í freistni‘ og sett þig síðan af ásettu ráði í varhugarverða aðstöðu? — Matteus 6:13.
Petra, 17 ára, ákvað þar af leiðandi að fara ekki með í bekkjarferðalag. „Ég vissi hvað bekkjarfélagarnir myndu hafa á prjónunum,“ segir hún. „Ég sá fram á að upp kæmu aðstæður í sambandi við áfengi og kynlíf sem myndu virkilega reyna á samvisku mína. Það fór líka þannig að fimm strákar afklæddu stelpu og tóku myndir af henni sem gengu síðar manna á milli í skólanum.“
Verður trúarsannfæring þín virt? Timon segir til dæmis: „Oft er haldið upp á afmæli á bekkjarferðalagi og það er erfitt að komast hjá því að vera með.“ Sem einn af vottum Jehóva vill hann ekki taka þátt í slíkum fagnaði.a Myndu kennarar þínir og bekkjarfélagar virða afstöðu þína til slíks fagnaðar ef til hans kæmi á bekkjarferðalagi?
Hvers konar félagsskap verður þú í? Kristnir menn vita að Guð fordæmir reykingar, neyslu fíkniefna, misnotkun áfengis og kynlíf fyrir hjónaband. (1. Korintubréf 6:9, 10; 2. Korintubréf 7:1) Þess vegna er viturlegt að forðast félagsskap við unglinga sem stunda eitthvað af þessu. (1. Korintubréf 15:33) Orðskviðirnir 13:20 vara við: „Illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ Á skólaferðalagi ert þú meira með slíkum unglingum en venjulega og það slaknar á aganum. Andrés lýsir því þannig: „Á bekkjarferðalagi er maður umkringdur anda heimsins allan sólarhringinn ásamt veraldlegri tónlist og grófu tali.“
Við þetta bætist að það er auðvelt að verða einmana þegar maður er að heiman. Bekkjarferðir hafa mjög oft verið kveikjan að ástarsambandi unglinga. Er hætta á því að þú farir að vera með einhverjum vantrúuðum? Fyrra Korintubréf 10:12 varar við: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“ Og jafnvel þótt þú værir nógu sterkur til að standast freistinguna, er þá ekki hætta á að fordæmi þitt gæti orðið öðrum kristnum unglingum, sem eru ekki jafnsterkir á svellinu og þú, að falli, ef þú ferð í slíkt bekkjarferðalag? — Samanber 1. Korintubréf 8:7-13; 10:28, 29.
Yvonne, 14 ára, afþakkaði að fara með bekknum í skíðaferðalag. Hún útskýrir: „Ég hefði verið heila viku með engum öðrum en veraldlegum unglingum og kennurum. Þar að auki hefði ég saknað þess mikið að geta ekki verið með trúbræðrum mínum, í prédikunarstarfinu og á samkomunum. Önnur ástæða var sú hvernig flestir unglingar hegða sér þegar enginn hefur auga með þeim.“
Að þóknast Guði í öllu
Þar eð bekkjarferðalög tengjast yfirleitt ekki beinlínis trúarbrögðum, stjórnmálum eða öðru því sem kristnum mönnum er bannað að taka þátt í, verður skólaneminn og foreldrar hans að ákveða hvort það sé æskilegt að fara með í slíkt ferðalag. (Samanber Jesaja 2:4; Opinberunarbókina 18:4.) Aðstæður eru breytilegar frá einum stað til annars og einum bekk til annars. Þess vegna þurfa kristnir menn á einum stað kannski að takast á við vandamál sem þekkjast ekki annars staðar.
„Mamma þekkti krakkana í bekknum mínum og vissi að kennarinn var ábyrgur í hugsun. Bekkjarferðalagið var því velheppnað,“ segir Stefán. „En þegar ég stækkaði og lokaferðalagið nálgaðist horfði málið allt öðruvísi við.“ Af hverju? Hann heldur áfram: „Bara þrem árum áður höfðu bekkjarfélagar mínir verið viðkunnanlegir og sómakærir. En nú voru fíkniefni og siðleysi orðin hluti af daglegu lífi þeirra. Þess vegna fór ég ekki með. Það þurfti reyndar að ljúka ferðalaginu fyrr en til stóð.“
En þegar öllu er á botninn hvolft ert það þú og foreldrar þínir sem verða að vega og meta alla málavexti og taka síðan persónulega ákvörðun. Gætið þess aðeins að hver sem ákvörðunin er sé markmiðið alltaf að ‚hegða sér eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt.‘ — Kólossubréfið 1:10.
[Neðanmáls]
a Sjá “Holidays — Why Some Children Do Not Celebrate Them” í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. nóvember 1993.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Hvers konar félagsskap lendir þú í ef þú ferð í bekkjarferðalag þar sem gist er eina eða fleiri nætur?