Kristnir menn á ný fyrir hæstaréttinum í Jerúsalem
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í ÍSRAEL
JESÚS stóð frammi fyrir Æðstaráðinu í Jerúsalem og átti líflátsdóm yfir höfði sér. Þrátt fyrir álagið samfara réttarhöldunum bar hann óttalaust vitni um ríki Guðs. (Matteus 26:57-68) Aðeins fáeinum vikum síðar stóðu nánustu fylgjendur hans frammi fyrir þessum sama hæstarétti. Þar báru þeir kröftuglega vitni um ríki Guðs og skipaðan konung þess. — Postulasagan 4:5-21.
Nokkrum dögum síðar, þegar postularnir voru aftur dregnir fyrir Æðstaráðið, tók atburðarásin óvænta stefnu. Þrátt fyrir gífurlegan hópþrýsting tók Gamalíel, einn af virtustu mönnum ráðsins, upp hanskann fyrir lærisveina Jesú. Þessi óvæntu afskipti hans urðu til þess að postulunum var sleppt. — Postulasagan 5:27-42.
Með því að vera dregnir þannig fyrir dómstól voru orð Jesú í Matteusi 10:16-18 að rætast á fylgjendum hans: „Sjá, ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa. . . . Þeir munu draga yður fyrir dómstóla . . . Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar.“ Enda þótt fylgjendur Jesú væru oft misskildir urðu þeir velþekktir út um allt Ísraelsland. Þúsundir Gyðinga á fyrstu öld tóku við boðskap Jesú. (Postulasagan 4:4; 6:7) Allt var þetta árangurinn af kostgæfri prédikun lærisveina Jesú af hópi Gyðinga, meðal annars óttaleysi þeirra frammi fyrir dómstólum.
Vottar Jehóva eru tiltölulega lítt þekktir í Ísrael nútímans þar sem þeir eru innan við 500 af 5 milljóna manna þjóð. En árið 1993 vakti mál ungs votts ekki aðeins töluverða athygli á starfi þeirra heldur dró líka fram einstæð, söguleg tengsl milli fordóma og ofsókna sem bæði Gyðingar og vottar Jehóva hafa mátt þola.
Hvernig hófst deilan?
Ariel Feldman, 17 ára rússneskur Gyðingur búsettur í Haifa, var afburðanemandi og vel liðinn bæði af kennurum og skólafélögum.
Umræður, sem áttu sér stað af tilviljun á götu úti meðan Persaflóastríðið stóð sem hæst, urðu þess valdandi að Ariel og fjölskylda hans fóru að nema Biblíuna með vottum Jehóva. Ariel rannsakaði gaumgæfilega og bar saman trúarkenningar Gyðinga og skýringar Biblíunnar sem vottar Jehóva gáfu honum. Ariel var alvarlega sinnaður ungur maður. Hann tók skjótum framförum í biblíunámi sínu og var fyrstur í fjölskyldu sinni til að láta skírast sem einn votta Jehóva.
Ekkert af þessu var skólanámi hans til nokkurs trafala. Á síðasta skólaári hans ákvað skólinn hins vegar að bæta við til reynslu undirbúningsþjálfun fyrir herþjónustu. Hermenn kenndu og námið fól í sér að æfa bardagastellingar og bardagatækni. Ariel fannst sem virk þátttaka í þessu námskeiði myndi stríða gegn samvisku sinni og hlutleysi sem votts Jehóva og reyndi hvað hann gat til að útskýra afstöðu sína fyrir skólastjóranum. (Jesaja 2:2-4) Hann útskýrði kurteislega að hann væri fús til að taka þátt í allri annarri starfsemi skólans á þessu tímabili en að hann gæti ekki breytt gegn trú sinni.
Enda þótt skólastjórinn, sem var kona, hefði fram til þessa sýnt honum nokkurn skilning komst hún að þeirri niðurstöðu að hér gengi Ariel lengra en hún gæti leyft. Hún setti honum úrslitakosti: Annaðhvort tæki hann virkan þátt í undirbúningsherþjálfuninni eða yrði vikið úr skóla ella. Ariel gat ekki gengið gegn samvisku sinni. Þar af leiðandi var honum vikið formlega úr skóla hinn 31. janúar 1993, aðeins fáeinum mánuðum fyrir lokaprófin, og ekki boðið upp á neina valkosti aðra.
Vörn úr óvæntri átt
Ariel sneri sér til Samtaka um borgaraleg réttindi í Ísrael. Samtökin voru fús til að taka mál hans að sér og buðu honum ókeypis lögfræðiaðstoð. Ísraelsríki nútímans er lýðræðisríki. Ísrael hefur enga stjórnarskrá sem tryggir réttindi einstaklingsins en aftur á móti er sjálfstæðisyfirlýsing landsins málsvari samvisku- og trúfrelsis. Ekkert lagalegt fordæmi var í Ísrael fyrir brottrekstri úr skóla af trúarástæðum.
Dagblöðin tóku að sýna málinu áhuga. Að ráði lögfræðings veitti Ariel blaðamönnum ekki viðtöl þar eð hann kaus að láta dæma í máli sínu í réttarsalnum en ekki fyrir „rétti“ almenningsálitsins. En skólastjórinn var aftur á móti ekki seinn að réttlæta aðgerðir sínar í viðtali. Í dagblaðinu Hadashot hinn 9. febrúar 1993 lýsti hún bæði þeirri skoðun sinni að trúarafstaða nemandans væri móðgun við ísraelska ríkið og öllum sem ynnu því, og notaði tækifærið til að veitast að vottum Jehóva sem samtökum og sagði: „Starfsemi þeirra er leynileg, óþverraleg og óheiðarleg. Þeir teygja út armana eins og kolkrabbi og hreinlega leita uppi þá sem eru veikir fyrir.“
Margir Ísraelar sáu fordómana skína gegnum orð skólastjórans. Tom Segev, ísraelskur blaðamaður og sagnfræðingur sem hefur mikið rannsakað tilraun nasista til að útrýma Gyðingum, brást ókvæða við viðtalinu. Það minnti hann á afstöðu sumra í Þýskalandi á tímum nasista sem létu upplognar ásakanir á hendur Gyðingum eggja sig til að gefa fordómum sínum lausan tauminn í einhverjum hrikalegasta fjöldaglæp mannkynssögunnar. Segev var þeirrar skoðunar að ísraelska ríkinu stafaði meiri hætta af því umburðarleysi, sem skólastjórinn sýndi, en af þeirri afstöðu sem ungi nemandinn tók samvisku sinnar vegna. Hann fann sig knúinn til að skrifa grein til varnar réttindum votta Jehóva. (Sjá rammagrein á bls. 15.)
Í kjölfar greinar Segevs létu aðrir í sér heyra. Jerúsalembúi, sem hafði setið í fangabúðum í síðari heimsstyrjöldinni af því að hann var Gyðingur, skrifaði ritstjóranum bréf þar sem hann rifjaði upp hina góðu breytni votta Jehóva sem voru í sömu fangabúðum af því að þeir neituðu að þjóna í þýska hernum.
Þar eð ungi votturinn veitti ekki viðtöl sneru blaðamenn sér til annarra safnaðarmanna. Þótt þeir vildu ekki tjá sig sérstaklega um mál Ariels áður en það kom fyrir rétt veittu þeir fúslega upplýsingar um trú votta Jehóva og starfsemi þeirra í Ísrael. Það varð til þess að allmargar vinsamlegar greinar birtust í ísraelskum dagblöðum og útvarpsstöð átti viðtal við einn af öldungum safnaðarins. Margir heyrðu minnst á votta Jehóva í fyrsta sinn vegna þessa óumbeðna umtals.
Í réttarsalnum í Jerúsalem
Haifaútibú Samtaka um borgarleg réttindi í Ísrael reyndi margsinnis að telja um fyrir skólastjóranum, Fræðsluráðinu og Menntamálaráðuneytinu í Jerúsalem. En viðbröðgin voru í öllum tilvikum óviðunandi. Hinn 11. mars 1993 var lögð fram formleg beiðni um að Hæstarétturinn í Jerúsalem, æðsti dómstóll Ísraels nútímans, tæki mál Ariels Feldmans fyrir.
Frumstigsflutningur málsins var ákveðinn hinn 15. mars 1993. Lögfræðingar frá Samtökum um borgaraleg réttindi í Ísrael fluttu mál Ariels gegn Fræðsluráði, skólastjóranum og Haifaborg. Þessi fyrsti flutningur málsins var frammi fyrir þrem af dómurum Hæstaréttar Ísraels.
Lögmaður ríkisins lagði málið þannig fyrir að það græfi undan valdi skólans ef nemandanum væri leyft að „ráða“ hvaða kennslustundir hann sækti eða sækti ekki. Ákærðu fóru þess á leit að rétturinn staðfesti þá ákvörðun þeirra að nemandinn fengi undir engum kringumstæðum að stíga fæti sínum á skólalóðina framar.
Lögmenn réttindasamtakanna lögðu málið þannig fram að um væri að ræða grundvallarréttindi til samvisku- og trúfrelsis sem hefðu verið brotin með því hvernig skólinn tók á málinu. Dómararnir báru fram spurningar um kenningar votta Jehóva í því skyni að skilja ástæðuna fyrir afstöðu hins unga nemanda. Í hinni skriflegu beiðni voru þeim líka látnar í té miklar upplýsingar um mál af svipuðu tagi víða um heim þar sem æðstu dómstólar höfðu dæmt vottum Jehóva í vil.
Í samantekt sinni sögðu dómararnir að báðir málsaðilar væru að berjast fyrir grundvallaratriði. En þegar þeir legðu mat á það hvor málsaðilinn yrði fyrir meira tjóni ef málinu yrði ekki hreyft frekar, væri það tvímælalaust nemandinn. Dómararnir lýstu undrun sinni á framkomu skólastjóra og Fræðsluráðs og gáfu þeim tíu daga til að leggja fram skriflega skýringu á gerðum sínum. Rétturinn felldi þann bráðabirgðaúrskurð að Ariel Feldman skyldi veittur aðgangur að skólanum á nýjan leik til að hann gæti lokið skólaárinu og að hann yrði ekki hindraður í að þreyta lokaprófin.
Allnokkrum dögum fyrir lokayfirheyrslurnar, sem áttu að fara fram 11. maí 1993, dró Fræðsluráð til baka ákærur sínar gegn Ariel Feldman. Þar af leiðandi var lokamálflutningur felldur niður, rétturinn úrskurðaði aldrei um grundvallaratriði málsins og ekkert bindandi, lagalegt fordæmi var sett. Enda þótt málið sé þar af leiðandi óútkljáð og gefi tilefni til frekari lagalegra deilna kunnu vottar Jehóva að meta sanngjarna afstöðu dómaranna við Hæstarétt Ísraels.
Lexían sem læra má
Allt frá dögum Jesú fram til okkar tíma hafa vottar Jehóva mætt andstöðu og fordómum sem hafa valdið því að þeir hafa þurft að koma fram fyrir æðstu dómstóla margra landa. Þessi mál hafa reynst ‚þjóðunum til vitnisburðar.‘ (Matteus 10:18) Jafnvel þegar vottarnir í vissu landi eru fáir getur Jehóva séð til þess að nafn hans verði víðkunnugt. Og alveg eins og gerðist á fyrstu öldinni, þegar hinn virti æðstaráðsmaður Gamalíel skarst í leikinn, eins getur Guð nú á dögum vakið upp stuðning handa fólki sínu úr óvæntri átt.
[Rammi á blaðsíðu 15]
„Það sem skólastjóri veit um votta Jehóva“
(Úrdráttur úr grein Toms Segevs í Haʼaretz 12. febrúar 1993)
„Meðal þjóðar sem hefur allt eru líka nokkrir ísraelskir vottar Jehóva. Þeir eru ekki fjölmennir og það hafa ekki margir heyrt um þá, þó svo að þeir leitist við að afla sér fylgjenda hér í Ísrael eins og annars staðar, bæði með hjálp hins ritaða orðs og talaða. Einhvern veginn náðu þeir til þessa nemanda í Hugimskólanum. Úr því að hann tileinkaði sér lífsreglur hreyfingarinnar neitaði hann að taka þátt í herleikfimikennslu í skólanum. Skólastjórinn féllst ekki á að undanþiggja hann þessum tímum. Ef ég skil hana rétt lítur hún á hann sem ógnun við framtíð síonismans. Nú í vikunni sagði hún mér: ‚Þetta er síoniskur skóli; við kennum börnunum hollustu við ríkið og þjóðina.‘ . . .
Rina Shmueli hjá Samtökum um borgaraleg réttindi í Haifa reyndi að telja skólastjórann á að viðurkenna réttindi nemandans til að hlýða samvisku sinni og undanþiggja hann undirbúningsherþjálfun; það hefði getað verið mjög svo viðeigandi lexía í umburðarlyndi og lýðræði. En hún var óhagganleg. Hún er þeirrar skoðunar að við eigum í höggi við hættulegan sértrúarflokk sem aflar sér fylgismanna með því að ginna þá. . . .
Þetta minnti mig á dálítið sem er miður gott. Ég hringdi því í skólastjórann og spurði hana hvað hún raunverulega vissi um votta Jehóva. Hún sagðist ekki vita mikið um þá en kvaðst hafa heyrt að þeir störfuðu líka í öðrum löndum, og að sjálf hefði hún rekist á þá í Kanada og Þýskalandi. Ég spurði hana hvort hún vissi hvað hefði verið gert við þá í Þýskalandi. ‚Ég veit það ekki og vil ekki vita það,‘ svaraði skólastjórinn.
Kannski er bókasafn í Hughim framhaldsskólanum og kannski er bókin The Encyclopedia of the Holocaust í ritstjórn Israels Gutmans til þar. Ef skólinn á hana ekki ætti hann að kaupa hana. Undir flettiorðinu ‚Einlægir biblíunemendur‘ getur skólastjórinn lesið að nasistar sendu votta Jehóva í fangabúðirnar.“