Raunveruleg þýðing ársins 1914
EINS og fram kemur á blaðsíðu 4 byggir þetta tímarit upp „trúartraust til fyrirheits skaparans um friðsælan og öruggan nýjan heim áður en kynslóðin, sem sá atburði ársins 1914, er öll.“
Trúlega finnst mörgum lesendum blaðsins þetta undarleg staðhæfing. En þegar í desember 1879 — um 35 árum fyrir 1914 — færði Varðturninn (þá þekktur undir heitinu Varðturn Síonar og boðberi nærveru Krists) biblíuleg rök fyrir því að 1914 yrði mikið merkisár. Og enn fyrr — um miðbik 19. aldar — höfðu aðrir, sem rannsökuðu Biblíuna, ýjað að því að spádómar Biblíunnar vísuðu hugsanlega á árið 1914.a
Spádómar hafa verið kallaðir fyrirframrituð mannkynssaga. Þetta einkenni Biblíunnar ber vitni um að Guð sé höfundur hennar. Auk þess að segja okkur frá ókomnum atburðum tilgreinir Biblían stundum tímann sem á að líða uns atburður á sér stað. Sumir þessara sérstöku spádóma ná fáeina daga fram í tímann, sumir nokkur ár og aðrir aldir.
Daníel, sem spáði hvenær Messías kæmi fyrst fram, opinberaði einnig hvenær Messías myndi snúa aftur og vera nærverandi á tíma sem kallaður er „tíð endalokanna.“ (Daníel 8:17, 19; 9:24-27) Þessi biblíuspádómur spannar langt tímabil, ekki bara nokkur hundruð ár heldur yfir tvö þúsund — nánar tiltekið 2520 ár! Í Lúkasi 21:24 kallar Jesús þetta tímabil ‚tíma heiðingjanna.‘b
1914 upphaf þrengingatíma
Uppfylling biblíuspádómanna gefur til kynna að endalokatíminn hafi staðið frá 1914. Jesús lýsti þessum tíma sem ‚upphafi fæðingarhríðanna.‘ (Matteus 24:8) Í Opinberunarbókinni 12:12 lesum við: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ Þetta varpar ljósi á það hvers vegna verið hefur svona mikil ólga í heiminum frá 1914.
En þessi endalokatími á að vera tiltölulega stutt tímabil — ein kynslóð. (Lúkas 21:31, 32) Sú staðreynd að nú eru liðin yfir 80 ár frá 1914 gefur til kynna að við megum bráðlega vænta þeirrar frelsunar sem Guðsríki veitir. Það þýðir að við munum sjá „hinn lítilmótlegasta meðal mannanna“ — Jesú Krist — taka fulla stjórn „yfir konungdómi mannanna“ og koma á friðsælum og réttlátum nýjum heimi. — Daníel 4:17.
[Neðanmáls]
a Árið 1844 vakti breskur prestur, E. B. Elliott, athygli á því að ‚tíðirnar sjö‘ í 4. kafla Daníelsbókar kynnu að enda árið 1914. Árið 1849 fjallaði Robert Seeley frá Lundúnum um efnið á svipuðum nótum. Í riti, sem kom út um 1870, benti Joseph Seiss frá Bandaríkjunum á 1914 sem þýðingarmikið ár í tímatali Biblíunnar. Árið 1875 skrifaði Nelson H. Barbour í tímariti sínu, Herald of the Morning, að árið 1914 tæki enda það tímabil sem Jesús kallaði ‚tíma heiðingjanna.‘ — Lúkas 21:24.
b Ítarlegar skýringar á spádómi Daníels er að finna í bókinni Rökrætt út af Ritningunni, bls. 95-7 í enskri útgáfu, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Rammi á blaðsíðu 11]
Athugasemdir um árið 1914 og tímann á eftir
„Vera má að eftir tvær heimsstyrjaldir, sem virtust óumflýjanlegar, hafi tilkoma kjarnavopna verið viðvörun sem forðaði okkur frá þriðja árekstri voldugra þjóða og jafnframt verið upphaf lengsta friðartíma, að vísu ógnarfriðar, síðan á Viktoríutímanum. . . . Hvað hafði farið úrskeiðis hjá mannkyninu? Hvers vegna höfðu fyrirheit nítjándu aldar orðið að engu? Hvers vegna hafði tuttugasta öldin breyst í ógnaröld eða, eins og sumir myndu segja, illskuöld?“ — A History of the Modern World — From 1917 to the 1980s eftir Paul Johnson.
„Af öllum umbrotum og umbyltingum hins evrópska kerfis markaði stríðið mikla og friðarsamningarnir skörpustu skilin milli fortíðar og nútíðar, ekkert síður efnahagslega og félagslega en stjórnmálalega. . . . Hinn notalegi glæsileiki þessa frjálsa og frjósama kerfis var fokinn út í veður og vind með hörmungum stríðsins. Evrópa var efnahagslega örmagna og stóð nú frammi fyrir algerri upplausn í efnahagsmálum. . . . Tjónið var svo mikið að efnahagur Evrópu var ekki búinn að ná sér eftir stöðnunina og óstöðugleikann þegar næsta heimsstyrjöld skall á.“ — The World in the Crucible 1914-1919 eftir Bernadotte E. Schmitt og Harold C. Vedeler.
„Í annarri heimsstyrjöldinni slitnuðu öll tengsl manna á meðal. Undir stjórn Hitlers, sem Þjóðverjar létu kúga sig, frömdu þeir slíka glæpi, að ekki er hægt að líkja þeim við neina þá svívirðingu, sem sett hefir smánarblett á mannkynið. Hið skipulagða dráp sex eða sjö milljóna karla, kvenna og barna í morðstöðvum Þjóðverja er margfalt ógeðslegra en manndráp þau, sem framin voru að skipun Genghis Khans og voru smámunir einir, þegar gerður er samanburður á fjölda fórnarlambanna. Bæði Þjóðverjar og Rússar hugleiddu og stefndu að algerri útrýmingu heilla þjóða í baráttu sinni á austurvígstöðvunum. . . . Oss hefir að lokum tekizt að forða okkur af þeim leikvangi efnislegra eyðilegginga og siðferðilegs glundroða, sem menn fyrri alda hefði aldrei getað órað fyrir.“ — Óveður í aðsigi, 1. bindi Heimsstyrjaldarinnar síðari eftir Winston S. Churchill. Hersteinn Pálsson íslenskaði.
„Nú eru mannréttindi allra stétta, þjóða og kynþátta almennt viðurkennd, en samtímis höfum við sokkið niður í stéttabaráttu, þjóðernishyggju og kynþáttafordóma, kannski dýpra en nokkurn tíma fyrr. Þessar illu ástríður fá útrás í kaldrifjuðum, vísindalega skipulögðum grimmdarverkum; og þetta tvenns konar ósættanlega hugarástand og hegðunarreglur birtast nú á dögum hlið við hlið, ekki bara í sama heimi heldur stundum í sama landi og jafnvel í sömu sál.“ — Civilization on Trial eftir Arnold Toynbee.
„Líkt og tröll, sem dagar uppi, hafði nítjándu öldinni — með sinni eðlislægu reglufestu, sjálfstrausti og trú á framfarir mannsins — dvalist fram í ágúst 1914 þegar helstu ríki Evrópu fengu öll sem eitt sturlunarkast er leiddi þau rakleiðis út í tilgangslausa milljónaslátrun bestu ungu karlmanna heillar kynslóðar. Fjórum og hálfu ári síðar, er heimurinn reyndi að tína upp brotin eftir hörmungar og hamfarir stríðsins mikla, varð mörgum (en hvergi nærri öllum) samtíðarmönnum ljóst að síðustu menjum hinnar gömlu skipanar hafði verið sópað burt, og að mannkynið hafði gengið inn í nýja öld sem var talsvert óskynsamari og miskunnarlausari gagnvart ófullkomleika mannanna en sú fyrri. Þeir sem höfðu vænst þess að friðurinn yrði upphaf betri heims urðu fyrir miklum vonbrigðum árið 1919.“ — Formálsorð bókarinnar 1919 — The Year Our World Began eftir William K. Klingaman.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Bæversku alparnir