Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.10. bls. 3-5
  • 1914 — árið sem skók heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • 1914 — árið sem skók heiminn
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Skyndilega, í ágúst
  • Lokið fyrir jól?
  • Róttæk breyting
  • Sarajevo — frá 1914 til 1994
    Vaknið! – 1995
  • Raunveruleg þýðing ársins 1914
    Vaknið! – 1995
  • Kynslóðin frá 1914 — hvers vegna þýðingarmikil?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Verið þakklátir — Messíasarríki Jehóva stjórnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.10. bls. 3-5

1914 — árið sem skók heiminn

„Stríðið mikla árið 1914-18 liggur eins ræma af sviðinni jörð sem skilur þann tíma frá okkar. Með því að þurrka út svona mörg mannslíf . . . , með því að brjóta niður trúarskoðanir, breyta hugmyndum og skilja eftir sig ólæknandi sár horfinna tálvona skapaði það efnislegt og sálrænt hyldýpi milli tvennra tíma.“ — Úr The Proud Tower — A Portrait of the World Before the War 1890-1914 eftir Barbara Tuchman.

„Það er næstum — en þó ekki alveg enn þá — hluti liðinnar sögu því að margar þúsundir manna, sem voru ungar í byrjun þessarar viðburðaríku tuttugustu aldar, eru enn á lífi.“ — Úr bókinni 1914 eftir Lyn MacDonald, gefin út árið 1987.

HVERS vegna ættum við að hafa áhuga á árinu 1914? ‚Það er framtíðin sem ég hef áhuga á, ekki fortíðin,‘ segir þú kannski. Og framtíð mannkynsins er ekki sérlega björt sökum vandamála svo sem mengunar í heiminum, hningnunar fjölskyldulífsins og vaxandi glæpa, geðsjúkdóma og atvinnuleysis. Margir sem hafa rannsakað mikilvægi ársins 1914 hafa samt sem áður fundið þar von um betri framtíð.

Um áratuga skeið hefur Varðturninn útskýrt að mannkynið hafi, árið 1914, orðið fyrir því sem kallað er „upphaf fæðingarhríðanna.“ Þessi orð eru hluti hins mikla spádóms Jesú Krists um atburði sem yrðu undanfari þess að hið illa kerfi mannanna liði undir lok. — Matteus 24:7, 8.

Lítill hundraðshluti núlifandi manna getur enn minnst hinna miklu atburða ársins 1914. Mun sú kynslóð hverfa af sjónarsviðinu áður en Guð bjargar jörðinni frá eyðingu? Ekki samkvæmt spádómum Biblíunnar. „Eins skuluð þér vita,“ sagði Jesús, „þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“ — Matteus 24:33, 34.

Til að gera sér grein fyrir hvers vegna árið 1914 hefur svona mikla sögulega þýðingu er gott að skoða hvernig ástatt var í heiminum fram á mitt ár 1914. Fyrir þann tíma höfðu keisarar svo sem Nikulás Rússakeisari, Vilhjálmur Þýskalandskeisari og Frans Jósef keisari Austurríkis-Ungverjalands verið valdamiklir. Hver og einn þessara manna gat kallað út yfir fjórar milljónir hermanna og sent þá til orrustu. En forfeður þeirra höfðu undirritað það sem kallað var Helga bandalagið þar sem boðað var að Guð hefði falið þeim að stjórna mismunandi hlutum einnar mikillar „kristinnar þjóðar.“

Að sögn The Encyclopædia Britannica hafði þetta plagg „sterk áhrif á ríkiserindrekstur í Evrópu á 19. öld.“ Það var notað til að standa gegn lýðræðishreyfingum og staðfesta hinn svonefnda konungsrétt af Guðs náð. „Vér kristnir konungar,“ skrifaði Vilhjálmur keisari Nikulási, „höfum eina helga skyldu, sem himinninn hefur lagt oss á herðar, og hún er sú að halda uppi lögmálinu um [konungsrétt af Guðs náð].“ Þýddi þetta að konungar Evrópu væru á einhvern hátt tengdir ríki Guðs? (Samanber 1. Korintubréf 4:8.) Og hvað um kirkjurnar sem studdu þessa konunga? Iðkuðu þær sanna kristni? Svörin við þessum spurningum urðu augljós á árunum strax eftir 1914.

Skyndilega, í ágúst

„Í Evrópu einkenndust vorið og sumarið 1914 af óvenjulegri friðsæld,“ skrifaði breski stjórnmálamaðurinn Winston Churchill. Fólk var að jafnaði bjartsýnt á framtíðina. „Árið 1914 var heimurinn fullur vonar og fyrirheita,“ sagði Louis Snyder í bók sinni, World War I.

Að vísu hafði um árabil verið hörð samkeppni milli Þýskalands og Bretlands eins og sagnfræðingurinn G. P. Gooch segir í bók sinni Under Six Reigns: „Minni líkur virtust á átökum í Evrópu árið 1914 en árin 1911, 1912 eða 1913 . . . Samskipti stjórnanna tveggja voru betri en þau höfðu verið um árabil.“ Winston Churchill, sem sat í bresku ríkisstjórninni árið 1914, sagði: „Í okkar augum leit Þýskaland út fyrir að stefna að friði, líkt og við.“

Þegar krónprins Austurríkis-Ungverjalands var ráðinn af dögum í Sarajevo þann 28. júní 1914 skaust hins vegar svart ský upp á sjóndeildarhringinn. Mánuði síðar lýsti Frans Jósef keisari stríð á hendur Serbíu og skipaði hersveitum sínum að ráðast inn í það ríki. Í millitíðinni, nóttina þann 3. ágúst árið 1914, réðst öflugur þýskur her skyndilega inn í konungsríkið Belgíu að skipun Vilhjálms keisara og tók stefnu á Frakkland. Næsta dag lýsti Bretland Þýskalandi stríð á hendur. Hvað varðar Nikulás keisara þá hafði hann kallað út hinn gríðarstóra rússneska her til stríðs gegn Þýskalandi og Austurríki-Ungverjalandi. Helga bandalagið hafði ekki megnað að koma í veg fyrir að konungar Evrópu steyptu meginlandinu út í blóðbað og gagnkvæma slátrun. En stóru áföllin voru enn ókomin.

Lokið fyrir jól?

Stríðið dró ekki úr bjartsýni fólks. Menn trúðu að það myndi skapa betri heim og mikill fjöldi manna safnaðist saman víða um Evrópu til að láta í ljós stuðning sinn við stríðið. „Enginn tók það alvarlega árið 1914,“ segir A. J. P. Taylor í bók sinni The Struggle for Mastery in Europe — 1848-1918, „nema þá á hreinum hernaðargrundvelli. . . . Enginn bjóst við þjóðfélagslegum stórhörmungum.“ Öllu heldur spáðu margir að stríðið yrði afstaðið á fáeinum mánuðum.

En löngu áður en Evrópubúar gátu haldið jólin sín hátíðleg árið 1914 var komin upp blóðug sjálfhelda í skotgrafavíglínu sem teygði sig ríflega 700 kílómetra, allt frá Sviss í suðri til Belgíu í norðri. Þetta voru kallaðar vesturvígstöðvarnar og þýski rithöfundurinn Herbert Sulzbach minntist á þær í dagbók sinni síðasta dag ársins 1914. Þar skrifar hann: „Þetta hræðilega stríð dregst á langinn og nú virðist enginn endir í sjónmáli þótt maður hafi í byrjun haldið að það yrði afstaðið á fáeinum vikum.“ Samtímis geisuðu blóðugir bardagar annars staðar í Evrópu milli sveita Rússa, Þjóðverja, Austurríkismanna-Ungverja og Serba. Átökin breiddust fljótlega út fyrir Evrópu og barist var á höfunum og í Afríku, í Miðausturlöndum og á eyjum Kyrrahafsins.

Fjórum árum síðar var Evrópa í rústum. Þýskaland, Rússland og Austurríki-Ungverjaland höfðu hvert um sig misst á bilinu eina til tvær milljónir hermanna. Rússneska keisaradæmið hafði meira að segja liðið undir lok í byltingu bolsévíka árið 1917. Hvílíkt áfall fyrir konunga Evrópu og klerkastéttina sem studdi þá! Sagnfræðingar okkar tíma eru enn að tjá undrun sína. Í bók sinni Royal Sunset spyr Gordon Brook-Shepherd: „Hvernig gátu valdhafar, sem flestir voru tengdir blóð- eða hjúskaparböndum og allir helgaðir þeirri köllun að varðveita konungdæmið, leyft sér að fara út í blóðug bræðravíg þar sem nokkrir þeirra þurrkuðust út og allir sem eftir lifðu voru máttminni en áður?“

Franska lýðveldið missti yfir milljón hermanna og breska heimsveldið, þar sem máttur konungdæmisins hafði þegar farið minnkandi löngu fyrir stríðið, missti yfir 900.000. Alls féllu yfir 9 milljónir hermanna og 21 milljón til viðbótar særðist. Um óbreytta borgara, sem týndu lífi, segir The World Book Encyclopedia: „Enginn veit hve margir óbreyttir borgarar dóu úr sjúkdómum, hungri og af öðrum orsökum tengdum stríðinu. Sumir sagnfræðingar álíta að jafnmargir óbreyttir borgarar hafi látist og hermenn.“ Spánski innflúensufaraldurinn árið 1918 lagði 21.000.000 manna til viðbótar í gröfina um heim allan.

Róttæk breyting

Heimurinn var aldrei sá sami eftir stríðið mikla, eins og það var þá kallað. Þar eð svo margar af kirkjum kristna heimsins höfðu tekið þátt í stríðinu af miklum eldmóði sneru margir sem lifðu það af vonsviknir baki við trúarbrögðunum og snerust á sveif með guðleysi. Aðrir fóru að sækjast eftir efnislegum auði og unaði. Prófessor Modris Eksteins segir í bók sinni Rites of Spring að þriðji áratugur aldarinnar hafi „orðið vitni að ótrúlega mögnuðu nautnalífi og sjálfsdýrkun.“

„Stríðið réðst á siðferðisstaðlana,“ segir prófessor Eksteins. Beggja vegna víglínunnar höfðu trúar-, hernaðar- og stjórnmálaleiðtogar kennt mönnum að líta á manndráp í stórum stíl sem siðferðilega góð. Það, viðurkennir Eksteins, „var í raun gróf árás á siðferðisreglu sem fullyrt var að ætti sér rætur í gyðinglegri og kristinni siðfræði.“ „Á vesturvígstöðvunum,“ bætir hann við, „voru vændishús fljótlega fastur fylgibúnaður herbúðanna . . . Á heimavígstöðvunum losaði siðferðið einnig um belti sín og lífstykki. Vændi jókst til muna.“

Já, árið 1914 breytti mörgu. Það hafði ekki skapað betri heim og stríðið reyndist ekki „stíðið til að binda enda á allar styrjaldir,“ eins og margir höfðu vonast til. Þess í stað „sukku þær tálvonir og eldmóður, sem verið hafði mögulegur fram til 1914, smám saman niður í hafdjúp vonbrigða og horfinna tálvona,“ eins og sagnfræðingurinn Barbara Tuchman segir.

En sumir sem urðu vitni að harmleik ársins 1914 létu atburði þess árs ekki koma sér á óvart. Þeir höfðu meira að segja, áður en stríðið braust út, búist við „ógurlegum erfiðleikatíma.“ Hverjir voru það og hvað vissu þeir sem aðrir vissu ekki?

[Rammi á blaðsíðu 5]

Bjartsýni Breta árið 1914

„Í fast að heila öld hafði enginn óvinur birst á höfunum umhverfis eyjuna okkar. . . . Það var erfitt jafnvel að sjá fyrir sér að mögulegt væri að ógna þessum friðsælu ströndum. . . . Aldrei höfðu Lundúnir virst glaðværari og betur stæðar. Aldrei hafði verið svo margt sem var þess virði að gera, sjá og heyra. Hvorki ungir né aldnir höfðu minnsta grun um að það sem þeir urðu vitni að, á þessum óviðjafnanlega tíma árið 1914, væri í raun endir sögulegs tímabils.“ — Before the Lamps Went Out eftir Geoffrey Marcus.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila