Sarajevo — frá 1914 til 1994
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í SVÍÞJÓÐ
Áttatíu ár eru liðin síðan hinum örlagaríku skotum var hleypt af hinn 28. júní 1914 í Sarajevo. Byssukúlurnar drápu Frans Ferdínand erkihertoga og eiginkonu hans, Sophie erkihertogafrú. Fjandskapurinn milli Austurríkis-Ungverjalands og Serbíu magnaðist þá upp í fyrri heimsstyrjöldina. Af þeim 65 milljónum ungra manna, sem sendir voru út á vígvöllinn, áttu um 9 milljónir aldrei afturkvæmt. Séu óbreyttir borgarar meðtaldir féll alls 21 milljón manna. Sumir tala enn um upphaf þessa stríðs í ágúst 1914 sem tímann þegar „heimurinn gekk af göflunum.“
ENN á ný bergmála skothvellirnir um Sarajevo. Og ekki bara Sarajevo heldur líka í nokkrum hinna sex lýðvelda fyrrverandi Júgóslavíu.a Bókin Jugoslavien — Ett land i upplösning (Stokkhólmi, 1992) segir: „Þetta er borgarastríð þar sem nágrannar berjast hver gegn öðrum. Langvarandi óvild og tortryggni hefur magnast upp í hatur. Hatrið hefur leitt til bardaga og bardagarnir til meiri manndrápa og meiri eyðileggingar. Þetta er eins og vítahringur eða öllu heldur skrúfa stigvaxandi haturs, tortryggni og manndrápa.“
Þegar bardagar brutust út í Júgóslavíu í júní 1991 kom það engum á óvart að margir skyldu minnast skotanna sem hleypt var af í Sarajevo í júní 1914. Myndu þessi nýju átök hafa sömu eyðileggingu í för með sér? Myndu þau ógna friðnum í Evrópu? Gætu „þjóðernishreinsanirnar“ (ráðgerð morð og brottrekstur fólks vegna kynþáttar, stjórnmála eða menningar) breiðst út til annarra heimshluta? Beitt hefur verið alþjóðaþrýstingi í því skyni að reyna að stöðva bardagana. En hvað liggur raunverulega að baki ólgunni í fyrrverandi Júgóslavíu? Eiga nýjustu atburðir í Sarajevo eitthvað skylt við morðið árið 1914?
Júgóslavía og fyrri heimsstyrjöldin
Átökin eru ekkert ný af nálinni. Í byrjun aldarinnar var talað um Balkanskaga sem „óróasvæði Evrópu.“ Bókin Jugoslavien — Ett land i upplösning segir: „Um er að ræða upplausn sambandsríkis þar sem gætt hefur vaxandi spennu um mjög langt skeið. Í raun réttri voru átökin þegar til staðar þegar Konungsríkið Serbía, Króatía og Slóvenía [eldra nafn Júgóslavíu] var myndað við lok heimsstyrjaldarinnar fyrri.“ Stutt söguágrip upplýsir okkur um það hvernig núverandi átök teygja rætur sínar allt aftur til fyrri heimsstyrjaldarinnar.
Þegar Frans Ferdínand var ráðinn af dögum árið 1914 voru suðurslavnesku löndin Slóvenía, Króatía og Bosnía og Hersegóvína héruð í austurrísk-ungverska keisaradæminu. Serbía á hinn bóginn var sjálfstætt konungsríki, og hafði verið frá 1878, og naut öflugs stuðnings Rússa. Margir Serbar bjuggu hins vegar í héruðum sem Austurríki-Ungverjaland réð yfir, og Serbía vildi því að það léti af hendi öll hernumdu svæðin á Balkanskaga. Jafnvel þótt ófriður væri milli Króatíu og Serbíu áttu þau eina ósk sameiginlega: að losna við hina hötuðu, erlendu herraþjóð. Þjóðernissinna dreymdi um að sameina alla suðurslava í eitt konungsríki. Serbar voru aðaldriffjöðrin að stofnun slíks sjálfstæðs ríkis.
Hinn ríkjandi keisari, Frans Jósef, var þá 84 ára að aldri. Frans Ferdínand erkihertogi myndi taka við keisaraembætti innan tíðar. Serbneskir þjóðernissinnar sáu Frans Ferdínand sem þránd í götu þess að draumur þeirra um suðurslavneskt konungsríki yrði að veruleika.
Nokkrir ungir stúdentar í Serbíu voru gagnteknir af hugmyndinni um frjálst suðurslavneskt ríki og voru fúsir til að deyja fyrir málstað sinn. Nokkrir unglingar voru valdir til að ráða erkihertogann af dögum. Þeim voru fengin vopn og voru þjálfaðir af leynilegum hópi serbneskra þjóðernissinna sem kallaðist Svarta höndin. Tveir þessara unglinga freistuðu þess að ráða erkihertogann af dögum og öðrum þeirra tókst það. Hann hét Gavrilo Princip og var 19 ára.
Morðið þjónaði tilgangi tilræðismannanna. Þegar fyrri heimsstyrjöldinni lauk var búið að leysa austurrísk-ungverska einvaldsríkið upp og Serbía gat tekið forystuna í að sameina slava í eitt ríki. Þetta ríki var stofnað árið 1918 og var nefnt Konungsríki Serba, Króata og Slóvena. Nafninu var breytt í Júgóslavía árið 1929. En þegar hinir ólíku hópar þurftu ekki lengur að standa saman gegn sameiginlegum óvini sínum, Austurríki-Ungverjalandi, kom innbyrðis ágreiningur þeirra greinilega í ljós. Þar eru næstum 20 ólíkir þjóðahópar, fjögur opinber tungumál og nokkur óopinber þar að auki, tvö ólík stafróf (latneskt og kyrrilískt) og þrjú aðaltrúarbrögð — kaþólsk trú, múhameðstrú og serbneska rétttrúnaðarkirkjan. Trúarbrögðin eru enn sem fyrr mikið sundrungarafl. Það voru því mörg, sterk sundrungaröfl að verki í hinu nýja ríki og þau áttu sér djúpar rætur.
Júgóslavía og síðari heimsstyrjöldin
Þjóðverjar réðust inn í Júgóslavíu í síðari heimsstyrjöldinni og, að sögn bókarinnar The Yugoslav Auschwitz and the Vatican, voru „yfir 200.000 manns, aðallega rétttrúaðir Serbar, myrtir kerfisbundið.“ Þar voru að verki kaþólskir Króatar sem unnu með nasistum. En í samvinnu við Breta og Bandaríkjamenn tókst Króatanum Josip Tito og kommúnískum skæruliðum hans að reka Þjóðverja af höndum sér. Þegar stríðinu lauk var hann nánast sjálfskipaður leiðtogi landsins og tók að stjórna því með harðri hendi. Hann fór sínar eigin leiðir. Ekki einu sinni Stalín tókst að þvinga hann til að láta Júgóslavíu fylgja öðrum kommmúnistaríkjum að málum.
Margir frá fyrrverandi Júgóslavíu hafa sagt að ‚ef Titos hefði ekki notið við hefði sambandsríkið verið búið að gliðna í sundur fyrir löngu. Hann einn hafði þann viljastyrk og vald sem þurfti til að halda því saman.‘ Það hefur sýnt sig. Það var eftir dauða Titos árið 1980 sem átökin blossuðu upp að nýju og mögnuðust uns borgarastríð braust út árið 1991.
Byssukúlurnar sem breyttu heiminum
Í bók sinni, Thunder at Twilight — Vienna 1913/1914, segir rithöfundurinn Frederic Morton um morðið á Frans Ferdínand: „Kúlan, sem reif sundur hálsæð hans, var fyrsta skotið í mestu slátrun sem mannkynið hafði þekkt fram til þess tíma. Hún hleypti af stað þeim öflum sem leiddu til síðari heimsstyrjaldarinnar. . . . Þræðirnir, sem sviðsmynd nútímans er ofinn úr, voru margir fyrst spunnir á bökkum Dónár síðasta hálft annað árið áður en byssunni var beint að höfði erkihertogans.“ — Leturbreyting okkar.
Síðustu atburðir í fyrrverandi Júgóslavíu eru ekki einu „þræðirnir, sem sviðsmynd nútímans er ofinn úr,“ og rekja má aftur til ársins 1914. Sagnfræðingurinn Edmond Taylor nefnir nokkuð sem margir sagnfræðingar eru sammála um: „Fyrri heimsstyrjöldin var upphafið að ‚erfiðleikatímum‘ 20. aldarinnar . . . Beint eða óbeint eiga öll umbrot síðastliðinnar hálfrar aldar rætur sínar að rekja aftur til ársins 1914.“
Menn hafa freistað þess að skýra af hverju skotin í Sarajevo höfðu svona skelfilegar afleiðingar. Hvernig gátu tvö skot, sem „skólastrákur“ hleypti af, hleypt öllum heiminum í bál og brand og sett af stað ofbeldi, ringulreið og vonbrigði sem hafa haldist allt fram á þennan dag?
Tilraunir til að skýra 1914
Í bók sinni Thunder at Twilight — Vienna 1913/1914, freistar höfundur þess að skýra það sem gerðist með því að benda á það sem hann kallar „nýja aflið“ sem hafði áhrif á þjóðirnar árið 1914. Þetta „afl,“ segir hann, var í rauninni nokkrir samverkandi þættir. Hinar fáu raunsæisraddir, sem létu í sér heyra, drukknuðu í sívaxandi stríðskröfum. Herútboð í einu landi flýtti fyrir herútboði í öllum hinum. Völdin færðust frá valdastéttinni í hendur hershöfðingjanna. Margir sáu líka stríðið sem kærkomið tækifæri til að upplifa „stórkostlegt þjóðarævintýri“ og komast þannig burt frá drungalegum hversdagsleikanum. Embættismaður skrifaði síðar: „Líkt og menn sem þrá þrumuveður til að blása burt sumarsvækjunni, þá trúði kynslóðin 1914 að stríð yrði henni léttir.“ Þýski rithöfundurinn Hermann Hesse sagði að það myndi gera mörgum gott að hrista af sér „slen hins kapítalíska friðar.“ Þau orð að stríð sé „hreinsun, frelsun, gífurleg von“ hafa verið eignuð þýska nóbelsverðlaunahafanum og rithöfundinum Thomasi Mann. Jafnvel Winston Churchill skrifaði í hálfgerðri vímu vegna tilhugsunarinnar um stríð: „Mér þykir stríðsundirbúningur skelfilega hrífandi. Ég bið Guð að fyrirgefa mér slíka óttalega léttúð.“
Það var sökum þessa „nýja afls“ sem líflegt sjónarspil átti sér stað út um alla Evrópu er hermenn lögðu af stað í stríð. Grænir sprotar voru festir í húfur þeirra, rósasveigar hengdir á fallbyssurnar, hljómsveitir léku, húsmæður veifuðu vasaklútum út um glugga og kátir krakkar hlupu við hlið hermannanna. Það var engu líkara en fólk væri að fagna stríðinu og bjóða það velkomið. Heimsstyrjöld hófst í hátíðardulbúningi.
Þetta er ágrip þess sem Morten, er áður er vitnað til, kallaði „nýja aflið“ og á að hjálpa okkur að skilja orsakir fyrri heimsstyrjaldarinnar. En hvaðan kom þetta „afl“? Sagnfræðingurinn Barbara Tuchman skrifar að iðnaðarþjóðfélagið hefði gefið manninum nýjan mátt samfara nýjum þrýstingi. Reyndar var „þjóðfélagið . . . við það að springa af nýrri spennu og uppsafnaðri orku.“ Stefan Zweig, sem var ungur menntamaður í Vínarborg á þeim tíma, skrifaði: „Ég get ekki skýrt það með öðru en þessum umframkrafti, hörmulegri afleiðingu hins innra útþensluafls sem hafði safnast fyrir á fjörutíu friðarárum og leitaði nú útrásar í ofbeldi.“ Orðin „ég get ekki skýrt það með öðru“ gefa til kynna að honum hafi sjálfum fundist erfitt að skýra þetta. Morton segir í formála bókar sinnar, Thunder at Twilight: „Hvers vegna gerðist þetta einmitt þá og einmitt þar? Og hvernig? . . . Er einhverja reglu að finna í þessari flækju?“
Já, mörgum sem reyna að skýra það sem gerðist árið 1914, finnst hinar djúptæku orsakir torskildar. Af hverju takmarkaðist stríðið ekki við þá sem áttu beinna hagsmuna að gæta? Af hverju magnaðist það upp í heimsstyrjöld? Af hverju dróst það svona á langinn og olli svona mikilli eyðileggingu? Hvert var eiginlega þetta kynlega afl sem náði tökum á mannkyninu haustið 1914? Næsta grein, á bls. 10, gefur svar Biblíunnar við þessum spurningum.
[Neðanmáls]
a Nafnið Júgóslavía merkir „land suðurslava.“ Lýðveldin eru Bosnía og Hersegóvína, Króatía, Makedónía, Serbía, Slóvenía og Svartfjallaland.
[Innskot á blaðsíðu 6]
„Líkt og menn sem þrá þrumuveður til að blása burt sumarsvækjunni, þá trúði kynslóðin 1914 að stríð yrði henni léttir.“ — Ernest U. Cormons, austurrískur stjórnarerindreki.
[Rammi/Myndir á blaðsíðu 8, 9]
1914
Biblían spáði þeim hörmulegu atburðum sem hafa átt sér stað frá 1914
„Út gekk annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið. Þegar lambið lauk upp þriðja innsiglinu, heyrði ég þriðju veruna segja: „Kom!“ Og ég sá, og sjá: Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér. Og mitt á meðal veranna fjögurra heyrði ég eins konar rödd er sagði: ‚Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar byggs fyrir daglaun, en eigi skalt þú spilla olíunni og víninu.‘ Þegar lambið lauk upp fjórða innsiglinu, heyrði ég rödd fjórðu verunnar, er sagði: ‚Kom!‘ Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.“ Opinberunarbókin 6:4-8 (Sjá einnig Lúkas 21:10-24; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.)
„Stríðið mikla 1914-18 liggur eins og sviðin landræma milli þess tíma og okkar. Með því að þurrka út svo mörg mannslíf sem hefðu ella getað verið vinnuafl á komandi árum, með því að kollvarpa sannfæringu manna, breyta hugmyndum þeirra og skilja eftir ólæknandi vonbrigðasár, myndaði það bæði efnislegt og sálfræðilegt hyldýpi milli tveggja tímaskeiða.“ — Formálsorð bókarinnar The Proud Tower eftir Barbara W. Tuchman.
„Árin fjögur, sem fylgdu í kjölfarið [á árinu 1914], voru, eins og Graham Wallas skrifaði, ‚ár mestu átaka og hetjudáða sem mannkynið hefur nokkurn tíma sýnt af sér.‘ Þegar átökin voru afstaðin sukku þær tálsýnir og sú hrifning, sem var möguleg fram til 1914, smám saman ofan í hafdjúp gífurlegra vonbrigða. Mannkynið hafði goldið háu verði og helsti ávinningurinn var sársaukafull vitund um eigin takmörk.“ — Eftirmáli sama ritverks.
[Rétthafar]
The Bettmann Archive
Stjórn konunglega stríðsminjasafnsins í Lundúnum
Þjóðskjalasafn Kanada, P.A. 40136
[Kort á blaðsíðu 7]
(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
Evrópa í ágúst 1914
1. Stóra Bretland og Írland 2. Frakkland 3. Spánn 4. Þýska keisaradæmið 5. Sviss 6. Ítalía 7. Rússland 8. Austurríki-Ungverjaland 9. Rúmenía 10. Búlgaría 11. Serbía 12. Svartfjallaland 13. Albanía 14. Grikkland
[Mynd á blaðsíðu 5]
Gavrilo Princip
[Mynd á blaðsíðu 6]
Þjóðverjar taka við blómum á leiðinni í stríð.
[Rétthafi]
The Bettmann Archive
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 3]
Culver Pictures