Fjárhættuspil — Fíkn tíunda áratugarins
MYNDAVÉL festir atburðinn á litfilmu. Myndin nær yfir heila opnu í sunnudagsblaðinu og sýnir mörg hundruð fermetra vöruskemmu sem hefur verið breytt í bingósal. Svo langt sem augað eygir er hann fullur af fólki á öllum aldri allavega litt á hörund. Sérðu þreytusvipinn á fólkinu og blóðhlaupin augun sem bera þögult vitni um margra klukkustunda þrotlausa spilamennsku? Allir bíða spenntir eftir að næsta tala sé kölluð upp; kannski hreppa þeir loksins vinninginn sem hefur gengið þeim úr greipum allt kvöldið.
Við flettum blaðinu og rekum augun í mynd af áhyggjufullum andlitum manna með spil á hendi. Eru spilin nógu góð? Oft skipta tugþúsundir króna um eigendur þegar næsta spil er dregið. En myndirnar segja ekki alla söguna. Þú sérð ekki hvernig hendurnar eru þvalar af svita og titra af taugaspennu. Þú heyrir ekki öran hjartsláttinn, þöglar bænirnar um betri hönd í næstu gjöf og léleg spil handa hinum.
Göngum inn í íburðarmikil spilavíti glæsihótela og fljótabáta. Ertu áttavilltur í völundarhúsi skærlitra spilakassa? Er hávaðinn af handföngunum og hvinurinn í hjólunum ærandi? Í eyrum fjárhættuspilaranna hljómar hann eins og tónlist, og skiptir þá ekki máli hvort þeir vinna eða tapa. „Spenningurinn hjá þeim felst í því hvað gerist næst þegar togað er í handfangið á spilakassanum,“ segir forstjóri spilavítis nokkurs.
Þú tekur stefnu gegnum þvöguna að þéttskipuðum rúllettuborðunum. Þú getur orðið sem dáleiddur að horfa á hjólið með svörtu og rauðu hólfunum snúast fyrir augum þér. Hljóðið í dansandi kúlunni eykur áhrifin. Hún hoppar og skoppar uns hún staðnæmist, og annaðhvort hefur maður tapað eða unnið. Oft tapast tugþúsundir króna í hvert sinn sem hjólið stöðvast.
Margfaldaðu svo þessar myndir og lýsingar með tugum þúsunda, fjárhættuspilarana með milljónum og staðina með þúsundum. Í öllum heimshornum ferðast menn flugleiðis, landleiðis og sjóleiðis til að svala spilafíkninni. Hún hefur verið kölluð „leyndi sjúkdómurinn, fíkn tíunda áratugarins: Spilasýki.“ „Ég spái því að tíundi áratugurinn verði sögulegt blómaskeið lögheimilaðra fjárhættuspila um gervallan heim,“ segir bandaríski rannsóknarmaðurinn Durand Jacobs sem er sérfróður um hátterni fjárhættuspilara.
Í Bandaríkjunum voru heimsóknir í spilavítin til dæmis fleiri árið 1993 en á leiki tveggja efstu deildanna í hafnabolta — alls 92 milljónir. Það virðist endalaust hægt að byggja ný spilavíti. Hótelstjórnendur á austurströnd Bandaríkjanna eru í sjöunda himni. „Það eru ekki nándar nærri nógu mörg gistiherbergi handa þeim 50.000 manna sem talið er að leggi leið sína í spilavítin dag hvern.“
Í mörgum af suðurríkjum Bandaríkjanna, þar sem fjárhættuspil voru til skamms tíma álitin syndsamleg, var spilavítunum tekið opnum örmum árið 1994 og þau álitin bjargvættur. „Núna mætti umskíra Biblíubeltið [svæði í Suðurríkjunum þar sem bókstafstrú hefur átt sterk ítök] og kalla það Tuttugu og einn-beltið [algengt fjárhættuspil] því þar er að finna spilavíti bæði á láði og legi út um Mississippi og Louisiana, og fleiri eru í bígerð í Flórída, Texas, Alabama og Arkansas,“ að því er segir í fréttatímaritinu U.S.News & World Report. Sumir trúarleiðtogar hafa kúvent í þeirri afstöðu sinni að fjárhættuspil sé syndsamlegt. Þegar borgarstjórnarmenn New Orleans í Louisiana skírðu fyrsta fljótandi spilavítið á Mississippifljóti árið 1994 bar prestur fram bæn og þakkaði Guði fyrir „hæfnina til að spila: dyggð sem þú hefur blessað borgina með,“ eins og hann sagði.
Talið er að árið 2000 muni 95 af hundraði Bandaríkjamanna búa innan þriggja til fjögurra stunda akstursleiðar frá næsta spilavíti. Amerískir indíánar hafa líka ætlað sér drjúga sneið af spilakökunni. Bandarísk stjórnvöld hafa nú sem komið er lagt blessun sína yfir 225 spilavíti og stórbingósali á vegum indíána í Bandaríkjunum, að sögn U.S.News & World Report.
Þegar pókerklúbbar, hesta- og hundaveðhlaup, íþróttaveðmál, kirkjubingó og þess háttar bætist við skiljum við hvernig Bandaríkjamönnum tókst að eyða 25.600 milljörðum króna í lögleg fjárhættuspil árið 1993, sem var 17,1 prósent aukning miðað við árið á undan. Andstæðingar fjárhættuspila eru ráðþrota. „Kirkjurnar, musterin og stjórnin eru helstu stofnanirnar sem við höfum til að hjálpa fólki,“ segir framkvæmdastjóri samtaka gegn spilafíkn. „Og núna eru þær allar komnar á kaf í fjárhættuspilarekstur.“ Dagblað þar í landi kallar Bandaríkin „fjárhættuspilaraþjóð“ og segir að fjárhættuspil séu „hin raunverulega þjóðarafþreying Bandaríkjamanna.“
England er komið af stað með happdrætti í fyrsta sinn síðan 1826 og salan er sögð geysigóð. Þar er líka gríðarlegt bingóæði að sögn The New York Times Magazine. „Moskva er nú morandi í spilavítum þar sem nóg er að gera. Og líbanskir fjárhættuspilarar hætta bókstaflega lífinu til að stunda spilavíti í Vestur-Beirút sem sæta jafnt árásum hersins og bókstafstrúarmanna,“ segir Times. „Þeir sem hreppa stóru vinningana halda heimleiðis í fylgd lífvarða spilavítisins sem eru vopnaðir vélbyssum.“
„Kanadamenn vita ekki að þeir eru þjóð fjárhættuspilara,“ segir eftirlitsmaður með spilastarfsemi þar í landi. „Á sumum sviðum eru fjárhættuspil sennilega meira stunduð í Kanada en í Bandaríkjunum,“ bætir hann við. „Kanadamenn eyddu yfir 10 milljörðum dollara [480 milljörðum ÍSK] í lögleg veðmál [árið 1994] — næstum þrítugfaldri þeirri upphæð sem þeir eyddu í bíóferðir,“ að sögn dagblaðsins The Globe and Mail. „Bingóstarfsemin í Kanada er miklu þróaðri en hún er eða hefur nokkurn tíma verið í Bandaríkjunum. Happdrættin eru líka lengra á veg komin í Kanada. Og það gildir einnig um hestaveðhlaup,“ sagði blaðið.
„Enginn veit hve margir spilafíklar eru í Suður-Afríku,“ sagði í suður-afrísku dagblaði, „en þeir skipta að minnsta kosti ‚þúsundum.‘“ En spænskum stjórnvöldum er fullkunnugt um vandann heima fyrir og vaxandi fjölda fjárhættuspilara þar í landi. Opinberar tölur sýna að margir landsmanna, sem eru 38 milljónir talsins, áttu þátt í að sólunda 1625 milljörðum króna í fjárhættuspil á einu ári, en það er með því hæsta í heimi miðað við höfðatölu. „Spánverjar eru forfallnir fjárhættuspilarar,“ segir maður sem stofnaði samtök til hjálpar fjárhættuspilurum. „Þeir hafa alltaf verið það. . . . Þeir veðja á hesta og fótbolta, spila í happdrættum og að sjálfsögðu á rúllettu, spila póker, bingó og á þessar vítisvélar sem háma í sig peninga.“ Það er tiltölulega stutt síðan spilafíkn var viðurkennd á Spáni sem sálfræðilegur sjúkdómur.
Spilafaraldurinn virðist líka hafa gripið um sig á Ítalíu. Milljörðum er ausið í happdrætti og íþróttagetraunir, en einnig í dagblaðabingó og spilaborðin. „Fjárhættuspil hafa gagnsýrt alla þætti daglegs lífs,“ segir í skýrslu rannsóknarhóps sem er styrktur af opinberu fé. „Fjárhættuspil eru orðin umfangsmeiri en nokkur gat ímyndað sér,“ segir dagblaðið The New York Times, „og allir, allt frá stjórnvöldum til sóknarpresta, keppast við að skara eld að sinni köku.“
Þetta eru orð að sönnu! Í mörgum tilvikum seilast fjárhættuspil inn á öll svið í lífi fólks eins og fram kemur í greininni á eftir.
[Innskot á blaðsíðu 13]
Spilafaraldurinn geisar um heim allan.
[Rammi á blaðsíðu 14]
Spilafaraldurinn nær til Íslands
Þó að spilavíti í þrengstu merkingu þess orðs, þar sem spilarinn hættir oft miklum fjármunum í hvert sinn, þekkist vart á Íslandi hefur spilafaraldurinn numið þar land. Tíundi áratugurinn virðist ætla að verða „sögulegt blómaskeið lögheimilaðra fjárhættuspila“ hér sem víðast annars staðar. Happdrættin eiga sér nokkuð langa sögu en á síðari árum hefur önnur mynd fjárhættuspila gripið hug margra. Þar ber hæst lottóin svonefndu en getraunir og spilakassar eru líka orðin algeng fyrirbæri, og nýlega hafa bæst í þennan hóp skemmtiþættir í sjónvarpi að erlendri fyrirmynd þar sem hinir „heppnu“ geta unnið til verðlauna.
Hinn dæmigerði íslenski fjárhættuspilari hættir lágri fjárhæð í hvert sinn og vinningslíkurnar eru í samræmi við það. Hann getur þó oftast huggað sig við það að hafa „stutt gott málefni“ því að í flestum tilvikum rennur ágóðinn til ýmiss konar íþrótta-, líknar- eða menningarmála. En eru þá flest þau fjárhættuspil, sem tíðkast á Íslandi, „skaðlaus skemmtun“?
Eftir því sem vinningurinn er hærri, þeim mun meira selst af happdrættis- eða lottómiðum. Til hvers bendir það? Myndu flestir þeirra sem dæla peningum í spilakassana gera það ef enginn væri „gullpotturinn“? Ef aðeins á að „styrkja gott málefni,“ þarf þá einhverja vinningsvon? Þegar börnin horfa á foreldra sína bíða spennta eftir lottótölum kvöldsins í sjónvarpinu, má þá segja að skaðlegu áhrifin á börnin séu sáralítil vegna þess að foreldrarnir lögðu lítið undir? Er verið að kenna ungu kynslóðinni að „sælla er að gefa en þiggja“? — Postulasagan 20:35.