Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.4. bls. 17-20
  • Nýjustu spilafíklarnir — unglingarnir!

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Nýjustu spilafíklarnir — unglingarnir!
  • Vaknið! – 1996
  • Svipað efni
  • Er það í alvöru svo slæmt að spila upp á peninga?
    Vaknið! – 1992
  • Spilafíklarnir — Tapa alltaf
    Vaknið! – 1996
  • Fjárhættuspil
    Vaknið!: Fjárhættuspil
  • Er synd að spila fjárhættuspil?
    Biblíuspurningar og svör
Sjá meira
Vaknið! – 1996
g96 8.4. bls. 17-20

Nýjustu spilafíklarnir — unglingarnir!

HRISTIR þú höfuðið vantrúaður yfir því hve djúpt fullorðið fólk, bæði konur og karlar, er sokkið í fjárhættuspilafenið? Finnst þér óskiljanlegt að fullorðnar manneskjur skuli fórna ævistarfinu — atvinnu, fyrirtæki, fjölskyldu og jafnvel lífinu — fyrir fjárhættuspil? Áttarðu þig á hugsanagangi fullorðins, menntaðs manns sem vinnur næstum 100 milljónir króna í fjárhættuspili en heldur áfram að spila uns hann er búinn að tapa 450 milljónum sama kvöld? Í mörgum tilfellum er það ágirnd sem keyrir menn áfram, eltingaleikur við peninga sem er svo erfitt að festa hönd á. En allt of oft er það spenningurinn sem fylgir sjálfri spilamennskunni.

Ef þú átt ung börn, huggarðu þig þá kannski við það að fjárhættuspil séu leikur fullorðinna? Ef svo er skaltu staldra við. Unga fólkið bíður átekta — ef það er ekki þegar byrjað. Eftirfarandi upplýsingar koma þér kannski illilega á óvart.

Þessar fyrirsagnir hafa birst í dagblöðum og tímaritum upp á síðkastið: „Verulegar líkur á að fjárhættuspil verði löstur unglinganna á tíunda áratugnum.“ „Æ fleiri unglingar ánetjast fjárhættuspili.“ „‚Krakk‘ tíunda áratugarins: Börn ánetjast fjárhættuspili.“ „Sonur minn gat ekki hætt að spila.“

Lestu nú það sem stendur undir fyrirsögnunum: „Yfirvöld kenna útbreiddum fjárhættuspilum á vegum ríkis og kirkju um hvernig komið er,“ stóð í einu dagblaðinu. „Nú er auðveldara fyrir varnarlausa unglinga en nokkru sinni fyrr að dragast inn í fjárhættuspil. Og sérfræðingar vara við að yfir 90 af hundraði spilafíkla á fullorðinsaldri ánetjist fyrir 14 ára aldur,“ sagði blaðið. „Áður fyrr byrjuðu flestir spilafíklar að spila kringum 14 ára aldur. Núna er aldurinn kominn niður í 9 eða 10 ár,“ segir rannsóknarmaður. „Hvers vegna? Vegna þess að tækifærið er fyrir hendi,“ bætti hann við. „Auglýsingarnar dynja á . . . krökkunum. Samfélagið hefur viðurkennt fjárhættuspil sem boðlega skemmtun.“ „Það fer hríðversnandi,“ segir talsmaður hóps sem kallast Gamblers Anonymous. „Krakkar byrja sífellt yngri og fleiri festast í snörunni en nokkru sinni fyrr.“

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar meðal ungra fjárhættuspilara í einu ríki Bandaríkjanna áttu um 3,5 prósent á hættu að verða spilafíklar, og 9 prósent að auki voru líklegir til að hætta öllu fyrir spilaástríðuna. „Tölurnar hafa sýnt, og það er dæmigert, að fjárhættuspil eru tíðari meðal unglinga en meðal fullorðinna almennt,“ segir William C. Phillips sem stýrir ráðgjafarþjónustu við bandarískan háskóla. „Næsta áratuginn eða svo munum við standa frammi fyrir meiri vandamálum vegna fjárhættuspila unglinga en vegna efnafíknar — einkum ólöglegrar fíkniefnaneyslu,“ segir annar fíknivarnaráðgjafi. Prófessor Henry Lesieur stóð fyrir rannsókn meðal 12-17 ára nemenda almennra framhaldsskóla í Bandaríkjunum. Dagblaðið The Los Angeles Times greindi svo frá að „niðurstöður hans væru áberandi líkar niðurstöðum rannsókna meðal háskólanema: Hlutfall táninga sem kalla mætti ‚spilasjúklinga‘ eða ‚spilafíkla‘ — fólks sem misst hefur stjórn á spilaáráttunni — er að meðaltali um 5% allra táninga [í Bandaríkjunum].“

Sérfræðingar í meðferð spilasjúklinga eru á einu máli um að það sé ekki fjöldi ungra fjárhættuspilara sem sé áhyggjuefni heldur „viðhorf krakka, foreldra og jafnvel kennara til fjárhættuspila táninga. . . . Margir krakkar og foreldrar þeirra líta á fjárhættuspil sem ‚skaðlausa skemmtun‘ og telja afleiðingarnar ekki nándar nærri eins alvarlegar og af neyslu fíkniefna og áfengis eða ofbeldis og lauslætis.“ En atferlisráðgjafinn Durand Jacobs varar við að fjárhættuspil geti leitt unglinga út í afbrot, skróp og löngun í auðfengið fé.

Tökum skólapilt nokkurn sem dæmi, en hann byrjaði að spila fjárhættuspil á unga aldri. Í skólanum notaði hann margar af kennslustundunum, sem hann átti að sækja, í fjárhættuspil við aðra nemendur. Þegar hann tapaði og var búinn með vasapeningana stal hann úr sjóði sem nemendur höfðu lagt í til matarkaupa handa þurfandi fjölskyldum. Með því að spila með stolnu peningunum vonaðist hann til að geta keypt aftur sjónvarpstæki fjölskyldunnar og ónyxhring sem hann hafði veðsett fyrir eldri spilaskuldum. Í níunda bekk hafði hann þegar gist 20 daga á upptökuheimili fyrir unglinga vegna tæplega 100.000 króna þjófnaðar, og var á kafi í póker og peningabilljard. „Upphæðirnar hækkuðu með aldrinum,“ segir hann. Áður en langt um leið var hann farinn að stela frá nágrönnum fyrir spilaskuldunum. Móðir hans vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Átján ára gamall var hann forfallinn spilafíkill.

Félagsfræðingar segja að á Englandi leyfi væg löggjöf börnum að nota spilakassa. Þau spila í flugstöðvum og spilasölum og fjármagna fíkniávanann með því að stela frá foreldrum sínum og úr verslunum.

„Vinsælasta fjárhættuspilið meðal framhaldsskólanema og háskólanema og það sem vex hvað hraðast, eru íþróttaveðmál meðal nemendanna sjálfra, stundum með stuðningi veðmangara þar á staðnum,“ segir Jacobs. „Ég tel að það séu mjög fáir framhaldsskólar og háskólar þar sem ekki eru í gangi vel skipulagðar íþróttagetraunir með háum vinningum.“ Við þetta má svo bæta póker, happdrættum, lottóleikjum og spilavítum þar sem mörgum táningum er leyft að spila af því að þeir eru fullorðinslegir í útliti.

„Eitt verður að koma fram,“ segir Jacobs, „og það er að flestir urðu spilafíklar vegna þess að þeir fengu vinning þegar þeir byrjuðu að spila á táningaaldri.“ „‚Yfirgnæfandi meirihluti‘ ungs fólks, segir hann, fékk sín fyrstu kynni af fjárhættuspili fyrir tilstilli foreldra sinna eða ættingja er litu á það sem skemmtun og leik,“ heldur dagblaðið The Los Angeles Times áfram. Annar ráðgjafi um fíknivarnir tekur undir það: „Foreldrar verða að ígrunda sömu spurningar og þeir hafa þurft að glíma við í sambandi við áfengi og fíkniefni. Ég held bara að það bætist sífellt fleiri nýliðar í spilafíklaklúbbinn eftir því sem fjárhættuspil verða útbreiddari.“ Sérfræðingar, sem hafa spilasjúklinga til meðferðar, segja að sífellt fleiri unglingar fjármagni spilafíknina með þjófnaði, fíkniefnasölu og vændi, alveg eins og þeir sem eru háðir fíkniefnum og áfengi. Foreldrar líta kannski á fjárhættuspil sem „skemmtun og leik“ en lögreglan gerir það ekki.

„Krakkar, sem ánetjuðust spilakössum, . . . sýndu sömu skaðlegu einkennin og fullorðnir spilafíklar. Unglingar, sem ánetjuðust þessum spilakössum, byrjuðu kannski níu eða tíu ára gamlir. Þeir sólunduðu vasapeningunum, skólamatarpeningunum og allri skiptimynt á heimilinu. Eftir svona eitt eða tvö ár fóru strákarnir að stela. Allt sem hægt var að selja úr barnaherberginu var selt; boltakylfur, bækur og jafnvel fjársjóðir á borð við plötuspilara. Hin börnin uppgötvuðu svo kannski að leikföngin þeirra hurfu líka. Ekkert var óhult í húsinu. Moody frétti af örvæntingarfullum mæðrum sem hrúguðu eigum sínum inn í eitt herbergi til að gæta þeirra, eða urðu að fela handtöskurnar sínar undir koddanum þegar þær fóru að sofa. Þessar örvilnuðu mæður skildu ekki frekar hvað komið hafði fyrir börnin þeirra en fuglar sem fá gauksunga í hreiðrið. Krökkunum tókst eftir sem áður að stela einhvers staðar. Og þegar þeir voru 16 ára var lögreglan farin að banka á dyrnar.“ — Easy Money: Inside the Gambler’s Mind eftir David Spanier.

Eins og bent hefur verið á í þessum greinum hafa margir, bæði börn og fullorðnir, fengið sín fyrstu kynni af fjárhættuspili í kirkjum, annaðhvort bingói eða hlutaveltu. Ættu trúarstofnanir og forystumenn þeirra, sem segjast vera fylgjendur Krists, að hvetja til, ýta undir eða standa fyrir fjárhættuspili í nokkurri mynd? Það hæfir varla. Hvernig sem á það er litið höfðar fjárhættuspil til einnar lægstu hvatar mannsins, löngunarinnar til að fá eitthvað fyrir ekkert, hreint út sagt til ágirndar. Þeir sem standa fyrir fjárhættuspili hvetja fólk til að trúa því að það sé allt í lagi að hagnast á annarra kostnað. Hefði Jesús beitt sér fyrir starfsemi sem er mönnum til skammar, sundrar fjölskyldum, spillir heilsunni og kostar menn jafnvel lífið? Aldrei! Innblásið orð Guðs segir skýrt og skorinort að ásælnir menn eða ágjarnir muni ekki erfa Guðsríki. — 1. Korintubréf 6:9, 10.

Foreldrar þurfa að kenna börnum sínum á unga aldri að það sé rangt að spila fjárhættuspil í hvaða mynd sem er og líta ekki á það sem skemmtun og leik heldur sem upphaf leti, lyga, svika og óheiðarleika. Víða er boðið upp á meðferð handa spilafíklum. Og ef þú átt í erfiðleikum skaltu notfæra þér hinar innblásnu leiðbeiningar orðs Guðs, Biblíunnar. Sumir, sem ætluðu að svipta sig lífi, segja að þeir megi þakka það þessum innblásnu leiðbeiningum að þeir skuli vera á lífi.

Vottar Jehóva hafa reyndar hjálpað mörgum að vinna bug á spilafíkn sinni. Einn fyrrverandi spilafíkill segir að eftir margra ára lastafullt líf, meðal annars fjárhættuspil í stórum stíl, hafi orðið miklar og skyndilegar breytingar á hátterni sínu þegar hann og vinkona hans fóru að nema Biblíuna með vottum Jehóva. „Ég var spilafíkill og átti mjög erfitt með að ráða við fíknina. Með hjálp Jehóva og stuðningi kærustunnar minnar — ásamt námi, bæn og hugleiðingu, einkum um viðhorf Guðs til ágirndar — náði ég tökum á spilaástríðunni, og við kærastan mín, sem hefur nú verið eiginkona mín í 38 ár, vígðum okkur bæði Jehóva. Þótt við höfum þjónað þar sem þörfin var meiri, verið boðberar í fullu starfi svo árum skiptir og ég hafi þjónað sem farandumsjónarmaður á vegum Varðturnsfélagsins, er fíknin enn til staðar og það er aðeins með hjálp og handleiðslu Jehóva sem ég get haft stjórn á henni.“

Ef þú átt við spilafíkn að stríða geturðu þá losnað úr greipum hennar? Já, með því að notfæra þér hjálp Guðs og bjóða hana öðrum sem eru hjálparþurfi.

[Innskot á blaðsíðu 18]

Búast má við meiri vandamálum vegna fjárhættuspila unglinga en vegna lyfja og fíkniefna.

[Innskot á blaðsíðu 20]

Ágjarnir menn munu ekki erfa Guðsríki.

[Rammi á blaðsíðu 19]

Kaþólsk kirkja í Las Vegas tekur feginshendi við spilapeningum

Gestir í Kirkju hins helgasta lausnara biðja prestinn oft: „Faðir, viltu biðja fyrir mér að ég vinni?“

Milljónir manna koma ár hvert úr öllum heimshornum til Las Vegas í Nevada í Bandaríkjunum til að freista gæfunnar. Í notalegri birtu þessarar rómversk-kaþólsku kirkju, þar sem styttur af fæðingu Jesú, síðustu kvöldmáltíðinni og krossfestingunni skreyta veggina, eru spilapeningarnir líka notaðir á kirkjubekkjunum, því að gestir leggja þá á söfnunardiskana.

„Af og til finnum við 500 dollara spilapening á einhverjum söfnunardisknum,“ segir faðir Leary með mjúkum írskum hreim.

Rómversk-kaþólsk kirkja utar á Las Vegas svæðinu þjónaði fólki um áratuga skeið, en þegar fjögur af stærstu hótelum og spilavítum heims — MGM Grand, Luxor, Excalibur og Tropicana — voru byggð á svæðinu sunnanverðu var hin nýja Kirkja hins helgasta lausnara byggð í nærliggjandi götu.

Aðspurður hvers vegna það hefði verið gert svaraði presturinn: „Því ekki það? Þar er fólkið.“

Og þar eru peningarnir. Svo því ekki það?

[Mynd á blaðsíðu 18]

Fjárhættuspil leiðir menn út í slæman félagsskap.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila