Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.4. bls. 21-22
  • Ungur maður leitar svara

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ungur maður leitar svara
  • Vaknið! – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Gulltöflur og spámaður
  • Kirkjan lifir spámanninn
  • Mormónakirkjan — Endurreisn allra hluta?
    Vaknið! – 1996
  • Biblían breytir lífi fólks
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • „Hvers vegna skyldi ég þá aðhafast svo illt?“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • „Ekki kem ég í Guðs stað“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
Vaknið! – 1996
g96 8.4. bls. 21-22

Ungur maður leitar svara

BJARTIR geislar morgunsólarinnar smeygðu sér gegnum laufþykkni trjánna og féllu á dreng sem kraup í innilegri bæn. Hinn fjórtán ára gamli Joseph var ráðvilltur vegna mikilla æsinga í trúmálum á þeim tíma. Gömlu kirkjudeildirnar voru sundraðar sökum úlfúðar. Nýir sértrúarflokkar voru á hverju strái. Hvaða hóp átti hann að ganga í? Þar sem hann kraup í bæn spurði hann: „Hver af öllum þessum flokkum hefur rétt fyrir sér, eða skjátlast þeim öllum? Hafi einhver þeirra rétt fyrir sér, hver er það þá og hvernig get ég vitað það?“

Þannig lýsir Joseph Smith trúarlegri sálarkreppu sinni á unglingsaldri. Engan þarf að undra að hann skuli hafa verið ráðvilltur. Norðausturríki Bandaríkjanna, þar sem hann bjó, loguðu af miklum trúarhita snemma á 19. öld.a Menn þörfnuðust vonar. Lífsbarátta margra bænda var jafnhörð og grýttur jarðvegurinn sem þeir plægðu. Svo sterk var þrá þeirra eftir betra lífi að þeir gerðu sér tálvonir um að finna falda fjársjóði indíána sem sögur hermdu að lægju grafnir í jörð þar um slóðir. Þeir kembdu því hæðirnar með töfrasteina, töfraþulur og spákvista að vopni. Munnmæli hermdu að háþróað indíánasamfélag hefði liðið undir lok í hræðilegu stríði einhvers staðar í New York-ríki.

Vinsælir prédikarar samtíðarinnar blésu í glæður slíkra hugmynda er þeir sögðu að amerísku indíánarnir væru afkomendur hinna týndu tíu ættkvísla Ísraels. Til dæmis skrifaði Ethan Smith bók árið 1823 er hét View of the Hebrews; or the Tribes of Israel in America (Svipast um hjá Hebreum, eða hinar tíu ættkvíslir Ísraels í Ameríku).

Gulltöflur og spámaður

Joseph Smith ólst upp í þessu frjóa umhverfi mikils trúarhita og munnmæla. Fjölskylda hans hreifst líka með af trúarákafanum. Móðir Josephs skrifaði um lækningar, kraftaverk og sýnir er þau hefðu séð og reynt. En þegar hún og sum barnanna gengu í kirkju eina neitaði Joseph að fylgja þeim. Hann greindi síðar frá því í ævisögu sinni hvernig hann bað Guð um hjálp og hvaða svar hann fékk.

Joseph sagði frá sýn þar sem Guð bannaði honum að ganga í nokkurn þessara sértrúarflokka því að allir væru þeir á rangri braut. Síðan, haustdag einn árið 1823 er Joseph var 17 ára, sagði hann fjölskyldu sinni frá því að engill, er Móróní hét, hefði sýnt sér fornar gulltöflur. Fjórum árum síðar sagði hann að sér hefðu verið gefnar töflurnar og að hann einn hefði fengið guðlegan kraft til að þýða þær, en það útheimti að hann notaði sérstakan stein er kallaðist „sjáandasteinn“ og sérstök töfragleraugu úr silfri — með tveim þríhyrndum demöntum sem greyptir voru í gler. Smith varaði við því að hver sá annar, sem sæi töflurnar á þeim tíma, myndi samstundis deyja.

Smith, sem var vel læs en ekki vel skrifandi, las nokkrum riturum fyrir „þýðingu“ þess er á töflunum stóð. Hann sat bak við fortjald og greindi frá sögu sem sögð var tekin saman af hebreskum manni er Mormón hét. Töflurnar voru skrifaðar á ‚endurbættri egypsku‘ að sögn Smiths, sem var gagnorðari en hebreska. Mormón og sonur hans, Móróní, voru sagðir vera meðal þeirra síðustu er lifðu af þjóð svokallaðra Nefíta, en þeir voru ljósir á hörund og afkomendur Hebrea sem áttu að hafa flust til Ameríku um árið 600 f.o.t. til að forða sér undan eyðingu Jerúsalem.

Frásagan er á þá lund að Jesús hafi birst þessari þjóð í Ameríku eftir dauða sinn og upprisu og valið 12 postula meðal Nefíta. Lamanítar, sem einnig voru af hebresku bergi brotnir, voru uppreisnargjarnir og hernaðarsinnaðir og hlutu þar af leiðandi þá bölvun frá Guði að vera dökkir á hörund. Frásaga Mormóns lýsir fyrst og fremst langvinnum átökum þessara tveggja þjóða. Nefítar gerðust illir og Lamanítar útrýmdu þeim loks, en hinir síðarnefndu voru forfeður amerískra indíána.

Að sögn Smiths hafði sonur Mormóns, sem nú var andinn Móróní, gefið honum frásögnina á gulltöflunum og það hlutverk er leiddi til þess að kirkja Krists var endurreist. Smith átti sér fljótlega nokkurn fylgjendahóp. Efnaður maður meðal hinna trúuðu kostaði útgáfu handrits Smiths er kallaðist Mormónsbók. Hún kom út á prenti vorið 1830. Tveim vikum síðar kunngerði Joseph Smith opinberan titil sinn: „Sjáandi, þýðandi, spámaður, postuli Jesú Krists.“ Hinn 6. apríl 1830 fæddist Mormónakirkjan eða Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu.b

Smith var valdsmannslegur í fasi og ávann sér dygga hollustu margra er snerust til trúar. En hin óhefðbundna trú hans átti sér líka fjandmenn. Nýja kirkjan sætti hörðum ofsóknum og safnaðarmenn flúðu frá New York til Ohio og síðan til Missouri í leit að hinni Nýju Jerúsalem sinni. Sem spámaður bar Smith fram hverja opinberunina á fætur annarri og boðaði vilja Guðs í málum allt frá fjárframlögum til tilskipunar um fjölkvæni. Það var sérstaklega síðarnefnda opinberunin sem varð kveikja mikilla ofsókna. Mormónar, sem mættu nú tortryggni og fjandskap við hvert fótmál, vopnuðust til að verja hendur sínar.

Launráðin og ólgan, sem einkenndu fyrstu æviár Josephs Smiths, rénuðu aldrei. Landnámsbæirnir, þangað sem fylgjendur Smiths streymdu, veittu harða mótspyrnu. Þeir höfðu enga þörf fyrir enn eina helgibókina eða sjálfskipaðan spámann. En heimamönnum til mikillar skelfingar stofnuðu mormónar blómlega nýlendu í Nauvoo í Illinois með sínum eigin myllum, verksmiðju, háskóla og her. Er til átaka kom var Smith handtekinn og varpað í fangelsi í Carthage í Illinois. Hinn 27. júní 1844 réðst múgur inn í fangelsið og Smith var skotinn til bana.

Kirkjan lifir spámanninn

En sögunni lýkur ekki með dauða Josephs Smiths. Brigham Young, forseti tólfmannaráðsins, tók þegar í stað við forystunni og leiddi marga hinna trúuðu í hættulega för til dalsins við Great Salt Lake í Utah þar sem Mormónar hafa aðalstöðvar enn þann dag í dag.c

Kirkjan, sem Joseph Smith stofnaði, heldur áfram að laða að sér nýja fylgismenn. Samkvæmt upplýsingum frá mormónum sjálfum eru safnaðarmenn nálægt níu milljónum um heim allan. Kirkjan hefur teygt anga sína langt út fyrir vöggu sína í New York-ríki, til jafnólíkra landa og Filippseyja, Ítalíu, Saír og Úrúgvæ. Þrátt fyrir að óvildin hafi viðhaldist hefur hin sérstæða mormónakirkja dafnað. Er tilkoma hennar virkilega sú endurreisn sannrar kristni sem trúaðir menn hafa beðið eftir?

[Neðanmáls]

a Síðar kölluðu sagnfræðingar þetta svæði í vesturhluta New York-ríkis útbrunna héraðið sökum skammlífra trúarvakninga sem gengu yfir svæðið snemma á 19. öld.

b Upphaflega var hún nefnd Kirkja Krists, en 26. apríl 1838 fékk hún nafnið Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu. Þótt safnaðarmenn kjósi að nota það nafn er nafnið mormónar (dregið af Mormónsbók) einnig notað í þessum greinum því að margir lesendur þekkja það betur.

c Ýmsir hópar, sem einnig kalla sig mormóna, hafa klofið sig frá Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu. Helstur þeirra er hin Endurskipulagða kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu sem hefur aðalstöðvar í Independence í Missouri.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Ljósmynd: Með góðfúslegu leyfi Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu/Dictionary of American Portraits/Dover

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila