Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.4. bls. 23-29
  • Mormónakirkjan — Endurreisn allra hluta?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Mormónakirkjan — Endurreisn allra hluta?
  • Vaknið! – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Kirkja Josephs Smiths nú á dögum
  • Mormónar og Biblían
  • „Eins og Guð er núna getur maðurinn orðið“
  • Mormónsbók — burðarsteinn trúarinnar
  • Sögulegar gátur
  • Endurreisnargrundvöllurinn
  • Biblían breytir lífi fólks
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Ungur maður leitar svara
    Vaknið! – 1996
Vaknið! – 1996
g96 8.4. bls. 23-29

Mormónakirkjan — Endurreisn allra hluta?

MORMÓNAMUSTERIÐ í Salt Lake City í Utah er stolt og trúartákn mormóna. Iðjusemi, heilbrigt fjölskyldulíf og fjárhagslegt sjálfstæði eru einkunnarorð þeirra. Trúboðar mormóna með nafnspjöldin sín eru kunnugleg sjón um heim allan. En sum af innri málefnum mormóna eru hulin utansafnaðarmönnum. Kirkjan fær því enn sinn skerf af æsifengnum gróusögum. En sanngjarnt mat ætti ekki að byggjast á grófum söguburði heldur staðreyndum. Hvaða vitneskju er að fá um þetta kirkjufélag sem hefur verið baktalað svo mjög?

Kirkja Josephs Smiths nú á dögum

Mormónar álíta að kirkja þeirra með prestdómi sínum og helgiathöfnum sé endurreisn sannrar trúar. Það er hugmyndin að baki nafni þeirra, Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu. Í mormónakirkjunni eru engin skil milli klerka og leikmanna. Frá 12 ára aldri geta allir verðugir karlar í kirkjunni tekið þátt í hinum ýmsu skyldustörfum hennar, og 16 ára gamlir geta þeir orðið prestar.

Flest embætti kirkjunnar eru ólaunuð og fjölskyldur taka þátt í hinum mörgu verkefnum sem söfnuðir þeirra beita sér fyrir. Í söfnuðinum hafa öldungar, biskupar og umdæmisforsetar umsjón með málefnum kirkjunnar sem er vel skipulögð. Ráð 12 postula í Salt Lake City hefur lögsögu um allan heim. Forseti kirkjunnar — virtur sem spámaður, sjáandi og opinberari, — og tveir ráðgjafar mynda stjórnvald kirkjunnar, nefnt Forsætisráð eða Æðsta forsætisráðið.

Allmargar kirkjulegar helgiathafnir hafa áhrif á líf dyggra mormóna. Átta ára gömul geta börn hlotið skírn sem er tákn iðrunar og hlýðni. Þvottur og smurning hreinsa og helga hinn trúaða. Athöfn, sem nefnist musterisgjöf, felur í sér allmarga sáttmála eða heit og sérstök musterisklæði er nota skal upp frá því til verndar frá illu og til að minna á þagnarheitin sem gefin hafa verið. Og mormónahjón geta innsiglað hjónaband sitt í musterinu „um aldur og ævi“ þannig að fjölskylduböndin haldist á himnum þar sem hjónin geta haldið áfram að eignast börn.

Mormónakirkjan hefur getið sér gott orð fyrir góðgerðarstarf sitt sem hefur það markmið að „bægja iðjuleysisbölinu frá.“ Það er fjármagnað á þann hátt að safnaðarmenn neita sér um tvær máltíðir í mánuði og gefa andvirðið til kirkjunnar. Auk þess er krafist tíundar af tekjum þeirra. Fjölskylda og vinir kosta starf trúboðanna. Þeir eru yfirleitt ungir karlar og konur sem verja um tveim árum í trúboðsþjónustunni.

Fórnfýsi, sterk fjölskyldubönd og borgaraleg ábyrgð einkennir líf mormóna. En hvað um trúarskoðanir þeirra?

Mormónar og Biblían

„Vér trúum, að Biblían sé orð Guðs, að svo miklu leyti sem hún er rétt þýdd,“ segir áttunda trúaratriði mormóna. En svo er bætt við: „Vér trúum einnig, að Mormónsbók sé orð Guðs.“ Margir spyrja hvers vegna þörf sé á öðrum helgiritum.

Öldungurinn Bruce R. McConkie fullyrti: „Þeir menn eru ekki til á jörð sem hafa Biblíuna í jafnmiklum hávegum og [mormónar]. . . . En við trúum ekki . . . að Biblían innihaldi allt sem nauðsynlegt er til að öðlast hjálpræði.“ Gordon B. Hinckley forseti skrifar í bæklingnum What of the Mormons? að hinir fjölmörgu sértrúarflokkar og kirkjudeildir „beri vitni um hvað Biblían sé ófullnægjandi.“

Þeir sem skrifa á vegum mormóna láta í ljós hinar alvarlegustu efasemdir um áreiðanleika Biblíunnar vegna meintra úrfellinga og þýðingarvillna. Mormónapostulinn James E. Talmage hvetur í bók sinni A Study of the Articles of Faith: „Biblían skal lesin með lotningu, aðgát og í bænarhug, og lesandinn ætti ævinlega að leita að ljósi andans til að hann geti greint milli sannleika og mistaka manna.“ Orson Pratt, sem var mormónapostuli fljótlega eftir stofnun kirkjunnar, gekk lengra: „Hver veit nema hvert einasta vers allrar Biblíunnar sé mengað?“

En á þessu sviði virðist mormónum ekki vera kunnugt um allar staðreyndir. Vissulega hefur Biblían verið afrituð og þýdd margsinnis í aldanna rás. En rökin fyrir því að hún sé hrein og ómenguð eru yfirþyrmandi. Þúsundir fornhebreskra og grískra handrita hafa verið grannskoðuð og borin saman við nýlegri eintök Biblíunnar. Til dæmis var Dauðahafshandrit Jesajabókar, sem er talið frá annarri öld f.o.t., borið saman við handrit sem var meira en þúsund árum yngra. Höfðu alvarlegar villur slæðst með? Nei, fræðimaður einn sagði að þeir fáu staðir, þar sem misræmis gætti, væru „augljósar ritvillur og breytt stafsetning.“a

Eftir ævilangar, ítarlegar rannsóknir sagði fyrrverandi forstöðumaður Breska þjóðminjasafnsins, Sir Frederic Kenyon: „Kristinn maður getur tekið sér alla Biblíuna í hönd og sagt óhikað og óttalaust að hún hafi að geyma hið sanna orð Guðs sem borist hefur frá kynslóð til kynslóðar í aldanna rás án þess að tapa nokkru sem máli skiptir.“ Því eru orð sálmaritarans enn í fullu gildi: „Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.“ (Sálmur 12:7) Þurfum við eitthvað meira?

„Þér heimskingjar,“ ávítar Mormónsbók í 2. Nefí 29:6, „sem segja munuð: Biblía, vér höfum Biblíu og þurfum ekki á frekari Biblíu að halda.“ Margir mormónar hafa hins vegar velt fyrir sér afdráttarlausum orðum Páls postula í Galatabréfinu 1:8: „Þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður.“

Fræðimenn mormóna halda því fram að hin nýja helgibók sé ekki annað fagnaðarerindi en það sem Biblían boðar heldur bara nánari útskýring þess og fullkomnun. „Milli þeirra tveggja er ekkert ósætti,“ segir Rex E. Lee, forseti Brigham Young háskólans. „Bæði Biblían og Mormónsbók boða sömu hjálpræðisáætlun.“ Ber þessum tveim bókum saman? Lítum á hjálpræðisáætlun mormóna.

„Eins og Guð er núna getur maðurinn orðið“

„Þótt við munum það ekki vorum við til sem andar á undan þessu lífi,“ segir Lee. Samkvæmt þessari kenningu mormóna um eilífa framrás getur maðurinn með ítrustu hlýðni orðið guð — skapari eins og Guð. „Guð var sjálfur eins og við erum núna og er upphafinn maður sem situr í hásæti á fjarlægum himnum,“ sagði Joseph Smith. „Þið verðið að læra að að vera Guðir sjálfir . . . eins og allir Guðir hafa gert á undan ykkur.“ Mormónaspámaðurinn Lorenzo Snow sagði: „Guð var eitt sinn eins og maðurinn er núna; eins og Guð er núna getur maðurinn orðið.“

Er slíkri framtíðarsýn lýst á síðum Biblíunnar? Eina tilboðið um guðdóm, sem er að finna í henni, er hið innantóma loforð Satans djöfulsins í Edengarðinum. (1. Mósebók 3:5) Biblían sýnir að Guð skapaði Adam og Evu til að lifa á jörðinni og sagði þeim að geta af sér fullkomna, mannlega fjölskyldu sem skyldi lifa þar hamingjusöm að eilífu. (1. Mósebók 1:28; 3:22; Sálmur 37:29; Jesaja 65:21-25) Vísvitandi óhlýðni Adams leiddi synd og dauða inn í heiminn. — Rómverjabréfið 5:12.

Mormónsbók segir að hefðu andarnir fyrrverandi, Adam og Eva, varðveitt sig syndlaus hefðu þau verið barnlaus og gleðivana, alein í paradís. Hún útleggur því synd fyrstu mannhjónanna sem kynmök og barneignir. „Adam féll, svo að maðurinn mætti öðlast líf. Og maðurinn lifir, svo að hann megi gleði njóta.“ (2. Nefí 2:22, 23, 25) Andar á himnum eru því sagðir bíða eftir tækifæri til að lifa á syndugri jörð — nauðsynlegt skref í átt til fullkomleika og guðdóms. Mormónatímaritið Ensign segir: „Við lítum frekar á það sem Adam og Eva gerðu með miklu þakklæti en fyrirlitningu.“

„Þessi kenning [að maðurinn hafi verið til sem andavera],“ segir Joseph Fielding Smith, frændi Josephs Smiths, „sést aðeins ógreinilega í Biblíunni gegnum þokumóðu . . . því að mörg augljós og dýrmæt atriði hafa verið tekin út úr Biblíunni.“ Hann segir enn fremur: „Þessi trúarsetning er byggð á opinberun sem kirkjunni var gefin hinn 6. maí 1833.“ Þótt mormónar viðurkenni Biblíuna, leggja þeir meira upp úr orðum spámanna sinna ef Biblíuna greinir á við kenningar þeirra.

Mormónsbók — burðarsteinn trúarinnar

Joseph Smith bar lof á Mormónsbók og sagði að hún væri „réttari en allar aðrar bækur á jörðinni, og burðarsteinn trúar okkar.“ Rit hans eru sögð byggð á nokkrum gulltöflum. Ellefu mormónar vitnuðu að þeir hefðu séð töflurnar. En að verkinu loknu sagði Smith að töflurnar hefðu verið teknar til himna. Það er því ekki hægt að rannsaka texta þeirra.

Hin dýrmæta perla (sjá rammagrein á bls. 28) segir frá prófessor Charles Anthon sem sýnt var afrit af sumum áletrananna, og lýsti hann þau sönn og þýðinguna nákvæma. En er honum var skýrt frá uppruna taflnanna dró hann úrskurð sinn til baka, að því er frásagan segir. Þessi saga virðist þó stangast á við þá staðhæfingu Smiths að hann einn hefði þá gáfu að geta þýtt það mál, sem töflurnar voru skrifaðar á, „þekkinguna sem var heiminum glötuð.“ Gat prófessor Anthon staðfest að texti væri réttur sem hann gat ekki lesið og gat þar af leiðandi ekki þýtt?

Mormónsbók vitnar mikið í King James-þýðingu Biblíunnar sem er á Shakespeare-ensku er var þegar álitin úrelt á dögum Josephs Smiths. Það hefur angrað suma lesendur Mormónsbókar að þessi bók, sem er „réttari en allar aðrar bækur á jörðinni,“ skuli sækja að minnsta kosti 27.000 orð beint í biblíuþýðingu sem er sögð morandi í villum og Smith réðist síðar í að endurskoða. — Sjá rammagrein á bls. 28.

Samanburður á fyrstu útgáfu Mormónsbókar og nýjustu útgáfum leiðir í ljós nokkuð sem kemur mörgum mormónum á óvart — að bókin, sem sögð var „þýdd með gjöf og krafti Guðs,“ hefur sjálf tekið fjölmörgum breytingum hvað varðar málfræði, stafsetningu og innihald. Til dæmis er greinilegt ósamræmi í því hver hinn „eilífi faðir“ er. Samkvæmt fyrstu útgáfu Mormónsbókar segir 1. Nefí 13:40 að ‚Guðslambið sé hinn eilífi faðir,‘ en síðari útgáfur segja að ‚Guðslambið sé sonur hins eilífa föður.‘ (Leturbreyting okkar) Hin tvö upprunalegu handrit Mormónsbókar frá 1830 eru enn til. Í öðru frumritanna tveggja, sem hin Endurskipulagða kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu geymir, er orðinu „sonur“ bætt inn í á milli línanna.

Í formálsorðum bókarinnar The Revelations of the Prophet Joseph Smith, eftir mormónann og fræðimanninn Lyndon W. Cook, segir um trúarbók þeirra, Kenningu og sáttmála: „Sökum þess að sumar opinberanir hafa verið endurskoðaðar af þeim nefndum, er skipaðar voru til að gefa þær út, má finna mikilvægar textaviðbætur og niðurfellingar.“ Eina slíka breytingu er að finna í Book of Commandments 4:2 sem sagði um Smith: „Hann hefur gjöf til að þýða bókina . . . Ég mun enga aðra gjöf gefa honum.“ En þegar opinberunin var endurprentuð árið 1835 í Kenningu og sáttmálum hljóðaði hún svona: „Því að ég mun enga aðra gjöf gefa þér fyrr en honum [tilganginum] er náð.“ — 5:4.

Sögulegar gátur

Sumum þykir erfitt að samræma það að um 20 Gyðingar eru sagðir hafa yfirgefið Jerúsalem og haldið til Ameríku árið 600 f.o.t., og að á innan við 30 árum hafi þeir verið búnir að margfaldast og skiptast í tvær þjóðir! (2. Nefí 5:28) Innan 19 ára eftir komu sína til Ameríku átti þessi litli hópur að hafa byggt musteri „að fyrirmynd musteris Salómons . . . og vinnan var afar vönduð“ — gríðarlegt verk að ekki sé meira sagt! Það tók 200.000 verkamenn, handverksmenn og umsjónarmenn sjö ár að byggja musteri Salómons í Jerúsalem. — 2. Nefí 5:16; samanber 1. Konungabók 5. og 6. kafla.

Athugulir lesendur Mormónsbókar hafa furðað sig á ýmsum atburðum sem virðast alls ekki í tímaröð. Til dæmis segir Postulasagan 11:26: „Í Antíokkíu voru lærisveinarnir fyrst kallaðir kristnir.“ En samkvæmt Alma 46:15, sem á að lýsa atburðum árið 73 f.o.t., voru kristnir menn til í Ameríku áður en Kristur kom til jarðar.

Mormónsbók er sett fram sem sögurit frekar en kenningarit. Orðalagið „og svo bar við“ kemur fyrir um 1200 sinnum í nútímaútgáfum — en um 2000 sinnum í útgáfunni frá 1830. Margir staðir, sem Biblían nefnir, eru enn þekktir, en nálega allir staðir, sem Mormónsbók nefnir, svo sem Gimgímnó og Seesromborg, eru óþekktir.

Mormónsbók segir frá gríðarmiklum byggðum þvert yfir meginland Norður-Ameríku. Helaman 3:8 segir: „Og svo bar við, að þeim fjölgaði, og þeir . . . dreifðust svo, að þeir tóku að byggja gjörvallt landið.“ Að sögn Mormóns 1:7 var „allt landið . . . orðið þakið byggingum.“ Margir velta fyrir sér hvar menjar þessarar miklu og útbreiddu þjóðmenningar séu. Hvar eru smíðisgripir Nefíta, svo sem gullpeningar, sverð, skildir eða brynjur? — Alma 11:4; 43:18-20.

Í ljósi slíkra spurninga ættu safnaðarmenn mormónakirkjunnar að hugsa alvarlega um orð mormónans Rex E. Lees: „Mormónatrúin stendur eða fellur með bókinni sem kirkjan dregur viðurnefni sitt af.“ Trú byggð á traustri biblíuþekkingu en ekki tilfinningaþrunginni bænarreynslu er áskorun til allra einlæga mormóna — jafnt sem alla er kalla sig kristna.

Endurreisnargrundvöllurinn

Það var hinn andlegi glundroði umheimsins sem kom Joseph Smith til að hafna öllum hinum stríðandi sértrúarflokkum samtíðarinnar. Aðrir guðræknir menn, bæði fyrr, samtíða honum og síðar, hafa leitast við að snúa aftur til hinnar sönnu trúar.

Hver er fyrirmynd sannrar kristni? Er það ekki Kristur sem „lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor“? (1. Pétursbréf 2:21) Guðfræði hinna síðari daga heilögu stingur mjög í stúf við ævi Jesú Krists. Þótt Jesús væri ekki meinlætamaður lifði hann einföldu lífi og var laus við alla framagirni og löngun í auð, upphefð eða stjórnmálavald. Hann var ofsóttur af því að hann var „ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:16) Aðalmarkmiðið með þjónustu Krists var að upphefja föður sinn, Jehóva, og helga nafn hans. Hið sama er að segja um sanna lærisveina Jesú. Þeir líta ekki á eigið hjálpræði sem meginmarkmið.

Jesús kenndi orð Guðs, vitnaði ríkulega í það og lifði eftir því. Brigham Young sagði um Biblíuna: „Við lítum á þessa bók sem leiðsögurit okkar, sem lögmál gjörða okkar; við lítum á hana sem undirstöðu trúar okkar. Hún bendir á hjálpræðisleiðina.“ (Journal of Discourses, XIII. bindi, bls. 236) Hann hvatti því: „Takið ykkur Biblíuna í hönd, berið trú síðari daga heilagra saman við hana og sjáið hvort hún stenst prófið.“ (Discourses of Brigham Young) Ekki aðeins mormónakirkjan heldur öll trúfélög, sem kalla sig kristin, verða að standast þetta próf því að Jesús sagði: „Hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika.“ — Jóhannes 4:23.

[Neðanmáls]

a Nánari upplýsingar er að fá í bókinni Biblían — orð Guðs eða manna?, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Rammi á blaðsíðu 28]

Helgirit Mormóna

AUK Biblíunnar og Mormónsbókar viðurkenna Síðari daga heilagir nokkur önnur rit sem helgirit.

Kenning og sáttmálar: Þetta er einkum safn þess sem Joseph Smith kallaði opinberanir frá Guði. Þær hafa verið endurskoðaðar af og til í samræmi við kenninga- og söguþróun.

Hin dýrmæta perla: Þessi bók inniheldur endurskoðun Josephs Smiths á 1. Mósebók Biblíunnar og 24. kafla Matteusar, auk sögu hans sjálfs. Í henni er einnig þýðing Smiths á papýrusriti er hann keypti árið 1835. Hann lýsti yfir að það væri ritað með hönd Abrahams og geymdi frásögu hans af því hvernig engill bjargaði honum er prestur reyndi að fórna honum á altari. Papýrusritið fannst aftur árið 1967 og allmargir sérfræðingar í sögu og tungu Forn-Egypta rannsökuðu það. Samkvæmt greinargerð nokkurri var niðurstaðan sú að „ekki stakt orð af meintri þýðingu Josephs Smiths líktist efni þessa skjals.“ Skjalið reyndist vera Andardráttabókin, egypskt útfararskjal sem grafið var með dánum. Upprunalegt handrit Smiths sýnir að hann notaði 136 mismunandi ensk orð til að þýða egypska myndleturstáknið fyrir „stöðuvatn.“

Þýðing Josephs Smiths á Biblíunni: Árið 1830 hófst Smith handa við að endurskoða King James-þýðingu Biblíunnar, en lauk aldrei verkinu. Hann endurskoðaði um 3400 vers og jók við miklu efni, meðal annars spádómi við lok 1. Mósebókar þess efnis að hann skyldi sjálfur koma sem „útvalinn sjáandi.“ Þar eð ekkja hans hélt handritinu, en hún fylgdi ekki Brigham Young, vitnar Salt Lake kirkjan sjaldan í það enda þótt það sé viðurkennt sem rétt og ósvikið.

Aðrar „innblásnar“ kenningar: Þær geta komið frá spámönnum kirkjunnar á hverjum tíma og hafa sama gildi og Heilög biblía. King Follett-fyrirlesturinn árið 1844 er eitt dæmi. Smith flutti þessa útfararræðu yfir öldungnum King Follett þar sem hann útskýrði kenninguna um guðseðli manna og mannseðli Guðs. Ræðuna er að finna í Journal of Discourses, ræðusafni Smiths, Youngs og annarra forystumanna mormóna á 19. öld.

[Rammi á blaðsíðu 29]

Guðafjölskylda mormóna

Guð: Faðir allra guða, hefur líkama af holdi og beini. — Kenning og sáttmálar 130:22.

Elóhím: Stundum talað um hann sem einn guð. Einnig lýst sem ráði guða er skipulögðu jörðina. — Kenning og sáttmálar 121:32; Hin dýrmæta perla, Bók Abrahams 4:1; Journal of Discourses, I. bindi, bls. 51.

Jesús: Guð og skapari allrar jarðarinnar, frelsarinn. — 3. Nefí 9:15; 11:14.

Jehóva: Nafn Jesú í Gamlatestamentinu. — Samanber Mormón 3:22; Móróní 10:34 og efnislykil Mormónsbókar.

Þrenningin: Guðhöfuð þriggja aðskildra, aðgreinanlegra tignarpersóna, föður og sonar af holdi og beini, og heilags anda. — Alma 11:44; 3. Nefí 11:27.

Adam: Hjálpari Jesú við sköpunina. Brigham Young sagði: „Faðir vor, Adam, gekk í Edengarðinn . . . og kom með Evu, eina af eiginkonum sínum. . . . Hann er faðir vor og Guð.“ (Journal of Discourses, I. bindi, bls. 50, útgáfan frá 1854) Eftir synd sína var Adam fyrsti kristni maðurinn á jörð. (Hin dýrmæta perla, Bók Móse 6:64-66; Ensign, janúar 1994, bls. 11) Hann er „hinn aldraði“ (Kenning og sáttmálar 116) og er bókstaflegur, holdlegur faðir Jesú. — Journal of Discourses, I. bindi, bls. 51.

Míkael: Annað nafn Adams, erkiengillinn. — Kenning og sáttmálar 107:54.

[Rammi á blaðsíðu 26]

Mormónar, þjóðernishyggja og stjórnmál

JOSEPH SMITH — spámaður, sjáandi og opinberari samkvæmt trú mormóna — var einnig borgarstjóri, féhirðir, hershöfðingi og forsetaframbjóðandi. Margir mormónar feta í fótspor hans og láta mikið að sér kveða í stjórnmálum. Kirkjan er stolt af bandarískri arfleifð sinni og fullyrðir að Guð hafi stýrt gerð bandarísku stjórnarskrárinnar. Brigham Young sagði: „Þegar . . . Guðsríki tekur völd mun bandaríski fáninn blakta flekklaus og stoltur á flaggstöng frelsis og jafnréttis.“

Tólfta trúargrein mormóna segir: „Vér trúum að vér eigum að vera þegnar konungs, forseta, stjórnenda og yfirvalda með því að hlýða lögum landsins, virða þau og styðja.“ Hve langt gengur undirgefni þeirra? Er Bandaríkin gerðust þátttakandi í fyrri heimsstyrjöldinni staðfesti öldungurinn Stephen L. Richards: „Stjórn Bandaríkjanna á sér ekki dyggari þegna en Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu.“ „Þegar við berjumst sigrum við með krafti Guðs,“ sagði annar öldungur.

Tólfta trúargreinin gilti einnig hinum megin víglínunnar. Prófessor Christine E. King við Staffordshire háskóla á Englandi skrifar: „Þýskir mormónar voru hvattir til að berjast fyrir land sitt og biðja fyrir sigri.“ Kirkjan sagði að áhangendur hennar væru ekki að berjast við breska og bandaríska mormónabræður heldur við fulltrúa stjórnvalda. „Þótt auðvelt væri að sjá í gegnum slíkan greinarmun nægði hann þýskum mormónum til að bæla niður siðferðilegar og trúarlegar efasemdir sínar.“

Er Hitler komst til valda studdu mormónar hann heilshugar. „Nasistar mættu engri mótspyrnu eða gagnrýni frá mormónakirkjunni,“ skrifar dr. King. Áhersla mormóna á hreinan kynþátt og ættjarðarást kom kirkjunni í góðar þarfir og í hugum margra mormóna voru „tengslin milli trúar þeirra og stjórnmálahagsmuna Þriðja ríkisins skýr.“ Þegar nokkrir mormónar voguðu sér að bjóða Hitler birginn fengu þeir engan stuðning frá forystumönnum kirkju sinnar. „Kirkjan var ættjarðarsinnuð og drottinholl og fordæmdi allar árásir á nasistastjórnina.“ Kirkjan bannfærði jafnvel einn andófsmann að honum látnum eftir að nasistar höfðu líflátið hann.b

Þarna kvað sannarlega við annan tón en þann sem lofsunginn er í Alma 26:32: „Þeir vildu heldur fórna lífi sínu en svipta óvin sinn lífi. Og þeir hafa grafið stríðsvopn sín djúpt í jörðu vegna elsku sinnar til bræðra sinna.“

Jesús sagði Pílatusi: „Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum.“ (Jóhannes 18:36) Lærisveinar hans áttu ekki að taka sér vopn í hönd til að verja Guðs eigin son, hvað þá í stríði þjóða í milli. Þeir áttu jafnvel að elska óvini sína. — Matteus 5:44; 2. Korintubréf 10:3, 4.

Til eru sannkristnir menn nú á dögum sem hafa varðveitt algert hlutleysi, bæði einir sér og sem hópur. Bókin Mothers in the Fatherland segir: „Vottar Jehóva höfðu frá stofnun sinni haldið sér staðfastlega hlutlausum gagnvart sérhverju ríki.“ Þess vegna neituðu þeir „nánast allir sem einn að hlýða nasistaríkinu í nokkurri mynd“ meðan ógnarstjórn Hitlers stóð yfir.

Enda þótt þúsundir votta Jehóva dæju píslarvættisdauða hlýddu þeir orðum Jesú: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:35.

[Neðanmáls]

b Helmut Hübener var veitt uppreisn æru árið 1948.

[Rammi á blaðsíðu 24]

Biblían og rit mormóna — ýmsar mótsagnir

Biblían: Edengarðurinn var sennilega í Mesópótamíu í nánd við Efrat þótt nákvæm staðsetning sé ekki þekkt. — 1. Mósebók 2:11-14.

Kenning og sáttmálar: Edengarðurinn var í Jacksonsýslu í Missouri í Bandaríkjunum. — Kenning og sáttmálar 57 samkvæmt skýringum J. F. Smiths forseta.

Biblían: Sálin deyr. — Esekíel 18:4; Postulasagan 3:23, Biblían 1912.

Mormónsbók: „Sálin var því ódauðleg.“ — Alma 42:9.

Biblían: Jesús fæddist í Betlehem. — Matteus 2:1-6.

Mormónsbók: Jesús átti að fæðast í Jerúsalem. — Alma 7:10.

Biblían: Jesús var getinn af heilögum anda. — Matteus 1:20.

Journal of Discourses: Jesús var ekki getinn af heilögum anda. Hann var getinn í holdi af Adam sem hafði kynmök við Maríu. — Journal of Discourses, 1. bindi, bls. 50-1.

Biblían: Hin Nýja Jerúsalem á að vera á himni. — Opinberunarbókin 21:2.

Mormónsbók: Hin Nýja Jerúsalem er jarðnesk og skal byggð af mönnum í Missouri í Bandaríkjunum. — 3. Nefí 21:23, 24; Kenning og sáttmálar 84:3, 4.

Biblían: Riturum Biblíunnar var blásið í brjóst að færa hugsanir Guðs í letur. — 2. Pétursbréf 1:20, 21.

Mormónsbók: Spámenn hennar eru sagðir hafa ritað eftir sinni bestu vitund. — 1. Nefí 1:2, 3; Jakob 7:26.

Biblían: Móselögin, þeirra á meðal tíundarlögin, féllu úr gildi með dauða Jesú. Framlög eiga að vera sjálfviljaframlög, ekki skylduframlög. — 2. Korintubréf 9:7; Galatabréfið 3:10-13, 24, 25; Efesusbréfið 2:15.

Kenning og sáttmálar: „Sannlega er það . . . tíundardagur fólks míns, því að sá, sem geldur tíund, mun ekki brenna við komu hans [Drottins].“ — Kenning og sáttmálar 64:23.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Stytta Mórónís á Mormónamusterinu í Salt Lake City.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila