Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.4. bls. 30
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • DNA og Dauðahafshandritin
  • Fyrsta skóglausa Asíuríkið
  • Að lifa af í köldu vatni
  • Í hvað fer tíminn?
  • Sandhólar í hættu
  • Erfðatæknimeðferð gagnrýnd
Vaknið! – 1996
g96 8.4. bls. 30

Horft á heiminn

DNA og Dauðahafshandritin

Skömmu eftir að Dauðahafshandritin fundust í Júdeueyðimörk árið 1947 hófust menn handa við að lesa úr þeim. Nú sem komið er hafa um 15 bókrollur verið þýddar. Eftir eru um 10.000 slitur á stærð við þumalfingursnögl úr hundruðum annarra bókrolla. Það hefur reynst þrautin þyngri að raða þeim saman. Brúnirnar eru verr farnar en svo að hægt sé að raða slitrunum saman eins og púsluspili, og þar eð ekki eru nema fáeinir stafir á hverri er ekki hægt að raða þeim eftir merkingu. Nú er erfðatæknin að koma handritafræðinni til bjargar, að sögn dagblaðsins International Herald Tribune. Hvernig þá? Um er að ræða skinnhandrit þannig að með DNA-flokkun er hægt að greina tegund, hjörð og einstök dýr sem hver skinnbútur er úr. Fræðimenn vonast til að þessi aðferð auðveldi þeim að flokka handritasliturnar og raða þeim saman.

Fyrsta skóglausa Asíuríkið

Við blasir alger skógareyðing á Filippseyjum, að sögn Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. „Mannfjölgun og skógarhöggsaðferðir, þar sem ekki er hugsað fyrir endurnýjun,“ eyða sífellt meira af skóglendi Filippseyja. Fyrir síðari heimsstyrjöldina voru 60 til 70 af hundraði landsins skógi vaxin — núna aðeins 15 prósent. „Árið 2000 gætu Filippseyjar verið orðnar fyrsta Asíuríkið sem missir allt skóglendi og trjáþekju,“ að sögn Update, fréttabréfs Þróunarstofnunarinnar.

Að lifa af í köldu vatni

Vísindamenn, sem eru að rannsaka hvers vegna fólk deyr jafnfljótt og raun ber vitni í ísköldu vatni eða sjó, hafa komist að raun um að líkaminn bregst við kuldalosti með oföndun. „Um leið og maðurinn dregur snöggt að sér andann sogar hann ofan í sig vatn — og drukknar,“ segir tímaritið New Scientist. Engin leið er að koma í veg fyrir oföndun. Til að komast lífs af er því nauðsynlegt að halda höfðinu ofansjávar uns oföndunareinkennin dvína, yfirleitt innan tveggja til þriggja mínútna.

Í hvað fer tíminn?

Í hvað hefur dagurinn farið? Margir spyrja þessarar spurningar án þess að ætlast til svars, en í nýlegri rannsókn var leitast við að fá vísindalegt svar við henni. Rannsóknarstofnun í Illinois í Bandaríkjunum gerði könnun, sem stóð í þrjú ár, á daglegu amstri um 3000 manna sem voru beðnir að halda samfellda skrá yfir hvernig þeir notuðu tímann. Þátttakendur voru á aldursbilinu 18 til 90 ára og af mjög fjölbreyttum uppruna. Mestur tími fór í svefn. Í öðru sæti var vinna, að meðaltali 184 mínútur á dag. Menn eyddu 154 mínútum í að horfa á sjónvarp og myndbönd, en það var í þriðja sæti. Heimilisstörf tóku 66 mínútur og ferðir til og frá vinnu og önnur ferðalög 51 mínútu. Menn eyddu að meðaltali 49 mínútum í að snyrta sig og snurfusa og 25 mínútur fóru í umönnun barna og gæludýra. Næstum neðst á listanum voru tilbeiðsla og trúarathafnir sem tóku að meðaltali 15 mínútur á dag.

Sandhólar í hættu

„Ísrael er að verða uppiskroppa með sand,“ stóð í tímaritinu New Scientist fyrir nokkru. Af hverju stafar þessi furðulegi skortur? Sandur er eitt aðalefnið í steinsteypu og byggingariðnaður landsins virðist nær óseðjandi. Síðastliðin 30 ár hefur opinbert eftirlit verið í lágmarki og verktakar hafa ekið sandinum burt frá vesturströnd Ísraels í stórum stíl, en þar voru áður miklar sandbreiður allt frá Jaffa til Gasa. Og þjófar stela milljón tonnum af sandi ár hvert og selja á svörtum markaði. Vistfræðingar hafa af því áhyggjur að verið sé að eyðileggja hið viðkvæma vistkerfi sandhólanna þar sem aðeins fáeinar tegundir jurta og dýra geta þrifist. Og verktakar eru farnir að spyrja hvar þeir fái efni þegar sandurinn í Ísrael gengur til þurrðar.

Erfðatæknimeðferð gagnrýnd

Menn voru vonglaðir fyrir sex árum þegar erfðatæknimeðferð var fyrst reynd á mönnum. Vísindamenn bjuggust við að þeim tækist með tímanum að lækna meðfædda erfðasjúkdóma með því að sprauta eins konar læknigenum í sjúklinga sína. Þeir vonuðust líka til að geta sprautað inn erfðaefni sem myndi láta skaðlegar frumur í líkamanum, svo sem krabbameinsfrumur, eyða sjálfum sér. En eftir miklar og ákafar rannsóknir sætir þessi meðferð nú gagnrýni. Dagblaðið International Herald Tribune segir: „Þrátt fyrir allan ákafann hefur ekki birst ein einasta skýrsla þess efnis að erfðatæknimeðferð hafi hjálpað nokkrum sjúklingi.“ Ýmsir þekktir vísindamenn óttast að menn láti viðskiptalega og persónulega hagsmuni ráða ferðinni frekar en umhyggju fyrir sjúklingum, og fari of geyst við rannsóknirnar. Eitt af vandamálunum er það að ónæmiskerfi líkamans kann að líta á frumur, er fengið hafa erfðatæknimeðferð, sem framandi og ráðast á þær og eyða þeim.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila