Fyrri Konungabók
5 Híram, konungur í Týrus,+ sendi þjóna sína til Salómons þegar hann frétti að Salómon hefði verið smurður til konungs í stað föður síns, en Híram hafði alltaf verið vinur Davíðs.*+ 2 Salómon sendi þá þessi boð til Hírams:+ 3 „Eins og þú veist gat Davíð faðir minn ekki reist hús til heiðurs nafni Jehóva Guðs síns vegna þess að hann átti í stríði við óvini sína allt í kring þar til Jehóva lagði þá undir iljar hans.+ 4 En núna hefur Jehóva Guð minn tryggt frið allt umhverfis mig.+ Enginn stendur gegn mér og engin hætta steðjar að.+ 5 Ég ætla því að reisa hús til heiðurs nafni Jehóva Guðs míns eins og Jehóva lofaði Davíð föður mínum þegar hann sagði: ‚Sonur þinn sem ég set í hásæti þitt í þinn stað mun reisa hús nafni mínu til heiðurs.‘+ 6 Segðu þess vegna þjónum þínum að höggva handa mér sedrustré í Líbanon.+ Þjónar mínir munu vinna með þjónum þínum og ég greiði þjónum þínum þau laun sem þú ákveður, enda veistu að enginn okkar hér kann að höggva tré eins og Sídoningar.“+
7 Híram varð mjög glaður þegar hann heyrði orð Salómons. „Lofaður sé Jehóva í dag,“ sagði hann, „því að hann hefur gefið Davíð vitran son til að ríkja yfir þessari miklu* þjóð.“+ 8 Síðan sendi hann þessi boð til Salómons: „Ég hef fengið skilaboðin sem þú sendir mér. Ég skal verða við öllum óskum þínum og útvega þér sedrusvið og einivið.+ 9 Þjónar mínir koma með viðinn frá Líbanon niður til sjávar. Síðan læt ég gera úr honum fleka og fleyti þeim þangað sem þú óskar. Þar læt ég taka flekana í sundur svo að þú getir sótt viðinn. Í staðinn skaltu sjá hirð minni fyrir þeim mat sem ég bið um.“+
10 Híram lét Salómon fá allan þann sedrusvið og einivið sem hann óskaði eftir. 11 Og Salómon gaf Híram 20.000 kór* af hveiti til matar handa hirð hans og 20 kór af fyrsta flokks ólívuolíu. Salómon gaf Híram þetta á hverju ári.+ 12 Og Jehóva gaf Salómon visku eins og hann hafði lofað honum.+ Friður ríkti milli Hírams og Salómons og þeir gerðu sáttmála sín á milli.
13 Salómon konungur kallaði 30.000 menn úr öllum Ísrael til kvaðavinnu.+ 14 Hann sendi þá til skiptis til Líbanons, 10.000 í hverjum mánuði. Þeir voru einn mánuð í Líbanon og tvo mánuði heima. Adóníram+ hafði umsjón með kvaðavinnunni. 15 Salómon hafði 70.000 óbreytta verkamenn* og 80.000 steinhöggvara+ í fjöllunum,+ 16 auk 3.300 yfirhéraðsstjóra+ sem voru verkstjórar yfir verkamönnunum. 17 Konungur skipaði þeim að brjóta stóra, dýra steina+ til að hægt væri að leggja grunn+ að húsinu með tilhöggnu grjóti.+ 18 Smiðir Salómons og Hírams auk Gebalíta+ hjuggu steinana og undirbjuggu viðinn og steinana til byggingarinnar.