Gerð til að lifa að eilífu
MANNSLÍKAMINN er stórkostlega úr garði gerður. Vöxtur hans og þroski er hreint kraftaverk. Sálmaritari til forna kvað: „Ég er undursamlega skapaður.“ (Sálmur 139:14) Vísindamönnum er fullkunnugt um undur mannslíkamans og sumir þeirra telja öldrun og dauða hreinlega ráðgátu. Hvað finnst þér?
Steven Austad, sem er líffræðingur við Harvardháskóla, segir: „Öldrunin blasir svo stöðugt við okkur að ég er hissa að það skuli ekki fleiri sjá hana sem veigamikla líffræðilega ráðgátu.“ Austad bendir á að „öldrunin virðist minni ráðgáta af því að allir eldast.“ En eru öldrun og dauði eðlileg við nánari athugun?
Dr. Leonard Hayflick viðurkenndi í bók sinni How and Why We Age, sem kom út fyrir tveim árum, að lífið og vöxtur líkamans sé hreint undur. Hann sagði: „Eftir að hafa unnið þau kraftaverk, sem fleyta okkur frá getnaði til fæðingar og síðan til kynþroska og fullorðinsaldurs, kaus náttúran að finna ekki upp það sem telja mætti einfaldara gangverk, til að halda þessum kraftaverkum hreinlega gangandi að eilífu. Þessi skilningur hefur valdið öldrunarlíffræðingum [sem rannsaka líffræðilega þætti öldrunar] miklum heilabrotum um áratuga skeið.“
Eru öldrun og dauði líka ráðgáta í þínum huga? Hvaða tilgangi þjónar þetta tvennt eiginlega? Hayflick segir: „Nánast allt sem gerist í líkamanum frá getnaði til þroska virðist þjóna tilgangi nema öldrunin. Það er ekki augljóst af hverju öldrun ætti að eiga sér stað. Enda þótt við höfum orðið margs vísari um líffræðilega þætti öldrunar . . . sitjum við enn uppi með óhjákvæmilega en tilgangslausa öldrun og síðan dauða.“
Getur hugsast að okkur hafi ekki verið ætlað að hrörna og deyja heldur lifa að eilífu á jörðinni?
Lífslöngunin
Fæsta langar til að hrörna og deyja. Margir óttast það meira að segja. Í bók sinni, How We Die, segir Sherwin B. Nuland læknir: „Ekkert okkar virðist sálfræðilega undir það búið að takast á við tilhugsunina um að deyja, hugmyndina um varanlegt meðvitundarleysi þar sem ekki er einu sinni tómarúm — þar sem hreinlega er ekki neitt.“ Þekkirðu einhvern sem langar til að hrörna, veikjast og deyja?
Ef elli og dauði væru eðlileg, væru þáttur í einhverri heildaráætlun, myndum við þá ekki fagna þeim? Það gerum við ekki. Af hverju? Svarið felst í gerð okkar. Biblían segir: „Jafnvel eilífðina hefir [Guð] lagt í brjóst [okkar].“ (Prédikarinn 3:11) Þessi löngun í óendanlega framtíð hefur lengi verið mönnum hvati til þess að leita að hinum svokallaða æskubrunni. Við viljum vera ung að eilífu. Þetta vekur þá spurningu hvort við höfum möguleika á að lifa lengur.
Skapaður til að gera við sjálfan sig
Líffræðingurinn Steven Austad lýsti almennri skoðun er hann sagði í tímaritinu Natural History: „Við höfum tilhneigingu til að líta á okkur og önnur dýr sem vélar: að við hljótum að slitna.“ En það er ekki rétt. „Það er grundvallarmunur á lífverum og vélum,“ segir Austad. „Lífverur gera við sig sjálfar: sár og beinbrot gróa og sjúkdómar ganga yfir.“
Það er því forvitnileg spurning hvers vegna við hrörnum. Eins og Austad spyr: „Af hverju ættu [lífverur] þá að slitna líkt og vélar?“ Fyrst líkamsvefirnir endurnýja sig, gætu þeir ekki haldið því áfram að eilífu?
Þróunarlíffræðingurinn Jared Diamond fjallaði í tímaritinu Discover um hina stórkostlegu getu líffæranna til að gera við sig. Hann skrifaði: „Augljósasta dæmið um tjónavarnir líkamans eru sár sem gróa. Við gerum við skemmdir á húðinni. Mörg dýr ná miklu lengra en við: eðlur geta látið sér vaxa nýjan hala ef sá gamli slitnar af, krossfiskar og krabbar limi sína og sæbjúgu þarmana.“
Um endurnýjun tanna segir Diamond: „Menn hafa tvo umganga, fílar sex og hákarlar ótakmarkaðan fjölda á ævinni.“ Síðan segir hann: „Stöðug endurnýjun fer einnig fram á frumustiginu. Við endurnýjum frumurnar í slímhúð þarmanna á nokkurra daga fresti, í slímhúð þvagblöðrunnar á tveggja mánaða fresti og rauðu blóðkornin á fjögurra mánaða fresti.
Prótínsameindirnar í frumum líkamans endurnýjast jafnt og þétt, hver tegund með sínum hraða; þannig forðumst við að skemmdar sameindir safnist fyrir. Ef þú berð útlit ástvinar þíns saman við útlit hans fyrir mánuði sérðu engan mun, en hins vegar hefur verið skipt um margar hinna einstöku sameinda sem hann er gerður úr. . . . Náttúran tekur okkur sundur og setur saman aftur á hverjum degi.“
Jafnt og þétt er skipt um flestar frumur líkamans og nýjar settar í staðinn. En sumar frumur er kannski aldrei skipt um, til dæmis taugunga heilans. Hayflick bendir hins vegar á: „Ef skipt er um alla hluta frumunnar er það ekki sama gamla fruman sem stendur eftir. Taugungarnir í þér virðast kannski vera þeir sömu í dag og þú fæddist með, en í reynd er kannski búið að skipta um . . . margar af sameindunum sem þær eru gerðar úr. Frumur, sem skipta sér ekki, eru því kannski ekki sömu frumurnar og þú fæddist með, þegar allt kemur til alls!“ Það stafar af því að skipt er um frumuhlutana. Fræðilega ætti slík endurnýjun líkamsefnanna að geta haldið okkur á lífi að eilífu!
Þú manst að dr. Hayflick talaði um „þau kraftaverk, sem fleyta okkur frá getnaði til fæðingar.“ Hvaða kraftaverk eru það? Er við skoðum sum þeirra stuttlega skulum við hugleiða hvort það sé nokkur möguleiki á að gefa líkamanum það sem hann kallaði „einfaldara gangverk, til að halda þessum kraftaverkum hreinlega gangandi að eilífu.“
Fruman
Í fullvaxta manni eru um 100 billjónir frumna sem hver um sig er flóknari en svo að við fáum skilið. Til að lýsa hinni flóknu gerð frumunnar líkti tímaritið Newsweek henni við víggirta borg. „Orkuver framleiða orku fyrir hana,“ sagði blaðið. „Verksmiðjur framleiða prótín sem eru lífsnauðsynlegur varningur. Flókin flutningakerfi flytja ákveðin efnasambönd frá einum stað til annars innan frumunnar eða út úr henni. Verðir við borgarmúrinn hafa eftirlit með innflutningi og útflutningi og gefa umheiminum gætur til að fylgjast með hvort einhver hætta steðji að. Agaðar líffræðilegar hersveitir eru í viðbragðsstöðu til að ráðast á innrásaraðila. Frá miðlægri stjórnarbyggingu halda genin uppi lögum og reglu.“
Hugleiddu hvernig þú — um 100 billjónir frumna í þér — varðst til. Þú byrjaðir sem ein fruma er myndaðist þegar sæði úr föður þínum sameinaðist eggfrumu frá móður þinni. Við þá sameiningu urðu til vinnuteikningar í kjarnsýru (DNA) þessarar nýmynduðu frumu af því sem að síðustu varð þú — algerlega ný og einstæð mannvera. Fyrirmælin, sem kjarnsýran geymir, „myndu fylla þúsund 600 blaðsíðna bækur ef þau væru skrifuð út,“ að því er sagt er.
Síðan tók þessi fruma að skipta sér, fyrst í tvær frumur, svo fjórar, síðan átta og svo framvegis. Loksins, eftir um 270 daga — meðan þúsundir milljóna frumna af margs konar ólíkri gerð höfðu þroskast í legi móður þinnar til að mynda barn — fæddist ÞÚ. Það er rétt eins og það hafi verið stórt herbergi í þessari fyrstu frumu fullt af bókum með ítarlegum fyrirmælum um hvernig ætti að búa þig til. En það er ekki síður stórkostlegt að hver einasta fruma, sem myndaðist af henni, fékk afrit af þessum flóknu fyrirmælum. Svo furðulegt sem það er inniheldur hver einasta fruma í líkama þínum sömu upplýsingar og hin upprunalega frjóvgaða eggfruma!
Hugleiddu líka eftirfarandi. Þar eð hver fruma hafði að geyma upplýsingar til að framleiða frumur af öllum gerðum þegar þar að kæmi, til dæmis hjartafrumur, hvernig voru þá fyrirmælin um gerð allra hinna frumutegundanna sett til hliðar? Fruman starfaði að því er virðist eins og verktaki sem hefur undir höndum allar vinnuteikningar til að búa til barn, og valdi úr safninu réttu teikninguna til að smíða hjartafrumur. Önnur fruma valdi aðrar teikningar með leiðbeiningum um smíði taugafrumna, enn ein tók fram teikningar af lifrarfrumum og þannig mætti lengi telja. Menn kunna ekki enn að skýra þessa hæfni frumunnar til að velja réttu fyrirmælin til að mynda vissa frumutegund og samtímis að setja öll hin fyrirmælin til hliðar, en vissulega er þetta enn eitt ‚kraftaverk sem fleytir okkur frá getnaði til fæðingar.‘
En þetta er bara byrjunin. Til dæmis þarf að örva taktfastan samdrátt frumnanna í hjartanu. Þess vegna var innbyggt flókið kerfi í hjartað sem gefur rafboð þannig að hjartað slái með réttum hraða miðað við það hvað líkaminn er að gera hverju sinni. Þetta er sannarlega ótrúleg hönnun! Það er engin furða að læknar skuli segja um hjartað: „Það er skilvirkara en nokkur vél af nokkru tagi sem menn hafa fundið upp.“
Heilinn
Myndun heilans er jafnvel enn meira furðuverk; hann er dularfyllsti hluti þess undurs sem maðurinn er. Heilafrumurnar taka að myndast þrem vikum eftir getnað. Þegar heilinn er fullmyndaður er um 100 milljörðum taugafrumna, sem kallast taugungar, þjappað saman í mannsheila — jafnmörgum og stjörnurnar í vetrarbrautinni.
„Hver einasta þeirra tekur við boðum frá um 10.000 öðrum taugungum í heilanum,“ segir tímaritið Time, „og sendir boð til þúsund í viðbót.“ Taugavísindamaðurinn Gerald Edelman segir um þá tengingamöguleika sem þetta býður upp á: „Í heilaefni á stærð við eldspýtnahaus er um einn milljarður tenginga sem geta tengst á svo marga vegu að það má kalla það yfirstjarnfræðilegt — af stærðargráðunni 10 með milljónum núlla á eftir.“
Hvaða möguleika gefur þetta heilanum? Stjarnfræðingurinn Carl Sagan segir að mannsheilinn geti geymt upplýsingar sem „myndu fylla um tuttugu milljónir bóka, álíka margar og eru í stærstu bókasöfnum heims.“ Rithöfundurinn George Leonard gengur skrefi lengra: „Kannski getum við jafnvel sett fram ótrúlega tilgátu: Sköpunarhæfni mannsheilans er ef til vill óendanleg í reynd.“
Eftirfarandi staðhæfingar ættu því ekki að koma okkur á óvart: „Heilinn er það flóknasta sem við höfum enn uppgötvað í alheiminum,“ segir sameindalíffræðingurinn James Watson sem átti þátt í að uppgötva gerð kjarnsýrunnar. Taugasérfræðingnum Richard Restak gremst að heilanum skuli líkt við tölvu og segir: „Heilinn er einstæður af þeim sökum að hvergi í hinum þekkta alheimi er nokkuð sem líkist honum hið minnsta.“
Taugavísindamenn segja að á núverandi mannsævi takist okkur aðeins að nota lítinn hluta af getu heilans, aðeins um einn tíþúsundasta (einn hundraðasta úr prósenti) samkvæmt einu mati. Hugsaðu þér! Er einhver skynsemi í því að gefa okkur heila með svo undraverða möguleika ef okkur var aldrei ætlað að nota hann til fullnustu? Er ekki rökrétt að mennirnir, sem hafa hæfileika til að læra endalaust, séu í rauninni gerðir til að lifa að eilífu?
En ef svo er, hvers vegna hrörnum við þá? Hvað fór úrskeiðis? Af hverju deyjum við eftir 70 til 80 ár, jafnvel þótt líkaminn hafi greinilega verið gerður til að endast að eilífu?
[Rammi á blaðsíðu 7]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
Fruman — undraverð hönnun
Frumuhimna
Himna sem stýrir því hvað fer inn í frumuna og út.
Kjarni
Stjórnstöð frumunnar sem stýrir allri starfsemi hennar. Umlukin tvöfaldri himnu.
Ríbósóm
Korn þar sem prótín eru sett saman úr amínósýrum.
Litningar
Þeir geyma kjarnsýru (DNA) frumunnar, vinnuteikningar hennar.
Kjarnakorn
Samsetningarverksmiðjur fyrir ríbósóm.
Frymisnet
Himnukerfi sem geymir eða flytur prótín mynduð af ríbósómum sem fest eru við það (sum ríbósóm fljóta laus um frumuna).
Hvatberi
Framleiðslumiðstöðvar fyrir ATP, sameindir sem eru orkugjafi frumunnar.
Golgikerfi
Hópur flatra himnusekkja sem pakka inn og dreifa prótínum er fruman myndar.
Deilikorn
Þau liggja nálægt kjarnanum og gegna hlutverki við frumuskiptingu.