Af hverju hrörnum við og deyjum?
„VIÐ höfum uppgötvað að breytingar verða í einstökum frumum með aldrinum, en þar fyrir utan vitum við litlu meira um grundvallarorsakir hrörnunar en við vissum fyrir einni öld,“ viðurkennir dr. Leonard Hayflick. „Við kunnum enga viðunandi skýringu á því hvers vegna hrörnun ætti að eiga sér stað.“
Tilraunir á rannsóknastofu fyrir um þrem áratugum sýndu að eðlilegar frumur, sem teknar voru úr mannsfóstri og ræktaðar við bestu skilyrði, dóu eftir um 50 skiptingar. Á hinn bóginn skiptust frumur, sem teknar voru úr háöldruðum manni, aðeins tvisvar til tíu sinnum áður en þær dóu. Bókin The Incredible Machine, gefin út af National Geographic Society, segir því: „Tilraunaniðurstöður styðja þá hugmynd að dauðinn sé innbyggður í sérhvert okkar við fæðingu.“
En er óhjákvæmilegt að frumuskiptingin hætti? Nei. Tveir öldrunarsérfræðingar, prófessorarnir Robert M. Sapolsky og Caleb E. Finch, lýsa þeirri skoðun sinni að „upphaflega hafi lífverur jarðar ekki hrörnað.“ Það er kaldhæðnislegt að sumar afbrigðilegar frumur í mannslíkamanum nú á dögum hrörna ekki.
Bókin The Body Machine, í ritstjórn dr. Christiaans Barnards sem varð fyrstur til að græða nýtt hjarta í mann, segir: „Það olli líffræðingum, sem rannsökuðu öldrun, miklum heilabrotum er ‚ódauðlegar frumur‘ uppgötvuðust, uns ljóst varð að slíkar frumur voru afbrigðilegar.“ Já, það virðist vera hægt að láta sumar tegundir krabbameinsfrumna skipta sér endalaust við síræktun! Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir: „Ef vísindamenn geta komist að raun um hvernig slíkar afbrigðilegar frumur halda lífi kann það að veita þeim innsýn í öldrunarferli frumnanna.“ Sumar krabbameinsfrumur virðast því geta æxlast endalaust á rannsóknastofu en eðlilegar frumur í ræktun hrörna og deyja.
Gallað gangvirki
Stafar öldrun mannsins og dauði af því að eðlilegar „frumur glata æxlunarhæfni sinni,“ eins og bókin The Body Machine orðar það? Ef svo er, segir bókin, „er mikilvægt að staðsetja og skilja það gangvirki sem stjórnar þessari takmörkuðu endurtekningarhæfni og reyna að breyta því á þann veg að það lengi mannsævina.“
Eins og þú manst kannski var í greininni á undan vitnað í dr. Hayflick þar sem hann talaði um „þau kraftaverk, sem fleyta okkur frá getnaði til fæðingar og síðan til kynþroska og fullorðinsaldurs.“ Síðan minntist hann á „einfaldara gangverk, til að halda þessum kraftaverkum hreinlega gangandi að eilífu.“
Þrátt fyrir margra ára samstillt átak hefur vísindamönnum ekki tekist að finna það gangvirki sem getur viðhaldið lífi okkar að eilífu. „Orsakir öldrunar eru enn á huldu,“ viðurkennir bókin The Incredible Machine.
En orsök hrörnunar og dauða er í rauninni enginn leyndardómur. Það er hægt að finna svar.
Hvert er svarið?
Sá sem veit svarið er sá hinn sami og er uppspretta ‚þeirra kraftaverka sem fleyta okkur frá getnaði til fæðingar,‘ alvitur skapari okkar, Jehóva Guð. „Hjá þér er uppspretta lífsins,“ segir Biblían um hann. „Vitið, að [Jehóva] er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér.“ — Sálmur 36:10; 100:3.
Hugsaðu þér hve stórkostlega Jehóva Guð forritaði þroskaferli þitt í móðurkviði, eins og ritaði í bók fyrirmæli um gerð þína sem sérstakrar lífveru! „Þú myndaðir nýru mín; þú skýldir mér í kviði móður minnar,“ skrifaði sálmaritari Biblíunnar. „Beinin í mér voru þér ekki hulin þegar ég var myndaður í leyni . . . Augu þín sáu mig sem fóstur og í bók þinni voru allir hlutar þess skráðir.“ (Sálmur 139:13, 15, 16, NW) Hinn stórkostlega gerði mannslíkami er augljóslega ekki til orðinn af neinni tilviljun!
En af hverju hrörnum við og deyjum ef Jehóva Guð skapaði okkur fullkominn þannig að við gætum lifað að eilífu? Svarið er að finna í banni sem Guð lagði fyrir fyrsta manninn, Adam, er hann hafði búið honum fagurt heimili á jörðinni. Guð sagði honum: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ — 1. Mósebók 2:16, 17.
Hvað gerðist? Í stað þess að hlýða himneskum föður sínum óhlýðnaðist Adam er hann át af trénu ásamt konu sinni, Evu. Í eigingirni sinni gripu þau á lofti falskt loforð sem uppreisnargjarn engill hafði gefið þeim. (1. Mósebók 3:1-6; Opinberunarbókin 12:9) Þau dóu eins og Guð hafði varað við. Þótt Adam og Eva væru sköpuð til að lifa að eilífu var það háð hlýðni við Guð. Með óhlýðni sinni syndguðu þau. Sem syndarar gáfu þau síðan öllum afkomendum sínum banvænan erfðagalla. „Þannig er dauðinn runninn til allra manna.“ — Rómverjabréfið 5:12; Jobsbók 14:4.
En það þýðir ekki að það sé engin von um að yfirvinna hrörnun og dauða. Það ætti ekki að vera erfitt að trúa því að alvitur skapari okkar geti læknað alla erfðagalla og gefið okkur kraft til að halda áfram að lifa að eilífu. En hvernig mun hann gera það? Og hvað verðum við að gera til að fá hlutdeild í fyrirheiti hans um eilíft líf?