Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.10. bls. 19-23
  • Guð gaf okkur kost á að finna sig

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Guð gaf okkur kost á að finna sig
  • Vaknið! – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Varaðir við vottum Jehóva
  • Við hittum vott Jehóva
  • Við fáum andlega næringu
  • Við náum andlegum þroska
  • Hvernig það atvikaðist að Steve fór til Moskvu
  • Sigur eftir langa baráttu fyrir dómstólum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • ‚En ég elska ekki Jehóva!‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
Vaknið! – 1996
g96 8.10. bls. 19-23

Guð gaf okkur kost á að finna sig

ÞEGAR Davíð konungur bjóst til að afhenda Salómon syni sínum konungdóminn ráðlagði hann honum: „Lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta og með fúsu geði, því að [Jehóva] rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar. Ef þú leitar hans, mun hann gefa þér kost á að finna sig; ef þú yfirgefur hann, mun hann útskúfa þér um aldur.“ — 1. Kroníkubók 28:9.

Þetta var reynsla okkar. Við leituðum Guðs og fundum hann — en ekki fyrr en við höfðum farið margar villigötur. Við trúum að Jehóva hafi séð hve sterklega hugsanir okkar beindust að honum og þjónustu hans og að hann hafi gefið okkur kost á að finna sig. Það atvikaðist með þessum hætti:

Við vorum fjórir bræður sem ólumst upp í Flórída í Bandaríkjunum. Faðir okkar vann á löngum vöktum sem matreiðslumaður til að sjá fjölskyldunni farborða, móðir okkar sá um heimilið og við drengirnir fjórir slógum grasflatir, bárum út dagblöð og gerðum hvaðeina sem gat skilað fjölskyldunni björg í bú. Mamma var kaþólsk en pabbi baptisti. Öll trúðum við á Guð og Biblíuna en létum þar við sitja, og við fórum sjaldan í kirkju. Þetta var snemma á áttunda áratugnum þegar friður, útvíðar gallabuxur, sítt hár og rokktónlist var í algleymingi. Allt hafði þetta áhrif á okkur.

Það var ekki fyrr en árið 1982 sem við tveir, Scott og Steve sem vorum 24 og 17 ára, fengum fyrir alvöru áhuga á Biblíunni og að hrakandi heimsástand tók að valda okkur vaxandi áhyggjum. Scott rak þá eigið byggingafyrirtæki. Reksturinn gekk vel þannig að við fluttum saman í eigin íbúð. Við vorum búnir að fá okkur fullsadda á því að sitja á krám og á þess háttar líferni og vissum að grasið hlyti að vera grænna einhvers staðar. Við fundum til andlegs hungurs. Reglulegur biblíulestur vakti með okkur löngun í meiri þekkingu og skilning á orði Guðs.

Við byrjuðum að sækja guðsþjónustur í mismunandi kirkjum á sunnudögum. Í þeim kirkjum, sem við sóttum nálægt heimili okkar í Lake Worth í Flórída, eyddi presturinn að jafnaði 25 mínútum af sunnudagsprédikuninni í að tala um peningaframlög. „Verið örlát og kafið djúpt í budduna,“ sagði presturinn og hallaði sér fram yfir ræðupúltið. Oft var söfnunardiskurinn látinn ganga þrisvar á sömu samkomunni með þeim afleiðingum að margir héldu heimleiðis með galtóma vasa. Við fórum í margar kirkjur en við fundum bara söfnunardiska og félagsstarf.

Varaðir við vottum Jehóva

Okkur var kennt það sem við héldum vera undirstöðukenningar Biblíunnar, og við viðurkenndum það af því að kennararnir voru menntaðir guðfræðingar. Ein kennslustundin fjallaði um sértrúarsöfnuði í Bandaríkjunum og þar voru vottar Jehóva efstir á blaði. Við vorum varaðir við þeim; þeir tryðu ekki á Jesú, hefðu sína eigin biblíu, tryðu ekki að þeir færu til himna eða að helvíti væri til. Við ályktuðum auðvitað sem svo að vottarnir væru á villigötum.

Við vorum orðnir mjög kappsfullir þótt ekki væri með réttum skilningi. (Rómverjabréfið 10:2) Við vissum hvað Jesús sagði í Matteusi 28:19, 20 — að við ættum að prédika fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. Við sóttum þá kirkju hjá 2000 manna söfnuði sem kallaðist Biblíuborgin þar sem við tilheyrðum um það bil 100 manna ungmennahópi á aldrinum 17 til 30 ára. Scott reyndi að fá hópinn til að prédika í einhverri mynd en án árangurs.

Við hófum því eigið trúboð. Scott fékk þá hugmynd að setja upp bás á flóamarkaðinum í bænum og útbýta smáritum og biblíum. Við gerðum það. Við fórum í „kristnu“ bókaverslunina í bænum og keyptum allgóðar birgðir af smáritum og biblíum. Síðan fórum við á flóamarkaðinn, settum upp tvo búkka og lögðum krossviðarplötu ofan á, og þar stilltum við upp biblíunum og smáritunum og reyndum að verða „gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.“ — Jakobsbréfið 1:22.

Hið svokallaða flóamarkaðstrúboð jókst með hverri viku sem leið og við buðum rit bæði á ensku og spænsku. Við höfðum biblíur, 30 mismunandi tegundir smárita og meira að segja nælur með áletruninni „Guð elskar þig.“ Skömmu síðar keypti Scott vél til að þrykkja biblíuboðskap á stuttermaboli — til dæmis: „Hefurðu lesið biblíuna þína í dag?,“ „Af hverju heldurðu að ég brosi? Ég hef Jesú í hjarta mér“ og þar fram eftir götunum. Ein áletrunin var „Opinberunin“ með mynd af riddurunum fjórum.

Við hugsuðum sem svo að með því að ganga alls staðar í þessum stuttermabolum okkar værum við að bera þögult vitni. Flóamarkaðstrúboðið var stundað á hverjum laugardegi og sunnudegi milli klukkan 8 og 13. Á bílastæðum stungum við smáritum undir rúðuþurrkurnar á bílum. Öll ritin voru boðin gegn frjálsum framlögum en mjög lítið kom inn. Einu sinni lögðum við saman kostnaðinn fyrir árið og hann reyndist vera yfir 650.000 krónur.

Við hittum vott Jehóva

Eitt sinn vorum við að synda við baðströnd í Bonita Springs þegar aldraður maður tók okkur tali og sagðist hafa séð límmiðana á bílnum okkar og tekið eftir stuttermabolunum okkar. Hann fór að tala um Biblíuna og rökræða út af henni. Hann vitnaði í Postulasöguna 2:31 og spurði: „Ef til væri logandi helvíti og bara hinir vondu færu þangað, hvers vegna skyldi Biblían þá segja að Jesús hafi verið þar?“ Hann hélt áfram og ræddi um marga aðra ritningarstaði. Scott sagði að lokum: „Þú hlýtur að vera einn af vottum Jehóva.“ „Já, ég er það,“ svaraði hann. „En þið trúið ekki á Jesú,“ sagði Scott. Votturinn talaði um Jesú næstu 20 mínúturnar en einhvern veginn náði það ekki til okkar.

Við héldum áfram flóamarkaðstrúboðinu um helgar. Við höfðum stundað það í þrjú ár — og héldum allan tímann að við þekktum sannleikann og værum að gera hið rétta. Við vorum enn að ganga milli kirkna hvert einasta sunnudagskvöld, en við vorum aldrei ánægðir með neina kirkju sem við sóttum. Við vorum að verða uppiskroppa með kirkjur þannig að eitt kvöldið ákváðum við að fara í einhverja „votta Jehóva kirkju“ eins og við orðuðum það. Við ætluðum að prédika Jesú fyrir vottunum. Við fundum heimilisfangið í símaskrá og fórum þangað eitt sunnudagskvöld. Þegar við uppgötvuðum að þeir voru ekki með samkomu á sunnudagskvöldum eins og allar hinar kirkjurnar ályktuðum við að þeir tryðu virkilega ekki á Jesú. Á skilti þar sem samkomutímarnir voru auglýstir sáum við nefnt bóknám á mánudagskvöldum. Við mættum í bóknámið í stuttermabolunum okkar með biblíurnar í hönd. Við minnumst þess að hafa tekið okkur nokkrar mínútur til að ákveða hvaða bol við skyldum klæðast — hver þeirra gæfi góðan vitnisburð. Við mættum allsnemma og nokkrir bræður tóku okkur tali. Þeir voru hlýlegir og vingjarnlegir. Við vorum þegar í stað komnir í ákafar samræður um Opinberunarbókina. Þeir buðu okkur að vera viðstaddir samkomuna og létu okkur fá bókina Sameinuð í tilbeiðslu þannig að við fengum okkur sæti.a Einn bræðranna hóf námið með bæn.

Við hlustuðum með athygli. Hann lauk bæninni með orðunum: „Í Jesú nafni. Amen.“ Við litum steinhissa hvor á annan. „Heyrðum við rétt? Hann bað í Jesú nafni!“ Það var eins og augu okkar opnuðust og þykkt hreistur félli af þeim. Ef við værum hjartahreinir ættum við að hlusta núna. Bróðirinn bað alla að fletta upp á 21. kafla bókarinnar Sameinuð í tilbeiðslu sem fjallar um Jesú og að tilheyra ekki heiminum. Námsefnið hefði ekki getað verið heppilegra. Það fjallaði um ævi og þjónustu Jesú, hina síðustu daga og hlutleysi. Við heyrðum börn svara spurningum um fjölmargt sem við vissum ekki einu sinni. Og síðan lauk bróðirinn samkomunni með bæn í Jesú nafni!

Við fáum andlega næringu

Við höfðum gengið með sannleiksþorsta inn í salinn og þarna var sannleikurinn og hafði alltaf verið innan seilingar. Við fórum fullvissir um að við hefðum fengið andlega næringu og við höfum aldrei stigið fæti inn í kirkju eftir það. Kvöldið eftir vorum við að þvo þvottinn okkar í almenningsþvottahúsi og rákum þá augun í stóran stafla af tímaritunum Varðturninum og Vaknið! við gossjálfsalann — að minnsta kosti 150 eintök. Við höfðum aldrei lesið þau áður en núna tókum við þau með okkur því að við höfðum áhuga á því margvíslega efni sem þau fjölluðu um.

Í einni af greinunum var spurt: „Trúir þú á þrenninguna?“ Í annarri var spurt: „Er til helvíti í raun og veru?“ Í Vaknið! var grein um líkneski. Þetta kvöld las Steve greinina um þrenninguna, grúskaði heilmikið, fletti upp öllum ritningarstöðunum og vakti Scott klukkan hálfeitt til að segja honum hvað hann hefði lært. Eftir vinnu næsta dag, miðvikudag, las Steve greinina um helvíti. Þar var rökrætt út af Jóhannesi 11:11 þar sem Jesús sagði að Lasarus svæfi. Þegar Steve sá Scott sagði hann: „Biblían mín kennir ekki að það sé til logandi helvíti.“ Eftir að hafa lesið greinina í Vaknið! um líkneski og mismunandi tegundir krossa hentum við öllu slíku dóti í sorphreinsunarbílinn og horfðum svo á hann aka burt. Við litum hvor á annan, kinkuðum kolli og brostum. Við vissum að við höfðum fundið eitthvað sérstakt — sannleikann.

Daginn eftir bárust okkur tveir kassar. Í þeim voru 5000 smárit með þeim boðskap að sá sem ekki iðraðist færi til helvítis. Við vissum að mörg þessara smárita fóru ekki með rétt mál samkvæmt Biblíunni. Við vorum eilítið ráðvilltir þegar við sóttum bóknámið aftur næsta mánudagskvöld og höfðum meðferðis mörg af smáritunum okkar. Við spurðum: „Er þetta smárit í lagi?“ Eitt kvöldið fórum við gegnum þau öll. Bráðlega lá haugur af smáritum á gólfinu; ekki eitt einasta var samhljóða kenningum Biblíunnar. Við losuðum okkur við þau öll. Við vissum að hin nýfundna trú okkar hefði líf í för með sér fyrir okkur og þá sem við prédikuðum fyrir. Við vildum komast burt til að kynna okkur Biblíuna truflunarlaust.

Við fluttumst til Alaska. Á fyrstu samkomunni okkar þar spurðum við öldung hvort hann vildi nema með okkur daglega. Ég held að allir viðstaddir hafi heyrt til okkar. Við tókum góðum framförum, lukum Lifað að eilífu-bókinni og vildum láta skírast á einu af tveggja daga mótunum.* En við urðum að bíða enn um sinn. Markmið okkar var að gerast brautryðjendur. En faðir okkar veiktist óvænt og við urðum að snúa aftur til Flórída til að hjálpa.

Við náum andlegum þroska

Í Flórída tókum við góðum framförum, lukum Sameinuð í tilbeiðslu-bókinni og létum síðan skírast árið 1987. Það voru liðnir 11 mánuðir síðan við byrjuðum. Við gerðumst aðstoðarbrautryðjendur þegar í stað í sex mánuði og síðan reglulegir brautryðjendur. Aðeins einu og hálfu ári síðar vorum við báðir skipaðir safnaðarþjónar. Tveim árum eftir skírn vorum við báðir farnir að þjóna á Betel í Brooklyn þar sem Scott er enn og hefur verið að læra kínversku í tvö ár. Steve þjónar nú sem reglulegur brautryðjandi í Moskvu. Við fundum báðir sannleikann og leitin að honum var alveg eins og Orðskviðirnir 2:1-5 lýsa henni: „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði.“

Hvernig það atvikaðist að Steve fór til Moskvu

Ég bjó nú í New York þar sem prédikunarstarfið er skemmtilegra ef maður kann annað tungumál — og auk þess hugsaði ég með mér að kannski myndi Jehóva bráðlega opna dyrnar að Rússlandi — þannig að ég ákvað að læra rússnesku. Ég þjónaði þá á Betel í Brooklyn og fór að sækja bóknámið á rússnesku. Það var aðeins einn rússneskur bóknámshópur sem hittist á föstudögum. Með tímanum fór ég að taka meiri þátt í starfi rússneska hópsins. Ég fór með hópnum í boðunarstarfið sem var mjög ánægjulegt vegna þess hve hlýlegir Rússarnir eru. Ég skrifaði Þjónustudeildinni og bað um flutning til rússneska hópsins. Ég var mjög ánægður þegar það var samþykkt.

Í tilbeiðslustundinni á Betel einn morguninn tilkynnti forseti Varðturnsfélagsins, Milton G. Henschel, Betelfjölskyldunni að sögð yrði sérstök frétt. Síðan tilkynnti hann að vottar Jehóva hefðu hlotið lagalega viðurkenningu í Rússlandi og að bræður okkar nytu nú trúfrelsis þar. Ég held að enginn á Betel gleymi gleðinni sem greip okkur þennan morgun þegar við heyrðum þessar stórkostlegu fréttir. Ég hugsaði með mér á þeirri stundu að það væru mikil sérréttindi að geta starfað á þessu gríðarstóra, nýja svæði.

Ég byrjaði að skrifast á við rússneskan bróður, Volodeja, sem býr í Krasnodar í Rússlandi. Hann bauð mér í heimsókn til Rússlands. Í júní 1992 pakkaði ég niður í tösku og lagði af stað til Moskvu. Bróðir Volodeja tók á móti mér á flugvellinum. Ég gisti hjá bróður Stefan Levinski sem hafði verið 45 ár í sannleikanum. Hann var fyrsti votturinn sem ég hitti í Moskvu og hafði setið í fangelsi í mörg ár vegna afstöðu sinnar með sannleikanum. Gestrisni bræðranna var alveg stórkostleg.

Ég var nú kominn til Moskvu en kunni lítið í málinu. Á þeim tíma voru aðeins fjórir söfnuðir þar og við virtumst þekkja alla bræðurna. Með höppum og glöppum hefur mér tekist að framlengja dvalarleyfi mitt síðan þá. Ég get unnið endrum og eins til að sjá mér farborða. Erfiðast fannst mér að læra nógu mikið í rússnesku til að geta talað við fólk og nærst andlega á samkomunum. Það tókst smám saman og auðvitað er ég enn að vinna að því.

Ég hef notið þeirra sérréttinda að sækja mörg mót og sjá ótrúlegan vöxt og met í tölu skírðra. Það hefur styrkt trú mína gríðarlega að sjá ósvikna kostgæfni bræðra okkar hér. Ég vildi ekki fyrir nokkurn mun hafa farið á mis við það. Margir bræðranna og systranna, sem ég hitti og voru bara að nema eða nýskírð þegar ég kom hingað, eru núna brautryðjendur í fullu starfi eða safnaðarþjónar eða Betelítar í Solnjetsjnoje nálægt St. Pétursborg í Rússlandi.

Söfnuðurinn, þar sem ég sæki samkomur, troðfyllir salinn á hverjum sunnudegi. Um 530 koma á samkomurnar og mánaðarlega bætast við um 12 nýir óskírðir boðberar. Samkvæmt síðustu talningu voru 380 boðberar í söfnuðinum, 3 öldungar og 7 safnaðarþjónar. Söfnuðurinn okkar hefur 486 heimabiblíunám. Í febrúar 1995 hafði ég þau sérréttindi að heimsækja bóknámshópana 29 og flytja þjónusturæðu. Ég heimsótti fjóra hópa í viku. Við höfum líka mikið að gera fyrir hvert mót við að fara yfir spurningarnar með skírnþegunum. Á sérstökum mótsdegi í maí 1995 skírðust 30 úr okkar söfnuði. Alls voru 607 skírðir og mótsgestir voru um 10.000. Á umdæmismótinu það sumar voru 24 frá okkar söfnuði meðal þeirra 877 sem skírðust! Í söfnuðinum okkar eru 13 brautryðjendur og 3 sérbrautryðjendur. Þeir hafa alls um 110 biblíunám! Sem stendur eru 132 óskírðir boðberar í söfnuðinum.

Á minningarhátíðinni 1995 voru 1012 viðstaddir! Félagið er nýbúið að senda pólskan bróður, Mateysh, til safnaðarins okkar. Hann hefur sótt Þjónustuþjálfunarskólann og það er mikill fengur í honum. Núna eru þrír öldungar í söfnuðinum. Það verður því myndaður nýr söfnuður og starfssvæðinu okkar — með um einni milljón íbúa — skipt í tvennt. Um 200 boðberar verða í báðum söfnuðunum. Í öðrum þeirra verða tveir öldungar en einn í hinum. Nú er annað mót í aðsigi þannig að við erum að fara yfir spurningarnar með þeim 44 sem verða tilbúnir til skírnar þá. Þetta hljómar ótrúlega! Svo sannarlega er þetta andleg paradís! Hreint undur! Þarna er hönd Jehóva greinilega að verki. Stríðsvagn hans virðist þeysa um Rússland um þessar mundir. Í október 1995 voru um 40 söfnuðir í Moskvu. Hægt væri að fjölga þeim um helming ef öldungar væru nógu margir.

Dagar flóamarkaðstrúboðsins eru löngu liðnir. Scott starfar á Betel í Brooklyn en Steve er öldungur í einum safnaðanna í Moskvu — og við erum báðir innilega þakklátir fyrir að Guð skyldi gefa okkur kost á að finna sig. Við biðjum að enn megi milljónir manna leita Guðs og að hann muni gefa þeim kost á að finna sig. — Frásaga Scotts og Steve Davis.

[Neðanmáls]

a Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Scott

[Mynd á blaðsíðu 21]

Steve

[Mynd á blaðsíðu 23]

Yfir 530 eru viðstaddir samkomur í einum safnaðanna í Moskvu á hverjum sunnudegi.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila