„Ef ég gæti breytt einu andartaki“
NEMENDUR í skóla einum í Kaliforníu í Bandaríkjunum voru beðnir að semja ritgerð um efnið hér að ofan. Einn þeirra sem komst í úrslit var Eric, 11 ára sonur hjóna sem eru vottar Jehóva. Hann samdi eftirfarandi ritgerð hjálparlaust og sótti efnivið í Biblíuna.
„Síðari heimsstyrjöldin var mjög mannskæð. Margt saklaust fólk dó. En andartakið, sem ég hef valið, hefði valdið því að þetta stríð væri alls ekki til í mannkynssögubókunum. Hugsaðu þér morðið á John F. Kennedy. Þessi maður hlaut hræðilegan dauðdaga, en andartakið, sem ég hef valið, myndi líka valda því að þessi atburður væri ekki til í sögubókum. Martin Luther King, yngri, dó árið 1968 af því að hann reyndi að breyta hugsunarhætti heimsins, en andartakið, sem ég hef valið, er líka fyrir þann tíma. Ef ég gæti breytt þessu andartaki sögunnar væri heimurinn ólíkur, allt væri ólíkt því sem við þekkjum og allt, bæði ástandið og fólkið, væri öðruvísi. Á þessu andartaki breyttist gangur sögunnar með þeim afleiðingum að heimurinn er eins og við þekkjum hann núna — lífshættulegur, ofbeldisfullur, sjúkur og illur.
Þú spyrð kannski hvort það sé sjúkdómur sem ég er að tala um. Er það stjórn? Eða er það styrjöld? Spyrðu þig hvort það myndi koma í veg fyrir vond verk mannanna ef þetta væri sjúkdómur. Þú svarar neitandi. Þá hugsarðu með þér að það hljóti að vera stjórn sem gæti leyst öll vandamál okkar. En stjórn er í höndum manna og allir menn eru ófullkomnir og deyja. Myndu þá ekki góð verk þeirra deyja með þeim? Þá segir þú að það hljóti að vera stríð eins og síðari heimsstyrjöldin. Nei, það gæti ekki verið það af því að í stríði sigrar annar aðilinn og hinn tapar. Ekkert af þessu gæti bundið varanlegan enda á dauða, ofbeldi, sjúkdóma og illsku. Þú spyrð hvaða andartak sögunnar það sé sem ég myndi breyta.
Synd. Dauði. Það eru synd og dauði sem ég myndi breyta. En hvernig? Við höfum alltaf búið við synd og dauða. Synd og dauði eru hluti af daglegu lífi okkar. Hvernig getum við þá breytt því sem alltaf hefur verið? Við yrðum að stöðva það á því andartaki sem það átti sér stað. Uppreisn Adams og Evu gegn stjórn Guðs olli því að ástandið er eins og það er núna. Þeir sem hlut áttu að máli kusu að fara sínar leiðir og þess vegna höfum við synd og dauða.
Það andartak sögunnar, sem þyrfti að breyta, er það andartak þegar Satan djöfullinn sagði fyrstu lygina gegn þessari fullkomnu stjórn. Vegna þessarar lygar þjáumst við öll fyrir það sem fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, gerðu. Þau syndguðu gegn eina sanna stjórnarleiðtoganum, Guði.“
Laugardaginn 12. ágúst 1995 las Eric ritgerð sína upp á sérstökum mótsdegi votta Jehóva í Norco í Kaliforníu. Áheyrendur hrifust af því að heyra ungan pilt nýta sér tækifærið í skólanum til að bera vitni um orsakir mannlegra þjáninga og vekja menn til umhugsunar. Það verður stórkostlegt þegar Jehóva Guð tortímir „hinum gamla höggormi“ og eyðir öllum þeim þjáningum sem djöfullinn ber ábyrgð á! — Opinberunarbókin 12:9; 21:3, 4; 1. Mósebók 3:1-6.