Getur heimurinn losnað við styrjaldarbölið?
HUGSAÐU þér að heyra aldrei stríðsfréttir framar né sjá hin hrikalegu eftirköst styrjalda. Hugsaðu þér að heyra aldrei framar vélbyssugelt eða sprengjugný, sjá aldrei framar hópa hungraðra flóttamanna og þurfa aldrei að spyrja sig að því hvort þú eða ástvinir þínir eigi eftir að deyja í einhverjum grimmilegum og tilgangslausum átökum. Það væri dásamlegt ef heimurinn losnaði við styrjaldarbölið!
‚Heldur ósennilegt,‘ segirðu kannski. Menn sáu nú samt friðsælan heim í hillingum fyrir stuttu. Á árunum 1990 og 1991 sögðu margir að þjóðirnar stæðu á þröskuldi nýrra tíma öryggis og samvinnu. George Bush, þáverandi Bandaríkjaforseti, endurómaði tíðarandann er hann talaði margsinnis um „nýja heimsskipan“ sem hann taldi vera að ganga í garð.
Af hverju þessi bjartsýni? Kalda stríðinu var lokið. Í meira en 40 ár hafði kjarnorkustyrjöld vofað yfir mannkyninu eins og uppreitt sverð. En þegar kommúnisminn féll og Sovétríkin liðuðust í sundur virtist hættan á kjarnorkustyrjöld hverfa út í veður og vind. Heimurinn andaði léttar.
En það var líka önnur ástæða fyrir því að fólk var bjartsýnt á framtíðina, og margir eru reyndar enn. Um fjögurra áratuga skeið hafði kapphlaupið milli austurs og vesturs gert að verkum að Sameinuðu þjóðirnar voru lítið annað en málfundafélag. En með lokum kalda stríðsins var sem Sameinuðu þjóðirnar losnuðu úr ánauð þannig að þær gátu loksins sinnt ætlunarverki sínu — að vinna að friði og öryggi á alþjóðavettvangi.
Á síðustu árum hafa Sameinuðu þjóðirnar gert sér aukið far um að koma í veg fyrir stríðsátök. Á fjögurra ára tímabili fram til 1994 sinntu hersveitir, sem aðildarríkin lögðu til, fleiri friðargæsluverkefnum en síðustu 44 árin þar á undan. Um 70.000 borgaralegir starfsmenn og hermenn tóku þátt í 17 friðargæsluverkefnum víða um heim. Á aðeins tveim árum ríflega tvöfölduðust útgjöld samtakanna af friðargæslu og numu 3,3 milljörðum Bandaríkjadollara árið 1994.
Boutros Boutros-Ghali, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði nýverið: „Þess sjást nú merki að hið sameiginlega öryggiskerfi, sem komið var á fót í San Francisco fyrir nærri 50 árum [með stofnun Sameinuðu þjóðanna], sé loksins að byrja að virka eins og til var ætlast . . . Við erum á góðri leið með að byggja upp nothæft alþjóðakerfi.“ En þrátt fyrir þessa framvindu fara vonir um nýja heimsskipan ört dvínandi. Hvað hefur spillt vonum manna um að losa heiminn við styrjaldarbölið? Er ástæða til að ætla að við munum einhvern tíma sjá frið um heim allan? Þessum spurningum verður svarað í greinunum á eftir.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Herflugvélar: USAF.
Loftvarnabyssur: U.S. National Archives.