Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.5. bls. 3-5
  • Áform manna um alþjóðaöryggi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Áform manna um alþjóðaöryggi
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hið mikla áform manna
  • Kalda stríðið
  • Tíminn eftir kalda stríðið
  • Er heimsfriður í augsýn?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
  • Getur heimurinn losnað við styrjaldarbölið?
    Vaknið! – 1996
  • Eiga áformin um alþjóðaöryggi eftir að heppnast?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Hver getur komið á varanlegum friði?
    Vaknið! – 1996
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.5. bls. 3-5

Áform manna um alþjóðaöryggi

„Þegar allt þetta er afstaðið viljum við græða sárin. Við viljum gera það sem við getum til að greiða fyrir því sem ég vil í bjartsýni minni kalla nýja heimsskipan.“ — George Bush Bandaríkjaforseti í janúar 1991, skömmu eftir að stríðið við Íraka hófst.

„Hugmyndir Bush forseta um nýja heimsskipan leggja áherslu á mikilvægi þess að lög og regla ríki og þá trú að þjóðirnar séu sameiginlega ábyrgar fyrir frelsi og réttlæti. Með lokum kalda stríðsins stöndum við á þröskuldi nýrra tíma.“ — Sendiherra Bandaríkjanna í Ástralíu í ágúst 1991.

„Er ég horfi á framgang lýðræðisins um allan heim vaknar með mér sú von að við stöndum kannski nær nýrri heimsskipan en nokkru sinni fyrr. — George Bush Bandaríkjaforseti í september 1991.

MARGIR af leiðtogum veraldar tala, líkt og Bush Bandaríkjaforseti, í bjartsýnistón um framtíðina. Er bjartsýni þeirra byggð á raunsæi? Gefa atburðirnir frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar tilefni til slíkrar bjartsýni? Telur þú stjórnmálamenn þess megnuga að tryggja alþjóðaöryggi?

Hið mikla áform manna

„Á tveim síðustu árum síðari heimsstyrjaldarinnar féll yfir ein milljón manna í hverjum mánuði,“ sagði í heimildarmynd sem hét Goodbye War. Á þeim tíma gerðu þjóðirnar sér vel grein fyrir því hve áríðandi væri að gera einhverjar ráðstafanir er komið gætu í veg fyrir að slík styrjöld brytist út aftur. Meðan stríðið var enn í fullum gangi komu fulltrúar 50 þjóða fram með stórkostlegustu áætlun um alþjóðlegt öryggi sem menn höfðu nokkru sinni upphugsað: Stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Í formálsorðum stofnskrárinnar var látinn í ljós sá ásetningur að „forða komandi kynslóðum frá þeirri bölvun sem styrjaldir eru.“ Væntanleg aðildarríki Sameinuðu þjóðanna áttu að „sameina krafta sína í því skyni að viðhalda friði og öryggi á alþjóðavettvangi.“

Fjörutíu og einum degi síðar varpaði flugvél kjarnorkusprengju á Híroshíma í Japan. Hún sprakk yfir miðri borginni og drap yfir 70.000 manns. Þessi sprengja, og sú sem sprakk þrem dögum síðar yfir Nagasakí, batt í reynd enda á stríð Bandaríkjamanna og Japana. Þar eð Þjóðverjar, sem voru bandamenn Japana, höfðu gefist upp þann 7. maí 1945 var síðari heimsstyrjöldinni þar með lokið. En voru allar styrjaldir þá úr sögunni?

Síður en svo. Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur mannkynið mátt þola yfir 150 smærri styrjaldir sem hafa kostað yfir 19 milljónir manna lífið. Ljóst er því að hið mikla áform mannanna, Sameinuðu þjóðirnar, hefur enn ekki komið á alþjóðaöryggi. Hvað fór úrskeiðis?

Kalda stríðið

Frumkvöðlar Sameinuðu þjóðanna sáu ekki fyrir það kapphlaup sem fljótlega hófst milli fyrrverandi bandamanna úr síðari heimsstyrjöldinni. Mörg ríki tóku afstöðu í þessari valdabaráttu sem var kölluð „kalda stríðið“ og var, að hluta til, barátta milli kapítalismans og kommúnismans. Í stað þess að sameina krafta sína til að binda enda á stríð studdu þjóðafylkingarnar tvær hvor sinn stríðsaðila í svæðisbundnum átökum og börðust þannig hvor gegn annarri í Asíu, Afríku og Mið- og Suður-Ameríku.

Síðla á sjöunda áratugnum tók að draga úr kalda stríðinu. Þíðan náði hámarki árið 1975 þegar 35 ríki undirrituðu Helsinkisáttmálann sem svo er kallaður. Sovétríkin og Bandaríkin voru meðal þátttakenda, ásamt bandamönnum sínum í Evrópu. Öll ríkin hétu því að vinna að „friði og öryggi“ og „forðast . . . valdbeitingu eða hótun um valdbeitingu gegn yfirráðasvæði eða pólitísku sjálfstæði nokkurs ríkis eða að beita nokkrum þeim ráðum sem stríða gegn markmiðum Sameinuðu þjóðanna.“

En þessar hugmyndir báru lítinn ávöxt. Í byrjun níunda áratugarins hafði spennan milli risaveldanna vaxið á nýjan leik. Svo mögnuð varð hún að árið 1982 viðurkenndi nýkjörinn framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, dr. Javier Pérez de Cuéllar, að samtökunum hefði mistekist ætlunarverk sitt og varaði við „nýju stjórnleysi á alþjóðavettvangi.“

Núna eru framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og aðrir leiðtogar samt sem áður bjartsýnir. Í fréttum er talað um að kalda stríðið sé nú liðin tíð. Hvað olli þessari breytingu?

Tíminn eftir kalda stríðið

Þar kom meðal annars til ráðstefna 35 þjóða um öryggi og samvinnu í Evrópu. Árið 1986 undirrituðu þær hina svonefndu Stokkhólmsyfirlýsingu þar sem þær staðfestu skuldbindingar sínar gagnvart Helsinkisáttmálanum frá 1975.a Í Stokkhólmsyfirlýsingunni eru settar fjölmargar reglur um eftirlit með hernaðarumsvifum. „Árangur síðastliðinna þriggja ára er hvetjandi og framkvæmdin er komin fram úr skriflegum ákvæðum Stokkhólmsyfirlýsingarinnar,“ að því er SIPRI (Alþjóðafriðarrannsóknarstofnunin í Stokkólmi) sagði í árbók sinni árið 1990.

Árið 1987 komust risaveldin að einstæðu samkomulagi um að eyða öllum flugskeytum á landi með drægi á bilinu 500 til 5500 kílómetrar. „Eyðing flugskeytanna og skotpallanna fer fram samkvæmt áætlun og báðir aðilar halda ákvæði samningsins eins og vera ber,“ að sögn SIPRI.

Ýmsar fleiri ráðstafanir hafa verið gerðar í því skyni að draga úr hættunni á kjarnorkustyrjöld. Til dæmis undirrituðu risaveldin samning árið 1988 um „langdræg landflugskeyti og kafbátaflugskeyti.“ Áður en slíkum vopnum yrði beitt átti hvor aðili að gera hinum viðvart, „með minnst 24 stunda fyrirvara, um áformaðan skottíma, skotstað og skotmark.“ Að sögn SIPRI ‚útilokar slíkur samningur nánast að staðbundin átök geti stigmagnast upp í kjarnorkuheimsstyrjöld.‘

Jafnhliða þessu komst skriður á áform um aukið öryggi á alþjóðavettvangi. Í maímánuði 1990 lagði Mikhaíl Gorbatsjov, þáverandi forseti Sovétríkjanna, til á leiðtogafundi risaveldanna í Washington, D.C., að þjóðafylkingarnar tvær í Evrópu undirrituðu friðarsáttmála. Í júlí funduðu hin 16 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins í Lundúnum. Viðbrögð þeirra við tillögu Mikhaíls Gorbatjovs voru þau að báðir aðilar skyldu undirrita „sameiginlega yfirlýsingu þar sem við staðfestum hátíðlega að við séum ekki lengur fjendur og staðfestum þann ásetning okkar að forðast valdbeitingu eða hótun um valdbeitingu.“ Forsíðufyrirsögn í afrísku dagblaði talaði um þetta sem „Risaskref í átt til heimsfriðar.“

Síðan, rétt fyrir leiðtogafund risaveldanna í Helsinki, sagði talsmaður Bandaríkjastjórnar að ‚hættan á stríði í Miðausturlöndum væri að hleypa af stokkunum nýrri, sameiginlegri áætlun að heimsfriði.‘ Heimsfriðnum virtist stofnað í voða þegar Írakar réðust inn í Kúveit og hætta virtist á að allt færi í bál og brand í Miðausturlöndum. Undir forystu Sameinuðu þjóðanna hrakti alþjóðlegur herafli undir stjórn Bandaríkjanna innrásarliðið aftur heim til sín. Hinn alþjóðlegi einhugur í því stríði vakti vonir í brjósti sumra um að upp væru runnir tímar nýrrar samvinnu.

Margt hefur gerst á vettvangi heimsmálanna síðan. Einkum hefur eðli þess sem eitt sinn hétu Sovétríkin breyst verulega. Eystrasaltsríkjunum var leyft að lýsa yfir sjálfstæði og önnur lýðveldi í Sovétríkjunum fylgdu í kjölfarið. Blóðug þjóðernisátök blossuðu upp í löndum sem höfðu virst órjúfanleg heild undir miðstýringu kommúnista. Í lok ársins 1991 voru Sovétríkin opinberlega lögð niður.

Þessar róttæku breytingar á vettvangi heimsstjórnmálanna hafa opnað Sameinuðu þjóðunum dyr nýrra tækifæra. Dagblaðið The New York Times sagði þar um: „Dvínandi spenna á alþjóðavettvangi og hinn nýi samstarfsvilji milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna getur haft í för með sér að Sameinuðu þjóðirnar eigi eftir að gegna stærra hlutverki í alþjóðamálum.“

Er nú loks komið að því að þessi 47 ára gömlu samtök fái að njóta sannmælis? Stöndum við á þröskuldi þess sem Bandaríkin hafa kallað „nýja öld, nýtt árþúsund friðar, frelsis og velmegunar“?

[Neðanmáls]

a Þessi sáttmáli er sá fyrsti og þýðingarmesti af margþættu samkomulagi sem Kanadamenn, Bandaríkjamenn og Sovétmenn undirrituðu í Helsinki ásamt 32 öðrum þjóðum. Opinbert heiti aðalsamningsins er Lokasamningur ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu. Meginmarmið hans var að draga úr spennunni milli austurs og vesturs. — World Book Encyclopedia.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila