Stjórnaðu lífi Þínu núna!
VÍSINDARANNSÓKNIR á atferli manna og áhugahvötum hafa gagnast okkur á marga vegu. Til dæmis kann ítarlegur skilningur á eðli sjúkdóms að hafa hjálpað okkur að takast á við hann. En um leið er skynsamlegt að vera varkár þegar æsifengnar kenningar eiga í hlut, einkum þegar þær virðast stangast á við viðurkennd lögmál.
Þær spurningar vakna í sambandi við erfðafræði og atferli hvort við getum afsalað okkur algerlega ábyrgð á gerðum okkar. Getum við afsakað okkur eða jafnvel kennt einhverjum eða einhverju öðru um sérhverja ógætni eða afglöp og gengið þannig í lið með hinni ört vaxandi „ekki ég“ kynslóð? Engan veginn. Flestir þiggja fúslega heiðurinn af öllu sem þeir afreka í lífinu. Hví skyldu þeir ekki líka vera fúsir til að taka ábyrgð á mistökum sínum?
Við getum því spurt: Hvað segir orð Guðs, heilög Biblía, um það hver eða hvað stjórni lífi okkar nú á dögum?
Hvert er viðhorf Biblíunnar?
Það fyrsta, sem við þurfum að viðurkenna, er að við erum öll fædd syndug vegna þess sem við höfum erft frá fyrstu foreldrum okkar, Adam og Evu. (Sálmur 51:7) Auk þess lifum við á sérstökum tímum, sem kallaðir eru ‚síðustu dagar,‘ og eigum við „örðugar tíðir“ að glíma. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Það þýðir almennt séð að það er erfiðara fyrir okkur að hafa heilbrigða stjórn á lífi okkar en var hjá forfeðrum okkar.
Engu að síður hafa allir menn frjálsa siðferðisvitund og geta tekið sínar eigin ákvarðanir. Að því leyti hafa þeir stjórn á lífi sínu. Þannig hefur það verið allt frá öndverðu eins og sjá má af orðum Jósúa til Ísraelsmanna: „Kjósið . . . í dag, hverjum þér viljið þjóna.“ — Jósúabók 24:15.
Biblían segir að Satan djöflinum hafi verið varpað niður af himnum og að hann hafi sterkari áhrif til ills á allt mannkynið en nokkru sinni fyrr. Hún segir okkur einnig að jafnvel á dögum Jóhannesar postula hafi allur heimurinn verið á valdi hins vonda. (1. Jóhannesarbréf 5:19; Opinberunarbókin 12:9, 12) En alvaldur Guð stjórnar ekki hverri athöfn okkar eða ákvarðar okkur fyrirfram ákveðin endalok sem hann einn þekkir, og eins ættum við ekki að kenna Satan beinlínis um hver einustu mistök okkar eða óhöpp. Hið öfgalausa viðhorf Biblíunnar er að ‚það sé eigin girnd sem freisti sérhvers manns og dragi hann og tæli. Þegar girndin síðan sé orðin þunguð ali hún synd, og þegar syndin sé orðin fullþroskuð fæði hún dauða.‘ (Jakobsbréfið 1:14, 15) Páll postuli skrifaði þessi innblásnu orð: „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ — Galatabréfið 6:7.
Jehóva Guð gerir því hvern og einn ábyrgan fyrir verkum sínum. Við verðum að gæta þess að reyna ekki að afsaka okkur með erfðafræðilegri gerð okkar eða arfgengum ófullkomleika. Guð lét hið ofbeldisfulla kynvillingasamfélag Sódómu og Gómorru til forna svara til saka fyrir spillingu sína. Ljóst er að hann leit ekki á borgarbúa sem ósjálfráða ólánsmenn sem komust ekki hjá því að vera vondir vegna einhvers erfðafræðilegs galla. Á sama hátt voru margvísleg ill áhrif í umhverfi Nóa og samtíðarmanna hans, en hver og einn, sem vildi komast lifandi gegnum hið yfirvofandi flóð, þurfti eftir sem áður að velja, að taka persónulega ákvörðun. Fáeinir völdu rétt. Flestir tóku ranga ákvörðun.
Hebreski spámaðurinn Esekíel staðfestir að sá sem vilji njóta velþóknunar Guðs verði sjálfur að stjórna lífi sínu. „Varir þú hinn óguðlega við og snúi hann sér þó ekki frá guðleysi sínu og óguðlegri breytni sinni, þá mun hann deyja fyrir misgjörð sína, en þá hefir þú frelsað sál þína.“ — Esekíel 3:19.
Besta fáanlega hjálpin
Við þurfum að sjálfsögðu öll að fá hjálp til að stjórna lífi okkar dags daglega, og fyrir mörg okkar er það ekki auðvelt. En við þurfum ekki að örvænta. Enda þótt Guð sætti sig engan veginn við arfgengar, syndugar tilhneigingar veitir hann okkur bestu hjálpina sem fáanleg er ef við viljum bæta atferli okkar — heilagan anda sinn og innblásinn sannleika. Hvað sem arfgengum tilhneigingum líður og ytri áhrifum sem við verðum fyrir, getum við „afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðst hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.“ — Kólossubréfið 3:9, 10.
Margir kristnir menn í Korintusöfnuðinum gerðu róttækar breytingar á hegðun sinni. Hin innblásna frásaga segir: „Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa. Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.“ — 1. Korintubréf 6:9-11.
Ef við eigum í baráttu við ófullkomleika okkar skulum við ekki láta undan. Margir kristnir nútímamenn hafa sýnt og sannað að þeir gátu með hjálp Jehóva ‚endurnýjað hugarfarið og fengið að reyna hver væri vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.‘ Þeir næra hugann á því sem er satt, rétt, hreint, elskuvert, dyggð og lofsvert og ‚hugfesta það.‘ Þeir nærast á fastri, andlegri fæðu og hafa jafnt og þétt þjálfað skilningarvitin til að greina gott frá illu. — Rómverjabréfið 12:2; Filippíbréfið 4:8; Hebreabréfið 5:14.
Það er uppörvandi að vita af baráttu þeirra, tímabundnum mistökum og loks sigri sem þeir hafa unnið með hjálp heilags anda Jehóva Guðs. Guð fullvissar okkur um að breytingar á hegðun snúi oft að hjartanu og löngunum þess: „Speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg. Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig, til þess að frelsa þig frá vegi hins illa.“ — Orðskviðirnir 2:10-12.
Þess vegna skaltu ‚kosta kapps‘ um að stjórna lífi þínu núna ef þú vilt gera eilíft líf að takmarki þínu — líf án erfiðleika þessa illa heims og án lamandi ófullkomleika. Og hafðu himneska visku að leiðarljósi. (Lúkas 13:24) Notfærðu þér hjálp heilags anda Jehóva þannig að þú getir sýnt sjálfstjórn sem er einn af ávöxtum andans. Þroskaðu með þér innilega löngun til að samræma líf þitt lögum Guðs og farðu eftir ráðleggingunni: „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.“ (Orðskviðirnir 4:23) Að höndla „hið sanna líf“ í nýjum heimi Guðs — þar sem hann lagfærir alla erfðagalla á grundvelli trúar á lausnarfórn Jesú Krists — er þess virði að leggja hvað sem er á sig til að stjórna lífi sínu í þessum heimi! — 1. Tímóteusarbréf 6:19; Jóhannes 3:16.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Biblíunám getur styrkt okkur til að sigrast á djúpstæðum veikleikum.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Biblíunám getur hjálpað okkur að fylgja siðferðisstaðli Guðs.