Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.4. bls. 4-9
  • Trúarstríð í Frakklandi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Trúarstríð í Frakklandi
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Sögulegur bakgrunnur
  • Grimmileg kúgun
  • Forleikur styrjaldar
  • Fyrstu þrjú stríðin
  • Blóðbaðið á degi „heilags“ Bartólómeusar
  • Trúarstríðin halda áfram
  • Ávöxtur styrjaldanna
Vaknið! – 1997
g97 8.4. bls. 4-9

Trúarstríð í Frakklandi

SUNNUDAGINN 1. mars 1562 riðu tveir af forkólfum kaþólskrar trúar í Frakklandi ásamt vopnuðum vörðum til þorpsins Vassy austur af París. Þetta voru hertoginn af Guise og Karl bróðir hans sem var kardínáli í Lorraine. Þeir ákváðu að koma við í kirkjunni í Vassy og sitja messu.

Skyndilega heyrðu þeir sálmasöng nokkur hundruð mótmælenda sem komið höfðu saman í hlöðu til tilbeiðslu. Hermennirnir ruddust inn. Í ringulreiðinni, sem af hlaust, skiptust menn á móðgunum og hófu svo grjótkast. Hermennirnir hófu skothríð og drápu tugi mótmælenda og særðu hundrað.

Hver var kveikjan að þessu fjöldamorði? Hvernig brugðust mótmælendur við?

Sögulegur bakgrunnur

Frakkland var þéttbýlt og í góðum efnum á öndverðri 16. öld. Jafnhliða þessari velsæld í efnahag og búsetu var reynt að gera kaþólsku trúna andlegri og bróðurlegri. Fólk vildi sjá kirkjuna fátækari og heilagri. Sumir prestar, fræðimenn og húmanistar kröfðust trúarlegra umbóta til að stemma stigu við ranglæti háttsettra preláta og vanhæfi lágtsettra klerka. Kaþólski biskupinn Guillaume Briçonnet var einn þeirra kennimanna sem barðist fyrir umbótum.

Briçonnet hvatti alla í biskupsdæmi sínu, Meaux, til að lesa Ritninguna. Hann kostaði jafnvel nýja þýðingu kristnu Grísku ritninganna á frönsku. Með þessu kallaði hann yfir sig reiði Guðfræðiháskólans í Sorbonne í París, sem var verndari kaþólsks rétttrúnaðar, og tálmaði það umbótaviðleitni hans. En biskupinn naut verndar Frans 1. sem var konungur Frakklands frá 1515 til 1547. Á þeim tíma var konungurinn hlynntur umbótum.

En Frans 1. umbar gagnrýni á kirkjuna aðeins að því marki að hún ógnaði ekki almennri reglu og þjóðareiningu. Árið 1534 hengdu öfgamenn úr hópi mótmælenda upp veggspjöld þar sem kaþólska messan var fordæmd sem skurðgoðadýrkun. Þeir negldu jafnvel upp veggspjald á svefnherbergisdyr konungs. Við það kúventi Frans 1. í afstöðu sinni og snerist af hörku gegn umbótum.

Grimmileg kúgun

Innan tíðar var farið að brenna mótmælendur á báli. Margir húmanistar, stuðningsmenn þeirra og fylgjendur hinnar ungu mótmælendahreyfingar flúðu land. Yfirvöld tóku að ritskoða bækur og hafa eftirlit með kennurum, útgefendum og prenturum.

Andstaða yfirvalda lagðist af fullum þunga á Valdensana. Þeir voru minnihlutahópur biblíuáhugamanna sem bjuggu í fátækum þorpum í suðausturhluta landsins. Sumir voru brenndir á báli, hundruð voru drepnir og um 20 þorp voru jöfnuð við jörðu. — Sjá rammann á blaðsíðu 6.

Kaþólskum biskupum var fullkunnugt að umbóta væri þörf innan kirkjunnar og héldu þing í desember árið 1545 í Trento á Ítalíu. Þegar þinginu lauk árið 1563 varð niðurstaðan í aðalatriðum til „að styrkja hendur þeirra sem voru staðráðnir í að uppræta mótmælendahreyfinguna,“ að sögn bókarinnar The Cambridge Modern History.

Forleikur styrjaldar

Margir umbótasinnar innan kaþólsku kirkjunnar voru orðnir langeygðir eftir breytingum og gengu til liðs við mótmælendahreyfinguna. Um árið 1560 slógust margir franskir aðalsmenn og stuðningsmenn þeirra í lið með húgenottum eins og mótmælendur í Frakklandi voru kallaðir á þeim tíma. Húgenottar létu æ meira að sér kveða. Opinberar samkomur þeirra voru stundum tilefni ögrunar og fjandskapar. Til dæmis söfnuðust þúsundir þeirra saman í París árið 1558 þar sem þeir sungu sálma samfleytt í fjóra daga.

Þessu reiddust bæði voldugir höfðingjar kaþólsku kirkjunnar og kaþólskur almenningur. Að undirlagi Karls kardínála í Lorraine gaf Hinrik konungur 2., sem tekið hafði við af föður sínum, Frans 1., út Écouen-tilskipunina í júní árið 1559. Yfirlýstur tilgangur hennar var að uppræta hinn „illræmda lúterska óþjóðalýð.“ Hún var kveikjan að ógnarherferð gegn húgenottum í París.

Hinrik 2. dó fáeinum vikum síðar af sárum er hann hlaut á burtreiðum. Að undirlagi Guise-ættarinnar endurnýjaði sonur hans, Frans konungur 2., tilskipunina sem kvað á um dauðarefsingu forhertra mótmælenda. Frans 2. dó árið eftir og móðir hans, Katrín af Medici, ríkti fyrir hönd bróður hans, Karls 9., sem var tíu ára. Sáttarstefna Katrínar féll Guise-ættinni illa sem var staðráðin í að útrýma mótmælendahreyfingunni.

Árið 1561 kallaði Katrín saman málþing í Poissy í grennd við París þar sem guðfræðingar kaþólskra og mótmælenda hittust. Í tilskipun, sem gefin var út í janúar 1562, veitti Katrín mótmælendum frelsi til að koma saman til tilbeiðslu utan borganna. Kaþólskir menn voru ævareiðir! Þar með var grunnurinn lagður að þeim atburði sem gerðist tveim mánuðum síðar — fjöldamorðinu á mótmælendum í hlöðunni í þorpinu Vassy sem áður er lýst.

Fyrstu þrjú stríðin

Manndrápin í Vassy hleyptu af stað fyrsta trúarstríðinu af átta í Frakklandi, með hryllilegum manndrápum á báða bóga allt frá 1562 fram á miðjan síðasta áratug 16. aldar. Enda þótt pólitísk og þjóðfélagsleg deilumál kæmu einnig við sögu var það fyrst og fremst trúin sem var hvati blóðsúthellinganna.

Þessu fyrsta stríði lauk eftir orustuna í Dreux í desember árið 1562 sem kostaði 6000 manns lífið. Amboise-friðarsamningurinn, sem undirritaður var í mars 1563, veitti aðalsmönnum húgenotta takmarkað trúfrelsi á vissum stöðum.

„Ótti húgenotta við alþjóðlegt samsæri kaþólskra var kveikjan að öðru stríðinu,“ segir alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica. Á þeim tíma stunduðu kaþólsk yfirvöld það að hengja almenna borgara fyrir það eitt að vera húgenottar. Árið 1567 reyndu húgenottar að ná Karli 9. og Katrínu móður hans á sitt vald, og þá braust annað stríðið út.

Sagnfræðingarnir Will og Ariel Durant lýsa sérstaklega blóðugum bardaga í St.-Denis utan við París og segja svo: „Enn á ný veltu Frakkar fyrir sér hvaða trú það væri sem leitt hefði menn út í slíkt blóðbað.“ Skömmu síðar, með Longjumeau-friðarsamningnum í mars 1568, var húgenottum veitt sama, takmarkaða frjálsræðið og þeir höfðu notið samkvæmt Amboise-friðarsamningnum.

En kaþólskir menn voru ævareiðir og neituðu að halda ákvæði friðarsamningsins. Þriðja trúarstríðið braust því út í september 1568. Í friðarsamningnum, sem gerður var eftir það, var slakað enn meira til gagnvart húgenottum. Þeim voru veittar víggirtar borgir, þeirra á meðal hafnarborgin La Rochelle. Og áhrifamikill höfðingi af hópi mótmælenda, Coligny aðmíráll, var skipaður í ráðgjafarnefnd konungs. Aftur voru kaþólskir menn ævareiðir.

Blóðbaðið á degi „heilags“ Bartólómeusar

Um ári síðar, hinn 22. ágúst 1572, var reynt að ráða Coligny af dögum í París er hann var á gangi frá Louvre-höll til heimilis síns. Tilræðið mistókst. Mótmælendur voru hamstola og hótuðu grimmilegum hefndum ef réttlætinu yrði ekki fullnægt þegar í stað. Á fundi með einkaráði sínu ákváðu hinn ungi Karl konungur 9., móðir hans, Katrín af Medici, og nokkrir höfðingjar að ryðja Coligny úr vegi. Til að komast hjá hefndaraðgerðum fyrirskipuðu þau jafnframt að allir mótmælendur, sem komnir voru til Parísar í tilefni af brúðkaupi mótmælandans Hinriks af Navarre og dóttur Katrínar, Margrétar af Valois, skyldu myrtir.

Aðfaranótt 24. ágúst var kirkjuklukkunum í Saint-Germain-l’Auxerrois, gegnt Louvre, hringt til merkis um að blóðbaðið skyldi hefjast. Hertoginn af Guise og menn hans hröðuðu sér til byggingarinnar þar sem Coligny svaf. Þar var Coligny drepinn, kastað út um glugga og lík hans limlest. Kaþólski hertoginn lét boð út ganga: „Drepið þá alla. Það er skipun konungs.“

Frá 24. til 29. ágúst var ógnin allsráðandi á götum Parísar. Sumir segja að Signa hafi litast rauð af blóði húgenotta sem myrtir voru í þúsundatali. Miklu blóði var úthellt í öðrum borgum. Áætluð tala fallinna liggur á bilinu 10.000 til 100.000, en flestir sagnfræðingar eru sammála um að minnst 30.000 hafi fallið.

„Ein staðreynd, sem er jafnhryllileg og blóðbaðið sjálft, er fögnuðurinn sem það vakti,“ segir sagnfræðingur. Er Gregoríus páfi 13. frétti af fjöldamorðunum fyrirskipaði hann þakkargerðarathöfn og sendi Katrínu af Medici heillaóskir. Hann fyrirskipaði jafnframt að sleginn skyldi sérstakur minnispeningur í tilefni morðanna á húgenottum, og lét mála mynd af fjöldamorðunum með áletruninni: „Páfi leggur blessun sína yfir drápið á Coligny.“

Sagt er að eftir fjöldamorðin hafi Karl 9. oftar en einu sinni séð fórnarlömb sín í sýn og hrópað til hjúkrunarkonu sinnar: „Hvílíkum illskuráðum hef ég fylgt! Ó, Guð minn, fyrirgefðu mér!“ Hann lést árið 1574, 23 ára að aldri, og bróðir hans, Hinrik 3., tók við ríki af honum.

Trúarstríðin halda áfram

Á sama tíma æstu leiðtogar kaþólskra almenning upp gegn húgenottum. Í Toulouse hvöttu kaþólskir klerkar fylgjendur sína: „Drepið alla, rænið og ruplið; við erum feður ykkar. Við verndum ykkur.“ Með ofbeldi og kúgun gáfu konungur, þing, landstjórar og höfuðsmenn fordæmið, og kaþólski fjöldinn fylgdi.

En húgenottar svöruðu fyrir sig. Innan tveggja mánaða frá fjöldamorðunum á degi „heilags“ Bartólómeusar hófu þeir fjórða trúarstríðið. Á þeim stöðum þar sem þeir voru fjölmennari en kaþólskir eyðilögðu þeir styttur, róðukrossa og ölturu í kaþólskum kirkjum og drápu jafnvel kaþólska menn. „Guð vill að hvorki sé þyrmt borgum né fólki,“ fullyrti Jóhann Kalvín, leiðtogi franskra mótmælenda, í bæklingi sínum sem hann nefndi „Yfirlýsingu til viðhalds sannri trú.“

Fjögur trúarstríð fylgdu í kjölfarið. Hinu fimmta lauk árið 1576 er Hinrik konungur 3. undirritaði friðarsamning sem veitti húgenottum fullt trúfrelsi alls staðar í Frakklandi. Í París, sem var eitt helsta vígi kaþólskunnar, var Hinrik 3. talinn of eftirgefanlegur við húgenotta. Borgarbúar gerðu að lokum uppreisn og ráku hann frá völdum. Kaþólskir menn skipuðu eigin stjórn, helga bandalagið, undir forystu Hinriks af Guise.

Að lokum, í áttunda stríðinu eða stríði Hinrikanna þriggja, gerði Hinrik 3. (kaþólskur) bandalag við arftaka sinn, Hinrik af Navarre (mótmælanda) gegn Hinriki af Guise (kaþólskur). Hinriki 3. tókst að láta myrða Hinrik af Guise, en í ágúst 1589 réði svartmunkur nokkur Hinrik 3. af dögum. Þar með varð Hinrik af Navarre, sem hafði verið þyrmt 17 árum áður í Bartólómeusarvígunum, Hinrik konungur 4.

Þar eð Hinrik 4. var húgenotti neituðu Parísarbúar að lúta honum. Hið helga bandalag kaþólskra skipulagði vopnaða mótspyrnu gegn honum út um land allt. Hinrik vann nokkra bardaga, en þegar spænskur her kom til að liðsinna kaþólskum mönnum ákvað hann loksins að afneita mótmælendatrúnni og taka kaþólska trú. Hinrik var krýndur 27. febrúar 1594 og kom til Parísar þar sem fólkið, uppgefið eftir stríðin, hyllti hann sem konung.

Þannig lauk frönsku trúarstríðunum sem staðið höfðu í meira en 30 ár, þar sem kaþólskir og mótmælendur höfðu stráfellt hvorir aðra til skiptis. Hinn 13. apríl 1598 gaf Hinrik 4. út hina sögufrægu Nantes-tilskipun sem veitti mótmælendum samvisku- og trúfrelsi. Að sögn páfa var tilskipunin „hið versta sem hugsast gat því að hún veitti öllum samviskufrelsi, en það er það hræðilegasta sem til er í heiminum.“

Kaþólskum mönnum alls staðar í Frakklandi þótti sem Hinrik hefði með tilskipuninni svikið loforð sitt um að styðja trú þeirra. Kirkjan unni sér ekki hvíldar fyrr en nálega einni öld síðar þegar Loðvík 14. afturkallaði Nantes-tilskipunina og hrinti af stað enn harðari ofsóknum á hendur húgenottum.

Ávöxtur styrjaldanna

Auður Frakklands var uppurinn undir lok 16. aldar. Helmingur ríkisins hafði verið umsetinn, rændur, endurkeyptur eða eyddur. Hermenn gerðu óhóflegar kröfur á hendur almenningi sem leiddi til uppreisna meðal bænda. Mótmælendum hafði fækkað um aldamótin 1600, en þeir höfðu verið strádrepnir í fjöldamorðum, dæmdir til dauða, gerðir landrækir eða gengið af trúnni.

Að því er best varð séð höfðu kaþólskir menn unnið frönsku trúarstríðin. En blessaði Guð sigur þeirra? Greinilega ekki. Langþreyttir á öllum þessum drápum í nafni Guðs gerðust margir Frakkar afhuga trúnni. Þeir voru fyrirrennarar þess sem kallað hefur verið andkristna stefnan á 18. öld.

[Innskot á blaðsíðu 9]

„Guð vill að hvorki sé þyrmt borgum né fólki.“ Svo fullyrti leiðtogi franskra mótmælenda.

[Rammi á blaðsíðu 6]

Valdensarnir voru staðfastir — Með hvaða afleiðingum?

Pierre Valdés var auðugur kaupmaður i Frakklandi á 12. öld. Á þeim tíma hélt rómversk-kaþólska kirkjan fólki viljandi fáfróðu um Biblíuna, en Valdés lét á eigin kostnað þýða guðspjöllin og aðrar biblíubækur á tungu almennings í Suðaustur-Frakklandi. Hann hætti kaupmennsku og helgaði sig prédikun fagnaðarerindisins. Fljótlega slógust margir í lið með honum og árið 1184 bannfærði Lúcíus páfi 3. hann og félaga hans.

Með tímanum var farið að kalla þessa hópa biblíusinnaðra prédikara Valdensa. Þeir hvöttu til þess að menn tækju aftur upp trú og siði frumkristninnar. Þeir höfnuðu hefðbundnum siðum og trú kaþólskra, þar á meðal aflátssölu, bænum fyrir látnum, hreinsunareldi, Maríudýrkun, bænum til “dýrlinga,“ ungbarnaskírn, dýrkun á róðukrossinum og kenningunni um eðlisbreytingu brauðs och víns í líkama og blóð Krists. Það olli því að Valdensarnir máttu oft þola hræðilegar þjáningar af hendi kaþólsku kirkjunnar. Sagnfræðingurinn Will Durant lýsir ástandinu þegar Frans konungur 1. hóf herferð gegn þeim sem ekki voru kaþólskrar trúar:

“Tournon kardínáli fullyrti að Valdensarnir væru sekir um samsæri gegn strjórninni og taldi hinn sjúka, reikula konung á að undirrita tilskipun (1. janúar 1545) þess efnis að allir Valdensar, sem reyndust sekir umtrúvillu, skyldu líflátnir. . . .Á innan við viku (12.-18. apríl) voru nokkur þorp brennd til grunna; í einu þeirra voru 800 karlmenn, konur og börn strádrepin; á tveim mánuðum voru 3000 manns drepnir, 22 þorp jöfnuð við jörðu og 700 karlmenn gerðir galeiðuþrælar. Tuttugu och fimm dauðskelfdar konur, sem leituðu skjóls í helli, köfnuðu þegar kveiktur var eldur í hellismunnanum.“

Durant segir um þessa atburði: “Þessar ofsóknir voru verstu mistökin í stjórnartíð Frans.“ En hvaða áhrif höfðu þær á þá sem urðu vitni að staðfestu Valdensanna í ofsóknunum sem konungur heimilaði? Durant skrifar: “Hugrekki píslarvottanna gæddi málstað þeirra reisn og ljóma. Þúsundir áhorfenda hljóta að hafa verið snortnir en jafnframt brugðið, og þeir hefðu aldrei gert sér það ómak að snúa baki við arftekinni trú sinni og taka upp aðra ef þessar stórbrotnu aftökur hefðu ekki átt sér stað.“

[Mynd á blaðsíðu 5]

Fjöldamorðin í Vassy voru upphaf trúarstríðanna.

[Rétthafi]

Bibliothèque Nationale, París

[Mynd á blaðsíðu 7]

Fjöldamorðin á degi „heilags“ Bartólómeusar þar sem kaþólskir menn drápu mótmælendur í þúsundatali.

[Rétthafi]

Ljósmynd: Musée cantonal des Beaux-Arts, Lausanne

[Rammi á blaðsíðu 8]

Mótmælendur eyðilögðu kirkjulegar eignir og drápu kaþólska menn. (að ofan og neðan)

[Rétthafar]

Bibliothèque Nationale, París

Bibliothèque Nationale, París

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila