‚Samspil hárfínna stillinga‘
Eftir fréttaritara Vaknið! í Suður-afríku
MANNSRÖDDIN er furðuverk. Um það bil 100 vöðvar í bringu, hálsi, kjálkum, tungu og vörum vinna saman að myndun óteljandi ólíkra hljóða. Hver vöðvi er knippi hundruða eða þúsunda þráða. Fleiri heilafrumur þarf til að stjórna þessum vöðvaþráðum en vöðvunum í fótleggjum íþróttamanns. Ein taugafruma nægir til að stjórna hverjum 2000 þráðum í kálfavöðva. Hins vegar er hver taugafruma, sem stýrir barkakýlinu, kannski aðeins tengd tveim til þrem vöðvaþráðum.
Hvert einasta orð eða stutt orðasamband, sem maður notar, á sér sitt eigið vöðvahreyfingamunstur. Allar nauðsynlegar upplýsingar til að endurtaka orðasamband eins og „sæll og blessaður“ eru geymdar í þeim heilastöðvum sem stjórna hljóðmynduninni. Þýðir það að heilinn fari eftir sérhæfðu, ósveigjanlegu vöðvahreyfingaforriti til að endurtaka hvert einasta orð eða orðasamband? Nei, máttur málsins er mun undursamlegri en svo. Til dæmis gæti maður verið með sár í munninum sem gerði honum erfitt um vik að bera fram orðin á sinn sérstaka hátt. Heilinn lagar hreyfingar talvöðvanna ómeðvitað að þessu og gerir honum þannig kleift að bera orðin fram sem líkast eðlilegum framburði og mögulegt er. Þetta beinir sjónum að annarri undursamlegri staðreynd.
Einföld kveðja eins og „halló“ getur gefið ýmislegt til kynna. Tónninn í röddinni gefur í skyn hvort sá sem talar er glaður, spenntur, leiður, á þönum, gramur, dapur eða hræddur og getur sagt til um á hvaða stigi þess háttar tilfinningar eru. Já, merking einstakra orða eða orðasambanda getur breyst eftir krafti og samstillingu ýmissa vöðvahreyfinga upp á sekúndubrot.
Læknirinn William H. Perkins segir í bók sinni Stuttering Prevented: „Þegar við tölum með þægilegum hraða gefum við frá okkur 14 hljóð á sekúndu. Það eru tvisvar sinnum fleiri hljóð en þegar við stjórnum tungunni, vörunum, kjálkunum eða öðrum talfærum hverju fyrir sig. En séu þau látin vinna saman að hljóðmyndun vinna þau eins og fingur þjálfaðs vélritara eða píanóleikara. Hreyfingar þeirra skarast á frábæran hátt í samspili hárfínna stillinga.“
Sumir fuglar geta að takmörkuðu leyti hermt eftir hljóðum mannsraddarinnar. En ekkert dýr hefur þannig forritaðan heila að hann geti framkallað mál á sama hátt og maðurinn. Það kemur ekkert á óvart að tilraunir vísindamanna til að kenna öpum skýr málhljóð hafa mistekist. Taugalíffræðingurinn Ronald Netsell segir að líkja megi talhæfninni við „þá óvenjulegu menn sem leika á píanó eingöngu eftir eyranu.“ Niðurstaða orðabókarhöfundarins Ludwigs Koehlers er: „Mannsröddin er leyndardómur: Hún er guðsgjöf, kraftaverk.“