Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 2 bls. 86-bls. 88 gr. 3
  • Skýr framsögn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Skýr framsögn
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Notum tunguna til góðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Talaðu það sem er „gott til uppbyggingar“
    „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
  • ‚Samspil hárfínna stillinga‘
    Vaknið! – 1998
  • Ertu fyrirmynd í tali?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 2 bls. 86-bls. 88 gr. 3

Námskafli 2

Skýr framsögn

Hvað þarftu að gera?

Segðu orðin þannig að áheyrendur skilji þau vel. Til þess þarftu að (1) nota talfærin rétt og (2) skilja formgerð orðanna.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Góð framsögn auðveldar öðrum að skilja mál þitt. Sértu skýrmæltur eykurðu líkurnar á því að þú sért tekinn alvarlega.

TIL AÐ tjá sig skýrt er mikilvægt að tala skýrt. Þú getur haft margt áhugavert, jafnvel mikilvægt, fram að færa en það getur að miklu leyti farið fyrir ofan garð og neðan hjá áheyrendum ef þeir eiga erfitt með að skilja þig.

Ef áheyrendur skilja þig illa er ólíklegt að þú getir hvatt þá til nokkurs hlutar. Þó að þú hafir sterka rödd og hún berist vel nægir það ekki til að örva aðra til dáða ef framburðurinn er óskýr. Það er næstum eins og þú talir erlenda tungu sem áheyrendur skilja ekki. (Jer. 5:15) Biblían bendir á eftirfarandi: „Gefi lúðurinn óskilmerkilegt hljóð, hver býr sig þá til bardaga? Svo er og um yður: Ef þér mælið ekki með tungu yðar fram skilmerkileg orð, hvernig verður það þá skilið, sem talað er? Því að þér talið þá út í bláinn.“ — 1. Kor. 14:8, 9.

Hvað veldur óskýrri framsögn? Sumir opna ekki munninn nægilega vel. Röddin getur orðið kæfð ef kjálkavöðvarnir eru stífir og varirnar hreyfast lítið.

Að sama skapi getur verið erfitt að skilja hraðmæltan mann. Hraðmæli er sambærilegt við að spila hljómplötu hraðar en til er ætlast. Öll orðin eru á sínum stað en þau gagnast lítið því að það er erfitt að grípa þau.

Í sumum tilfellum má rekja óskýra framsögn til talfæragalla. En jafnvel þeir sem eiga við slíkan vanda að glíma geta bætt sig á margan hátt með því að notfæra sér þær ábendingar sem fram koma í þessum námskafla.

Oftar en ekki stafar óskýr framsögn af því að orð renna saman og málhljóð eða endingar falla niður. Þetta er stundum kallað latmæli. Latmæli veldur því að erfitt getur verið að skilja hvað sagt er. Ef orðin renna saman ná áheyrendur kannski einstaka hugmyndum og setningum en verða að giska á annað. Ljóst er að óskýr framsögn getur dregið stórlega úr áhrifamætti þeirrar kennslu sem reynt er að koma á framfæri.

Að temja sér skýra framsögn. Til að tala skýrt er mikilvægt að skilja hvernig orðin eru samsett og mynduð í því máli sem maður talar. Í flestum tungumálum eru orð mynduð úr máleiningum sem kallast atkvæði. Hvert atkvæði er einn bókstafur eða fleiri og á að bera fram sem eina heild. Það á að bera fram öll atkvæði orðs í tali og upplestri, þó svo að áherslan geti verið mismikil. Ef þú vilt bæta skýrleikann skaltu hægja á þér og gera þér far um að bera fram hvert atkvæði. Í fyrstu getur þetta virkað óhóflega nákvæmt en með æfingunni nærðu smám saman að tala eðlilega. Til lipurðar viltu eflaust láta sum orð renna saman í lestri en það ber þó að forðast ef nokkur hætta er á að merking þeirra verði óljós.

Eitt ber að varast: Ef þú æfir þig í góðri framsögn með því að tala og lesa með ofurnákvæmum framburði þarftu að gæta þess að fara ekki að tala þannig dags daglega. Það væri óeðlilegt og tilgerðarlegt.

Ef rödd þín hljómar eilítið kæfð skaltu læra að lyfta hökunni frá brjóstinu. Þegar þú lest upp úr Biblíunni skaltu halda henni nógu hátt til þess að þú þurfir ekki annað en að renna augunum frá áheyrendum niður á bókina. Þá geturðu sagt orðin skýrt og greinilega.

Lærðu líka að slaka á — það bætir raddgæðin. Það er vel þekkt að spenna í andlitsvöðvum eða þeim vöðvum, sem stjórna önduninni, getur haft miður æskileg áhrif á hljóðmyndun og tal. Vöðvaspenna truflar samspil huga, talfæra og öndunar sem á að vera eðlilegt og hnökralaust.

Það þarf að slaka á þeim vöðvum, sem stýra kjálkum og vörum, til að þeir taki greiðlega við skipunum heilans. Varirnar þurfa að geta opnast, lokast og herpst án hindrana til að fullskapa þau mörgu hljóð sem myndast í munnholi og hálsi. Ef kjálkar og varir eru stíf opnast munnurinn ekki nægilega og hljóðinu er þröngvað út á milli tannanna með þeim afleiðingum að röddin verður óþýð og orðin verða kæfð og óskýr. En það má ekki slaka svo á vörum og kjálkum að framburðurinn verði letilegur. Þó að slakað sé á vöðvunum er nauðsynlegt að vanda hljóðmyndunina svo að framsögnin sé skýr.

Þú getur kannað framsögnina og hljóðmyndunina hjá þér með því að lesa upphátt. Taktu vel eftir hvernig þú notar talfærin. Opnarðu munninn nægilega vel til að málhljóðin komist hindrunarlaust út? Mundu að tungan er ekki eina talfærið þótt hún gegni óneitanlega stóru hlutverki. Hálsinn, neðri kjálkinn, varirnar, andlitsvöðvarnir og kverkavöðvarnir gegna hver sínu hlutverki. Ef þér sýnist þú varla hreyfa andlitið þegar þú talar eru verulegar líkur á að þú talir óskýrt.

Hafirðu aðgang að segulbandstæki gætirðu prófað að taka upp hvernig þú talar eðlilega, líkt og þú myndir gera í boðunarstarfinu. Gerðu nokkurra mínútna upptöku af samtalslegu máli. Hlustaðu síðan á upptökuna og taktu eftir hvort þú berð ákveðin orð óskýrt fram. Hlustaðu eftir því hvort hljóð renna saman, eru kæfð eða endingar falla niður og reyndu að átta þig á ástæðunni. Oftast er hægt að ráða bót á slíkum talgöllum með því að beita þeim ráðum sem nefnd eru hér á undan.

Ertu málhaltur? Þá gætirðu æft þig með því að opna munninn örlítið meira en þú ert vanur og reyna að vanda framburðinn enn betur. Dragðu andann djúpt og talaðu rólega. Margir hafa náð að draga verulega úr málhelti með þessari aðferð. Draga má úr smámæli með því að færa tunguna frá framtönnunum þegar segja þarf s-hljóð. En misstu ekki kjarkinn þó að þú leysir ekki vandann að fullu. Hugsanlegt er að Móse hafi verið málhaltur en engu að síður valdi Jehóva hann til að flytja bæði Ísraelsmönnum og faraó Egyptalands áríðandi boð. (2. Mós. 4:10-12) Jehóva mun líka nota þig ef þú ert fús til þess og hann mun blessa þjónustu þína.

ÞANNIG FERÐU AÐ

  • Segðu og lestu einstök orð skýrt, talaðu nægilega hátt og á hóflegum hraða.

  • Gættu þess að orð renni ekki saman og að málhljóð eða endingar falli ekki niður þannig að merkingin verði áheyrendum óljós.

  • Lyftu hökunni frá brjóstinu, horfðu upp og opnaðu munninn vel þegar þú talar.

  • Æfðu þig í að slaka á hálsi, kjálkum og vörum og á kverka- og andlitsvöðvum.

ÆFING: Talaðu eðlilega. Hve vel opnarðu munninn? Þarftu að opna hann aðeins meira og beita andlitsvöðvunum betur? Lestu Matteus 8:23-27 upphátt og æfðu þig í þessu. Lyftu upp hökunni og reyndu að slaka á kjálkavöðvunum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila