Svartidauði var ekki endirinn
Í OKTÓBER árið 1347 komu kaupskip úr austri og sigldu inn í höfnina í Messínu á Sikiley. Sjúkir og deyjandi menn sátu við árarnar. Þeir voru alsettir dökkum kýlum á stærð við egg sem blóð og gröftur vætlaði úr. Sjómennirnir kvöldust ákaflega og dóu nokkrum dögum eftir að fyrstu einkenni gerðu vart við sig.
Rottur hröðuðu sér í land af skipunum og blönduðust nagdýraliði staðarins. Rotturnar báru með sér flær og flærnar sýkil sem var banvænn mönnum. Þannig breiddist plágan mikla út, svartidauði sem var versta drepsótt í sögu Evrópu fram að því.
Plágan tók á sig tvær myndir. Önnur myndin barst þannig að sýkt fló beit mann og sýkillinn barst með blóðinu og olli bólgum og innvortis blæðingum. Hin myndin barst manna í milli við hósta eða hnerra og sýkti lungun. Þar eð báðar myndirnar voru til staðar var plágan gríðarlega skæð og breiddist hratt út. Á aðeins þrem árum lagði hún að velli fjórðung Evrópubúa, á að giska 25 milljónir manna.
Enginn vissi hvernig sjúkdómurinn barst frá manni til manns. Sumir álitu að loftið væri eitrað, ef til vill vegna jarðskjálfta eða óvenjulegrar afstöðu reikistjarnanna. Aðrir héldu að fólk veiktist af því einu að horfa á sýktan mann. En þótt skoðanir væru skiptar var sjúkdómurinn greinilega bráðsmitandi. Franskur læknir sagði að það væri engu líkara en að einn veikur maður „gæti sýkt allan heiminn.“
Menn kunnu enga lækningu og enga leið til að koma í veg fyrir smit. Margir ígrunduðu spádóma Biblíunnar eins og þann sem stendur í Lúkasi 21:11 þar sem spáð er drepsóttum á endalokatímanum. Plágan geisaði þótt peningar streymdu inn til kirknanna. Ítalskur maður skrifaði: „Engum klukkum var hringt og enginn grét þótt misst hefði mikið, því að næstum allir áttu von á dauða sínum . . . Menn höfðu á orði að þetta væri heimsendir og trúðu því.“
En þetta var ekki endirinn. Undir lok 14. aldar var plágan fjöruð út. Heimurinn stóð enn.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 3]
Archive Photos