Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.1. bls. 24-27
  • Kortagerð — lykill að umheiminum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kortagerð — lykill að umheiminum
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Saga kortagerðar
  • Nútímakortagerð
  • Endurspegla landakort veruleikann?
  • Vandi kortagerðarmanna
  • Hvað ber framtíðin í skauti sér?
  • Spurningakassinn
    Ríkisþjónusta okkar – 2000
  • Maðurinn sem kortlagði heiminn
    Vaknið! – 2009
  • „Far þú um landið“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
  • A7-A Helstu atburðir í ævi Jesú á jörð – aðdragandinn að starfi Jesú
    Biblían – Nýheimsþýðingin
Sjá meira
Vaknið! – 1999
g99 8.1. bls. 24-27

Kortagerð — lykill að umheiminum

Eftir fréttaritara Vaknið! í Kanada

„Paradís er einhvers staðar í Austurlöndum fjær. Jerúsalem er miðpunktur allra þjóða og landa, og heimurinn er flatur diskur umluktur ógrynni vatns. Þannig var heimsmynd munkanna, kortagerðarmanna miðalda.“

ÞANNIG komust ritstjórar kortabókarinnar The Reader’s Digest Great World Atlas að orði í inngangi sínum. Trúarhugmyndir af þessum toga eiga sér ekki stoð í Biblíunni en skýra að sumu leyti hvers vegna kortagerð tók litlum framförum snemma á miðöldum.

Kort eru undirstaða landafræðiþekkingar sem er nauðsynleg til að skilja umheiminn. En landafræðikunnátta margra er litlu betri en var á miðöldum. Fyrir um hundrað árum dró rithöfundurinn Mark Twain upp glögga mynd af vankunnáttu samtíðarmanna sinna í skáldsögunni um Stikilberja-Finn. Hátt uppi í loftbelg fullvissaði Finnur vin sinn, Tuma litla, um að þeir væru enn ekki komnir yfir Indianaríki þar eð jörðin væri enn þá græn. Hann hafði nefnilega tekið eftir því á korti að Indiana var bleikt.

Fyrir nokkru hóf bandarískur framhaldsskólakennari landafræðinámsönnina alltaf á því að biðja nemanda um að finna Bandaríkin á heimskorti. Í tíu ár hóf hann kennsluna í bekknum með þessum hætti og segir að ekki í eitt einasta skipti hafi fyrsta nemandanum — eða öðrum nemandanum — tekist að benda á landið! Það vekur enn meiri furðu að „þrír af hverjum tíu Bandaríkjamönnum geta ekki greint norður frá suðri á landakorti,“ að sögn tímaritsins Time.

Saga kortagerðar

Kortagerð er ein elsta og merkilegasta tjáskiptaleið manna. Kort hafa verið rist á stein og tré, teiknuð í sand, á pappír og bókfell, máluð á skinn og dúk og jafnvel mótuð með höndum í snjó.

Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir að elsta þekkta landakortið sé frá því um 2300 f.o.t. og sé „lítil leirtafla frá Babýloníu sem sýni sennilega landareign í fjalladal.“ Babýloníumenn notuðu sams konar leirteikningar af borgarmúrum við skipulagningu íbúðahverfa.

Gríski 2. aldar landfræðingurinn Ptólemeus frá Alexandríu vissi að jörðin væri hnöttótt, alveg eins og Biblían opinberaði á áttundu öld f.o.t. þegar hún sagði að Guð ‚sæti hátt yfir jarðarkringlunni.‘ (Jesaja 40:22) Að sögn tímaritsins Equinox eru teikningar Ptólemeusar „meðal fyrstu skráðra tilrauna í heimslýsingarfræði — kortlagningu á lögun hins þekkta heims.“

Fáir vissu um landakort Ptólemeusar fyrr en þau voru prentuð í kortabók síðla á 15. öld. Eftir það voru þau óspart notuð af sæförum á borð við Kólumbus, Cabot, Magellan, Drake og Vespucci. Hnattlaga heimskort Ptólemeusar minnir enn á nútímalandakort, þó að stærð Evrasíuálfu sé ýkt. Heimsatlasinn Reader’s Digest Atlas of the World segir að þessi ýkta stærð hafi „valdið því að Kólumbus vanmat fjarlægðina til Asíu þegar hann lagði af stað yfir Atlantshafið og áttaði sig ekki á því að hann hefði uppgötvað nýja heiminn.“ Þessi svokallaði Nýi heimur, Ameríka, nefndur í höfuðið á Amerigo Vespucci, birtist fyrst á heimskorti árið 1507.

Sjóferðir, sem farnar voru eftir þetta á landafundatímabilinu frá um 1500 til 1700, veittu kortagerðarmönnum nákvæmari upplýsingar. Sjókortin urðu hernaðarlega mikilvæg og hafa verið kölluð „verkfæri ríkisvaldsins“ og „stríðstól.“ Kortagerðarmenn voru bundnir þagnarheiti, unnu í einangrun og vernduðu kortin að viðlagðri dauðarefsingu. Ef óvinur komst um borð í skip var kortunum, sem geymd voru í þyngdum poka, kastað í sjóinn. Um langa hríð gættu þjóðir opinberra korta sinna vel og vandlega og á stríðstímum fengu aðeins örfáir menn að sjá þau.

Þegar ný lönd uppgötvuðust þurfti að breyta gömlum landamærum. Flæmski landfræðingurinn Gerardus Mercator (1512-1594) teiknaði þá fyrstu vísindalegu kortabókina. Á forsíðu bókarinnar hafði hann mynd af goðsagnarisanum Atlasi af ætt Títana og síðan hefur orðið „atlas“ verið notað um landabréfabækur.

Nútímakortagerð

Landakortin urðu betri með aukinni landafræðiþekkingu. Ný kortagerðartækni átti stóran þátt í þessari þróun. Tímaritið Canadian Geographic lýsir erfiðu starfi landmælingamanna á síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu svo: „Á flekum og eintrjáningum, hestbaki og fótgangandi, hvernig sem viðraði . . . mældu þeir borgir og býli, skóga og akra, moldarslóða og mýflugnafen. Þeir notuðu landmælingakeðjur til að ákvarða fjarlægðir og hornamæli til að reikna horn. Þeir mörkuðu fasta hæðarpunkta út frá stjörnunum . . . og lóðuðu dýpi landgrunnsins.“

Á 20. öldinni fleygði kortagerð fram. Flugvélar búnar myndavélum byrjuðu að taka loftmyndir og með tilkomu gervitungla á sjötta áratugnum skaust kortagerð inn í geimöldina. Undir lok níunda áratugarins gátu landmælingamenn búnir GPS-staðsetningartækjum reiknað út á klukkutíma staðarákvarðanir hvarvetna í heiminum sem tekið hefði marga mánuði fáum árum áður.

Núna nota kortagerðarmenn rafeindatæknina við kortateiknun. Þeir uppfæra kortin með hjálp gervitungla á braut um jörð og flókinna tækja á jörðu niðri. Tölvubúnaður með sérhæfðum forritum gerir þeim kleift að halda utan um billjónir upplýsingabita, bæði um kortagerð og annað. Þannig má búa til landakort eftir pöntun á aðeins nokkrum mínútum, án tímafrekrar handavinnu.

Með slíku landfræðilegu upplýsingakerfi (geographic information system eða GIS) er hægt að yfirfæra á kort nánast hvaða upplýsingar sem er. Hægt er að kalla fram götukort af borgarumferðinni eins og hún er á hverju augnabliki til að stýra henni um háannatíma. Og unnt er að stýra og fylgjast með ferðum flutningabíla, sem þeysast um þjóðvegi, og jafnvel stjórna heyframleiðslu kúabænda.

Endurspegla landakort veruleikann?

„Kort lýgur kannski en það spaugar aldrei,“ skrifaði skáldið Howard McCordin. Þegar til dæmis handteiknað kort sýnir ekki réttu afreinina, sem þú átt að taka til að komast á leiðarenda, er það ekkert aðhlátursefni. Við væntum þess að öll kort séu sannleikanum samkvæm og endurspegli veruleikann. En staðreyndin er sú að þau eru ekki öll sannleikanum samkvæm og endurspegla ekki öll veruleikann.

Skjalavörður nokkur eignaðist litskrúðugt veggkort af Quebecfylki í Kanada og uppgötvaði síðar hneykslanlega villu, að því er hann hélt. „Allt Labrador var talið með Quebec,“ segir hann. „Ég benti samstarfsmanni mínum á það og rak í rogastans þegar hann sagði að þetta væri trúlega ekki yfirsjón, heldur vísvitandi rangfærsla.“ Svo virðist sem Quebec hafi aldrei sætt sig við úrskurð frá árinu 1927 um hvar fylkjamörk þess og Labradors lægju, þannig að kortið endurspeglaði ekki þennan óæskilega veruleika.

Samstarfsmaður skjalavarðarins benti honum á fleiri dæmi um landakort sem voru villandi af ásettu ráði. Síðar skrifaði skjalavörðurinn greinina „Kort sem blekkja“ í tímaritið Canadian Geographic og lagði áherslu á að „auðvelt væri að hagræða kortagerð til að styðja ákveðin sjónarmið.“ Hann skrifaði: „Mér hafði alltaf verið kennt að kort endurspegluðu veruleikann trúfastlega, en hér voru kort sem voru full af lygum!“

Árið 1991 greindi Torontoblaðið The Globe and Mail frá því að „hópur japanskra embættismanna hefði beðið [National Geographic Society] að lita í öðrum lit hinar umdeildu Kúríleyjar sem eru undir yfirráðum Sovétmanna en Japansstjórn gerir tilkall til.“ Af hverju vildu þeir láta skipta um lit? John Garver yngri, aðalkortagerðarmaður National Geographic, svarar: „Þeir vildu fá litnum breytt í grænt af því að Japan er í grænum lit á kortinu.“

Það er því hægt að nota liti á landakortum til að kalla fram viss tengsl eða leggja áherslu á ákveðin einkenni. Þegar gull fannst árið 1897 við eina þverá Klondikefljótsins voru landakort sérstaklega gagnleg til að stuðla að því að rúmlega 100.000 gullleitarmenn flykktust á svæðið. Kortaframleiðendur lituðu Alaska og Yukonsvæðið í sterkgulum lit til að gefa í skyn að gróðavonin væri mikil.

Önnur viðhorf geta breytt útliti landakorta með enn áhrifameiri hætti. Árið 1982 var til dæmis búið til „viðsnúið heimskort“ þar sem suðurhvel jarðar sneri upp. Af hverju? Af því að það var talið merki um yfirburði og virðingu að snúa upp og slíkt kort hefði góð áhrif á fátækari lönd heims staðsett á suðurhveli.

Vandi kortagerðarmanna

Jafnvel þegar kortagerðarmaður vill endurspegla veruleikann er vandkvæðum bundið að gera kort á sléttum fleti. Það stafar af því að myndin aflagast þegar reynt er að yfirfæra kúluflöt á slétt yfirborð. Það mætti líkja því við að reyna að fletja út appelsínubörk í heilu lagi. Lögun heimsálfanna er kannski nákvæm en stærðarhlutföllin eru brengluð. John Garver yngri bendir því á að „eina nákvæma heimskortið sé hnattlaga.“ En hnattlíkön fara ekki beint vel í vasa þannig að flöt og litskrúðug heimskort eru mikils metin og gagnleg.

Árið 1988 gaf National Geographic út nýtt heimskort. Við það tækifæri sagði tímaritið Time um vanda kortagerðarmanna: „Landakort endurspegla oft ekki raunverulega lögun og stærðarhlutföll heimsálfa og úthafa.“ Það má glöggt sjá ef heimskort National Geographic frá árinu 1988 er borið saman við heimskortin sem samtökin gáfu út fyrr á öldinni.

Síðan sagði Time um þær róttæku breytingar sem orðið hefðu á slíkum kortum: „Á nýja heimskortinu, sem [National Geographic Society] er að senda til 11 milljóna félagsmanna sinna, hafa Sovétríkin misst 47 milljónir ferkílómetra lands — meira en tvo þriðju hluta þess svæðis sem þau sýndust ná yfir á kortum National Geographic síðustu hálfa öld.“

Frá tímum Ptólemeusar hafa kortagerðarmenn glímt við þann vanda að sýna landsvæði heims í réttum hlutföllum. Kortavörpunin, sem National Geographic notaði um 66 ára skeið, gerði það að verkum að Alaska var fimm sinnum stærra en í raunveruleikanum! Með þessi aflögunarvandkvæði í huga má betur skilja orð Arthurs Robinsons sem margir telja reyndasta kortagerðarmann Bandaríkjanna. Hann sagði: „Kortagerð er ekki síður list en vísindi.“ Kortaútgáfan, sem National Geographic Society tileinkaði sér árið 1988, „ratar besta meðalveginn milli landafræðinnar og fagurfræðinnar,“ segir Garver.

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Það er greinilega meira fólgið í kortagerð en margir gera sér í hugarlund. Því meiri sem þekkingin á jörðinni er, þeim mun nákvæmari verða kortin. En þessi þekking er ekki auðfengin. Þess vegna sagði rithöfundurinn Lloyd A. Brown fyrir mörgum árum: „Uns sá tími kemur að allir menn geta óttalausir siglt upp að nágrannaströnd og ekið eða flogið yfir hvaða land sem er án þess að verða fyrir skoti eða vera stöðvaðir, verður hið stórfenglega heimskort, sem menn hafa dreymt um í aldaraðir, að bíða betri tíma. Einn góðan veðurdag tekst kannski að ljúka því.“

Til allrar hamingju gefa spádómar Biblíunnar til kynna að öll jörðin verði brátt sameinuð undir stjórn hins skipaða konungs Guðs, Jesú Krists. Um hann segir biblíuspádómur: „Hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.“ (Sálmur 72:8) Þegar landamæradeilur og pólitísk þrætuepli heyra sögunni til og stríðandi þjóðríki eru ekki lengur til, verður loks hægt að gera fullkomið kort af heiminum.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Ptólemeus og heimskort hans.

Gerardus Mercator.

[Rétthafi]

Ptólemeus og Mercator: Culver Pictures; heimskort Ptólemeusar: Gianni Dagli Orti/Corbis; hnöttur: Mountain High Maps® Rétthafi © 1997 Digital Wisdom, Inc.; bakgrunnur mynda á bls. 24-27: The Complete Encyclopedia of Illustration/J. G. Heck

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila