Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.4. bls. 20-23
  • Læknar endurskoða hug sinn til skurðaðgerða án blóðgjafa

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Læknar endurskoða hug sinn til skurðaðgerða án blóðgjafa
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Af hverju er leitað nýrra leiða?
  • Fjölbreytt sjónarmið
  • Nýjar aðferðir
  • Eftirtektarverður árangur
  • Framtíðin
  • Vaxandi eftirspurn eftir læknismeðferð án blóðgjafar
    Vaknið! – 2000
  • Skurðaðgerðir án blóðgjafa njóta vaxandi viðurkenningar
    Vaknið! – 1999
  • Lífi bjargað með blóði – hvernig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
  • Ég tileinkaði mér viðhorf Guðs til blóðs
    Vaknið!: Ég tileinkaði mér viðhorf Guðs til blóðs
Sjá meira
Vaknið! – 1999
g99 8.4. bls. 20-23

Læknar endurskoða hug sinn til skurðaðgerða án blóðgjafa

KANADÍSK móðir þurfti að útskýra fyrir syni sínum hvernig hún hefði fengið alnæmi. Hún hafði smitast af föður hans áður en hann dó og faðirinn hafði trúlega fengið sjúkdóminn með blóðþáttum sem honum voru gefnir við dreyrasýki. Martröð sem þessi er ein ástæða af mörgum fyrir því að samfélag lækna er að endurskoða hug sinn til hlutverks blóðgjafa í læknismeðferð. Dagblaðið The New York Times sló því reyndar upp í fyrirsögn á síðasta ári að skurðaðgerðir án blóðgjafa nytu vaxandi viðurkenningar.

Þessi aukni áhugi á skurðaðgerðum án blóðgjafa hefur orðið tilefni nokkurra ráðstefna um málið. Meðal annars voru haldnar tvær ráðstefnur árið 1997 í Bandaríkjunum (í Boston og Atlanta), ein í Winnipeg í Kanada og ein í Ríga í Lettlandi.

Nú hafa læknar reitt sig á blóðgjafir í meira en 50 ár. Hví skyldu þá rösklega 1400 sérfræðingar frá 12 löndum hafa sótt þessar fjórar ráðstefnur um skurðaðgerðir án blóðgjafa sem dagblað kallaði reyndar „aðferð framtíðarinnar“? Hvað kom fram á þessum ráðstefnum um ný lyf, tæki og aðferðir sem geta komið þér og fjölskyldu þinni að gagni?

Af hverju er leitað nýrra leiða?

Helsta ástæðan er sú að það er engin leið að tryggja heilbrigðan blóðforða. Tórontóblaðið Globe and Mail ræddi til dæmis hinn 31. janúar 1998 um „harmleik af völdum smitaðs blóðs“ í Kanada á níunda áratugnum og sagði: „Lifrarbólga C er mjög alvarlegur og ólæknandi lifrarsjúkdómur. . . . Hugsanlegt er að allt að 60.000 Kanadamenn hafi fengið veiruna með smituðu blóði, og það þýðir að allt að 12.000 manns gætu látist vegna lifrarbólgusmits af völdum blóðgjafar.“

Þótt nýjar skimunaraðferðir hafi dregið stórlega úr smithættunni sagði Horace Krever dómari ráðstefnugestum í Winnipeg: „Blóðforði Kanada hefur aldrei verið algerlega öruggur og getur aldrei orðið það. Notkun blóðs er alltaf áhættusöm.“ Og hættan á smitsjúkdómum og alvarlegri meinsvörun eykst með hverri einingu blóðs sem gefin er.

Jean-Marc Debue, læknir við Clinique des Maussins í París, lauk máli sínu á ráðstefnunni í Ríga með þessum orðum: „Við læknar urðum að endurskoða hefðbundnar lækningaaðferðir okkar. . . . Blóðgjafir hafa lengt líf margra sjúklinga en þær hafa líka eitrað líf margra með ólæknandi sjúkdómi.“

Viðeigandi blóðskimunaraðferðir finnast yfirleitt ekki fyrr en nýr sjúkdómur hefur ógnað um hríð og veita því ekki vernd gegn honum í fyrstu. Dr. Paul Gully frá Ottawa í Kanada, sagði: „Nýlega hefur verið lýst RKS-veiru sem veldur lifrarbólgu G, og hún hefur borist með blóðgjöfum en ekki er vitað hver smithættan er sem stendur.“

Enn einni hættu var lýst í sérblaði tímaritsins Time um læknisfræðileg efni: „Blóðgjafir geta valdið ónæmisbælingu . . . þannig að sjúklingurinn er næmur fyrir sýkingum og er lengur en ella að læknast og ná bata.“

Ekki má svo gleyma sparnaðinum. Að sögn tímaritsins Time getur hver blóðgjöf í Bandaríkjunum kostað jafnvirði 35.000 íslenskra króna. Og sums staðar fer blóðforðinn þverrandi þar eð blóðgjafar eru færri en áður.

Og sjúklingar spara með skurðaðgerð án blóðgjafa af því að sýkingum fækkar og sjúkralega styttist. Durhane Wong-Rieger, frá Félagi dreyrasjúkra í Kanada, sagði um aðgerðir án blóðgjafa á ráðstefnunni í Winnipeg: „Við teljum þær nauðsynlegar. Þær eru fjárhagslega hagkvæmar og tvímælalaust til heilsubótar fyrir sjúklinga.“

Og þeim fjölgar sem óska eftir skurðaðgerð án blóðgjafa. David Rosencrantz, framkvæmdastjóri lækningasviðs Legacy Portland spítalanna í Oregon í Bandaríkjunum, sagði að upphaflega hefðu allir, sem óskuðu eftir læknismeðferð án blóðgjafa, gert það af trúarlegum ástæðum. Nú vilji að minnsta kosti 15 prósent sjúklinga læknismeðferð án blóðgjafa, en það sé ekki af trúarlegum ástæðum.

Fjölbreytt sjónarmið

Það var samhljóða álit manna á ráðstefnunum fjórum að það væri mun öruggara fyrir sjúkling að fá sitt eigið blóð en blóð úr öðrum. Sumir mæltu þar af leiðandi með því að sjúklingi væri dregið blóð til geymslu fyrir aðgerð. En margir bentu á að í neyðartilvikum gefist enginn tími til slíks. Og vottar Jehóva eru af trúarlegum ástæðum mótfallnir því að nota blóð sem búið er að geyma, og gildir þá einu úr hverjum það er.a

Bruce Leone, sem starfar við Duke-háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, sagði á ráðstefnunni í Kanada: „Blóðtaka fyrir aðgerð er dýr, mannfrek og útilokar ekki algengustu dánarorsökina tengda blóðgjöfum [sem er mistök í bókhaldi eða meðferð] og töluverður fyrirvari fyrir aðgerð er nauðsynlegur.“

Margir læknar eru hlynntir áframhaldandi þróun lyfja og aðferða sem dregið geta verulega úr blóðgjöfum. Þeir halda því fram að blóðgjöfum eigi aðeins að beita í neyðartilfellum. En þeir eru líka til sem eru svo til algerlega hættir að gefa sjúklingum blóð. Þeir benda á að gerðar hafi verið mjög erfiðar aðgerðir án blóðgjafa — mjaðmarliðsaðgerðir, flóknar taugaskurðaðgerðir, opnar hjartaaðgerðir á ungbörnum og fullorðnum — og að sjúklingar hafi náð skjótum bata.

Þegar þetta er skrifað bjóða ríflega 100 spítalar víða um heim upp á læknismeðferð án blóðgjafa, og þar af eru rösklega 70 í Bandaríkjunum. Rúmlega 88.000 læknar í heiminum hafa lýst sig fúsa til samvinnu við sjúklinga sem vilja ekki láta gefa sér blóð.

Nýjar aðferðir

Á ráðstefnunni í Atlanta viðurkenndi hver ræðumaðurinn á fætur öðrum að hann hefði fyrst þróað ákveðna aðferð þegar hann hefði haft votta Jehóva til læknismeðferðar.b Margir tóku undir með James Schick, lækni við Encino-Tarzana Regional Medical Center í Los Angeles, sem sagði að nýjar aðferðir, sem hann tók upp við meðhöndlun fyrirbura meðal votta Jehóva, hafi haft í för með sér að hann noti nú helmingi minna blóð en áður við meðferð allra fyrirbura. En nýju aðferðirnar hafa auðvitað líka komið fullorðnum til góða.

Jean-François Hardy, sem er læknir við Montreal Heart Institute, benti á að engin ein aðferð dugi til að hægt sé að gera skurðaðgerðir án blóðgjafa, heldur byggist það á samspili margra úrræða.

Meðal hinna nýju aðferða, sem beitt er, má nefna (1) sérstakan undirbúning fyrir skurðaðgerð, (2) takmörkun blóðmissis í aðgerð og (3) umönnun eftir aðgerð. Tímasetning hefur auðvitað mikil áhrif á það hvaða skurðaðferðum hægt er að beita, það er að segja hvort um er að ræða bráðaaðgerð eða hvort tími gefst til að byggja sjúklinginn upp fyrir aðgerð.

Ákjósanlegast er að undirbúa skurðaðgerð án blóðgjafa með því að byggja upp blóðkornatal sjúklings og almennt heilsufar. Það er meðal annars gert með því að gefa sjúklingi öflug járnlyf og vítamín, ásamt rauðkornavaka þegar það á við, en hann örvar rauðkornamyndun beinmergsins. Með örgreiningartækni er hægt að notast við minni blóðprufur en ella en fá samt meiri upplýsingar úr hverri prufu. Það skiptir miklu máli þegar fyrirburar eiga í hlut og eins eldri sjúklingar sem misst hafa mikið blóð.

Blóðþenslulyf koma að góðu gagni, en þau eru gefin í æð til að auka rúmmál blóðsins. Þrýstiklefar eru notaðir sums staðar til að auka súrefnisupptöku sjúklings sem misst hefur mikið blóð. Robert Bartlett læknir greindi frá því á ráðstefnunni í Atlanta að súrefnisklefi væri mjög gagnlegt hjálpartæki en það þyrfti að nota hann með varúð því að súrefni er eitrað í stórum skömmtum.

Annað skrefið er fólgið í því að takmarka blóðmissi í aðgerð, og þar er um að velja fjölda nýrra tækja og aðferða. Með vissri skurðtækni og réttum tækjum er hægt að draga verulega úr blóðmissi og skurðstærð, eða endurvinna jafnt og þétt það blóð sem sjúklingurinn hefði ella misst í aðgerð. Nefnum fáein dæmi:

◼ Hægt er að brenna fyrir æðar og stöðva blæðingar með rafvefjabrennslutæki.

◼ Nota má argonvefbrennslutæki til að stöðva blæðingar í aðgerð.

◼ Hátíðniskurðhnífur veldur blóðstorkun nánast jafnóðum og skorið er.

◼ Við vissar skurðaðgerðir má nota lyf svo sem tranexamsýru og desmópressín til að auka blóðstorknun og draga úr blæðingum.

◼ Blóðþrýstingslækkun í svæfingu dregur úr blóðmissi.

Framfarir í gerð svonefndra blóðþvottavéla skipta einnig talsverðu máli. Blóðþvottavél er notuð til að safna blóði úr skurðsári í aðgerð og veita því tafarlaust aftur inn í blóðrás sjúklingsins.c Nýrri gerðir þessara véla geta jafnvel skilið sundur blóðhluta meðan þær eru tengdar sjúklingi og endurnýtt þá jafnóðum eftir þörfum.

Vottar Jehóva í Svíþjóð gáfu Lettum tvær blóðþvottavélar eftir ráðstefnuna í Ríga þegar í ljós kom að þá vantaði slíkar vélar. Koma fyrri vélarinnar til Lettlands og kostir skurðaðgerða án blóðgjafa vöktu mikla athygli þar í landi og var fjallað um hvort tveggja í sjónvarpi um allt land.

Oft er beitt sömu aðferðum eftir aðgerð til að byggja upp blóð sjúklings og fyrir aðgerð. En umönnun sjúklinga, sem ekki hafa fengið blóðgjöf, er oft auðveldari en hinna sem fá blóðgjöf. Hverju sætir það?

Eftirtektarverður árangur

Enda þótt skurðaðgerð án blóðgjafa krefjist oft meiri undirbúnings en aðgerð með blóðgjöfum, og sjálf aðgerðin kosti oft meiri vinnu, hafa læknar komist að raun um að sjúklingar eru fljótari að ná sér eftir aðgerð ef þeim er ekki gefið blóð. Þeir eru til að mynda lausir við ýmsa fylgikvilla blóðgjafa og sýnt hefur verið fram á styttri legutíma sjúklinga sem ekki fá blóðgjöf.

Todd Rosengart, læknir við The New York Hospital-Cornell University Medical Center, bendir á að með átta þrepa blóðsparnaðartækni hafi auðveldlega verið hægt að gera flóknar, opnar hjartaaðgerðir án blóðgjafa á spítalanum. Manuel Estioko, læknir við Good Samaritan spítalann í Los Angeles, talaði um „víðtæka reynslu við spítalann af hundruðum opinna hjartaaðgerða án blóðgjafa.“ S. Subramanian læknir skýrði frá góðum árangri af opnum hjartaaðgerðum án blóðgjafa á börnum við Barnaspítala Miami.

Bæklunaraðgerðir, einkum mjaðmarliðsaðgerðir, eru erfiðar viðfangs. En Olle Hägg, læknir við Uddevalla-spítalann í Svíþjóð, sagði á ráðstefnunni í Ríga að með því að sameina „skurðtækni og nákvæmni“ hefði þeim tekist að draga verulega úr blóðmissi sjúklinga sem eru vottar Jehóva. Richard R. R. H. Coombs, við Imperial College School of Medicine í Lundúnum, fullyrti reyndar að hægt sé að gera „99,9 prósent allra bæklunaraðgerða án . . . blóðgjafa.“

Framtíðin

Sífellt fleiri læknar og spítalar eru farnir að gera skurðaðgerðir án blóðgjafa. Og ráðstefnur, þar sem vitneskju um slíkar aðferðir er komið á framfæri, eru afar gagnlegar því að þar kynnast læknar aðferðum sem hefur verið beitt með góðum árangri og eru notaðar að staðaldri annars staðar.

Richard Nalick, sem starfar við University of Southern California School of Medicine, sagði: „Þeim fjölgar jafnt og þétt sem óska eftir læknismeðferð og skurðaðgerðum án blóðgjafa . . . Læknismeðferð og skurðaðgerðir án blóðgjafa eru byggðar á bestu aðferðum sem völ er á, og það má ekki misskilja þær sem lakari meðferðarkost.“

Skurðaðgerðir án blóðgjafa virðast eiga sér bjarta framtíð, bæði vegna hinna þrálátu fylgikvilla blóðgjafa og eins vegna þess að æ fleiri sjúklingar kjósa slíka læknismeðferð.

[Neðanmáls]

a Vottar Jehóva leita læknishjálpar handa sér og börnum sínum. Þeir þiggja hins vegar ekki blóðgjafir vegna þess að Biblían bannar skýrum stöfum að blóð sé tekið inn í líkamann. (1. Mósebók 9:3, 4; Postulasagan 15:28, 29) Nánari upplýsingar er að finna í bæklingnum How Can Blood Save Your Life?, gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

b Þessi umfjöllun Vaknið! um lækningaaðferðir, sem ræddar voru á ráðstefnunum, merkir ekki að blaðið mæli með ákveðnum aðferðum umfram aðrar. Blaðið er einfaldlega að skýra frá framvindu mála.

c Nánari upplýsingar um notkun slíkra véla og hlutverk samviskunnar er að finna í Varðturninum 1. apríl 1994, bls. 30-1.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Sífellt fleiri læknar koma til móts við óskir sjúklinga sinna um skurðaðgerð án blóðgjafa.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila