Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g 7.13 bls. 14-15
  • Afarkostir í nafni Guðs?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Afarkostir í nafni Guðs?
  • Vaknið! – 2013
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Þvingaðir til að taka kaþólska trú
  • „Ranglát, óguðleg, hneykslanleg“
  • Orð Guðs kunngert á Spáni á miðöldum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
  • Landvinningar í nafni kirkjunnar
    Vaknið! – 1985
  • Endurskoðuð útgáfa af Nýheimsþýðingunni á spænsku
    Fleiri viðfangsefni
  • Flotinn ósigrandi — örlagarík herferð hans
    Vaknið! – 2007
Vaknið! – 2013
g 7.13 bls. 14-15
[Mynd á bls. 14]

SVIPMYNDIR ÚR FORTÍÐINNI | KRAFAN

Afarkostir í nafni Guðs?

„Ef þið gerið það ekki ... mun ég í umboði Guðs og með hjálp hans herja á ykkur úr öllum áttum og með öllum tiltækum ráðum, og leggja á ykkur ok og þvinga ykkur til hlýðni við kirkjuna og hans hátign, og ég mun taka konur ykkar og börn og hneppa í þrælkun ... og ég mun taka eigur ykkar og vinna ykkur allt það tjón sem ég get ... Dauðinn og tjónið, sem af hlýst, verður ykkur að kenna en hvorki hans hátign né okkur.“

AF OPINBERRI tilkynningu að vera er þessi líklega ein sú undarlegasta sem sögur fara af. Hún er hluti yfirlýsingar sem kölluð var Krafan, el Requerimiento á spænsku, og spænskir landvinningamenn á 16. öld urðu að lesa upp þegar þeir lögðu undir sig land í Ameríku.

Hvaða boðskapur var það eiginlega sem landvinningamenn fluttu heimamönnum og hvers vegna?

Þvingaðir til að taka kaþólska trú

Skömmu eftir að Kólumbus steig á land í Ameríku árið 1492 gerðu bæði Spánverjar og Portúgalar tilkall til hinna nýfundnu landa. Báðar þjóðirnar litu á páfann sem fulltrúa Krists á jörð og báðu hann því að skera úr deilunni. Að tilhlutan páfa skipti kirkjan löndum milli Spánverja og Portúgala, með því skilyrði að þjóðirnar tvær sendu þangað trúboða til að kristna heimamenn.

Spænska konungdæmið reyndi að réttlæta grimmdarverk landvinningamanna eftir að þeir hófu að leggja undir sig lönd í Ameríku. Spánverjar héldu því fram að páfinn starfaði í umboði Guðs þegar hann úthlutaði þeim löndum. Þar af leiðandi væri landvinningamönnum frjálst að ráðstafa heimamönnum og eigum þeirra að vild sinni og takmarka frelsi þeirra.

Spánverjar sömdu yfirlýsingu til að tilkynna heimamönnum úrskurð páfa. Fólki var gert að taka kristni og verða þegnar Spánarkonungs. Ef heimamenn spyrntu við fótum töldu Spánverjar sig eiga rétt á að fara í „réttlátt“ stríð við þá í nafni Guðs.

„Ofbeldi var afsakanlegt ef málstaðurinn var réttlátur, eða þannig hugsuðu menn. Spánverjar þurftu því að sjóða saman réttlátan málstað.“ – Francis Sullivan, jesúíti og prófessor í guðfræði.

„Ranglát, óguðleg, hneykslanleg“

Spænska krúnan lét lesa upp Kröfuna til að friða samvisku sína og réttlæta beitingu hervalds. Landvinningamenn lásu oft upp yfirlýsinguna á skipsfjöl áður en þeir gerðu árás eða fyrir heimamönnum eftir að á land var komið þó að þeir skildu ekki mál Evrópumanna. Stundum var skjalið lesið upp fyrir tómum kofum fólks sem hafði flúið í skelfingu.

Það hlaut að koma til blóðsúthellinga þegar menn reyndu að þvinga heimamenn til að taka upp nýja trú. Til dæmis voru um 2.000 Araucanian indíánar brytjaðir niður í bardaga í Síle árið 1550. Landvinningamaðurinn Pedro de Valdivia sagði konungi um þá sem eftir lifðu: „Hendur og nef voru höggvin af tvö hundruð manns vegna þvermóðsku þeirra, því að ég hafði margsinnis gert út sendiboða til þeirra og flutt þeim fyrirmæli [Kröfuna] eins og yðar hátign mælti fyrir.“a

Lestur Kröfunnar kann að hafa friðað samvisku innrásarmanna en hún stuðlaði síður en svo að því að koma trú Spánverja á framfæri. Bartolomé de las Casas var sjónarvottur að þeim afleiðingum sem Krafan hafði en hann var förumunkur og trúboði á tímum landvinninganna. Hann skrifaði: „Þessi tilskipun var í senn ranglát, óguðleg, hneykslanleg, óraunhæf og fáránleg. Að ég minnist nú ekki á hvílíku óorði hún hefur komið á kristna trú.“ Sagnaritarinn Gonzalo Fernández de Oviedo harmaði að grimmdarverkin, sem unnin voru á innfæddum í Ameríku, skyldu gefa þeim mjög slæma mynd af kristninni.

Ber Guð sök á slíkum grimmdarverkum sem pólitísk og kirkjuleg yfirvöld hafa unnið, í nafni hans að eigin sögn? Í Biblíunni segir: „Fjarri fer því að Guð breyti ranglega og Hinn almáttki aðhafist illt.“ – Jobsbók 34:10.

a Samkvæmt sumum heimildum var Krafan felld úr gildi árið 1573.

TÍMALÍNA

  • 1492▸ Kólumbus kemur til Nýja heimsins.

  • Í kringum 1493▸ Alexander páfi sjötti veitir spænsku og portúgölsku konungsríkjunum yfirráð yfir þeim löndum í Nýja heiminum sem þau gerðu tilkall til.

  • 1513▸ Krafan gengur í gildi.

  • 1550▸ Um 2.000 Araucanian indíánar eru felldir í Síle.

  • 1573▸ Spænska krúnan fellir Kröfuna úr gildi.

Í STUTTU MÁLI

  • Landvinningamenn Spánverja settu heimamönnum afarkosti á 16. öld þegar þeir lögðu undir sig lönd í Ameríku. Þessir afarkostir voru nefndir Krafan.

  • Þess var krafist af innfæddum að þeir viðurkenndu yfirráð kaþólsku kirkjunnar.

  • Texti Kröfunnar var lesinn upp á spænsku eða latínu fyrir heimamönnum sem skildu hvorugt tungumálið.

  • Þetta er einhver dapurlegasta yfirlýsing sem um getur í sögu Ameríku.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila