Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g85 8.4. bls. 19-22
  • Landvinningar í nafni kirkjunnar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Landvinningar í nafni kirkjunnar
  • Vaknið! – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Í þjónustu trúar sinnar
  • Trúhvarf Atahúalpa
  • Hver var árangurinn?
  • Afarkostir í nafni Guðs?
    Vaknið! – 2013
  • Mállausir steinar mæla
    Vaknið! – 1987
  • Hvernig „kristnir menn“ urðu hluti af þessum heimi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
Vaknið! – 1985
g85 8.4. bls. 19-22

Landvinningar í nafni kirkjunnar

„Ef Jesús væri á lífi núna tæki hann þátt í frelsisbaráttu.“ Þessi ummæli framámanns einnar af kirkjudeildum mótmælenda eru dæmigerð fyrir þróun sem orðið hefur í hinum kristna heimi nútímans. Afrískur biskup fer lofsamlegum orðum um „réttlátt ofbeldi“ byltingarmanna. Kirkjudeildir mótmælenda styrkja þjóðernislegar skæruliðahreyfingar með fjárframlögum. Prestar taka sér vopn í hönd til að berjast fyrir „guðfræði frelsunar.“ Í vaxandi mæli virðast menn trúarinnar fúsir til að beita ofbeldi til að ná marki sínu. Telur þú það rétt? Greinin, sem hér hefst, fjallar um sögulegt fordæmi um slíka „kristilega“ valdbeitingu sem er vert íhugunar.

GULL, frægð og fagnaðarerindið. Þetta þrennt er sagt hafa verið kveikjan að landnámi Ameríku. Einn landnemanna viðurkenndi að hann hefði farið til Ameríku „til að þjóna Guði . . . og líka til að verða ríkur“!

Árið 1992 verða liðin 500 ár frá því að Kristófer Kólumbus sigldi fyrst yfir Atlantshaf og opnaði leiðina fyrir landnámi Evrópubúa í Ameríku. Hin sögufræga för Kólumbusar var upphafið að spennandi tímum landkönnunar í Ameríku. Í kjölfarið streymdu gífurleg auðæfi austur um Atlantshaf til Evrópu, og evrópsk trú var gróðursett í erlendum jarðvegi. Kostnaðurinn var mestan part borinn af hinum innfæddu Ameríkönum sem voru undirokaðir og strádrepnir, og máttu sín lítils gegn krafti, undirferli, grimmd og ókunnum sjúkdómum útlendinganna.

Þessir útlendingar urðu kunnir undir heitinu conquistadores sem merkir sigurvegarar eða landvinningamenn. Þeir voru, eins og sagnfræðingurinn J. F. Bannon kemst að orði, „sérkennileg blanda dýrlinga og djöfla.“ Enginn ber brigður á hugrekki þeirra og sum afrek þeirra eru kunn sérhverja skólabarni.

Hver hefur ekki heyrt um Vasco Núñez de Balboa sem þrammaði þvert yfir Panamaeiði, margra kílómetra veg um ókunna skóga, fjöll og fen, og varð fyrstu hvítra manna til að sjá Kyrrahaf? Og hvað um Hernán Cortéz sem fór vítt og breitt með mönnum sínum til að sigra Asteka þar sem nú heitir Mexíkó? Þá eru ónefndir Fransisco Pizarro og bræður hans sem eftir rúmlega tveggja ára harða bardaga lögðu undir sig hið firnastóra heimsveldi Inkanna það sem nú heitir Perú. Og þá er það Pedro de Valdivia sem fór til suðurs, lagði undir sig Chile og rak á undan sér Arákani-indíánana.

Hvernig gátu þeir gersigrað gamalgróin og voldug ríki á svona skömmum tíma? Fyrir því eru margar ástæður. Skjótur sigur Cortésar yfir Astekum stafaði sennilega að nokkru leyti af innri ólgu í ríki Asteka. Auk þess kynntust Astekar nú í fyrsta skipti evrópskum lásbogum, fram hlaðningum, sverðum og bardagamönnum á hestum. Þar að auki trúði stjórnandi Astekanna, Montezuma, að Cortés væri endurkominn guð.

Hver sem var orsökin var hinum sigursælu landvinningamönnum bráðlega fylgt eftir af „bóndanum, námumanninum og prestinum sem allir voru til þess búnir að setjast að fyrir fullt og allt í nýja heiminum.“ En hvert var samband trúarbragða við landvinningana?

Í þjónustu trúar sinnar

Í reyndinni var það stórt atriði í þessu mikla ævintýri að snúa innfæddum til trúar. Á Spáni, heimalandi meirihluta landvinningamannanna, höfðu Ferdinand konungur og Ísabella drottning hans „tendrað bál þjóðernis- og trúarhita“ sem birtist hvað mest í sigurvinningum í Rómönsku Ameríku. — The Encyclopædia Britannica.

Árið 1493 skipti Alexander VI páfi heiminum milli portúgalska og spænska landkönnuða, og gaf Spáni allt það land sem lá til vesturs af ímyndaði línu frá norðurpól til suðurpóls, 480 kílómetrum vestur af Grænhöfðaeyjum. Það var gert „sem umbun fyrir að snúa heiðingunum til trúar.“ Með Tordesillas-sáttmálanum, sem gerður var síðar, staðfestu bæði ríkin þessa skiptingu með þeirri breytingu að línan var færð lengra til vesturs.

Það er athyglisvert að áhrifanna af þessari íhlutun páfa gætir enn. Þegar strönd þess lands, sem nú er Brasilía, fannst, lá hún í þeim hluta heims sem Portúgalir réðu. Þess vegna tala Brasilíumenn portúgölsku enn þann dag í dag þótt meirihluti íbúa Suður- og Mið-Ameríku tali spænsku.

Svo virðist sem margir landvinningamennirnir hafi haft í huga hið trúarlega ætlunarverk sitt. Til dæmis segja prófessor P. J. Mahon og jesúítapresturinn J. M. Hayes: „Cortés missti aldrei sjónar á því hlutverki að snúa innfæddum til trúar. Í einni af skýrslum sínum til keisarans, dagsett árið 1524, segir hann: ‚Svo oft sem ég hefi skrifað yður heilögu hátign hefi ég sagt yðar hátign frá því hversu sumir innfæddra séu reiðubúnir til að taka við okkar helgu, kaþólsku trú og gerast kristnir. Og ég hefi beiðst þess af yðar konunglegu hátign að þér af gæsku yðar sæjuð í þeim tilgangi fyrir trúhneigðum mönnum sem lifa réttlátlega og gefa góða fyrirmynd.“ — Trials and Triumphs of the Catholic Church in America.

Sagnfræðingurinn William H. Prescott bætir við: „Ekkert var spænsku stjórninni kærara en að geta snúið indíánum til trúar. Það er stöðugt megininntak fyrirmæla hennar, og það gaf hernaðarleiðöngrum í Vesturheimi að nokkru leyti yfirbragð krossferðar.“ En tökum eftir þessu: „Enginn efi var látinn í ljós um gagnsemi trúartökunnar, hversu skyndileg sem hún kynni að vera eða hversu ofbeldisfullar sem trúboðsaðferðirnar voru. Sverðið var góð röksemd þegar tungan brást.“

Þessir ævintýramenn gengu samt sem áður oft að trúboðinu með sérkennilegri blöndu af einlægni og hrottaskap. Tökum sem dæmi hvernig farið var með Atahúalpa, konung Inkanna.

Trúhvarf Atahúalpa

Það var Pizarro sem lagði stórveldi Inkanna undir sig. Þar eð Pizarro var fáliðaður taldi hann einu leiðina til að sigra Inkana að ná Atahúalpa og halda honum í gíslingu. Hann gerði ráðstafanir til að hitta valdhafa Inkanna í Cajamarca þann 16. nóvember 1532. En áður en Atahúalpa kom á vettvang faldi Pizarro hermenn sína og fallbyssur með leynd á þrjá vegu við torgið í bænum. Síðan kom valdhafinn sjálfur með liðlega 3000 af mönnum sínum — sem allir voru óvopnaðir ef frá eru taldar litlar kylfur og slöngvur.

Sagnfræðingurinn Robert Barton lýsir svo því sem síðan gerðist: „Dóminíkanamunkur að nafni Vicente de Valverde gekk í átt að hásætinu með biblíu í hönd til að gera grein fyrir hinum helgu öflum kristninnar. Hann byrjaði á því að lýsa skaparanum og talaði enn lengur um Jesú Krist og hina einstöku fórn hans á krossinum. Hann lauk máli sínu með því að biðja Atahúalpa að afneita sinni eigin heiðnu trú og viðurkenna herradóm Karls V. Keisara sem myndi vernda hann þaðan í frá í þessum heimi alveg eins og Jesús Kristur myndi gera í þeim næsta.“ — A Short History of the Republic of Bolivia.

Þjóðhöfðingi Inkanna hlýtur að hafa verið furðu lostinn eftir að hafa hlýtt á þessa ræðu. Að því er Barton segir svaraði hann: „‚Þinn guð var líflátinn af þeim mönnum sem hann skapaði, en minn,‘ sagði hann um leið og hann benti á sólina sem var í þeirri andránni að hníga stór og rauð bak við fjöllin, ‚lifir eilíflega og verndar börnin mín. Með hvaða valdi segir þú þetta?‘“ Munkurinn benti á Biblíuna og rétti Atahúalpa hana sem kastaði henni á jörðina. Vicente munkur tók biblíu sína upp og skundaði til Pizarros til að segja honum hvað gerst hafði. Hann er sagður hafa mælt: „Gerðu árás strax. Ég veiti þér aflausn.“ Pizarro gaf merki um árás, hundruð varnarlausra indíana voru brytjaðir niður og Atahúalpa tekinn til fanga.

Atahúalpa leitaði samninga við Pizarro um að fá sig lausan. Hann bauð geysihátt lausnargjald í gulli og silfri sem Pizarro samþykkti. En þegar fjársjóðurinn var afhentur eins og um var samið sveik Pizarro loforð sitt. Atahúalpa var leiddur fyrir rétt og dæmdur til dauða á báli sem skurðgoðadýrkandi. Margir af ráðgjöfum Pizarros mótmæltu slíkum svikráðum — en ekki presturinn Valverde. Að lokum játaði Atahúalpa sig kristinn og var skírður. En hann var eigi að síður drepinn þann 29. ágúst 1533 með kyrkingu.

Pizarro lauk síðan við að leggja undir sig Inkaveldið. Samhliða því „reisti hann kirkjur, braut niður skurðgoð og setti upp krossa meðfram vegum.“ (The Trials and Triumps of the Catholic Church in America) En heldur þú að trúin, sem hann var að breiða út með þessum hætti, hafi verið sönn kristni?

Hver var árangurinn?

Hernaðarlega séð heppnaðist þessi tilraun með ágætum. Hinir litlu hópar landvinningamanna stækkuðu yfirráðasvæði heimalanda sinna og uppskáru flestir hverjir heiður og gull handa sjálfum sér. En náðu þeir einhverjum kristilegum markmiðum með ofbeldi sínu?

Um nokkurt skeið hlýtur að hafa virst svo. „Prestarnir, sem voru með í fyrstu leiðöngrunum, eyðilögðu fullir réttlætiskenndar musteri og skurðgoð og lýstu vanþóknun sinni á heiðindóminum; fjöldatrúskipti hófust þegar trúboðar komu frá Spáni. . . . (Encyclopædia Britannica) En hversu djúpt ristu trúskiptin?

Sagnfræðingurinn Ruggiero Romano segir: „Innfæddir menn í þessu landi eru ekkert kristnari núna en þeir voru þegar landið var sigrað, þótt þeim hafi herið kennd guðspjöllin um langt skeið, því að þeir hafa ekkert meiri trú núna en þeir höfðu þá . . . í Bólivíu okkar tíma og suðurhluta Perú lifir enn hin gamla heiðna gyðja Pacha-Mama (móðir jörð) þótt hún sé runnin saman við meyna (Maríu). . . . Í Mexíkó á dýrkunin á meynni frá Guadalupe rætur sínar í dýrkun gyðjunnar Tonantzin (móðir guðanna).“ — Mecanismos da Conquista Colonial.

Sami heimildarmaður segir: „Kristniboðið mistókst margsinnis . . . Hvers vegna? Vegna þess að ofbeldi drottnar líka yfir prédikun fagnaðarerindisins. Hvernig er hægt að boða trú og segja hana byggða á kærleika ef boðberinn er jafnframt þeirrar skoðunar að ‚enginn geti véfengt að púður notað gegn hinum ótrúu sé eins og reykelsi frammi fyrir Drottni‘?“

Nei, sannkristnum markmiðum er aldrei hægt að ná með slíku ofbeldi. Trúhvarf við sverðsoddinn getur aldrei látið menn breyta persónuleika sínum eða fara að fylgja nýjum málstað eins og sönn kristni krefst. Það eru „kristniboðarnir“ sjálfir sem spillast. Veitum því eftirtekt að í þessum löndum, sem fyrst voru opnuð af kristniboðum og landvinningamönnum með sverð í hönd, geysar enn mannskæð barátta og sundrung. Og nú stuðla sumir prestar og nunnur að baráttu með nýjustu vopnum fyrir „guðfræði frelsunar.“

Aðferð Jesú var ólík. Manst þú eftir viðbrögðum hans kvöldið sem hann var handtekinn þegar Pétur postuli reyndi að verja hann með sverði? Jesús sagði: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matteus 26:52) Skömmu síðar þennan sama dag sagði Jesús við Pontíus Pílatus: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ — Jóhannes 18:36.

Þessi hugrökku og umhugsunarverðu orð sýna að væri Jesús maður á jörðinni núna myndi hann örugglega ekki vera frelsishetja sem berðist með vopnum. Þeir sem í sannleika feta í fótspor Jesú geta því ekki átt hlut að slíku ofbeldi. (1. Pétursbréf 2:21-23) Úr því að svo er hljótum við að spyrja: „Hvaða „ríki“ voru stríðsmenn svo sem Cortés og Pizarro fulltrúa fyrir? Og fyrir hvaða „ríki“ nú á tímum berjast prestar kaþólskra og mótmælenda sem taka sér vopn í hönd? Augljóslega ekki fyrir það ríki sem Jesús Kristur er konungur yfir.

[Innskot á blaðsíðu 21]

Landvinningamennirnir gengu oft að trúboðinu með sérkennilegri blöndu af einlægni og hrottaskap.

[Innskot á blaðsíðu 22]

Þótt þeir boðuðu trú sem játaði kærleika litu þeir á púður, notað gegn hinum ótrúu, eins og „reykelsi frammi fyrir Drottni.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila