ER HÆGT AÐ BJARGA JÖRÐINNI?
SKÓGARNIR
SKÓGAR hafa verið kallaðir „lungu og öndunarvél“ jarðar og það af ærnu tilefni. Tré binda koldíoxíð sem gæti annars skaðað okkur. Þau losa líka súrefni sem er mikilvægur hluti loftsins sem við öndum að okkur. Um 80 prósent landgróðurs og -dýra í heiminum lifir í skógum. Án skóganna værum við dauðadæmd.
Skógarnir í hættu
Ár hvert eru tré felld í milljarðatali, aðallega til að rýma land til akuryrkju. Frá því síðla á fimmta áratug síðustu aldar hafa regnskógar jarðar minnkað um helming.
Þegar skógi er eytt hverfur vistkerfið með honum og þar með allt gagn sem við höfum af því.
Jörðin – hönnuð til að endurnýja sig
Á sumum landsvæðum þar sem skógi hafði verið eytt hefur gróðurinn náð sér með ótrúlegum hætti og skógurinn jafnvel stækkað. Vistfræðingar hafa nýlega veitt því athygli, sér til mikillar undrunar, hve fljótt trjágróður hefur getað tekið við sér eftir að skógi hefur verið eytt, og orðið að heilbrigðum skógi á ný. Lítum á nokkur dæmi:
Vísindamenn hafa fylgst með skóglendi sem var rutt til ræktunar og síðar yfirgefið. Rannsakaðir voru 2.200 slíkir reitir í Ameríku og Vestur-Afríku og í ljós kom að jarðvegurinn getur náð sér á innan við tíu árum þannig að hann geti borið trjágróður á ný.
Vísindamenn áætla að á 100 árum geti þessi landsvæði endurheimt eðlilega fjölbreytni trjáa og annarra skógarlífvera. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsókna sem birtar eru í tímaritinu Science.
Vísindamenn í Brasilíu hafa nýverið kannað hvort skógur sé fljótari að ná sér á strik á svæðum þar sem menn leggja vinnu í að rækta upp skóg á ný eða þar sem svæðið er látið óáreitt.
„Vísindamönnunum til undrunar kom í ljós að ekki var nauðsynlegt að gróðursetja tré,“ að því er segir í tímaritinu National Geographic. Á aðeins fimm árum „var komið fullt af sjálfsprottnum trjám“ á reitunum þar sem ekkert var gróðursett.
Hvað er gert í málinu?
Margt hefur verið gert víða um heim til að vernda og endurheimta skóglendi. Fyrir vikið „hefur hægt á eyðingu skóga um meira en 50 prósent“ á síðastliðnum 25 árum, að sögn Sameinuðu þjóðanna.
En þetta dugir þó ekki til að bjarga skógum jarðar. „Frumskógum í hitabeltinu hefur haldið áfram að fækka á síðustu árum,“ að því er segir í skýrslu samtakanna Global Forest Watch.
Ólöglegt skógarhögg veltir milljörðum dollara á ári og græðgin er drifkraftur þeirrar skógareyðingar sem á sér stað í hitabeltinu.
Skógverndarteymi láta fella tré í hófi og gróðursetja ný.
Ástæður til bjartsýni – hvað segir Biblían?
„Jehóvaa Guð lét vaxa af jörðinni alls konar tré sem voru falleg og báru góðan ávöxt.“ – 1. Mósebók 2:9.
Skapari skóganna hannaði þá með hæfileikann til að jafna sig af áhrifum sjálfbærrar nýtingar mannanna. Hann vill vernda skógana og viðhalda þeim og einstöku vistkerfi þeirra.
Í Biblíunni kemur fram að Guð taki í taumana svo að menn fái ekki að ofnýta auðlindir jarðar framar. Þannig verður jörðinni og lífinu á henni bjargað. Sjá greinina „Guð lofar að jörðinni verði bjargað,“ á bls. 15.
a Jehóva er nafn Guðs. – Sálmur 83:18.