AÐ TAKAST Á VIÐ HÆKKANDI VERÐLAG
Vertu nægjusamur
Þeir sem eru nægjusamir eru sáttir við líf sitt. Og þegar aðstæður þeirra breytast laga þeir sig að því til að lifa ekki um efni fram.
HVERS VEGNA ER ÞAÐ MIKILVÆGT?
Sálfræðingurinn Jessica Koehler segir að nægjusamt fólk sé jafnan jákvæðara. Hún tók líka eftir að það er síður öfundsjúkt út í aðra. Það kemur því ekki á óvart að þeir sem eru nægjusamir eru yfirleitt hamingjusamari og finna fyrir minni streitu. Reyndar er einna hamingjusamasta fólkið oft það sem á lítið efnislega. Þetta á sérstaklega við um þá sem meta mikils það sem ekki er hægt að kaupa fyrir peninga, eins og gleðina sem fylgir því að verja tíma með fjölskyldu og vinum.
HVAÐ GETUR ÞÚ GERT?
Forðastu að bera þig saman við aðra. Ef þú berð látlausan lífsstíl þinn saman við íburðarmikinn lífsstíl sem einhver annar virðist hafa gætirðu orðið ósáttur eða jafnvel öfundsjúkur. Þannig samanburður er kannski ekkert raunhæfur heldur. Sumir sem eiga mikið eru líka mjög skuldugir. Nicole, sem býr í Senegal, segir: „Ég þarf ekki margt til að vera hamingjusöm. Ef ég er nægjusöm get ég verið ánægð þó að aðrir eigi meira en ég.“
Prófaðu þetta: Forðastu auglýsingar eða færslur á samfélagsmiðlum sem sýna ríkidæmi eða lúxuslífsstíl annarra.
Vertu þakklátur. Þeir sem eru þakklátir eru líklegri til að vera sáttir við það sem þeir hafa og finnast þeir ekki þurfa eða verðskulda meira. Roberton, frá Haítí, segir: „Ég tek mér tíma til að hugsa um þá góðvild sem aðrir hafa sýnt mér og fjölskyldu minni. Síðan segi ég þeim að ég kunni að meta það sem þeir hafa gert. Ég kenni líka átta ára syni mínum að þakka fyrir allt sem hann fær.“
Prófaðu þetta: Haltu þakklætisdagbók. Skrifaðu niður á hverjum degi eitthvað sem þú ert þakklátur fyrir. Það gæti verið góð heilsa, náin fjölskylda, sannir vinir eða jafnvel fallegt sólarlag.
Við eigum öll inn á milli erfitt með að vera ánægð með það sem við höfum. En það er þess virði að reyna. Þegar við veljum að vera nægjusöm erum við líka að velja hamingjuna – annan eiginleika sem fæst ekki fyrir peninga.