12. námskafli
Sannfærðu áheyrendur, hjálpaðu þeim að álykta
1 Þú reiknar með að áheyrendur hlusti þegar þú flytur ræðu. Þú vilt líka að þeir meðtaki rök þín og fari eftir þeim. Það gera þeir líka ef þeir eru sannfærðir um að þú farir með rétt mál og hjartalag þeirra er rétt. Að sannfæra merkir að koma öðrum á tiltekna skoðun með sönnunum. En sannanir nægja ekki alltaf einar sér. Yfirleitt þarf að styðja þær rökum. Sannfærandi rökfærsla felst því í þrennu: Í fyrsta lagi sjálfum sönnununum, í öðru lagi röðinni á þeim og í þriðja lagi hvernig þeim er komið á framfæri. Í þessum kafla, sem svarar til „Sannfærandi rökfærslu“ á ráðleggingakortinu, skoðum við hvað þú segir og hvaða sannanir þú berð fram frekar en hvernig þú kemur þeim á framfæri.
2 Sannfærandi rökfærsla byggist á sterkum meginrökum og það er út frá þeim sem leiðbeinandinn skoðar málið. Sannanirnar verða að vera sannfærandi jafnvel þótt þær séu lesnar af blaði. Ef sannfæringarkraftur ræðunnar er háður því hvernig efninu er komið á framfæri en ekki staðreyndunum sem þú byggir hana á, þá verðurðu að þjálfa þetta betur svo að rökfærsla þín verði sterk og heilsteypt.
3 Grundvöllur lagður. Áður en rökin eru borin fram er nauðsynlegt að leggja góðan grundvöll. Þú þarft að láta koma greinilega fram hvað sé til umræðu. Og það er gott að leggja sameiginlegan grundvöll með því að leggja áherslu á viðeigandi hluti sem áheyrendur geta verið þér sammála um.
4 Stundum þarf að skilgreina hugtök. Sleppa þarf öllu óviðkomandi efni. Flýttu þér ekki um of að leggja grunninn. Hafðu hann traustan en gerðu ekki allt húsið að grunni. Ef þú ert að hrekja röksemdir skaltu grannskoða hvað þær styðjast við til að finna veiku hliðarnar og ákveða hvaða rökum þú átt að beita og hvernig þú átt að komast að rótum málsins.
5 Þegar þú undirbýrð ræðuna ættirðu að reyna að gera þér í hugarlund hve mikið áheyrendur vita nú um efnið, en það ræður að miklu leyti hvernig grundvöll þú þarft að leggja áður en þú snýrð þér að sjálfri rökfærslunni.
6 Þótt háttvísi og kristin framkoma sé ekki til umræðu hér er nauðsynlegt að vera nærgætinn. Nýttu þér alltaf til fulls þekkingu þína á kristnum frumreglum og opnaðu hjörtu og hugi áheyrenda.
7 Gildar sannanir lagðar fram. Ræðumaður „sannar“ ekkert með því að staðhæfa eitthvað eða trúa því sjálfur. Hafðu alltaf hugfast að áheyrendur hafa fullan rétt til að spyrja: „Af hverju er þetta rétt“ eða „Af hverju segir þú að þetta sé þannig?“ Ræðumaður þarf að geta svarað spurningunni „af hverju?“
8 Spurnarorðunum „hvernig, hver, hvar, hvenær og hvað“ má svara með upplýsingum og staðreyndum, en spurningin „af hverju“ biður um ástæður. Hún sker sig úr að þessu leyti og krefst meira af þér en aðeins staðreynda. Hún reynir á íhugunarhæfni þína. Þar af leiðandi skaltu í sífellu spyrja þig „af hverju“ þegar þú ert að undirbúa ræðu, og gættu þess svo að geta svarað.
9 Þú getur oftast vitnað í viðurkennda heimild eða heimildarmann til stuðnings máli þínu. Þetta þýðir einfaldlega að það hljóti að vera rétt ef hann segir það, af því að hann er viðurkenndur heimildarmaður á þessu sviði. Það á að vera næg ástæða til að trúa því. Æðsta heimild okkar á þessu sviði er auðvitað Jehóva Guð. Þar af leiðandi nægir tilvitnun í Biblíuna til að sanna mál okkar.
10 Ef þú sannar mál þitt með því að vitna í viðurkenndar heimildir þarftu að vera viss um að áheyrendur viðurkenni heimildina. Vísir þú í heimildarmenn þarftu að þekkja til þeirra og vita í hvaða áliti þeir eru. Margir viðurkenna að Guð sé höfundur Biblíunnar en sumir telja hana mannaverk og þar með ekki algilda heimild. Þá þarftu kannski að nota aðrar sannanir eða renna jafnvel fyrst stoðum undir áreiðanleika Biblíunnar.
11 Fáein varnaðarorð. Fara þarf heiðarlega með allar sannanir. Taktu ekki tilvitnun úr samhengi. Gættu þess að segja nákvæmlega það sem heimildarmaðurinn hafði í huga. Vertu nákvæmur í tilvitnunum. Vertu einnig varkár í meðferð tölfræðilegra upplýsinga. Ef þú ferð ekki rétt með þær geta þær komið aftan að þér með hrikalegum afleiðingum. Mundu eftir ósynda manninum er drukknaði í á sem var að meðaltali aðeins einn metri á dýpt. Hann mundi ekki eftir þriggja metra djúpa álnum í henni miðri.
12 Það sem ekki er byggt á vitnisburði manna eða Guðs kallast óbeinar sannanir eða líkur. Þess konar sannanir byggjast á ályktunum sem dregnar eru af staðreyndum en ekki tilvitnun í heimildarmann. Til að staðfesta ályktanir þínar og koma með sannfærandi, óbeinar sannanir þarftu að hafa nægar staðreyndir og rök til að styðja ályktanirnar.
13 Ef sönnunarfærslan í heild (ekki endilega í samfelldri röð) nægir til að sannfæra áheyrendur telur leiðbeinandinn hana fullnægjandi. Hann setur sig í spor áheyrenda og spyr: „Sannfærðist ég?“ Ef svo er hrósar hann þér fyrir ræðuna.
14 Áhrifaríkt ágrip. Einhvers konar ágrip er yfirleitt nauðsynlegt til að rökfærsla sé sannfærandi. Það er eins konar lokaskírskotun til skynseminnar og eykur gildi þeirra raka sem beitt var. Ágrip á ekki einfaldlega að vera endurtekning staðreynda þótt efnislega sé um það að ræða að sýna fram á að „fyrst þetta er svona og svona hljóti niðurstaðan að vera þessi.“ Þessum þætti er ætlað að hnýta öll atriðin saman og komast að niðurstöðu. Oft er það áhrifaríkt ágrip sem hnykkir á röksemdunum svo að þær verða sannfærandi.
――――◆◆◆◆◆――――
15 Jafnvel þótt þú notir góðar og gildar röksemdir í ræðunni er ekki nóg að setja bara fram staðreyndir. Þú þarft að setja þær fram á þann hátt að þú hjálpir áheyrendum til að álykta, skilja rök þín og komast að sömu niðurstöðu og þú. Það er þetta sem átt er við á ráðleggingakortinu með liðnum „Áheyrendum hjálpað að álykta.“
16 Þú ættir að vilja þroska þennan hæfileika því að Jehóva Guð hjálpar okkur að álykta. Jesús útskýrði einnig fyrir lærisveinum sínum þær líkingar sem hann notaði og bjó þá undir að kenna öðrum sömu sannindi. Áheyrendum er hjálpað að álykta með því að nota þær aðferðir sem þarf til að þeir skilji röksemdirnar, komist að sömu niðurstöðu og þú og geti notað röksemdirnar til að kenna öðrum.
17 Sameiginlegur grundvöllur. Það sem þú segir og hvernig þú segir það er mikilvægt til að leggja sameiginlegan grundvöll í upphafi ræðunnar. En þessi sameiginlegi grundvöllur má ekki glatast þegar líður á ræðuna, því að þá missirðu athygli áheyrenda. Þú verður að halda áfram að koma efninu þannig á framfæri að það höfði til skynsemi þeirra. Það krefst þess að þú hafir í huga hvaða augum þeir líti viðfangsefnið og notir það til að sýna þeim fram á að röksemdir þínar séu skynsamlegar.
18 Rökfærsla Páls postula í Postulasögunni 17:22-31 er sígilt dæmi um hvernig hægt er að leggja sameiginlegan grundvöll og halda honum allt til enda, það er að segja að hjálpa áheyrendum að álykta. Taktu eftir hvernig hann leggur sameiginlegan grundvöll í upphafi og heldur sig nærgætnislega við hann alla ræðuna. Þegar hann lauk máli sínu hafði hann sannfært nokkra af áheyrendum sínum um sannleikann, þeirra á meðal dómara nokkurn. — Post. 17:33, 34.
19 Málin útskýrð nægilega. Eigi áheyrendur að geta dregið ályktanir af efninu verða þeir að hafa nægar upplýsingar, og það þarf að koma þeim þannig á framfæri að þeir hafni ekki rökfærslunni einungis vegna þess að þeir skilji hana ekki fyllilega. Það er þitt að hjálpa þeim.
20 Til að gera það á áhrifaríkan hátt skaltu gæta þess að taka ekki of margt fyrir. Efnið kemur ekki að gagni ef þú ferð of geyst yfir það. Gefðu þér tíma til að útskýra hvert einstakt mál til hlítar þannig að áheyrendur bæði heyri og skilji. Taktu þér tíma til að vinna úr mikilvægum atriðum sem þú kemur á framfæri. Svaraðu spurningum eins og hvers vegna, hver, hvernig, hvað, hvenær og hvar. Þannig hjálparðu áheyrendum að skilja hugmyndina til fullnustu. Stundum er hægt að koma með rök með og á móti einhverju í þeim tilgangi að leggja áherslu á að afstaða þín sé skynsamleg. Þegar þú hefur komið meginreglu á framfæri getur líka verið gott fyrir þig að skýra hana svo að áheyrendur komi auga á hagnýtt gildi hennar. Auðvitað er nauðsynlegt að vera nærgætinn. Tíminn, sem þú hefur til umráða, og hlutfallslegt mikilvægi þess máls, sem þú ert að fjalla um, ræður því hve djúpt er farið í að útskýra það.
21 Spurningar eru alltaf góð leið til að hjálpa áheyrendum að álykta. Ræðuspurningar ásamt hæfilegri þögn örva hugann, það er að segja spurningar sem varpað er fram en ekki er ætlast til að áheyrendur svari. Ef þú ert aðeins að ræða við einn eða tvo, til dæmis í boðunarstarfinu, má draga þá inn í umræðurnar með spurningum. Þannig geturðu fullvissað þig um að þeir skilji og samþykki þær hugmyndir sem þú ert að fjalla um.
22 Þar eð þú vilt leiða hugsanir áheyrenda eftir ákveðinni braut þarftu að byggja á efni sem þeir þekkja, hvort heldur af eigin reynslu eða af því sem fram er komið í ræðunni. Til að ganga úr skugga um að þú hafir unnið nógu vel úr ákveðnu máli þarftu að hugleiða hvað áheyrendur vita fyrir um efnið.
23 Það er alltaf mikilvægt að fylgjast með viðbrögðum áheyrenda til að ganga úr skugga um að þeir séu með á nótunum. Ef nauðsyn krefur skaltu fara til baka og útskýra málið nánar áður en þú snýrð þér að næstu röksemdafærslu. Ef þú gætir þess ekki að hjálpa þeim að álykta geta þeir auðveldlega tapað áttum.
24 Sýndu fram á hagnýtt gildi efnisins. Þegar þú berð fram einhverja röksemd skaltu gæta þess að sýna fram á hvernig hún snertir umræðuefnið. Hafðu einnig hvatningu í ræðunni sem vekur löngun hjá áheyrendum til að breyta í samræmi við það sem fram hefur komið. Hafi þeir látið sannfærast af orðum þínum eru þeir fúsir til að breyta samkvæmt því.
[Spurningar]
1, 2. Hvað er sannfærandi rökfærsla?
3-6. Hvers vegna þarf að leggja grundvöll?
7-13. Hvað merkir það að bera fram gildar sannanir?
14. Hvernig er áhrifaríkt ágrip?
15, 16. Af hverju verðum við að hjálpa áheyrendum að álykta?
17, 18. Hvernig má halda sig á sameiginlegum grundvelli?
19-23. Hvaða aðferðir má nota til að vinna nægilega úr efninu?
24. Hvaða góðum tilgangi þjónar það að sýna áheyrendum fram á hagnýtt gildi röksemda þinna?