14. kafli
Hvernig starfsemi votta Jehóva er háttað
Hvenær hófst nútímahreyfing votta Jehóva? (1)
Hvernig fara samkomur votta Jehóva fram? (2)
Hvernig er staðið undir útgjöldum? (3)
Hverjir taka forystuna í söfnuðunum? (4)
Hvaða stórar samkomur eru haldnar ár hvert? (5)
Hvaða starf er unnið á höfuðstöðvunum og útibúunum? 6)
1. Nútímahreyfing votta Jehóva hófst á áttunda áratug 19. aldar. Í fyrstu voru þeir kallaðir Biblíunemendur. Árið 1931 tóku þeir sér hins vegar hið biblíulega nafn vottar Jehóva. (Jesaja 43:10) Hreyfing þeirra hefur vaxið úr fáeinum í byrjun upp í milljónir votta sem prédika af kappi í meira en 230 löndum.
2. Flestir safnaða votta Jehóva hafa samkomur þrisvar í viku. Þér er boðið að sækja þær allar. (Hebreabréfið 10:24, 25) Kennslan þar grundvallast á Biblíunni. Bæn er flutt í upphafi og lok samkomanna. Á þeim flestum eru líka sungin ‚andleg ljóð‘ og taka samkomugestir glaðlega undir sönginn. (Efesusbréfið 5:18, 19) Aðgangur er ókeypis og samskot eru engin. — Matteus 10:8.
3. Flestir safnaðanna halda samkomur sínar í ríkissal. Þetta eru yfirleitt einfaldar byggingar sem vottar Jehóva hafa reist í sjálfboðavinnu. Þú sérð engin líkneski, róðukrossa eða þvíumlíkt í ríkissalnum. Frjáls framlög standa undir útgjöldum. Framlagabaukur er í salnum fyrir þá sem vilja leggja eitthvað af mörkum. — 2. Korintubréf 9:7.
4. Í hverjum söfnuði eru öldungar eða umsjónarmenn. Þeir taka forystuna í kennslunni í söfnuðinum. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; 5:17) Safnaðarþjónar aðstoða þá. (1. Tímóteusarbréf 3:8-10, 12, 13) Þessir menn eru ekki hafnir upp yfir aðra í söfnuðinum. (2. Korintubréf 1:24) Þeir fá ekki sérstaka titla. (Matteus 23:8-10) Þeir skera sig ekki úr í klæðnaði. Ekki fá þeir heldur greiðslu fyrir störf sín. Öldungarnir annast fúslega andlegar þarfir safnaðarins. Þeir geta veitt hughreystingu og leiðsögn þegar á bjátar. — Jakobsbréfið 5:14-16; 1. Pétursbréf 5:2, 3.
5. Vottar Jehóva halda líka stórar samkomur eða mót ár hvert. Þá koma margir söfnuðir saman til að hlýða á sérstaka fræðsludagskrá út frá Biblíunni. Skírn nýrra lærisveina er fastur liður á dagskrá mótanna. — Matteus 3:13-17; 28:19, 20.
6. Aðalstöðvar votta Jehóva fyrir allan heiminn eru í New York. Þar er aðsetur hins stjórnandi ráðs sem er miðlægur hópur reyndra öldunga sem hafa umsjón með heimssöfnuðinum. Einnig eru um 100 útibú um heim allan. Á þessum stöðum starfa sjálfboðaliðar að því að prenta og afgreiða biblíurit. Leiðbeiningar eru líka gefnar um skipulagningu prédikunarstarfsins. Þú ert velkominn í heimsókn á þessa staði.