Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be bls. 52-bls. 54 gr. 4
  • Að semja ræður ætlaðar almenningi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Að semja ræður ætlaðar almenningi
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Kynntu þér uppkastið
  • Að nota Biblíuna
  • Það sem ræðumaður þarf sjálfur að ákveða
  • Að semja uppkast
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Samband við áheyrendur og minnisblöð
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Að nota uppkast
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Áhersla á ræðustef og aðalatriði
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be bls. 52-bls. 54 gr. 4

Að semja ræður ætlaðar almenningi

Í FLESTUM söfnuðum Votta Jehóva er fluttur opinber fyrirlestur í hverri viku um biblíulegt efni. Öldungum og safnaðarþjónum er gjarnan boðið að flytja slíkan fyrirlestur ef þeir reynast góðir ræðumenn og kennarar, og Boðunarskólinn hefur þjálfað tugþúsundir bræðra til þessa hlutverks. Á hverju áttu að byrja þegar þér er falið að flytja opinberan fyrirlestur?

Kynntu þér uppkastið

Áður en þú hefst handa við rannsóknir og efnisleit skaltu lesa uppkastið og velta því fyrir þér til að glöggva þig vel á því. Hugfestu stef ræðunnar, það er að segja titilinn. Hvað ætlarðu að kenna áheyrendum? Hvaða markmið hefurðu með ræðunni?

Millifyrirsagnir segja til um aðalatriði ræðunnar. Skoðaðu þær vel og brjóttu til mergjar. Hvernig tengjast þær stefinu, hver um sig? Undir hverri millifyrirsögn eru nokkrir stuðningspunktar og undir hverjum stuðningspunkti nokkrir skýringaliðir. Taktu eftir hvernig hver liður í ræðuuppkastinu byggist á þeim sem á undan er og leiðir af sér þann næsta, og sjáðu hvernig hann á þátt í því að ræðan nái markmiði sínu. Eftir að þú hefur glöggvað þig á stefi ræðunnar, markmiði hennar og því hvernig aðalatriðin ná fram markmiðinu geturðu farið að vinna úr efninu.

Í byrjun getur verið gott að líta á ræðuna sem fjórar eða fimm stuttar ræður, hverja með einu aðalatriði, og semja hverja fyrir sig.

Uppkastið, sem þér er látið í té, er ætlað til undirbúnings. Hugmyndin er ekki sú að þú notir það sem minnispunkta þegar þú flytur ræðuna. Uppkastið er eins og beinagrind ef svo má að orði komast, og þú þarft að klæða hana holdi og blása lífi í hana.

Að nota Biblíuna

Jesús Kristur og lærisveinar hans byggðu kennslu sína á Ritningunni. (Lúk. 4:16-21; 24:27; Post. 17:2, 3) Þú getur líka gert það. Biblían ætti að vera undirstaða ræðunnar. Í stað þess að útskýra hreinlega það sem sagt er í uppkastinu þarftu að glöggva þig á því hvernig það á sér stuðning í Biblíunni og nota hana síðan til að kenna.

Skoðaðu hvert vers sem vísað er til í uppkastinu þegar þú undirbýrð þig. Athugaðu samhengið. Sumar vísanir eru kannski hugsaðar sem gagnlegar grunnupplýsingar, og þú þarft ekki að lesa eða skýra alla ritningarstaðina þegar þú flytur ræðuna. Veldu úr þá sem eiga mest erindi til áheyrenda. Ef þú einbeitir þér að þeim ritningarstöðum, sem vísað er til í uppkastinu, þarftu sennilega ekki að auka við þá.

Hvernig þér tekst til með ræðuna veltur ekki á því hve marga ritningarstaði þú lest heldur því hve góð kennslan er. Þegar þú kynnir ritningarstaði skaltu sýna fram á hvers vegna þú gerir það, og gefðu þér svo tíma til að skýra þá og heimfæra. Eftir að þú hefur lesið ritningartexta skaltu hafa Biblíuna opna á meðan þú ræðir um hann. Þá gera áheyrendur það sennilega líka. Með útskýringum, líkingum og heimfærslu geturðu örvað áhuga þeirra og hjálpað þeim að hafa sem mest gagn af orði Guðs. — Nehem. 8:8, 12.

Útskýring. Þegar þú býrð þig undir að útskýra lykilritningarstað er gott að spyrja: ‚Hvað merkir hann? Hvers vegna nota ég hann í ræðunni? Hvaða spurninga ætli áheyrendur spyrji sig þegar versið er lesið?‘ Þú getur þurft að skoða samhengi orðanna, forsögu, umgjörð, kraft og ætlun hins innblásna ritara. Þetta kallar á rannsóknir og leit. Geysimikinn fróðleik er að finna í ritum hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matt. 24:45-47) Reyndu ekki að útskýra versið í þaula en varpaðu ljósi á það hvers vegna þú last það í samhengi við umræðuefnið.

Líking. Líking á að þjóna þeim tilgangi að dýpka skilning áheyrenda eða hjálpa þeim að muna atriði eða meginreglu sem þú fjallar um. Líkingar auðvelda fólki að skilja það sem þú hefur fram að færa og tengja það einhverju sem það þekkir. Jesús gerði þetta í hinni frægu fjallræðu. ‚Fuglar himinsins,‘ ‚liljur vallarins,‘ ‚þröngt hlið,‘ ‚hús á bjargi‘ og margt í þeim dúr gerði kennslu hans áhrifamikla, skýra og ógleymanlega. — Matt. 5.-7. kafli.

Heimfærsla. Skýringar og líkingar eru til þekkingarauka en það er heimfærsla þekkingarinnar sem skilar árangri. Það er að vísu á ábyrgð áheyrenda sjálfra að fara eftir boðskap Biblíunnar en þú getur leitt þeim fyrir sjónir hvað þeir þurfa að gera. Þegar þú ert viss um að áheyrendur skilji versið sem til umræðu er og átti sig á því hvernig það snertir efnið, þarftu að gefa þér nægan tíma til að sýna þeim fram á áhrif þess á trú þeirra og hegðun. Bentu á kosti þess að leggja af rangar hugmyndir eða hegðun sem stangast á við þau sannindi sem eru til umræðu.

Mundu að áheyrendur eiga sér margs konar bakgrunn og búa við mjög breytilegar aðstæður og taktu mið af því þegar þú hugleiðir hvernig þú heimfærir ritningarstaði. Vel má vera að í hópnum sé fólk sem hefur nýlega sýnt áhuga, unglingar, aldraðir og ýmsir sem eiga við alls konar persónuleg vandamál að glíma. Gerðu ræðuna raunhæfa og raunsæja og gefðu ekki leiðbeiningar sem hljóma eins og þær séu ætlaðar einhverjum fáeinum í hópnum.

Það sem ræðumaður þarf sjálfur að ákveða

Sumt er búið að ákveða fyrir þig varðandi ræðuna. Aðalatriðin koma skýrt fram og tiltekið er hve mikinn tíma þú átt að nota til að ræða um efnið undir hverri millifyrirsögn. En þú þarft sjálfur að ákveða ýmislegt annað. Kannski viltu fjalla misítarlega um stuðningspunktana. Þú þarft ekki endilega að fara jafnítarlega yfir hvern einasta stuðningspunkt. Ef þú gerir það gætirðu þurft að fara á harðaspretti yfir eitthvað af efninu og þá myndirðu drekkja áheyrendum. Hvernig geturðu ákveðið hvað skuli fjalla ítarlega um og hvað stuttlega eða lauslega? Spyrðu þig: ‚Hvaða atriði hjálpa mér að koma kjarnanum í ræðunni til skila? Hvað er líklegast til að koma áheyrendum að mestu gagni? Slitnar rökþráðurinn í ræðunni ef ég sleppi ákveðnum ritningarstað, sem vísað er til, og skýringunni við hann?‘

Gættu þess vandlega að skjóta ekki tilgátum eða persónulegum skoðunum inn í ræðuna. Sonur Guðs, Jesús Kristur, talaði ekki einu sinni ‚af sjálfum sér.‘ (Jóh. 14:10) Mundu að fólk kemur á samkomur Votta Jehóva til að heyra biblíulega umfjöllun. Ef þú ert álitinn góður ræðumaður má líklega rekja það til þess að þú hefur tamið þér að vekja athygli á orði Guðs en ekki sjálfum þér. Og fyrir vikið eru ræður þínar vel metnar. — Fil. 1:10, 11.

Þegar þú ert búinn að breyta einföldu uppkasti í kjarngóða biblíuskýringu þarftu að æfa þig í að flytja ræðuna, helst upphátt. Aðalatriðið er að þú sért örugglega vel heima í efninu. Þú þarft að geta flutt ræðuna með sannfæringu, gætt efnið lífi og flutt sannleikann með eldmóði. Áður en þú flytur ræðuna skaltu spyrja þig: ‚Hverju vonast ég til að áorka?‘ Spyrðu síðan: ‚Eru aðalatriðin skýr og skera þau sig úr? Hefur mér tekist að byggja ræðuna vel á Biblíunni? Mynda ég eðlilega brú frá einu aðalatriði yfir til þess næsta? Eflir ræðan virðingu fyrir Jehóva og ráðstöfunum hans? Eru niðurlagsorðin í samræmi við stefið? Benda þau áheyrendum á hvað þeir þurfi að gera og hvetja þá til þess?‘ Ef þú getur svarað öllum þessum spurningum játandi, þá ertu í aðstöðu til að miðla ‚þekkingu,‘ söfnuðinum til gagns og Jehóva til lofs. — Orðskv. 15:2.

EF RÆÐAN ÞÍN ER TÚLKUÐ Á ANNAÐ MÁL

Oft búa margir málhópar í einu og sama landi sem getur haft í för með sér að ræðumenn þurfi að flytja erindi með hjálp túlks. Eftirfarandi leiðbeiningar geta komið bæði þér og túlknum að gagni ef þú ert beðinn að flytja biblíulega ræðu við slíkar aðstæður.

  • Áhrif ræðunnar eru mjög undir túlknum komin. Reyndur túlkur skilar jafnvel betri túlkun ef þú hjálpar honum að undirbúa sig.

  • Að jafnaði er nauðsynlegt að stytta ræðu um að minnsta kosti þriðjung til að skila henni, ásamt túlkun, innan tímamarka. (Þetta á þó ekki við um táknmálstúlkun því að hún getur farið fram nánast samtímis ræðunni.)

  • Farðu yfir ræðuuppkastið í stórum dráttum með túlknum og gerðu grein fyrir markmiði þínu. Ef um er að ræða upplestrarræðu á umdæmismóti skaltu leyfa túlknum að skoða handritið með góðum fyrirvara.

  • Ræddu við túlkinn um þá ritningarstaði sem þú ætlar að nota. Gakktu úr skugga um að sama hugsun komi fram í biblíunni á viðtökumálinu og í þinni eigin biblíu. Bentu túlknum á þau orð í ritningarstöðunum sem þú leggur áherslu á eða útskýrir.

  • Ákveðið í sameiningu hvort lesa á ritningarstaðina á báðum tungumálum eða aðeins öðru. Oft nægir að lesa þá á viðtökumálinu.

  • Runur af dagsetningum, tölum og ritningarvísunum geta verið erfiðar fyrir túlkinn. Gerðu góðar þagnir á milli talna og notaðu helst afrúnnaðar tölur.

  • Ef þú notar líkingar, orðatiltæki og óvenjulegt orðalag skaltu fara yfir það með túlknum. Gakktu úr skugga um að túlkurinn skilji það og að hægt sé að koma því til skila á viðtökumálinu.

  • Talaðu í stuttum setningum. Segðu heila hugsun áður en þú gerir hlé fyrir túlkinn. (Hann þýðir hugsanir en ekki endilega öll orðin.) Leyfðu túlknum að ljúka setningunni áður en þú heldur áfram, til að túlkunin verði samfelld.

  • Nægur raddstyrkur og góð framsögn er mikilvæg fyrir túlkinn.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila