Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 25 bls. 166-bls. 169 gr. 5
  • Að nota uppkast

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Að nota uppkast
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Samband við áheyrendur og minnisblöð
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Að semja uppkast
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Mælt af munni fram
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Að semja ræður ætlaðar almenningi
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 25 bls. 166-bls. 169 gr. 5

Námskafli 25

Að nota uppkast

Hvað þarftu að gera?

Talaðu eftir uppkasti, sem þú geymir annaðhvort í huganum eða á blaði, í stað þess að flytja ræðu eftir útskrifuðu handriti.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Þú kemur röð og reglu á hugsanir þínar með því að semja uppkast. Það er auðveldara fyrir þig að tala eðlilega og innilega ef þú flytur ræðuna eftir uppkasti.

MARGIR kvíða fyrir því að flytja ræðu eftir uppkasti. Þeim finnst öruggara að skrifa allt sem þeir ætla að segja orðrétt niður eða leggja það á minnið.

En í raun réttri tölum við á hverjum degi án þess að hafa handrit. Við gerum það þegar við ræðum við ættingja og vini. Við gerum það í boðunarstarfinu. Og við gerum það þegar við biðjum innilegra bæna, hvort sem það er í einrúmi eða fyrir hönd annarra.

Skiptir það máli hvort þú notar handrit eða uppkast þegar þú flytur ræðu? Enda þótt upplestur eftir handriti geti stuðlað að nákvæmni og afar vönduðu orðalagi er erfiðara að snerta hjörtu áheyrenda með þeim hætti. Eftir að þú ert búinn að lesa nokkrar setningar er hætta á að þú farir að tala með öðrum raddblæ og hrynjandi en þú gerir í eðlilegu, daglegu tali. Ef athyglin hjá þér beinist meira að blöðunum en áheyrendum er óvíst að þeir hlusti á þig með jafnmikilli athygli og þeir myndu gera ef þeir fyndu að þú værir í alvöru að hugsa um þá og lagaðir efnið að þeim. Viljirðu að ræðan sé virkilega hvetjandi er best að tala eftir minnispunktum.

Það er hlutverk Boðunarskólans að hjálpa okkur í hinu daglega lífi. Þegar við hittum vini drögum við ekki blað úr pússi okkar og lesum upp það sem við erum að hugsa, svona til að tryggja að við orðum það sem best. Við tökum ekki með okkur handrit út í boðunarstarfið og lesum það upp til að gleyma nú örugglega engu sem við viljum koma á framfæri við fólk. Æfðu þig í að tala sem eðlilegast þegar þú sýnir í skólanum hvernig má vitna undir slíkum kringumstæðum. Ef þú undirbýrð þig vel er reyndin yfirleitt sú að uppkast, sem þú hefur annaðhvort á blaði eða í huganum, nægir til að minna þig á aðalatriðin sem þú ætlar að ræða um. En hvernig geturðu fengið nægilegt sjálfstraust til að tala eftir uppkasti?

Komdu röð og reglu á hugsanir þínar. Til að tala eftir uppkasti þarftu fyrst að koma röð og reglu á hugsanir þínar. Hugmyndin er ekki sú að velja fyrir fram hvaða orð þú notar heldur einfaldlega að hugsa áður en þú talar.

Fljótfær maður á það til í daglega lífinu að gusa einhverju út úr sér sem hann sér svo eftir að hafa sagt. Annar talar hálfstefnulaust og veður úr einu í annað. Hvort tveggja er hægt að yfirvinna með því að gefa sér ráðrúm til að semja einfalt uppkast í huganum áður en maður byrjar að tala. Glöggvaðu þig fyrst á því markmiði sem þú vilt ná, leggðu síðan niður fyrir þér hvernig þú nærð því og talaðu svo.

Ertu að búa þig undir boðunarstarfið? Gefðu þér ekki aðeins tíma til að raða í starfstöskuna heldur einnig til að koma röð og reglu á hugsanir þínar. Ef þú ákveður að nota kynningartillögu úr Ríkisþjónustu okkar skaltu lesa hana nokkrum sinnum til að átta þig vel á aðalhugmyndunum. Dragðu hana saman í eina eða tvær stuttar setningar. Lagaðu kynninguna síðan að því orðalagi sem þér er tamt og að aðstæðum á svæðinu. Það er gott fyrir þig að vera með uppkast í huganum. Hvernig gæti það verið? (1) Í inngangsorðunum gætirðu nefnt eitthvað sem er ofarlega á baugi í samfélaginu. Gefðu viðmælandanum kost á að tjá sig um það. (2) Hafðu eitthvað ákveðið í huga sem þú vilt segja um málið, þar á meðal einn eða tvo ritningarstaði sem sýna hvaða lausn Guð hefur lofað. Ef færi gefst skaltu benda á að Jehóva muni nota ríki sitt eða himneska stjórn til þess. (3) Hvettu viðmælandann til að gera eitthvað í framhaldi af því sem þið rædduð. Þú gætir boðið rit og/eða biblíunámskeið og mælt þér mót við hann síðar til að halda umræðunum áfram.

Fyrir svona kynningu er yfirleitt nóg að vera með stutt uppkast í huganum. Ef þú vilt vera með uppkast á blaði áður en þú ferð í fyrstu heimsóknina nægja sennilega fáein inngangsorð, einn eða tveir ritningarstaðir og örstutt ábending um niðurlagsorð. Ef þú semur slíkt uppkast og notar það er síður hætta á að þú talir sundurlaust, og það auðveldar þér að skilja eftir skýr skilaboð sem þægilegt er að muna.

Ef ákveðin spurning eða mótbára er algeng á starfssvæðinu gæti verið gott fyrir þig að kynna þér málið vel. Yfirleitt er nóg að hafa á takteinum tvö eða þrjú aðalatriði ásamt ritningarstöðum sem styðja þau. Efni í bæklingnum Umræðuefni úr Biblíunni eða feitletraðar millifyrirsagnir í Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókinni) gætu nýst þér ágætlega sem uppkast. Ef til vill finnurðu líka gott efni annars staðar sem þú vilt vitna í. Semdu stutt uppkast á blaði, heftu við ljósrit af textanum sem þú vilt vitna í og geymdu í starfstöskunni. Þegar húsráðandi ber upp spurninguna eða mótbáruna skaltu segja honum að þú fagnir því að fá tækifæri til að færa rök fyrir trú þinni. (1. Pét. 3:15) Notaðu síðan uppkastið þegar þú svarar.

Þegar þú átt að fara með bæn fyrir hönd fjölskyldunnar, bóknámshópsins eða safnaðarins er einnig gott að hugsa fyrir fram hvað þú ætlar að segja. Samkvæmt Lúkasi 11:2-4 gaf Jesús lærisveinunum einfalt uppkast að innihaldsríkri bæn. Salómon fór með langa bæn við vígslu musterisins í Jerúsalem. Augljóst er að hann hefur íhugað bænarefnið fyrir fram. Hann beindi athyglinni fyrst að Jehóva og fyrirheitum hans við Davíð, síðan að musterinu og því næst að sérstökum aðstæðum og hópum manna, hverjum fyrir sig. (1. Kon. 8:22-53) Við getum lært af þessum dæmum.

Hafðu ræðuuppkastið einfalt. Ætlarðu að semja uppkast að ræðu? Hversu ítarlegt á það að vera?

Mundu að uppkastið á að minna þig á hugmyndir. Það getur verið gott að skrifa niður fyrstu setningarnar í fullri lengd en eftir það skaltu einbeita þér að hugmyndum en ekki orðum. Ef þú skrifar þessar hugmyndir sem heilar setningar skaltu reyna að hafa þær stuttar. Þau fáu aðalatriði, sem þú ætlar að vinna úr, ættu að skera sig úr í uppkastinu. Þú gætir til dæmis skrifað þau með upphafsstöfum, strikað undir þau eða merkt þau með áherslupenna. Undir hverju aðalatriði skaltu síðan punkta niður þær hugmyndir sem þú ætlar að nota til að vinna nánar úr því. Skrifaðu niður þá ritningarstaði sem þú ætlar að lesa. Að jafnaði er best að lesa textann upp úr sjálfri Biblíunni. Punktaðu hjá þér líkingar og dæmi sem þig langar til að nota. Hugsanlega viltu líka vitna í aðrar heimildir ef við á. Hafðu minnispunktana nógu ítarlega til að efnið sé markvisst og nákvæmt. Og snyrtilegt uppkast er auðveldara í notkun en krubbulegt.

Uppkast getur verið mjög stutt, kannski fáein lykilorð, ábendingar um ritningarstaði sem ræðumaður ætlar að vitna í eftir minni og uppdrættir eða myndir sem auðvelda honum að muna hugmyndirnar. Með þessa einföldu minnispunkta fyrir framan sig getur ræðumaður flutt efnið í rökréttri röð og samræðustíl. Það er markmiðið með þessu þjálfunarstigi.

Á blaðsíðu 39 til 42 í þessari bók er fjallað um hvernig semja megi uppkast. Það væri mjög gott fyrir þig að lesa þetta efni í tengslum við þennan námskafla, „Að nota uppkast.“

Hvernig áttu að nota uppkastið? En nú snýst málið ekki einungis um það að semja uppkast að ræðunni heldur einnig að nota það vel.

Eftir að uppkastið er samið þarftu að byrja á því að undirbúa flutninginn. Líttu á stefið, lestu yfir hvert aðalatriði og minntu þig á hvernig hvert um sig tengist stefinu. Punktaðu hjá þér tímann sem hægt er að nota fyrir hvert aðalatriði. Snúðu þér síðan aftur að fyrsta aðalatriðinu og skoðaðu það vel. Rifjaðu upp rökfærsluna, ritningarstaðina, líkingarnar og dæmin sem þú ætlar að nota til að vinna úr þessu atriði. Farðu nokkrum sinnum yfir efnið uns þessi kafli ræðunnar er fastmótaður í huga þér. Farðu yfir hin aðalatriðin á sama hátt. Veltu fyrir þér hverju þú mættir sleppa ef þörf krefur til að ljúka ræðunni innan tilskilinna tímamarka. Rifjaðu síðan upp alla ræðuna og einbeittu þér að hugmyndunum en ekki orðunum. Reyndu ekki að læra ræðuna utan að.

Þú ættir að geta haft gott augnasamband við áheyrendur þegar þú flytur ræðuna. Eftir að þú hefur lesið upp ritningartexta ættirðu að jafnaði að geta rætt um hann með Biblíuna í hendinni, án þess að líta aftur á minnisblöðin. Þú ættir að geta sagt frá dæmi eða líkingu eins og þú sért að tala við vin frekar en að lesa upp af blaði. Líttu ekki á minnisblöðin í hvert sinn sem þú byrjar á nýrri setningu. Talaðu frá hjartanu, þá nærðu til hjartans hjá þeim sem á þig hlýða.

Þegar þú nærð góðum tökum á listinni að tala eftir uppkasti, þá hefurðu náð mikilvægum áfanga í þá átt að verða góður ræðumaður.

ÞANNIG FERÐU AÐ

  • Minntu þig á kosti þess að tala eftir uppkasti.

  • Hugsaðu áður en þú talar dags daglega.

  • Byggðu upp nægilegt sjálfstraust til að tala eftir uppkasti með því að biðja til Jehóva og taka góðan þátt í safnaðarsamkomum.

  • Hafðu uppkastið nógu einfalt til að þér nægi að líta sem snöggvast á það.

  • Búðu þig undir að flytja ræðuna með því að rifja upp hugmyndir en ekki með því að leggja orð á minnið.

ÆFING: Semdu einfalt uppkast í huganum að einhverju ákveðnu sem þú vilt segja í boðunarstarfinu í þessari viku. (Sjá bls. 167, grein 3.) Taktu eftir hve oft þér tekst að ræða um það sem þú ætlaðir þér, þegar út á svæðið er komið, eða í það minnsta að koma inntaki þess á framfæri.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila