Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 10 bls. 115-bls. 117 gr. 3
  • Eldmóður

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Eldmóður
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Eldmóður og hlýja
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Kenndu af brennandi áhuga
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2021
  • Fræðandi efni, skýrt og greinilegt
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Fræðandi fyrir áheyrendur
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 10 bls. 115-bls. 117 gr. 3

Námskafli 10

Eldmóður

Hvað þarftu að gera?

Sýndu að þú sért hrifinn af efninu og gildi þess með því að flytja það líflega.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Eldmóður auðveldar þér að halda athygli áheyrenda og getur hvatt þá til dáða. Ef þú ert hrifinn af efninu hrífurðu áheyrendur með.

ELDMÓÐUR lífgar ræðu. Þótt mikilvægt sé að hafa fróðlegt efni fram að færa er það líflegur og örvandi flutningur sem grípur athygli áheyrenda. Þú getur tileinkað þér viðeigandi eldmóð og ákafa óháð uppruna þínum eða persónuleika.

Talaðu af tilfinningu. Jesús sagði í samtali við samverska konu að þeir sem tilbiðji Jehóva verði að gera það „í anda og sannleika.“ (Jóh. 4:24) Tilbeiðslan þarf að vera í samræmi við sannleikann í orði Guðs og spretta af innilegu þakklæti til hans. Ef maður er þakklátur kemur það fram í því hvernig hann talar. Þá er honum ákaft um að segja öðrum frá Jehóva og kærleiksverkum hans. Svipbrigði hans, tilburðir og raddblær endurspegla hvernig honum er innanbrjósts.

Hvernig getur það þá gerst að eldmóð vanti hjá ræðumanni sem elskar Jehóva og trúir því sem hann er að segja? Það er ekki nóg að hann taki saman efni og semji ræðu. Hann þarf líka að lifa sig inn í efnið og hrífast af því. Segjum að honum sé falið að fjalla um lausnarfórn Jesú Krists. Þegar hann flytur ræðuna þarf hugurinn að vera uppfullur af þakklæti, ekki aðeins upplýsingum. Hann þarf að skilja til hlítar hvað fórn Jesú þýðir bæði fyrir hann sjálfan og áheyrendur. Hann þarf að kalla fram þakklætiskenndina til Jehóva Guðs og Jesú Krists fyrir þessa miklu ráðstöfun. Hann þarf að hugsa um þá stórfenglegu lífsmöguleika sem hún opnar mannkyni — eilífa hamingju og fullkomna heilsu í paradís á jörð! Þannig hefur hann hjartað með í ræðunni.

Biblían segir að fræðimaðurinn Esra, sem var kennari í Ísrael, hafi „undirbúið hjarta sitt til að leita ráða í lögum Jehóva og breyta eftir þeim og kenna . . . í Ísrael.“ (Esra. 7:10, NW) Ef við gerum það líka — undirbúum ekki aðeins efnið heldur einnig hjartað — tölum við frá hjartanu. Með því að flytja sannleikann af öllu hjarta stuðlum við að því að viðmælendur okkar fái ást á sannleikanum.

Hugsaðu um áheyrendur þína. Til að sýna eldmóð þarftu líka að vera sannfærður um að áheyrendur þurfi að heyra það sem þú hefur fram að færa. Þetta þýðir að þú safnir ekki aðeins góðu efni í ræðuna heldur biðjir líka Jehóva að leiðbeina þér svo að þú getir notað það til gagns fyrir þá sem þú ætlar að tala til. (Sálm. 32:8; Matt. 7:7, 8) Veltu vandlega fyrir þér hvers vegna áheyrendur þurfi að heyra þetta efni, hvaða gagn þeir hafi af því og hvernig þú getur komið því þannig á framfæri að þeir geri sér grein fyrir gildi þess.

Leggðu næga vinnu í efnið til að láta það örva sjálfan þig. Efnið þarf ekki að vera nýtt en þú gætir tekið það nýjum tökum. Ef þér finnst þú hafa eitthvað fram að færa sem geti hjálpað áheyrendum að treysta sambandið við Jehóva og læra að meta ráðstafanir hans, styrkt þá í glímunni við álag þessa gamla heimskerfis eða komið þeim að gagni í boðunarstarfinu, þá hefurðu ástæðu til að flytja ræðuna með eldmóði.

Ef verkefnið er fólgið í upplestri þarftu að leggja þig vel fram. Til að lesa með eldmóði er ekki nóg að lesa orðin rétt og flokka þau rétt. Þú þarft að þaullesa efnið. Ef þú átt að lesa upp biblíukafla skaltu rannsaka efnið vel. Fullvissaðu þig um að þú skiljir grunnmerkingu þess. Hugleiddu hvernig það er gagnlegt fyrir þig og áheyrendur þína og reyndu að koma því til skila þegar þú lest það.

Ertu að búa þig undir boðunarstarfið? Rifjaðu upp það umræðuefni, sem þú hefur valið þér, og ritningarstaðina sem þú ætlar að nota. Og veltu fyrir þér hvað er fólki ofarlega í huga þá stundina. Hvað er ofarlega á baugi í fjölmiðlum? Hvaða vandamál á fólk við að glíma? Þegar þú ert undir það búinn að benda fólki á að orð Guðs hafi að geyma lausnina á vandamálum þess, þá ertu óðfús að gera það og eldmóðurinn kemur af sjálfu sér.

Eldmóður birtist í líflegum flutningi. Eldmóður birtist einna best í líflegum flutningi og svipbrigðum. Þú þarft að hljóma sannfærandi án þess að virka kreddufastur.

En þú þarft líka að gæta jafnvægis. Einstaka manni hættir til að fyllast eldmóði yfir hverju sem er. Það gæti þurft að leiða þeim fyrir sjónir að þeir megi ekki vera of hástemmdir eða tilfinningasamir því að þá fara áheyrendur að hugsa meira um flytjandann en efnið. Þeir sem eru feimnir þurfa hins vegar að fá hvatningu til að sýna meiri tilfinningu.

Eldmóður er smitandi. Ef þú hefur gott samband við áheyrendur og hefur áhuga á ræðunni smitast áheyrendur af eldmóði þínum. Apollós var líflegur ræðumaður og er sagður hafa verið vel máli farinn. Ef þú ert brennandi í andanum hveturðu áheyrendur til dáða með líflegum flutningi. — Post. 18:24, 25; Rómv. 12:11.

Eldmóður sem hæfir efninu. Gættu þess að flytja ekki alla ræðuna af slíkum eldmóði að áheyrendur verði úrvinda. Þá er hætta á að þú talir fyrir þreyttum eyrum þegar þú hvetur þá til dáða. Þetta minnir á mikilvægi þess að undirbúa efnið þannig að þú hafir svigrúm til að flytja það á fjölbreytilegan hátt. Reyndu að falla ekki í þann farveg að virka kærulaus. Ef þú vandar efnisvalið hefurðu sjálfur brennandi áhuga á því. En sum atriði kalla á meiri eldmóð í flutningi en önnur og þú þarft að flétta þeim fagmannlega inn í ræðuna.

Þú þarft sérstaklega að koma aðalatriðunum á framfæri með eldmóði. Það þurfa að vera vissir hátindar í ræðunni og ákveðinn stígandi að þeim. Þetta eru aðalatriðin sem eru að jafnaði til þess fallin að hvetja áheyrendur. Eftir að hafa sannfært þá þarftu að örva þá og hvetja. Þú þarft að sýna þeim fram á hvaða gagn þeir hafi af því að fara eftir því sem þú ræddir um. Eldmóðurinn hjálpar þér að snerta hjörtu þeirra. Líflegur flutningur er aldrei þvingaður. Það á að vera ástæða fyrir honum og hún er fólgin í innihaldi efnisins.

GERÐU EFTIRFARANDI

  • Undirbúðu ekki aðeins efnið heldur einnig hjartað; þannig virkjarðu tilfinningarnar við flutning ræðunnar.

  • Hugleiddu vandlega hvaða gagn áheyrendur eða viðmælendur hafa af efninu.

  • Finndu þá staði þar sem þú þarft að sýna sérstakan eldmóð.

  • Talaðu líflega. Láttu svipbrigðin endurspegla hvernig þér er innanbrjósts. Talaðu af krafti.

ÆFING: Farðu vel yfir 1. og 2. kafla Jósúabókar og kannaðu hvar og hvernig væri viðeigandi að sýna eldmóð í upplestri. Æfðu þig í að lesa kaflana upphátt með eldmóði sem hæfir efninu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila