14. námskafli
Eldmóður og hlýja
1 Eldmóður er líf ræðunnar. Ef þú hefur ekki áhuga á því sem þú ert að segja er öruggt að áheyrendur hafa ekki áhuga á því heldur. Nái það ekki að hrífa þig nær það ekki heldur að hrífa þá. En til þess að þú sem ræðumaður sýnir ósvikinn eldmóð þarftu að vera algerlega sannfærður um að áheyrendur þínir þurfi að heyra það sem þú hefur að segja. Það þýðir að þú hafðir þá í huga þegar þú byrjaðir að undirbúa þig og valdir efni sem þú taldir koma þeim að mestu gagni. Síðan vannst þú þannig úr því að áheyrendur mátu gildi þess. Nú finnurðu þig knúinn til að tala af einlægni og viðbrögð áheyrenda verða eftir því.
2 Eldmóður birtist í líflegum flutningi. Eldmóður birtist einna best í líflegum flutningi. Þú mátt ekki virðast áhugalaus eða kærulaus. Svipbrigði þín, raddblær og tungutak þarf að sýna að þú sért glaðvakandi. Þú þarft að tala með krafti og þrótti. Þú þarft að hljóma sannfærandi án þess að virka kreddufastur. Þótt þú eigir að sýna eldmóð máttu aldrei láta tilfinningarnar hlaupa með þig í gönur. Ef þú missir stjórn á þér missirðu áheyrendurna líka.
3 Eldmóður er smitandi. Ef þú ert fullur eldmóðs hrífast áheyrendur með. Áhrifin eru gagnvirk ef þú hefur gott samband við áheyrendur og það viðheldur eldmóði þínum. Sértu hins vegar líflaus lognast áheyrendur út af með þér.
4 Páll segir að við eigum að vera brennandi í anda Guðs. Ef þú ert það stuðlar líflegur flutningur að því að andi Guðs streymir til áheyrenda þinna og hvetur þá til verka. Apollós sýndi slíkan anda í tali sínu og var sagður „maður vel máli farinn.“ — Rómv. 12:11; Post. 18:25; Job. 32:18-20; Jer. 20:9.
5 Til að flytja ræðu með eldmóði þarftu að vera sannfærður um að þú hafir eitthvað verðmætt fram að færa. Leggðu þá vinnu í efnið sem þarf uns þú finnur að þú hefur eitthvað fram að færa sem örvar sjálfan þig. Efnið þarf ekki að vera nýtt en tök þín á því geta verið fersk. Ef þér finnst þú hafa eitthvað fram að færa sem styrkir áheyrendur í tilbeiðslu þeirra, gerir þá hæfari þjóna orðsins eða betri kristna menn, þá hefurðu ríka ástæðu til að flytja ræðuna af eldmóði og gerir það eflaust.
6 Eldmóður hæfir efninu. Eigi ræðan að vera fjölbreytt og áheyrendur að hafa fullt gagn af henni má eldmóðurinn ekki vera í hámarki alla ræðuna. Þá verða áheyrendur úrvinda áður en þeir hafa tækifæri til að fara eftir orðum þínum. Þetta minnir aftur á nauðsyn þess að undirbúa nægilega fjölbreytt efni til að þú hafir svigrúm til að flytja það á fjölbreyttan hátt. Það þýðir að þú þarft að segja sumt af meiri eldmóði en annað og flétta því fagmannlega inn í ræðuna.
7 Sérstaklega þarftu að koma aðalatriðunum á framfæri af eldmóði. Það þarf að vera stígandi og hátindar í ræðunni. Aðalatriðin eru að jafnaði til þess fallin að hvetja áheyrendur og hnykkja á rökfærslu þinni, skýringum eða leiðbeiningum. Þegar þú hefur sannfært áheyrendur þína þarftu að hvetja þá til verka. Þú þarft að lýsa vandlega þeim kostum sem niðurstaða þín leiðir til og þeirri gleði og sérréttindum sem þessi sannfæring veitir þeim. Það kallar á eldmóð.
8 Samt sem áður ættirðu aldrei að vera kærulaus í flutningi þínum á öðrum ræðuköflum. Þú ættir aldrei að glata nánum tengslum þínum við ræðuna í heild eða virka áhugalaus. Sjáðu fyrir þér dádýr á beit í kyrrlátu skógarrjóðri. Þótt það sýnist vera rólegt er slíkur kraftur dulinn í grönnum fótleggjunum að það getur stokkið burt á augabragði við minnsta hættumerki. Það er rólegt en árvakurt. Þannig ættir þú einnig að vera þótt þú talir ekki af fullum eldmóði.
9 Hvað er átt við með þessu? Að líflegur ræðuflutningur má aldrei vera uppgerðarlegur. Það á að vera ástæða fyrir honum og hún þarf að koma fram í efninu. Leiðbeinandinn fylgist með því hvort eldmóðurinn hæfi efninu. Var hann of mikill, of lítill eða á röngum stað? Hann tekur auðvitað tillit til persónuleika þíns, og ef þú ert feiminn eða óframfærinn hvetur hann þig til að sýna meiri eldmóð. Ef þú segir hins vegar alla hluti af of miklum ákafa ráðleggur hann þér að hægja á. Láttu eldmóðinn hæfa efninu og hafðu efnið fjölbreytt svo að eldmóðurinn verði í jafnvægi út alla ræðuna.
――――◆◆◆◆◆――――
10 Hlýja og samkennd er nátengd eldmóði en á sér rætur í ólíkum tilfinningum og hefur önnur áhrif á áheyrendur. Sem ræðumaður ertu að jafnaði fullur af eldmóði vegna efnisins, en þér hlýnar um hjartaræturnar þegar þú hugsar til áheyrenda þinna og langar til að gera þeim gott. Hugsaðu vel um þjálfunarstigið „Hlýja, samkennd“ á ráðleggingakortinu.
11 Ef þú sýnir hlýju og samkennd finna áheyrendur að þú ert ástúðlegur, vinalegur og hjartahlýr. Þeir laðast að þér eins og að eldi á kaldri nóttu. Líflegur flutningur er hvetjandi en alúð og umhyggja er einnig nauðsynleg. Það er ekki alltaf nóg að sannfæra hugann, það þarf líka að ná til hjartans.
12 Væri til dæmis við hæfi að lesa Galatabréfið 5:22, 23 um kærleika, langlyndi, góðvild og hógværð án þess að endurspegla þessa eiginleika að einhverju marki í viðmóti sínu? Taktu líka eftir þeim hlýju tilfinningum sem Páll lætur í ljós í 1. Þessaloníkubréfi 2:7, 8. Þetta eru orð sem segja þarf með hlýju og tilfinningu. Hvernig er það hægt?
13 Hlýja í svipbrigðum. Ef þér er hlýtt til áheyrenda ætti það að endurspeglast í svipbrigðum þínum. Annars er óvíst að áheyrendur sannfærist um einlæga samkennd þína. En hún verður að vera ósvikin. Það er ekki hægt að bregða henni upp eins og grímu. Það má ekki heldur rugla hlýju og samkennd saman við tilfinningasemi og væmni. Vingjarnlegt svipmót ber vitni um einlægni og hreinskilni.
14 Í flestum tilvikum talar þú frammi fyrir vingjarnlegum áheyrendahópi. Þú finnur því til hlýju í garð áheyrenda ef þú lítur á þá. Þú ert afslappaður og vingjarnlegur. Veldu einhvern áheyranda sem er sérstaklega vingjarnlegur á svip. Talaðu við hann nokkur augnablik. Veldu síðan einhvern annan og talaðu við hann. Bæði stuðlar þetta að góðu sambandi við áheyrendur og þú laðast að þeim. Vingjarnlegt svipmót þitt laðar þá svo að þér.
15 Hlýja og samkennd í raddblæ. Það er alkunna að jafnvel dýr geta að vissu marki skynjað tilfinningaástand fólks á raddblæ þess. Mennskir áheyrendur bregðast ekki síður vel við rödd sem ómar af hlýju og samkennd.
16 Ef þér finnst þú fjarlægur áheyrendum og hugsar meira um orðin, sem þú ert að segja en viðbrögð áheyrenda við þeim, verður erfitt að dylja það fyrir vökulum áheyrendum. En ef áhugi þinn beinist hins vegar óskiptur að áheyrendum og þig langar í alvöru til að koma hugsunum þínum á framfæri við þá þannig að þeir hugsi eins og þú, þá endurómar raddblærinn tilfinningar þínar.
17 En áhugi þinn verður vitanlega að vera einlægur. Það er ekki hægt að gera sér upp ósvikna hlýju frekar en eldmóð. Ræðumaður ætti aldrei að gera sér upp hræsnisfulla hlýju. Það má ekki heldur rugla saman hlýju og samkennd annars vegar og tilfinningasemi eða uppgerð og skjálfandi rödd hins vegar.
18 Sé rödd þín hrjúf og hörð getur verið erfitt að láta hana tjá hlýju og tilfinningu. Þú ættir að leggja þig vel fram um að sigrast á slíkum vanda. Málið snýst í rauninni um raddgæði og það tekur tíma að bæta röddina, en með viðeigandi athygli og viðleitni má gera mikið til að gera röddina hlýlega.
19 Eitt tæknilegt mál, sem getur hjálpað þér, er að hafa hugfast að stutt og snubbótt sérhljóð gera málið hart. Lærðu að teygja örlítið á sérhljóðunum. Það mýkir þau og stuðlar sjálfkrafa að hlýlegum raddblæ.
20 Hlýja og samkennd hæfa efninu. Líkt og eldmóðurinn er hlýja og samkennd að miklu leyti háð því sem þú segir. Frásögnin af fordæmingu Jesú á fræðimönnunum og faríseunum í Matteusi 23. kafla er dæmi um það. Við getum varla ímyndað okkur að hann hafi sagt þessi hörðu og dæmandi orð dauflega og líflaust. En mitt í þessum reiðilestri er að finna hlýleg orð sem lýsa vel umhyggju og meðaumkun Jesú: „Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.“ Hér er greinilega við hæfi að láta í ljós blíðu. En næstu orð Jesú: „Hús yðar verður í eyði látið,“ lýsa ekki sömu tilfinningu. Hér lýsir raddblærinn höfnun og viðbjóði.
21 Hvenær er þá hlýja og samkennd við hæfi? Í boðunarstarfinu og í nemendaræðum er hlýja og samkennd yfirleitt við hæfi, sérstaklega þegar þú ert að rökræða við áheyrendur, hvetja þá, sýna samúð og svo framvegis. En gleymdu ekki viðeigandi eldmóði þegar þú talar hlýlega. Gættu jafnvægis á öllum sviðum og gæddu orð þín öllu því lífi sem þú getur.
[Spurningar]
1. Hvað stuðlar að eldmóði?
2-5. Hvernig má sýna eldmóð með líflegum flutningi?
6-9. Hvaða þýðingu hefur efni ræðunnar fyrir eldmóð í flutningi?
10-12. Hvað er átt við með hlýju og samkennd?
13, 14. Hvernig er hægt að sýna hlýju með svipbrigðum?
15-19. Hvernig getur rödd ræðumanns endurómað hlýju og samkennd?
20, 21. Á hvaða hátt hefur efnið áhrif á hlýju og samkennd í flutningi?