Námskafli 12
Tilburðir og svipbrigði
ÞAÐ er breytilegt eftir menningarsamfélögum hve fólki er eiginlegt að nota svipbrigði, látbragð og tilburði. Næstum allir tala þó með einhvers konar látbragði og svipbrigðum, jafnt í samræðum sem á ræðupallinum.
Látbragð og tilburðir voru eðlilegur þáttur í fari Jesú og lærisveina hans. Einhverju sinni var Jesú sagt að móðir hans og bræður vildu ná tali af honum. „Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?“ svaraði hann. Síðan segir Biblían: „Og hann rétti út höndina yfir lærisveina sína og sagði: ‚Hér er móðir mín og bræður mínir.‘ “ (Matt. 12:48, 49) Af öðrum dæmum um tilburði má nefna Postulasöguna 12:17 og 13:16 þar sem fram kemur að postularnir Pétur og Páll hafi ósjálfrátt notað bendingar og látbragð.
Við tjáum hugmyndir og tilfinningar ekki síður með látbragði og svipbrigðum en með röddinni. Án þeirra mætti ætla að mælandinn væri áhugalítill um það sem hann er að segja. Mál manns er mun áhrifameira en ella ef þessum tjáningarleiðum er blandað smekklega saman. Jafnvel þegar maður talar í síma geta lifandi tilburðir og svipbrigði haft sitt að segja, því að þá skilar röddin því betur hvernig maður hugsar og hvað manni finnst um það sem maður er að segja. Svipbrigði og látbragð hafa því sitt að segja, hvort sem þú talar eftir minnispunktum eða lest upp, og hvort sem áheyrendur horfa á þig eða fylgjast með í biblíunni sinni.
Maður lærir ekki tilburði og svipbrigði af bók. Ekki þurftirðu bók til að læra að hlæja eða hneykslast. Látbragð og tilburðir ættu að túlka tilfinningar sem þú berð í brjósti. Því ósjálfráðari sem tilburðirnir eru, þeim mun betra.
Tilburðum má skipta í tvo almenna flokka: lýsandi tilburði og áherslutilburði. Lýsandi tilburðir hafa það hlutverk að tjá verknað eða lýsa stærð og staðsetningu. Þegar þú æfir tilburði í skólanum skaltu ekki láta þér nægja að sýna þá einu sinni eða tvisvar. Reyndu heldur að sýna eðlilega tilburði sem oftast í ræðunni. Ef þér finnst það erfitt gætirðu prófað að vera vakandi fyrir orðum sem lýsa stefnu, fjarlægð, stærð, staðsetningu eða afstöðu. En oft þarftu ekki að gera annað en að vera upptekinn af ræðunni, án þess að hugsa sérstaklega um líkamstjáninguna, og tala og tjá þig eins og þér væri eðlilegt í daglega lífinu. Ef maður er afslappaður kemur látbragðið af sjálfu sér.
Áherslutilburðir lýsa tilfinningu og sannfæringu. Þeir herða á hugmyndum, lífga þær og skerpa. Áherslutilburðir eru mikilvægir. En sýndu aðgát því að áherslutilburðir geta hæglega orðið að ávana. Ef þú notar sömu tilburðina æ ofan í æ geta þeir farið að vekja athygli út af fyrir sig í stað þess að styrkja ræðuna. Reyndu að einskorða þig við lýsandi tilburði um tíma ef umsjónarmaður skólans bendir þér á að þetta sé vandamál hjá þér. Að nokkrum tíma liðnum geturðu svo farið að nota áherslutilburði á nýjan leik.
Það er að miklu leyti undir áheyrendum komið hvernig áherslutilburði er viðeigandi að nota og hve mikla. Þeim getur þótt óþægilegt að bent sé á sig. Í sumum menningarsamfélögum myndi það þykja kvenlegt ef karlmaður notaði ákveðna tilburði, til dæmis ef hann bæri höndina upp að munninum í undrunarskyni. Sums staðar í heiminum þykir það ósæmilegt að konur sýni mikla handatilburði. Þar þurfa systur að leggja sig sérstaklega fram um að beita góðri andlitstjáningu. Og í fámennum hópi myndu fasmiklir tilburðir þykja skoplegir næstum hvar sem er í heimi.
Þegar þú öðlast reynslu og verður frjálslegri á ræðupallinum munu allir áherslutilburðirnir lýsa tilfinningum þínum eðlilega og túlka sannfæringu þína og einlægni. Þá auka þeir vægi orðanna.
Svipbrigði. Andlitið lýsir að jafnaði betur en nokkur annar líkamshluti hvernig þér er raunverulega innanbrjósts. Augun, munnsvipurinn og höfuðstellingin talar allt sínu máli. Án nokkurra orða getur andlitið tjáð tómlæti, viðbjóð, ráðleysi, undrun eða ánægju. Slík svipbrigði skerpa hið talaða orð og höfða til tilfinninga áheyrenda. Skaparinn gaf okkur meira en 30 andlitsvöðva og við notum næstum helming þeirra þegar við brosum.
Hvort sem þú ert uppi á ræðupallinum eða úti í boðunarstarfinu ertu að reyna að koma á framfæri ánægjulegum boðskap sem getur glatt hjarta þeirra sem hlusta. Þú staðfestir það með hlýlegu brosi. Sértu á hinn bóginn sviplaus getur fólk efast um einlægni þína.
En bros segir viðmælendum þínum líka að þú sért vinsamlegur gagnvart þeim. Þetta er sérstaklega mikilvægt nú á dögum þegar margir eru smeykir við ókunnuga. Með því að brosa geturðu auðveldað fólki að slaka á og gert það móttækilegra en ella fyrir því sem þú hefur fram að færa.