Námskafli 41
Skýrt og auðskilið
ÞÚ TALAR ekki aðeins til að koma frá þér upplýsingum heldur viltu líka að áheyrendur skilji það sem þú segir. Ef þú leggur þig fram við þetta kemurðu boðskap þínum til skila, hvort sem þú ert að ávarpa söfnuðinn eða fólk sem er ekki í trúnni.
Margt þarf að hafa í huga til að tala auðskilið mál. Fjallað er um sumt af því í 26. námskafla, „Rökrétt úrvinnsla efnisins,“ og annað í 30. námskafla, „Að sýna viðmælandanum áhuga.“ Í þessum námskafla fjöllum við um nokkur atriði til viðbótar.
Einfalt orðalag og einfaldur stíll. Einfalt orðalag og stuttar setningar er öflugur tjáningarmiðill. Fjallræða Jesú er afbragðsdæmi um ræðu sem allir geta skilið, óháð stöðu sinni eða búsetu. Það kann að vera ýmislegt í ræðunni sem er þeim nýlunda en þeir skilja það sem Jesús sagði vegna þess að hann fjallaði um mál sem varða alla menn: hvernig við höndlum hamingjuna, bætum samskiptin við aðra, sigrumst á ótta og áhyggjum og finnum tilganginn með lífinu. Og hann lýsti þessu öllu á hversdagslegu máli. (Matt. 5.-7. kafli) Auðvitað eru mörg dæmi í Biblíunni um fjölbreytta setningalengd og setningagerð. En aðalatriðið er að þú tjáir þig skýrt og skiljanlega.
Jafnvel þó að þú fjallir um torskilið efni geturðu gert það skiljanlegra með því að nota einfaldan stíl. Hvernig lærir maður einfaldan stíl? Til dæmis með því að drekkja ekki áheyrendum í óþörfum smáatriðum. Flokkaðu efnið þannig að það styðji aðalatriðin. Veldu lykilritningarstaðina vel. Gefðu þér nægan tíma til að lesa þá og skýra í stað þess að æða frá einum texta til annars. Drekktu ekki góðum hugsunum í mælgi.
Fylgdu sömu meginreglum þegar þú heldur biblíunámskeið í heimahúsi. Reyndu ekki að útskýra öll smáatriði heldur hjálpaðu nemandanum að skilja aðalhugmyndirnar vel. Hann getur svo bætt við smáatriðunum í einkanámi sínu eða á safnaðarsamkomum.
Það þarf góðan undirbúning til að koma efninu á framfæri á skýran og einfaldan hátt. Þú þarft að vera vel heima í efninu sjálfur til að geta gert það skiljanlegt fyrir aðra. Ef þú skilur eitthvað til hlítar áttu auðvelt með að færa rök fyrir því og getur gert það frá eigin brjósti.
Skýrðu framandi hugtök. Stundum þarf að nota hugtök sem áheyrendur kannast ekki við, og þá þarf að skýra þau til að þeir skilji efnið. Þú mátt hvorki ofmeta þekkingu áheyrenda né vanmeta greind þeirra. Þar sem þú hefur kynnt þér Biblíuna notarðu kannski hugtök sem hljóma framandi í eyrum annarra. Þeir sem standa utan safnaðar Votta Jehóva skilja ekki án skýringar að ‚leifarnar,‘ hinn ‚trúi og hyggni þjónn,‘ ‚aðrir sauðir‘ og ‚múgurinn mikli‘ tákna ákveðna hópa fólks. (Rómv. 11:5; Matt. 24:45; Jóh. 10:16; Opinb. 7:9) Sá sem þekkir ekki starfsemi Votta Jehóva skilur sennilega ekki heldur hvað „boðberi,“ „brautryðjandi,“ „farandhirðir“ eða „minningarhátíð“ er.
Sum af hugtökum Biblíunnar geta þarfnast nánari skýringar, þó að þau séu notuð af öðrum en Vottum Jehóva. Margir halda til dæmis að „Harmagedón“ sé kjarnorkustríð eða að „ríki Guðs“ sé dvalarstaður hinna útvöldu eftir dauðann eða þá ástand í hjarta mannsins, en alls ekki stjórn. Þegar minnst er á „sál“ hugsa margir um einhvern óáþreifanlegan hluta mannsins sem á að lifa áfram þegar líkaminn deyr. Milljónum manna hefur verið kennt að „heilagur andi“ sé persóna og hluti af þrenningu. Svo margir hafa snúið baki við siðferðisreglum Biblíunnar að þeir þurfa jafnvel hjálp til að skilja hvað hún á við er hún segir: „Flýið saurlifnaðinn!“ — 1. Kor. 6:18.
Þeir sem lesa ekki að staðaldri í Biblíunni misskilja þig kannski ef þú segir einfaldlega: „Páll skrifaði . . .“ eða „Pétur segir . . .“ Þeir eiga ef til vill vini eða ættingja sem heita Páll og Pétur. Hugsanlega þarftu að bæta við einhverri skýringu til að áheyrendum sé ljóst að þú ert að tala um postula eða biblíuritara.
Oft þarf að skýra ritningarstaði þar sem minnst er á mál, vog eða siði fornaldar. Það getur verið ósköp merkingarlítið að segja að örkin hans Nóa hafi verið 300 álnir á lengd, 50 álnir á breidd og 30 álnir á hæð. (1. Mós. 6:15) En ef þú berð hana saman við eitthvað sem áheyrendur þekkja eiga þeir auðvelt með að sjá fyrir sér hve stór hún var.
Gefðu fullnægjandi skýringar. Ekki er alltaf nóg að skilgreina ákveðið orð eða hugtak til að áheyrendur skilji hvað um er að ræða. Þegar lögmálið var lesið upp í Jerúsalem á dögum Esra var það jafnframt útskýrt. Levítarnir bæði túlkuðu það og heimfærðu upp á aðstæður fólks á þeim tíma til að menn skildu það. (Nehem. 8:8, 12) Gefðu þér líka tíma til að skýra og heimfæra ritningarstaði sem þú lest upp.
Eftir að Jesús var dáinn og upprisinn útskýrði hann fyrir lærisveinunum að það sem hefði gerst væri uppfylling á orðum Ritningarinnar. Jafnframt lagði hann áherslu á að þeim bæri að vitna um það fyrir öðrum. (Lúk. 24:44-48) Þegar þú bendir áheyrendum á hvaða áhrif efnið ætti að hafa á líf þeirra eiga þeir auðveldara með að skilja hvað það merkir í raun og veru.
Hjartað á hlut að máli. Enda þótt skýringar þínar séu greinagóðar getur ýmislegt annað haft áhrif á hvort menn skilja það sem þú hefur fram að færa. Ef hjarta manns er ekki móttækilegt á hann mjög erfitt með að skilja það sem hann heyrir. (Matt. 13:13-15) Ef viðmælandinn er ákveðinn í því að efnið sé grundvöllur alls finnst honum hið andlega heimskulegt. (1. Kor. 2:14) Sé viðmótið þannig er ef til vill best að slíta samtalinu, að minnsta kosti í þetta sinn.
Í öðrum tilfellum geta erfið lífsskilyrði gert hjörtu fólks dofin gagnvart boðskapnum. Fái slík manneskja tækifæri til að heyra sannleika Biblíunnar um tíma getur hjartað breyst og orðið móttækilegt. Postular Jesú skildu hann ekki þegar hann sagði þeim að hann yrði húðstrýktur og líflátinn. Af hverju? Af því að það samræmdist ekki væntingum þeirra og var vissulega ekki það sem þeir vildu! (Lúk. 18:31-34) En ellefu af postulunum skildu þetta þegar fram liðu stundir og sýndu það með því að gera eins og Jesús hafði kennt þeim.
Gott fordæmi hefur sitt að segja. Það er ekki aðeins með orðum okkar sem við hjálpum fólki til skilnings heldur líka með verkunum. Eftir fyrstu heimsóknina í ríkissalinn segjast margir muna eftir kærleikanum en minnast síður á dagskrána. Gleði okkar hefur að sama skapi hjálpað mörgum að opna hugann fyrir sannleika Biblíunnar. Eftir að hafa orðið vitni að ástúð og góðvild vottanna hver til annars og umhyggju þeirra fyrir öðrum í andstreymi eða ógæfu hafa margir ályktað sem svo að trú þeirra sé hin eina sanna. Reyndu því að gera boðskap Biblíunnar skiljanlegan fyrir fólk, bæði með því að útskýra hann vel og með því að breyta vel.