Námskafli 46
Líkingar sóttar í þekktar aðstæður
ÞAÐ er auðvitað mikilvægt að allar líkingar, sem þú notar, hæfi umræðuefninu. En þær þurfa líka að hæfa áheyrendum til að vera sem áhrifaríkastar.
Áheyrendahópurinn getur haft ýmiss konar áhrif á það hvers konar líkingar þú velur. Hvers konar líkingar valdi Jesús Kristur þegar hann kenndi mannfjöldanum eða lærisveinum sínum? Hann leitaði aldrei fanga í lífsháttum annarra landa, enda hefðu þeir verið framandi fyrir áheyrendur hans. Jesús minntist til dæmis aldrei á hirðsiði Egypta eða trúariðkanir Indverja. Engu að síður byggðust líkingar hans á siðvenjum sem allar þjóðir þekkja. Hann talaði um það að bæta föt, stunda viðskipti, týna verðmætum og sækja brúðkaupsveislur. Hann skildi hvernig fólk bregst við margs konar ólíkum aðstæðum og tók mið af því. (Mark. 2:21; Lúk. 14:7-11; 15:8, 9; 19:15-23) Þar eð Jesús prédikaði fyrst og fremst meðal Ísraelsmanna voru líkingar hans oftast sóttar í hluti og störf sem tilheyrðu daglegu lífi þeirra. Hann minntist til dæmis á akuryrkju, samband sauðfjár og fjárhirðis og geymslu víns á skinnbelgjum. (Mark. 2:22; 4:2-9; Jóh. 10:1-5) Hann vísaði einnig í þekkta atburði sögunnar, svo sem sköpun fyrstu mannanna, Nóaflóðið, eyðingu Sódómu og Gómorru og dauða eiginkonu Lots, svo fáein dæmi séu nefnd. (Matt. 10:15; 19:4-6; 24:37-39; Lúk. 17:32) Hefur þú líka hliðsjón af störfum og menningarháttum sem áheyrendur þínir þekkja vel og sækirðu líkingar þínar þangað?
Segjum nú að þú sért ekki að ávarpa fjölmennan hóp heldur að tala við eina manneskju eða örfáar. Reyndu þá að velja líkingar sem eiga sérstaklega við þennan fámenna áheyrendahóp. Jesús vitnaði fyrir samverskri konu við brunn nálægt Síkar og minntist þá á „lifandi vatn,“ að ‚þyrsta aldrei að eilífu‘ og á „lind, sem streymir fram til eilífs lífs“ — myndmál sem var nátengt daglegum störfum konunnar. (Jóh. 4:7-15) Og þegar hann talaði við menn sem höfðu verið að þvo fiskinet sótti hann líkingar til fiskveiða. (Lúk. 5:2-11) Í bæði skiptin hefði hann getað sótt líkingar sínar í akuryrkju, því að hún var stunduð á svæðinu, en það var mun áhrifaríkara að sækja myndlíkingarnar í það sem viðmælendurnir voru að gera. Reynir þú það líka?
Jesús beindi athyglinni aðallega að ‚týndum sauðum af Ísraelsætt‘ en Páll postuli var ekki aðeins sendur til Ísraelsmanna heldur einnig til heiðinna þjóða. (Matt. 15:24; Post. 9:15) Valdi Páll öðruvísi líkingar fyrir vikið? Já, í bréfum sínum til kristinna manna í Korintu talaði hann um kapphlaup, þann sið að borða kjöt í goðahofi og á sigurgöngur. Lesendur, sem voru af heiðnum uppruna, þekktu hvort tveggja mætavel. — 1. Kor. 8:1-10; 9:24, 25; 2. Kor. 2:14-16.
Velurðu líkingar og dæmi af sömu natni og þeir Jesús og Páll gerðu, til að nota þegar þú kennir? Tekurðu mið af uppruna áheyrenda þinna og daglegum störfum? Heimurinn hefur auðvitað breyst síðan á fyrstu öld. Margir fylgjast með fréttum í sjónvarpi og þekkja til aðstæðna erlendis. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að byggja líkingar á slíkum fréttum. Engu að síður eru áhrifaríkustu líkingarnar sóttar í daglegt líf fólks — störf þess, heimili, fjölskyldu, matarvenjur eða veðrið.
Ef líking, sem þú notar, þarfnast mikillar skýringar er ekki ólíklegt að áheyrendur þekki lítið til þess sem þú ert að tala um. Það er hætta á að þess konar líking skyggi á það sem hún á að skýra og að áheyrendur muni eftir líkingunni en ekki þeim biblíusannindum sem þú ætlaðir að koma á framfæri.
Líkingar Jesú voru ekki flóknar heldur sóttar í einfalda, daglega hluti. Hann notaði hið smáa til að varpa ljósi á hið stóra og hið einfalda til að skýra hið flókna. Jesús auðveldaði fólki að grípa og muna andlegu sannindin sem hann kenndi með því að tengja þau við hversdagslega atburði. Þetta er góð fyrirmynd til eftirbreytni.