Námskafli 47
Nýsitækni
HVERS vegna ættirðu að nota nýsitækni í kennslunni? Vegna þess að þannig eykurðu áhrif hennar. Jehóva Guð og Jesús Kristur hafa notað nýsitækni og við getum lært margt af þeim. Með því að nota nýsigögn með hinu talaða orði ertu að skírskota til tvennra skilningarvita sem getur auðveldað þér að halda athygli áheyrenda og aukið áhrif kennslunnar. Hvernig geturðu fléttað nýsitækni inn í boðun og kennslu fagnaðarerindisins? Hvernig geturðu beitt henni á sem áhrifaríkastan hátt?
Mestu kennararnir notuðu nýsitækni. Jehóva beitti eftirminnilegri nýsitækni til að kenna mikilvæga lærdóma. Nótt eina leiddi hann Abraham út undir bert loft og sagði: „Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær. . . . Svo margir skulu niðjar þínir verða.“ (1. Mós. 15:5) Abraham var djúpt snortinn og trúði Jehóva, þó að það virtist óhugsandi frá mannlegum sjónarhóli að loforðið rættist. Seinna sendi Jehóva Jeremía í hús leirkerasmiðs og lét hann horfa á smiðinn móta leirkerin á vinnustofu sinni. Þetta var eftirminnileg áminning um vald skaparans yfir mönnunum. (Jer. 18:1-6) Og Jónas gleymdi áreiðanlega aldrei lexíunni í miskunn sem Jehóva kenndi honum með rísínusrunnanum. (Jónas 4:6-11) Jehóva lét spámenn sína jafnvel leika spádómsboðskap með látbragði og viðeigandi hlutum. (1. Kon. 11:29-32; Jer. 27:1-8; Esek. 4:1-17) Tjaldbúðin og musterið eru tákn sem auðvelda okkur að skilja hinn himneska veruleika. (Hebr. 9:9, 23, 24) Og oft lét Guð þjóna sína sjá sýnir til að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri. — Esek. 1:4-28; 8:2-18; Post. 10:9-16; 16:9, 10; Opinb. 1:1.
Hvernig beitti Jesús nýsitækni? Þegar farísear og Heródesarsinnar reyndu að leiða hann í gildru bað hann þá að sýna sér denara og benti síðan á mynd keisarans á peningnum. Síðan sagði hann að gjalda bæri keisaranum það sem keisarans væri en Guði það sem Guðs væri. (Matt. 22:19-21) Til að undirstrika að okkur beri að heiðra Guð með öllu sem við eigum benti Jesús á fátæka ekkju í musterinu sem gaf alla lífsbjörg sína — tvo smápeninga. (Lúk. 21:1-4) Öðru sinni notaði Jesús lítið barn sem dæmi til að minna á mikilvægi auðmýktar og þess að forðast framagirni. (Matt. 18:2-6) Sjálfur sýndi hann svo með dæmi hvað auðmýkt væri með því að þvo fætur lærisveinanna. — Jóh. 13:14.
Að beita nýsitækni. Við getum ekki birt fólki sýnir, líkt og Jehóva. Í ritum Votta Jehóva er hins vegar mikið af athyglisverðum myndum. Notaðu þær til að hjálpa áhugasömum að sjá fyrir sér hina jarðnesku paradís sem lofað er í orði Guðs. Þú gætir bent biblíunemanda á mynd sem tengist námsefninu og beðið hann að lýsa fyrir þér hvað hann lesi út úr henni. Það er athyglisvert að Jehóva spurði spámanninn Amos: „Hvað sér þú, Amos?“ eftir að hafa birt honum ákveðnar sýnir. (Am. 7:7, 8; 8:1, 2) Þú getur spurt svipaðra spurninga þegar þú beinir athygli fólks að myndum sem gerðar eru í kennsluskyni.
Með því að reikna á blað eða teikna tímalínu til að lýsa röð mikilvægra atburða geturðu auðveldað fólki að skilja spádóma líkt og um ‚tíðirnar sjö‘ í Daníelsbók 4:16 og um ‚sjöundirnar sjötíu‘ í Daníelsbók 9:24. Þessari aðferð er beitt í sumum námsritum okkar.
Ef verið er að fjalla um tjaldbúðina, musterið í Jerúsalem eða musterið í sýn Esekíels í biblíunámi fjölskyldunnar getur mynd eða uppdráttur verið góður skilningsauki. Hægt er að finna myndir og uppdrætti í Insight on the Scriptures (Innsýnabókinni), í viðaukum New World Translation of the Holy Scriptures — With References og víða í Varðturninum.
Notaðu landakort þegar þú lest með fjölskyldunni í Biblíunni. Þræddu leið Abrahams frá Úr til Harran og síðan niður til Betel. Skoðaðu leiðina sem Ísraelsmenn fóru frá Egyptalandi til fyrirheitna landsins. Finndu svæðin sem ættkvíslum Ísraels var úthlutað til eignar og erfða. Kannaðu hve stóru ríki Salómon réð yfir. Þræddu leið Elía er hann flúði frá Jesreel alla leið til eyðimerkurinnar handan við Beerseba eftir að Jesebel hafði í hótunum við hann. (1. Kon. 18:46–19:4) Finndu borgirnar og bæina þar sem Jesús prédikaði. Þræddu leiðirnar sem Páll ferðaðist eins og þeim er lýst í Postulasögunni.
Nýsitæknin er góð leið til að kynna starfsemi safnaðarins fyrir biblíunemendum. Þú gætir sýnt nemandanum prentaða mótsdagskrá og útskýrt hvers konar efni sé fjallað um á mótunum sem við höldum. Mörgum þykir athyglisvert að skoða ríkissalinn eða heimsækja deildarskrifstofu Votta Jehóva. Það getur verið áhrifarík leið til að eyða ranghugmyndum um starf okkar og markmið þess. Þegar þú sýnir ríkissalinn geturðu bent á hvaða munur sé á honum og kirkjubyggingum eða öðrum tilbeiðslustöðum. Þú getur vakið athygli á því að ríkissalurinn er látlaus og sniðinn fyrir nám og lærdóm. Bentu á það sem tengist boðunarstarfinu sérstaklega — blaða- og bókaafgreiðsluna, svæðiskortin og bauka fyrir frjálsu framlögin (ólíkt samskotabaukum sem látnir eru ganga á samkomum hjá öðrum trúfélögum).
Nota má myndböndin, sem hið stjórnandi ráð hefur látið gera, til að styrkja tiltrú nemendanna á Biblíuna, kynna starfsemi Votta Jehóva fyrir þeim og til að hvetja þá til að lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar.
Þegar stór hópur á í hlut. Nýsitækni getur verið áhrifarík kennsluaðferð í stórum hópi ef henni er vel og fagmannlega beitt. Hinn trúi og hyggni þjónn hefur látið í té ýmis nýsigögn sem hægt er að nota við slíkar aðstæður.
Yfirleitt eru myndir með námsefni Varðturnsins sem stjórnandinn getur notað til að herða á mikilvægum atriðum. Hið sama er að segja um ritin sem notuð eru í safnaðarbóknáminu.
Uppköst fyrir opinbera fyrirlestra virðast stundum bjóða upp á að notuð sé nýsitækni til að sýna fram á vissa hluti. Yfirleitt skilar það þó betri árangri að beina athygli að Biblíunni sem flestir áheyrenda eru með í höndunum. Ef nauðsynlegt er, stöku sinnum, að leggja áherslu á eitt eða fleiri aðalatriði með því að bregða upp mynd eða stuttu ágripi skaltu ganga úr skugga um að hægt sé að sjá (eða lesa) það sem þú ætlar að sýna frá öftustu sætaröðinni í salnum. Rétt er að beita slíkri nýsitækni í hófi.
Markmiðið með nýsitækni er ekki að skemmta heldur kenna. Við ættum að beita viðeigandi nýsitækni til að styrkja hugmyndir sem verðskulda sérstaka athygli. Nýsigögn þjóna jákvæðum tilgangi þegar þau skýra hið talaða orð eða eru sterk rök fyrir gildi þess sem sagt er. Kennsla með nýsitækni getur haft svo sterk áhrif, sé rétt með hana farið, að áheyrendur muni bæði eftir kennslunni og sýnidæminu svo árum skiptir.
Bæði sjón og heyrn gegna mikilvægu hlutverki í lærdómi. Munum hvernig kennararnir miklu hafa notað bæði þessi skilningarvit og reynum að líkja eftir þeim þegar við kennum.