KAFLI 25
Er hægt að vera hamingjusamur þótt maður alist upp hjá einstæðu foreldri?
„Krakkar, sem alast upp hjá báðum foreldrum, eru yfirleitt með eigið herbergi og mega kaupa ný föt. En ég verð að deila herbergi og fæ næstum aldrei fötin sem mig langar í. Mamma segist ekki hafa efni á þeim. Ég þarf að sinna svo mörgum heimilisstörfum á meðan hún er í vinnunni að mér líður eins og þjónustustúlku — eins og það sé verið að svíkja mig um hluta af bernskunni.“ — Shalonda, 13 ára.
ÞAÐ er án efa best að alast upp á heimili með tveimur ástríkum foreldrum. Foreldrar, sem eru saman, geta yfirleitt veitt betri leiðsögn, vernd og stuðning. „Betri eru tveir en einn,“ segir í Biblíunni, „því að þeir hafa betri laun fyrir strit sitt.“ — Prédikarinn 4:9.
En þrátt fyrir það eru fjölskyldur, þar sem báðir foreldrar eru til staðar, að verða eins og dýrategund í útrýmingarhættu. Sem dæmi má nefna að meira en helmingur barna í Bandaríkjunum mun búa með aðeins öðru foreldrinu einhvern hluta uppvaxtaráranna áður en þau ná 18 ára aldri.
En þótt þetta sé svona algengt skammast sumir unglingar sín fyrir að alast upp hjá einstæðu foreldri. Öðrum finnst íþyngjandi að takast á við álagið og vandamálin sem þetta veldur þeim. Ef þú býrð hjá einstæðu foreldri, hvaða erfiðleika þarft þú að takast á við? Skrifaðu á línuna hér fyrir neðan hvað þér finnst erfiðast við aðstæður þínar.
․․․․․
Er maður dæmdur til að vera óhamingjusamur ef maður nýtur ekki kærleika og umönnunar beggja foreldranna á hverjum degi? Alls ekki! Margt veltur á því hvernig þú lítur á aðstæður þínar. Í Orðskviðunum 15:15 segir: „Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.“ (Biblían 1981) Eins og fram kemur í þessum orðskvið er líðan fólks oft meira tengd hugarfari þess en aðstæðum. Hvað geturðu gert til að láta ,liggja vel á þér‘ þrátt fyrir aðstæður þínar?
Að vinna gegn neikvæðum tilfinningum
Í fyrsta lagi skaltu ekki láta neikvæð ummæli annarra hafa slæm áhrif á þig. Sumir kennarar hafa til dæmis verið mjög ónærgætnir í garð nemenda sem alast upp hjá einstæðu foreldri. Þeir hafa jafnvel ályktað sem svo að öll hegðunarvandamál megi rekja til heimilisaðstæðna. En spyrðu þig: Þekkir fólk, sem heldur slíku fram, mig eða fjölskyldu mína? Eða er það bara að apa upp eitthvað sem það heyrir aðra segja um fjölskyldur einstæðra foreldra?
Það er eftirtektarvert að í Biblíunni er oft talað um munaðarleysingja eða föðurlaus börn, en aldrei í niðrandi merkingu. Í næstum hvert einasta skipti er Jehóva að tjá sérstaka umhyggju í garð þeirra sem alast upp hjá einu foreldri.a
Á hinn bóginn gætu sumir, sem meina vel, verið einum of varfærnir þegar þeir tala við þig. Þeir hika kannski við að nota orð eins og „faðir,“ „hjónaband,“ „skilnaður“ eða „dauði“ þar sem þeir eru hræddir um að þú móðgist eða það komi þér úr jafnvægi. Fer slíkt í taugarnar á þér? Ef svo er skaltu sýna þeim kurteislega að það sé óþarfi að vera svona varfærinn. Tony, sem er 14 ára, þekkti aldrei föður sinn. Hann segir að sumir bíti nánast í tunguna á sér til að forðast viss orð. En Tony tekur af skarið og notar þessi sömu orð þegar hann talar við þá. „Ég vil að þeir viti að ég skammast mín ekki fyrir aðstæður mínar,“ segir hann.
Forðastu að hugsa „bara ef . . .“
Auðvitað er alveg eðlilegt að þú finnir til sorgar eða saknaðar ef foreldrar þínir hafa skilið eða ef ástkært foreldri hefur dáið. En þrátt fyrir það þarftu að lokum að sætta þig við aðstæður þínar. Í Biblíunni er að finna þessi ráð: „Segðu ekki: Hvernig stendur á því að hinir fyrri dagar voru betri en þessir?“ (Prédikarinn 7:10) Foreldrar Söru skildu þegar hún var 10 ára. Nú er hún 13 og segir: „Farðu ekki að sökkva þér í sjálfsvorkunn vegna aðstæðna þinna og hugsa bara ef þetta eða hitt hefði ekki gerst. Ekki hugsa sem svo að vandamál þín séu bara af því að þú elst upp hjá einstæðu foreldri eða að krakkar sem alast upp með báðum foreldrum hafi það svo miklu betra.“ Þetta eru góð ráð. Þegar allt kemur til alls er hin „fullkomna“ fjölskylda ekki heldur laus við vandamál.
Ímyndaðu þér að allir í fjölskyldunni séu róðrarmenn í árabát. Það væri auðvitað best að báturinn hefði fulla áhöfn en í fjölskyldum einstæðra foreldra vantar einn róðrarmann og hinir verða að leggja aðeins harðar að sér. Þýðir það að fjölskyldan sé misheppnuð? Nei! Svo framarlega sem hinir í liðinu vinna saman helst báturinn á floti og kemst á áfangastað.
Leggurðu þitt af mörkum?
Hvað geturðu gert til að tryggja að þú leggir þitt af mörkum í fjölskyldunni? Skoðum þrjár tillögur.
Temdu þér sparsemi. Peningar eru mikið áhyggjuefni hjá flestum einstæðum foreldrum. Hvað getur þú gert til að létta undir með foreldri þínu? Tony, sem nefndur var áðan, segir: „Krakkarnir í skólanum mínum fara fram á að foreldrar þeirra kaupi dýra skó og föt handa þeim. Annars neita þeir að fara í skólann. Ég á ekki dýrar merkjavörur en ég er snyrtilegur og hreinn og hugsa vel um það sem ég á. Mamma gerir eins vel og hún getur og ég vil ekki gera lífið erfiðara fyrir hana.“ Þú getur reynt að líkja eftir Páli postula sem sagði: „Ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef.“ — Filippíbréfið 4:11, 12.
Annað sem er mikilvægt er að sóa ekki því sem maður hefur. (Jóhannes 6:12) Strákur, sem heitir Rodney, segir: „Ég reyni að gæta þess að brjóta ekkert á heimilinu eða týna neinu af því að það kostar peninga að gera við hluti eða endurnýja þá. Ég reyni að slökkva á rafmagnstækjum eða ljósum sem er ekki verið að nota. Þetta hjálpar til við að lækka rafmagnsreikninginn.“
Taktu frumkvæðið. Margir einstæðir foreldrar eru tregir við að setja heimilisreglur eða biðja börnin sín að hjálpa til við húsverkin. Af hverju? Sumum finnst þeir verða að bæta upp fyrir það að annað foreldrið býr ekki á heimilinu með því að gera lífið auðveldara fyrir börnin. Þeir hugsa kannski: Ég vil að börnin mín fái að njóta þess að hafa það skemmtilegt.
Þér finnst kannski freistandi að notfæra þér sektarkennd foreldris þíns. En þá eykurðu aðeins á byrðina í stað þess að létta hana. Hvers vegna ekki að taka frumkvæði að því að hjálpa til á heimilinu? Hugsaðu um það sem Tony var fús til að gera. „Mamma vinnur á spítala og það þarf að strauja vinnufötin hennar,“ segir hann. „Þess vegna strauja ég þau fyrir hana.“ En er þetta ekki kvenmannsstarf? „Sumir segja það,“ svarar Tony. „En þetta hjálpar mömmu og þess vegna geri ég það.“
Sýndu þakklæti. Auk þess að hjálpa til geturðu glatt foreldri þitt einfaldlega með því að láta í ljós þakklæti. Einstæð móðir skrifaði: „Oft þegar ég kem heim og er niðurdregin eða pirruð eftir sérstaklega erfiðan vinnudag þá hefur dóttir mín ákveðið að leggja á borð og byrja að hafa til matinn.“ Hún bætir við: „Sonur minn tekur utan um mig og faðmar mig.“ Hvaða áhrif hafa þessi hugulsömu verk á hana? „Skapið breytist algerlega til hins betra,“ segir hún.
Skrifaðu á línuna hvert af þessum þrem atriðum þú þarft helst að vinna í. ․․․․․
Að alast upp hjá einstæðu foreldri gefur þér tækifæri til að þroska með þér eiginleika eins og hluttekningu, óeigingirni og áreiðanleika. Jesús sagði líka: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Ef þú gefur af þér með því að hjálpa einstæðu foreldri þínu getur það veitt þér mikla hamingju.
Að sjálfsögðu óskarðu þess stundum að báðir foreldrarnir væru á heimilinu. En þú getur lært að gera það besta úr aðstæðum þínum. Stelpa, sem heitir Nia, komst að raun um það. „Eftir að pabbi minn dó,“ segir hún, „sagði einhver við mig: ,Þú gerir líf þitt að því sem það er.‘ Þessi orð festust í huga mér. Þau minna mig á að ég þarf ekki að vera fórnarlamb aðstæðna minna.“ Þú getur tileinkað þér svipuð viðhorf. Mundu að það eru ekki aðstæður þínar sem ráða því hvort líf þitt verði hamingjuríkt eða ekki, heldur hvernig þú lítur á aðstæðurnar og hvað þú gerir í málinu.
LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 4 Í 1. BINDI BÓKARINNAR
[Neðanmáls]
a Sjá dæmi í Sálmi 82:3 og Sálmi 68:6, Biblían 1981.
LYKILRITNINGARSTAÐUR
„Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ — Filippíbréfið 2:4.
RÁÐ
Ef þér finnst þú hafa meira á þinni könnu en þú ræður við geturðu nærfærnislega stungið upp á því við foreldri þitt að það prófi eftirfarandi:
● Búi til lista yfir öll heimilisstörf sem hver og einn í fjölskyldunni á að sinna.
● Úthluti verkefnum upp á nýtt þegar þess er þörf.
VISSIR ÞÚ . . .?
Ef þú hjálpar til á heimilinu getur það orðið til þess að þú þroskist fyrr en unglingar sem búa með báðum foreldrunum, þar sem þessir unglingar bera oft minni ábyrgð.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Ég ætla að vinna gegn neikvæðum tilfinningum með því að ․․․․․
Ef fólk er einum of varfærið í kringum mig ætla ég að segja ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja mömmu eða pabba um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
● Af hverju hafa sumir fordóma gagnvart börnum einstæðra foreldra?
● Af hverju gæti foreldri þitt verið hikandi við að biðja þig um að hjálpa til á heimilinu?
● Hvernig geturðu sýnt þakklæti þitt í garð mömmu þinnar eða pabba?
[Innskot á bls. 211]
„Frá því að foreldrar mínir skildu höfum við mamma talað mikið saman. Við erum orðnar mjög nánar.“ — Melanie
[Mynd á bls. 210, 211]
Í fjölskyldum einstæðra foreldra vantar einn róðrarmann — hinir í liðinu verða að leggja aðeins harðar að sér en þeim getur tekist vel til ef þeir vinna saman.