Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • bt kafli 23 bls. 181-188
  • „Heyrið það sem ég vil segja mér til varnar“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Heyrið það sem ég vil segja mér til varnar“
  • Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Þeir lofuðu Guð“ (Post. 21:18–20a)
  • Mörgum var enn „kappsmál að fylgja lögunum“ (Post. 21:20b, 21)
  • „Orðrómurinn … er tilhæfulaus“ (Post. 21:22–26)
  • „Hann á ekki skilið að lifa!“ (Post. 21:27–22:30)
  • „Ég er farísei“ (Post. 23:1–10)
  • Að verja fagnaðarerindið frammi fyrir háttsettum embættismönnum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Boðið ríki Jehóva með djörfung!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Frumkristnir menn og Móselögin
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Verum hughrökk – Jehóva hjálpar okkur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
Sjá meira
Vitnum ítarlega um ríki Guðs
bt kafli 23 bls. 181-188

23. KAFLI

„Heyrið það sem ég vil segja mér til varnar“

Páll ver sannleikann frammi fyrir æstum múgi og Æðstaráðinu

Byggt á Postulasögunni 21:18–23:10

1, 2. Hvers vegna er Páll staddur í Jerúsalem og hvað þarf hann að glíma við þar?

JERÚSALEM iðar af lífi. Enn á ný gengur Páll um þröngar, fjölfarnar göturnar. Engin borg í heimi gegnir jafn stóru hlutverki í sögu þjóna Jehóva. Borgarbúar eru upp til hópa stoltir af fortíð hennar. Páll veit að margir kristnir menn í Jerúsalem leggja of mikið upp úr fortíðinni og hafa ekki haldið í við nýjar leiðbeiningar Jehóva. Þegar hann var í Efesus hafði hann ákveðið að fara til þessarar merku borgar til að færa trúsystkinum þar hjálpargögn en hann sér líka þörfina á að hjálpa þeim að styrkja sambandið við Jehóva. (Post. 19:21) Hann hefur haldið sig við áætlun sína þrátt fyrir það sem bíður hans.

2 Hvað þarf Páll að glíma við í Jerúsalem? Meðal annars að sumir af fylgjendum Krists trúa sögusögnum sem þeir hafa heyrt um Pál. En óvinir Krists munu valda honum töluvert meiri vanda. Þeir eiga eftir að bera á hann rangar sakir, berja hann og hóta að drepa hann. En út af þessu öllu fær Páll líka tækifæri til að verja sig. Við getum lært mikið af auðmýkt hans, hugrekki og trú þegar hann tekst á við þetta mótlæti. Lítum nánar á málið.

„Þeir lofuðu Guð“ (Post. 21:18–20a)

3–5. (a) Hvaða fund sótti Páll í Jerúsalem og hvað var til umræðu? (b) Hvað má læra af fundi Páls með öldungunum í Jerúsalem?

3 Daginn eftir að Páll og félagar hans koma til Jerúsalem hitta þeir öldungana sem fara með forystuna í söfnuðinum. Enginn af þálifandi postulum er nefndur í frásögunni en þeir höfðu kannski farið til annarra landa til að starfa þar. Jakob bróðir Jesú var þó enn í borginni. (Gal. 2:9) Líklega stjórnaði hann fundinum þar sem „allir öldungarnir voru samankomnir“ ásamt Páli. – Post. 21:18.

4 Páll heilsaði öldungunum og „skýrði síðan ítarlega frá því sem Guð hafði gert meðal þjóðanna með þjónustu hans“. (Post. 21:19) Við getum rétt ímyndað okkur hversu uppörvandi það hefur verið. Okkur finnst líka spennandi að heyra hvernig starfinu miðar áfram í öðrum löndum. – Orðskv. 25:25.

5 Páll hefur líklega minnst á framlögin sem hann hafði komið með frá Evrópu. Umhyggja trúsystkina í fjarlægum löndum hlýtur að hafa yljað öldungunum um hjartarætur. Frásagan segir frá því hvernig öldungarnir brugðust við greinargerð Páls: „Þeir lofuðu Guð.“ (Post. 21:20a) Þeir sem upplifa náttúruhamfarir eða alvarleg veikindi nú á dögum eru líka djúpt snortnir þegar bræður og systur veita þeim þá aðstoð og uppörvun sem þeir þurfa.

Mörgum var enn „kappsmál að fylgja lögunum“ (Post. 21:20b, 21)

6. Hvaða vandamál bentu öldungarnir Páli á?

6 Öldungarnir sögðu síðan Páli að upp væri komið mál í Júdeu sem snerti hann persónulega. Þeir sögðu: „Þú sérð, bróðir, hve margar þúsundir Gyðinga hafa tekið trú og þeim er öllum kappsmál að fylgja lögunum. En þeir hafa heyrt sögusagnir um að þú kennir öllum Gyðingum sem búa meðal þjóðanna fráhvarf frá Móse og segir þeim að umskera hvorki börn sín né fylgja rótgrónum siðum.“a – Post. 21:20b, 21.

7, 8. (a) Hvaða misskilningur ríkti hjá mörgum kristnum mönnum í Júdeu? (b) Hvers vegna jafngilti þessi misskilningur ekki fráhvarfi?

7 Af hverju var svona mörgum kristnum mönnum enn kappsmál að fylgja Móselögunum heilum 20 árum eftir að þau voru afnumin? (Kól. 2:14) Árið 49 höfðu postularnir og öldungarnir haldið fund í Jerúsalem og sent bréf til safnaðanna þess efnis að kristnir menn af þjóðunum þyrftu hvorki að umskerast né halda Móselögin. (Post. 15:23–29) Í bréfinu hafði hins vegar ekki verið minnst á kristna menn af hópi Gyðinga en margir þeirra skildu ekki að Móselögin voru fallin úr gildi.

8 Voru þessir Gyðingar þá ekki kristnir fyrst þeir skildu hlutina ekki rétt? Jú, það var ekki eins og þeir hefðu áður tilbeðið heiðna guði og héldu áfram að fylgja siðum sinnar fyrri trúar. Lögin sem voru þessum Gyðingum svo mikilvæg voru frá Jehóva komin. Ekkert í þeim var í sjálfu sér rangt eða tengdist illum öndum. Lögin voru hins vegar tengd gamla sáttmálanum en kristnir menn voru undir þeim nýja. Fyrirkomulagið með lögin var orðið úrelt þannig að ekki þurfti lengur að halda þau til að hljóta velþóknun Guðs. Kristnir Hebrear sem lögðu mikið upp úr því að halda lögin skildu þetta ekki og báru ekki nægilegt traust til kristna safnaðarins. Þeir þurftu að læra að hugsa í samræmi við þann sannleika sem Jehóva hafði nú opinberað.b – Jer. 31:31–34; Lúk. 22:20.

„Orðrómurinn … er tilhæfulaus“ (Post. 21:22–26)

9. Hvað kenndi Páll varðandi Móselögin?

9 Hvað um þann orðróm að Páll kenndi Gyðingum meðal þjóðanna „að umskera hvorki börn sín né fylgja rótgrónum siðum“? Páll var postuli þjóðanna og skýrði fyrir þeim þann úrskurð að fólk af þjóðunum þyrfti ekki að halda Móselögin. Hann benti líka á að það væri rangt að reyna að telja trúað fólk af þjóðunum á að það þyrfti að umskerast til merkis um að það fylgdi Móselögunum. (Gal. 5:1–7) Páll boðaði líka Gyðingum fagnaðarboðskapinn í þeim borgum sem hann kom til. Hann hefur auðvitað útskýrt fyrir þeim að lögin hefðu fallið úr gildi með dauða Jesú og að réttlæting fengist með trú en ekki með því að fylgja lögunum. – Rómv. 2:28, 29; 3:21–26.

10. Hvernig sýndi Páll jafnvægi í málum sem tengdust lögunum og umskurði?

10 En Páll var samt skilningsríkur gagnvart þeim sem leið vel með að halda suma af siðum Gyðinga, svo sem að vinna ekki á hvíldardögum og forðast ákveðin matvæli. (Rómv. 14:1–6) Hann setti ekki heldur neinar reglur um umskurð. Hann lét reyndar umskera Tímóteus til að Gyðingar yrðu ekki tortryggnir í hans garð, en faðir hans var grískur. (Post. 16:3) Að umskerast var persónuleg ákvörðun. Páll sagði við Galatamenn: „Það [hefur] ekkert gildi að vera umskorinn eða óumskorinn. Það sem skiptir máli er trú sem birtist í kærleika.“ (Gal. 5:6) Það hefði hins vegar verið merki um veika trú að láta umskerast til að gangast undir Móselögin eða láta í veðri vaka að umskurður væri nauðsynlegur til að hljóta velþóknun Jehóva.

11. Hvað ráðlögðu öldungarnir Páli en í hverju hefur hann ekki tekið þátt? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

11 Þótt orðrómurinn ætti alls ekki við rök að styðjast olli hann samt kristnum Gyðingum hugarangri. Þess vegna báðu öldungarnir Pál að gera eftirfarandi: „Hjá okkur eru fjórir menn sem hafa unnið heit. Taktu þessa menn með þér, hreinsaðu þig ásamt þeim samkvæmt helgisiðunum og berðu kostnaðinn fyrir þá svo að þeir geti látið raka höfuðið. Þá sjá allir að orðrómurinn um þig er tilhæfulaus og að þú gerir það sem er rétt og lifir samkvæmt lögunum.“c – Post. 21:23, 24.

12. Hvernig sýna viðbrögð Páls við leiðbeiningum öldunganna að hann var sveigjanlegur og samstarfsfús?

12 Páll hefði getað mótmælt og sagt að vandamálið væri ekki orðrómurinn um hann heldur að þessum trúsystkinum af hópi Gyðinga væri of mikið kappsmál að fylgja Móselögunum. En Páll var sveigjanlegur svo framarlega sem hann þurfti ekki að brjóta gegn meginreglum Guðs. Hann hafði áður skrifað: „Þeim sem eru undir lögunum hef ég verið eins og ég væri undir lögunum. Ég geri það til að ávinna þá þó að ég sé ekki sjálfur undir lögunum.“ (1. Kor. 9:20) Páll var samstarfsfús og gerði það sem öldungarnir í Jerúsalem báðu um. Hann hegðaði sér ‚eins og hann væri undir lögunum‘. Þar er hann okkur góð fyrirmynd um að vera samstarfsfús við öldungana og krefjast þess ekki að fá okkar hugmyndum framgengt. – Hebr. 13:17.

Myndir: 1. Páll hlustar á ráð öldunganna í Jerúsalem. 2. Öldungur fylgist með samöldungum sínum rétta upp höndina á öldungafundi.

Páll var sveigjanlegur þegar það stangaðist ekki á við meginreglur Biblíunnar. Hvað um þig?

RÓMVERSK LÖG OG RÓMVERSKT RÍKISFANG

Rómversk yfirvöld skiptu sér að jafnaði lítið af heimastjórn í skattlöndunum. Almennt séð giltu lög Gyðinga um málefni Gyðinga. Ástæðan fyrir því að Rómverjar skiptu sér af máli Páls var sú að uppþotið sem varð í musterinu þegar hann birtist þar ógnaði röð og reglu í samfélaginu.

Rómversk yfirvöld gátu nánast ráðskast eins og þeim sýndist með almenna borgara í skattlöndunum. Því var öðruvísi farið með rómverska ríkisborgara.f Ríkisfang veitti fólki ákveðin réttindi sem voru virt og í heiðri höfð um allt Rómaveldi. Það var til dæmis ólöglegt að binda eða berja Rómverja án dóms og laga því að slík meðferð var aðeins talin hæfa þrælum. Rómverskir ríkisborgarar höfðu líka þann rétt að áfrýja ákvörðunum landstjóra til keisarans í Róm.

Hægt var að eignast rómverskt ríkisfang á ýmsa vegu. Til dæmis var hægt að fá það í arf. Keisarar veittu stundum einstaklingum eða frjálsum þegnum heilla borga eða héraða ríkisfang að launum fyrir veitta þjónustu. Þræll sem keypti sér frelsi af rómverskum ríkisborgara eða var gefið það hlaut sjálfkrafa ríkisfang. Hið sama er að segja um menn af öðrum þjóðernum sem höfðu lokið herþjónustu í rómverska hernum. Einnig virðist hafa verið hægt að kaupa sér ríkisfang við vissar aðstæður. Hersveitarforinginn Kládíus Lýsías sagði við Pál: „Ég keypti þennan ríkisborgararétt dýrum dómum.“ Páll svaraði: „Ég hef haft hann frá fæðingu.“ (Post. 22:28) Einhver af forfeðrum Páls hlýtur því að hafa eignast rómverskt ríkisfang með einhverjum ótilgreindum hætti.

f Líklega bjuggu ekki margir rómverskir ríkisborgarar í Júdeu á fyrstu öld. Það var ekki fyrr en á þriðju öld sem öllum þegnum skattlandanna var veitt rómverskt ríkisfang.

„Hann á ekki skilið að lifa!“ (Post. 21:27–22:30)

13. (a) Hvers vegna ollu Gyðingar uppnámi í musterinu? (b) Hvernig var Páli bjargað?

13 Ferðin í musterið endaði með ósköpum. Þegar tíminn sem heitin voru í gildi var næstum á enda komu Gyðingar frá Asíu auga á Pál, sökuðu hann ranglega um að fara með heiðingja inn í musterið og æstu til uppþots. Ef rómverski hersveitarforinginn hefði ekki skorist í leikinn hefði Páll verið barinn til bana. En hann lét handtaka Pál og koma honum undan. Það liðu meira en fjögur ár þar til Páll var frjáls maður á ný. Hann var þó enn í lífshættu. Þegar hersveitarforinginn spurði Gyðingana hvers vegna þeir hefðu ráðist á Pál hrópuðu þeir alls konar ásakanir hver í kapp við annan. Í öllum þessum látum skildi hersveitarforinginn hvorki upp né niður í neinu. Að lokum þurfti bókstaflega að bera Pál burt. Í þann mund sem verið var að fara með Pál inn í bækistöðvar hermannanna sagði hann við hersveitarforingjann: „Ég bið þig að leyfa mér að tala til fólksins.“ (Post. 21:39) Hersveitarforinginn féllst á það og Páll tók til máls og varði trú sína af hugrekki.

14, 15. (a) Hvað útskýrði Páll fyrir Gyðingum? (b) Hvað gerði rómverski hersveitarforinginn til að reyna að komast að því hvers vegna Gyðingar reiddust svona?

14 „Heyrið það sem ég vil segja mér til varnar,“ segir Páll. (Post. 22:1) Hann ávarpaði mannfjöldann á hebresku og það róaði fólkið. Páll lýsti opinskátt hvers vegna hann væri orðinn fylgjandi Krists. Hann minntist á ýmislegt sem Gyðingar gátu sannreynt ef þeir vildu. Hann var menntaður við fætur hins fræga Gamalíels og hafði ofsótt fylgjendur Krists eins og sumir viðstaddra líklega vissu. En á leiðinni til Damaskus hafði hinn upprisni Kristur birst honum og talað við hann. Ferðafélagar Páls höfðu séð skært ljós og heyrt rödd en ekki skilið það sem sagt var. (Sjá skýringar við Postulasöguna 9:7; 22:9 í námsútgáfu Biblíunnar á erlendum málum.) Eftir það urðu félagar Páls að leiða hann til Damaskus því að hann hafði misst sjónina. Þar hafði Ananías, maður sem Gyðingar á svæðinu þekktu, veitt honum sjónina á ný fyrir kraftaverk.

15 Páll sagði síðan frá því að þegar hann kom aftur til Jerúsalem hafi Jesús birst honum í musterinu. Gyðingar urðu mjög æstir þegar þeir heyrðu þetta og hrópuðu: „Burt með þennan mann af jörðinni því að hann á ekki skilið að lifa!“ (Post. 22:22) Til að bjarga Páli lætur hersveitarforinginn fara með hann inn í bækistöðvar hermannanna. Hann er ákveðinn í að komast að því hvers vegna Gyðingum er í svona mikilli nöp við Pál og fyrirskipar að hann skuli yfirheyrður og húðstrýktur. Páll nýtir sér þá lagalegan rétt sinn og upplýsir að hann sé rómverskur ríkisborgari. Þjónar Jehóva nú á dögum nýta sér líka lagaleg réttindi sín til að verja trúna. (Sjá rammana „Rómversk lög og rómverskt ríkisfang“ og „Lagaleg átök nú á tímum“.) Þegar hersveitarforinginn heyrði að Páll væri rómverskur ríkisborgari áttaði hann sig á að hann yrði að beita öðrum aðferðum til að afla sér frekari upplýsinga. Daginn eftir kallaði hann saman Æðstaráðið, sem var hæstiréttur Gyðinga, og leiddi Pál fyrir það.

LAGALEG ÁTÖK NÚ Á TÍMUM

Líkt og Páll postuli hafa Vottar Jehóva nú á tímum beitt öllum lagalegum úrræðum sem eru í boði til að berjast fyrir frelsi til að boða trúna. Þeir hafa lagt sig fram um að „verja fagnaðarboðskapinn og staðfesta með lögum réttinn til að boða hann“. – Fil. 1:7.

Á árabilinu 1920 til 1940 voru vottar Jehóva handteknir í hundraðatali fyrir að dreifa biblíutengdum ritum. Sem dæmi má nefna að árið 1926 lágu 897 mál fyrir dómstólum í Þýskalandi. Slíkur var málafjöldinn að nauðsynlegt reyndist að setja á fót lögfræðideild við deildarskrifstofuna í Þýskalandi. Á fjórða áratugnum voru hundruð votta handtekin á hverju ári í Bandaríkjunum einum fyrir að boða trúna hús úr húsi. Árið 1936 urðu málin 1.149 talsins. Lögfræðideild var þá einnig sett á stofn í Bandaríkjunum til að aðstoða bræður og systur. Á árunum 1933 til 1939 voru höfðuð 530 mál gegn vottum í Rúmeníu. En í mörgum þeirra mála sem skotið var til hæstaréttar Rúmeníu féll dómur vottunum í vil. Hið sama hefur gerst víða um lönd.

Oft hafa orðið átök fyrir dómstólum um mál sem varða hlutleysi og starfsemi sem vottar geta ekki tekið þátt í af samviskuástæðum. (Jes. 2:2–4; Jóh. 17:14) Andstæðingar hafa ranglega sakað þá um uppreisnaráróður og það hefur stundum leitt til þess að starfsemi okkar hefur verið bönnuð með öllu. En í áranna rás hafa þó margar ríkisstjórnir viðurkennt að þeim stafi engin ógn af Vottum Jehóva.g

g Nánari upplýsingar um sigra votta Jehóva fyrir dómstólum í ýmsum löndum má finna í 15. kafla bókarinnar Ríki Guðs stjórnar og 30. kafla bókarinnar Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom.

„Ég er farísei“ (Post. 23:1–10)

16, 17. (a) Lýstu því sem gerðist þegar Páll ávarpaði Æðstaráðið. (b) Hvernig sýndi Páll að hann var auðmjúkur þegar hann var sleginn á munninn?

16 Páll byrjaði vörn sína fyrir Æðstaráðinu með þessum orðum: „Menn, bræður, ég hef að öllu leyti haft hreina samvisku frammi fyrir Guði allt til þessa dags.“ (Post. 23:1) Hann komst ekki lengra. Frásagan heldur áfram: „Þá skipaði Ananías æðstiprestur þeim sem stóðu hjá honum að slá hann á munninn.“ (Post. 23:2) Hvílík móðgun! Það vitnaði líka um mikla fordóma að stimpla Pál lygara áður en hann gat borið fram nokkur rök sér til varnar. Það er engin furða að Páll skyldi svara: „Guð mun slá þig, þú hvítkalkaði veggur. Situr þú og dæmir mig samkvæmt lögunum en brýtur jafnframt lögin með því að skipa að ég skuli sleginn?“ – Post. 23:3.

17 Sumir viðstaddra voru stórhneykslaðir – ekki á manninum sem sló Pál heldur á viðbrögðum Páls. „Smánarðu æðstaprest Guðs?“ hrópuðu þeir. Svar Páls sýnir að hann var auðmjúkur og bar virðingu fyrir lögunum. Hann sagði: „Bræður, ég vissi ekki að hann væri æðstiprestur. Skrifað stendur: ‚Þú skalt ekki tala niðrandi um leiðtoga fólks þíns.‘“d (Post. 23:4, 5; 2. Mós. 22:28) Páll grípur nú til annarrar aðferðar. Hann tekur mið af því að Æðstaráðið er skipað bæði faríseum og saddúkeum og segir: „Menn, bræður, ég er farísei, kominn af faríseum. Ég er fyrir rétti vegna vonarinnar um upprisu dauðra.“ – Post. 23:6.

Prestur skoðar ritningarstað í biblíunni sinni sem bróðir bendir honum á.

Líkt og Páll reynum við að finna sameiginlegan grundvöll þegar við tölum við fólk sem er annarrar trúar.

18. Hvers vegna kallaði Páll sig farísea og hvernig gætum við rökrætt á svipuðum nótum við ákveðnar aðstæður?

18 Af hverju kallaði Páll sig farísea? Af því að hann var „kominn af faríseum“, af fjölskyldu sem tilheyrði þeim sértrúarflokki. Margir hafa því litið á hann sem farísea.e En hvernig gat Páll kallað sig farísea í ljósi þeirra hugmynda sem þeir gerðu sér um upprisu? Farísear eru sagðir hafa trúað að sálin lifði af líkamsdauðann og að sálir réttlátra endurfæddust í mennskum líkama. Páll trúði ekki á slíkt. Hann trúði á upprisu eins og Jesús lýsti henni. (Jóh. 5:25–29) En Páll var samt sammála faríseum um að það væri von um líf eftir dauðann – ólíkt saddúkeum sem trúðu ekki á framhaldslíf. Við gætum rökrætt á svipuðum nótum þegar við tölum við kaþólikka eða mótmælendur. Við gætum sagt að við trúum á Guð eins og þeir. Þeir trúa eflaust á þríeinan Guð en við trúum á Guð Biblíunnar. Við höfum samt þá sameiginlegu trú að til sé Guð.

19. Af hverju leystist fundur Æðstaráðsins upp?

19 Orð Páls sundruðu Æðstaráðinu. Í frásögunni segir: „Nú varð mikið uppnám og sumir fræðimenn af flokki farísea stóðu upp og hrópuðu af miklum ofsa: ‚Við sjáum ekki að þessi maður hafi gert neitt rangt. Segjum að andi eða engill hafi talað við hann …‘“ (Post. 23:9) Það eitt að nefna að engill hefði kannski talað við Pál kom saddúkeum í mikið uppnám því að þeir trúðu ekki á engla. (Sjá rammann „Saddúkear og farísear“.) Lætin urðu svo mikil að rómverski hersveitarforinginn þurfti aftur að grípa inn í til að bjarga postulanum. (Post. 23:10) Páll var samt enn í hættu. Hvað gerðist í framhaldinu? Við lítum nánar á það í næsta kafla.

SADDÚKEAR OG FARÍSEAR

Æðstaráðið, sem var bæði stjórnsetur og hæstiréttur Gyðinga, var aðallega skipað mönnum úr tveim andstæðum hópum – saddúkeum og faríseum. Sagnaritarinn Flavíus Jósefus, sem var uppi á fyrstu öld, segir að helsti munurinn á þessum tveim flokkum hafi verið sá að farísear reyndu að þvinga fólk til að halda fjöldann allan af erfðavenjum en saddúkear töldu aðeins skylt að halda það sem stóð í Móselögunum. Báðir flokkarnir voru sameinaðir í andstöðu sinni gegn Jesú.

Saddúkear voru í meginatriðum íhaldssamir og virðast hafa átt náin tengsl við prestastéttina. Annas og Kaífas, sem höfðu báðir verið æðstuprestar, virðast hafa tilheyrt þessum volduga sértrúarflokki. (Post. 5:17) En Jósefus segir að kenningar saddúkea hafi „aðeins höfðað til hinna ríku“.

Farísear höfðu á hinn bóginn mikil ítök meðal almennings. En trúarskoðanir þeirra gerðu fólki mjög erfitt fyrir að fylgja lögunum. Þeir voru meðal annars með strangar reglur um trúarlegt hreinlæti. Ólíkt saddúkeum lögðu farísear mikla áherslu á forlög og trúðu að sálin lifði af líkamsdauðann og hlyti síðan réttláta umbun eða refsingu fyrir dyggðir sínar eða lesti.

a Margir söfnuðir hafa eflaust haldið samkomur á einkaheimilum þar sem kristnir Gyðingar voru svona margir.

b Fáeinum árum síðar skrifaði Páll postuli Hebreabréfið þar sem hann sýndi fram á yfirburði nýja sáttmálans. Í bréfinu kemur skýrt fram að nýi sáttmálinn hefði tekið við af þeim gamla. Páll bar fram sannfærandi rök sem kristnir Gyðingar gátu notað til að svara Gyðingum sem gerðu lítið úr þeim. Kröftug rök hans hafa eflaust líka styrkt trú sumra í söfnuðinum sem lögðu of mikla áherslu á Móselögin. – Hebr. 8:7–13.

c Fræðimenn telja að mennirnir hafi unnið nasíreaheit. (4. Mós. 6:1–21) Slíkt heit hlýtur að hafa verið gefið í samræmi við Móselögin sem nú voru fallin úr gildi. Páll hefur þó kannski hugsað sem svo að það væri ekki rangt af þeim að efna heit sem þeir hefðu gefið Jehóva. Þess vegna væri ekki rangt af honum að fara með þeim og bera kostnaðinn fyrir þá. Við vitum ekki með vissu hvers konar heit var um að ræða en hvað sem því líður er ólíklegt að Páll hafi hjálpað mönnunum að færa dýrafórn (eins og nasírear gerðu) sem talið var að hreinsaði menn af synd. Slíkar fórnir höfðu ekkert friðþægingargildi eftir að Kristur hafði fært sína fullkomnu fórn. Hvað sem Páll gerði er víst að hann hefur ekki gert neitt sem stríddi gegn samvisku hans.

d Sumir telja að Páll hafi verið sjóndapur og hafi ekki áttað sig á að það var æðstipresturinn sem talaði. Annar möguleiki er að svo langt hafi verið síðan hann var í Jerúsalem að hann þekkti ekki núverandi æðstaprest í sjón. Eða kannski sá hann bara ekki fyrir mannfjöldanum hver það var sem gaf fyrirmælin um að slá hann.

e Þegar postularnir og öldungarnir funduðu árið 49 og ræddu hvort fólk af þjóðunum þyrfti að halda Móselögin er minnst á að „sumir úr flokki farísea sem höfðu tekið trú“ hafi verið viðstaddir. (Post. 15:5) Þessir bræður voru greinilega á einhvern hátt tengdir við það að þeir höfðu verið farísear áður en þeir urðu kristnir.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila