Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • kr kafli 20 bls. 209-219
  • Hjálparstarf sem er Jehóva til heiðurs

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hjálparstarf sem er Jehóva til heiðurs
  • Ríki Guðs stjórnar
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hjálparstarf er heilög þjónusta
  • Hjálparstarf með skýr markmið
  • Hjálparstarf hefur varanleg áhrif
  • Getur þú lagt hönd á plóginn?
  • Hvernig getum við hjálpað eftir náttúruhamfarir?
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
  • Taka vottar Jehóva þátt í hjálparstarfi?
    Spurningar og svör um Votta Jehóva
  • Neyðaraðstoð árið 2023 – „við kynnumst kærleika Jehóva frá fyrstu hendi“
    Hvernig eru framlögin notuð?
  • Stuðningur okkar við ríki Guðs – að byggja samkomuhús og veita neyðaraðstoð
    Ríki Guðs stjórnar
Sjá meira
Ríki Guðs stjórnar
kr kafli 20 bls. 209-219

20. KAFLI

Hjálparstarf sem er Jehóva til heiðurs

Í ÞESSUM KAFLA

Kristinn kærleikur að verki á neyðarstund.

1, 2. (a) Í hvaða þrengingum lentu kristnir menn í Júdeu? (b) Hvernig sýndu trúsystkini annars staðar þeim kærleika?

HUNGURSNEYÐ varð í Júdeu um árið 46 e.Kr. Korn er af skornum skammti og verðið hefur rokið upp úr öllu valdi. Lærisveinar Krists í Júdeu, sem eru Gyðingar, hafa ekki efni á að kaupa sér til matar. Þeir svelta heilu hungri. En þeir eiga eftir að finna fyrir verndarhendi Jehóva með nýjum og öðrum hætti en lærisveinar Krists hafa þekkt hingað til. Hvað gerist?

2 Kristna menn í Antíokkíu í Sýrlandi, bæði af gyðinglegum uppruna og öðrum, langar til að liðsinna bágstöddum kristnum Gyðingum í Jerúsalem og Júdeu. Þeir safna fé þeim til hjálpar og velja síðan tvo ábyrga bræður úr hópnum, þá Barnabas og Sál, til að færa öldungum safnaðarins í Jerúsalem féð. (Lestu Postulasöguna 11:27-30; 12:25.) Þú getur rétt ímyndað þér hve snortin þurfandi bræður og systur í Júdeu hafa verið af þessu kærleiksverki trúsystkina sinna í Antíokkíu.

3. (a) Hvernig líkja þjónar Guðs á okkar dögum eftir frumkristnum mönnum í Antíokkíu? Nefndu dæmi. (Sjá einnig greinina „Fyrsta meiri háttar neyðaraðstoð okkar á síðari tímum“.) (b) Við hvaða spurningum er leitað svara í þessum kafla?

3 Þetta hjálparstarf, sem átti sér stað á fyrstu öld, er elsta þekkta dæmið um að kristnir menn í einum heimshluta hafi sent trúsystkinum annars staðar í heiminum hjálpargögn. Við tökum okkur bræður og systur í Antíokkíu til fyrirmyndar. Þegar við fréttum að trúsystkini okkar annars staðar hafi orðið illa úti af völdum náttúruhamfara eða annarra orsaka komum við þeim til hjálpar.a Til að átta okkur á hvernig hjálparstarf okkar tengist annarri starfsemi sem við höfum með höndum skulum við leita svara við þrem spurningum: Hvers vegna lítum við á hjálparstarf sem þátt í þjónustu okkar við Guð? Hvaða markmið höfum við með hjálparstarfi okkar? Hvernig er hjálparstarfið sjálfum okkur til góðs?

Hjálparstarf er heilög þjónusta

4. Hvað sagði Páll söfnuðinum í Korintu um þjónustu kristinna manna?

4 Í síðara bréfinu til safnaðarins í Korintu sýnir Páll fram á að kristnir menn hafi tvíþætta þjónustu með höndum. Þó að bréfið hafi verið ætlað hinum andasmurðu eiga orð Páls einnig við ‚aðra sauði‘ Krists nú á dögum. (Jóh. 10:16) Annar þáttur þjónustunnar er ‚þjónusta sáttargerðarinnar‘, það er að segja boðunin og kennslan. (2. Kor. 5:18-20; 1. Tím. 2:3-6) Hinn þátturinn er þjónusta sem við veitum trúsystkinum. Páll nefnir sérstaklega ,samskot til hinna heilögu‘ eða þjónustu í þágu þeirra eins og það er orðað í frummálinu. (2. Kor. 8:4) Þegar talað er um „þjónustu sáttargerðarinnar“ og þjónustu í þágu hinna heilögu er í báðum tilvikum notuð beygingarmynd gríska orðsins diakoniʹa. Hvaða þýðingu hefur það?

5. Hvaða þýðingu hefur það að Páll skuli tala um hjálparstarf sem þjónustu?

5 Með því að nota sama gríska orðið til að lýsa þessu tvennu flokkar Páll hjálparstarf með annarri þjónustu sem fram fór í kristna söfnuðinum. Hann hafði áður sagt: „Mismunur er á þjónustustörfum en Drottinn hinn sami. Mismunur er á framkvæmdum ... Öllu þessu kemur eini og sami andinn til leiðar.“ (1. Kor. 12:4-6, 11) Páll talar um að hin ýmsu þjónustustörf í söfnuðinum séu þáttur í guðsdýrkun okkar og heilagri þjónustu.b (Rómv. 12:1, 6-8) Það er ósköp eðlilegt að hann skyldi telja það viðeigandi að nota tíma sinn að hluta til til að „færa hjálp hinum heilögu“. – Rómv. 15:25, 26.

6. (a) Hvernig rökstyður Páll að hjálparstarf sé þáttur í tilbeiðslu okkar? (b) Lýstu hvernig hjálparstarfi okkar í heiminum er háttað. (Sjá yfirlitið „Þegar neyðarástand skapast“ á bls. 214.)

6 Páll sýndi kristnum mönnum í Korintu fram á hvers vegna hjálparstarf væri þáttur í þjónustu þeirra og tilbeiðslu á Jehóva. Hann rökstyður það þannig: Kristnir menn, sem vinna að hjálparstarfi, gera það vegna þess að þeir ‚fara eftir fagnaðarerindi Krists‘. (2. Kor. 9:13) Þeir hjálpa trúsystkinum vegna þess að þá langar til að breyta í samræmi við kenningar Krists. Páll segir að góðverk þeirra í þágu trúsystkina sinna séu í rauninni merki þess „hve ríkulega Guð hefur veitt [þeim] náð sína“. (2. Kor. 9:14; 1. Pét. 4:10) Í Varðturninum 1. desember 1975 var rætt um aðstoð við nauðstödd trúsystkini en hún er meðal annars fólgin í hjálparstarfi. Þar sagði réttilega: „Við skulum aldrei efast um að þess konar þjónusta er afar mikilvæg í augum Jehóva Guðs og sonar hans, Jesú Krists.“ Já, hjálparstarf er mikilvægur þáttur heilagrar þjónustu. – Rómv. 12:1, 7; 2. Kor. 8:7; Hebr. 13:16.

Hjálparstarf með skýr markmið

7, 8. Hvert er fyrsta markmiðið með hjálparstarfi okkar? Skýrðu svarið.

7 Hvaða markmið höfum við með hjálparstarfi okkar? Páll ræðir um það í síðara bréfinu til safnaðarins í Korintu. (Lestu 2. Korintubréf 9:11-15.) Í þessum versum bendir hann á þrjú meginmarkmið sem við náum með þeirri þjónustu sem við innum af hendi, það er að segja hjálparstarfinu. Skoðum þessi markmið hvert um sig.

8 Í fyrsta lagi er hjálparstarf okkar Jehóva til lofs. Taktu eftir hve oft Páll vekur athygli trúsystkina sinna á Jehóva Guði í þessum fimm versum sem vitnað er í hér að ofan. Hann minnir þá tvívegis á að ‚margir þakki Guði‘. (Vers 11, 12) Hann nefnir að hjálparstarfið verði til þess að kristnir menn ‚lofi Guð‘ og ‚sjái hve ríkulega Guð hafi veitt þeim náð sína‘. (Vers 13, 14) Og hann lýkur máli sínu um hjálparstarfið með orðunum: „Þökk sé Guði.“ – Vers 15; 1. Pét. 4:11.

9. Hvernig getur hjálparstarf okkar breytt afstöðu fólks? Nefndu dæmi.

9 Þjónar Jehóva nú á tímum líta á hjálparstarf sem tækifæri til að heiðra Jehóva og prýða kenningu hans, rétt eins og Páll gerði. (1. Kor. 10:31; Tít. 2:10) Hjálparstarf á oft töluverðan þátt í að eyða neikvæðni gagnvart Jehóva og vottum hans. Nefnum dæmi: Á svæði þar sem fellibylur hafði gengið yfir bjó kona sem hafði sett miða á hurðina hjá sér til að afþakka heimsóknir votta Jehóva. Dag nokkurn sá hún hjálparstarfsmenn vera að lagfæra hús handan götunnar. Dögum saman fylgdist hún með þessu vingjarnlega fólki og ákvað loks að spyrja hverjir þetta væru. Hún var steinhissa þegar hún uppgötvaði að sjálfboðaliðarnir voru vottar Jehóva. „Ég hef haft ykkur fyrir rangri sök,“ sagði hún. Þetta varð til þess að hún tók miðann af hurðinni.

10, 11. (a) Hvaða dæmi sýna að við náum öðru markmiðinu með hjálparstarfi okkar? (b) Hvaða rit auðveldar hjálparstarfsmönnum verkið? (Sjá greinina „Hjálpargagn handa hjálparstarfsmönnum“.)

10 Í öðru lagi ‚bætum við úr skorti‘ trúsystkina okkar. (2. Kor. 9:12a) Okkur langar til að fullnægja brýnustu þörfum bræðra okkar og systra og lina þjáningar þeirra eftir bestu getu. Hvers vegna? Vegna þess að þeir sem tilheyra kristna söfnuðinum mynda ‚einn líkama‘ og ef „einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum“. (1. Kor. 12:20, 26) Slík er bróðurástin og umhyggjan að fjöldi bræðra og systra er reiðubúinn að henda öllu frá sér fyrirvaralaust, sækja verkfærin sín og hraða sér á hamfarasvæði til að liðsinna trúsystkinum. (Jak. 2:15, 16) Skjálftaflóðbylgja skall á Japan árið 2011. Í framhaldi af því sendi deildarskrifstofan í Bandaríkjunum bréf til svæðisbyggingarnefnda þar í landi og spurði hvort „fáeinir færir vottar“ væru tiltækir til að aðstoða við að endurbyggja ríkissali í Japan. Hver voru viðbrögðin? Á fáeinum vikum sóttu næstum 600 sjálfboðaliðar um að fá að hjálpa og lýstu sig reiðubúna að fljúga til Japans á eigin kostnað. „Viðbrögðin eru framar öllum vonum,“ segir í bréfi frá deildarskrifstofunni í Bandaríkjunum. Þegar bróðir í Japan spurði hjálparstarfsmann hvers vegna hann hefði komið frá útlöndum til að hjálpa var svarið: „Trúsystkini okkar í Japan eru hluti af ‚líkama okkar‘. Við finnum fyrir sársauka þeirra og þjáningum.“ Hjálparstarfsmenn hafa stundum sett sig í lífshættu til að aðstoða trúsystkini sín. Það er fórnfús kærleikur sem býr að baki.c – 1. Jóh. 3:16.

Vottur Jehóva í Sviss flokkar hjálpargögn sem send voru til trúsystkina árið1946.

Sviss 1946.

FYRSTA MEIRI HÁTTAR NEYÐARAÐSTOÐ OKKAR Á SÍÐARI TÍMUM

Í SEPTEMBER 1945, örfáum mánuðum eftir að átökum síðari heimsstyrjaldar lauk í Evrópu, tilkynnti bróðir Knorr að gert yrði meiri háttar átak til að senda „hjálpargögn til þurfandi trúsystkina í Mið-Evrópu“.

Skömmu eftir að þessi tilkynning var gefin út tóku vottar í Kanada, Bandaríkjunum og víðar að flokka og pakka fötum og safna matvælum. Í janúar 1946 var byrjað að senda hjálpargögn til trúsystkina í Austurríki, Belgíu, Búlgaríu, Danmörku, Englandi, Filippseyjum, Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Ítalíu, Kína, Noregi, Póllandi, Rúmeníu, Tékkóslóvakíu, Ungverjalandi og Þýskalandi.

Þetta var ekki bara stutt átak heldur var haldið áfram að senda hjálpargögn í tvö og hálft ár. Á þessu tímabili sendu um 85.000 bræður og systur hér um bil 300 tonn af matvælum, 450 tonn af fatnaði og rúmlega 124.000 pör af skóm til bræðra og systra í löndunum þar sem stríðið hafði geisað. Þessu mikla átaki lauk í ágúst 1948. „Þau hafa sannarlega sýnt hvert öðru kærleika í verki,“ sagði í Varðturninum árið 1949. „Við vitum að bræður og systur gerðu þetta öll til að heiðra Drottin. Þau höfðu í huga að gjafir þeirra gætu hjálpað sumum að halda áfram að þjóna Guði, og þau álitu það mikinn heiður að geta þjónað trúsystkinum sínum á þennan hátt.“ Þetta hjálparstarf var Jehóva til lofs, trúsystkinum okkar til hjálpar og styrkti einingarböndin milli bræðra og systra um allan heim.

11 Fólk utan safnaðarins hefur líka farið jákvæðum orðum um hjálparstarf okkar. Í kjölfar náttúruhamfara í Arkansas í Bandaríkjunum árið 2013 sagði dagblað nokkurt um skjót viðbrögð sjálfboðaliða Votta Jehóva: „Sjálfboðasveitir Votta Jehóva eru listilega vel skipulagðar og geta brugðist fljótt og fagmannlega við þegar náttúruhamfarir verða.“ Eins og Páll postuli komst að orði leggjum við okkur vel fram við að ‚bæta úr skorti‘ trúsystkina okkar.

12-14. (a) Hvers vegna er mjög mikilvægt að ná þriðja markmiði hjálparstarfsins? (b) Hvaða ummæli sýna fram á mikilvægi þess að halda áfram að boða fagnaðarerindið og sækja samkomur?

12 Í þriðja lagi hjálpum við nauðstöddum að koma reglu á þjónustuna við Jehóva. Hvers vegna er það mikilvægt? Páll segir að þeir sem fái neyðaraðstoð finni hjá sér sterka löngun til að ‚þakka Guði‘. (2. Kor. 9:12b) Er hægt að hugsa sér betri leið fyrir nauðstadda til að þakka Jehóva en að koma reglu á þjónustuna við hann eins fljótt og hægt er? (Fil. 1:10) Árið 1945 stóð eftirfarandi í Varðturninum: „Páll samþykkti ... að safnað væri framlögum vegna þess að þau léttu undir með ... þurfandi trúsystkinum þeirra svo að þau höfðu meira svigrúm og krafta til að vitna um Jehóva.“ Markmið okkar er enn hið sama. Trúsystkini okkar styrkja bæði bágstadda nágranna sína og sjálfa sig með því að komast aftur í boðunarstarfið. – Lestu 2. Korintubréf 1:3, 4.

13 Hvað segja þeir sem hafa notið góðs af neyðaraðstoð, byrjað að boða fagnaðarerindið á ný og fengið styrk af því? „Það var fjölskyldunni til blessunar að fara í boðunarstarfið,“ segir bróðir. „Þegar við reyndum að hughreysta aðra fengum við stundarfrið fyrir okkar eigin áhyggjum.“ Systir sagði: „Ég hætti að hugsa um eyðilegginguna í kringum mig meðan ég einbeitti mér að boðuninni. Það veitti mér vissa öryggiskennd.“ Önnur systir sagði eftirfarandi: „Það var margt sem við fengum engu um ráðið en boðunin veitti okkur fjölskyldunni ákveðna stefnu í tilverunni. Með því að segja fólki frá voninni um nýja heiminn styrktum við sannfæringu sjálfra okkar um að Guð geri alla hluti nýja.“

14 Það er einnig mikilvægt fyrir bræður og systur á hamfarasvæðum að byrja að sækja samkomur aftur sem allra fyrst. Kiyoko var tæplega sextug þegar hún missti allar eigur sínar í skjálftaflóðbylgju. Hún átti ekkert nema ilskóna og fötin sem hún stóð í og hafði ekki hugmynd um hvað tæki við. Öldungur sagði henni þá að þau myndu halda samkomu í bílnum hans. „Við vorum tvær systur í bílnum ásamt öldungi og konunni hans,“ segir Kiyoko. „Samkoman var einföld en eins og fyrir kraftaverk gleymdi ég flóðbylgjunni. Ég fann fyrir innri ró. Þetta sýndi mér fram á hve samkomurnar eru áhrifamiklar.“ Önnur systir sagði um samkomur sem hún sótti eftir að náttúruhamfarir höfðu gengið yfir: „Þær voru haldreipi mitt.“ – Rómv. 1:11, 12; 12:12.

Hjálparstarf hefur varanleg áhrif

15, 16. (a) Hvaða áhrif hafði það á kristna menn í Korintu og annars staðar að styðja hjálparstarf? (b) Hvaða jákvæðu áhrif hefur hjálparstarf nú á dögum?

15 Þegar Páll ræðir um hjálparstarfið skýrir hann einnig fyrir söfnuðinum í Korintu hve jákvæð áhrif það hafi á þá og aðra þjóna Guðs að taka þátt í því. Hann segir: „Þeir [kristnir Gyðingar í Jerúsalem sem fengu aðstoðina] munu biðja fyrir ykkur og þrá ykkur vegna þess að þeir sjá hve ríkulega Guð hefur veitt ykkur náð sína.“ (2. Kor. 9:14) Örlæti kristinna manna í Korintu, sem voru sumir af heiðnum uppruna, varð til þess að kristnir Gyðingar í Jerúsalem báðu fyrir þeim og það styrkti kærleiksböndin milli þeirra.

16 Í Varðturninum 1. desember 1945 var rætt um það sem Páll skrifaði um hjálparstarf og bent á þau jákvæðu áhrif sem það hefði. Þar stóð: „Við getum rétt ímyndað okkur hvernig það styrkir eininguna þegar einn hópur vígðra þjóna Guðs lætur eitthvað af hendi rakna til að fullnægja þörfum annars hóps.“ Hjálparstarfsmenn finna greinilega fyrir því. „Mér fannst ég verða nánari trúsystkinum mínum en nokkru sinni fyrr,“ segir öldungur sem aðstoðaði við hjálparstarf í kjölfar flóða. Þakklát systir, sem fékk aðstoð, orðaði það þannig: „Bræðralag okkar er það næsta sem við komumst paradís á jörð.“ – Lestu Orðskviðina 17:17.

17. (a) Hvernig má heimfæra Jesaja 41:13 upp á hjálparstarf? (b) Nefndu dæmi sem sýna að hjálparstarf er Jehóva til heiðurs og styrkir einingu okkar. (Sjá einnig greinina „Sjálfboðaliðar um heim allan veita neyðaraðstoð“.)

17 Þegar hjálparstarfsmenn koma á hamfarasvæði kynnast nauðstödd trúsystkini okkar á sérstakan hátt hvernig Jehóva stendur við loforð sitt: „Ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: ‚Óttast eigi, ég bjarga þér.‘“ (Jes. 41:13) Systir nokkur sagði eftir náttúruhamfarir: „Ég fylltist vonleysi þegar ég horfði upp á eyðilegginguna en Jehóva rétti út hönd sína. Hjálpin, sem ég fékk frá bræðrunum, er ólýsanleg.“ Tveir öldungar töluðu fyrir munn safnaða á svæðinu þar sem þeir starfa en það varð illa úti í jarðskjálfta: „Skjálftinn olli miklum þjáningum en við fundum fyrir hjálpinni sem Jehóva veitir fyrir milligöngu bræðra okkar. Við höfðum lesið um hjálparstarf en nú sáum við það í verki með eigin augum.“

Peter Johnson vinnur við byggingu á vegum safnaðarins.

ÞAÐ MÓTAÐI LÍFSSTEFNU HANS

HVAÐA áhrif getur það haft á ungt fólk að taka þátt í hjálparstarfi? Peter Johnson gerði það í fyrsta sinn þegar hann var 18 ára. Hann segir: „Þakklæti bræðra og systra og gleðin, sem fylgir því að gefa, hafði djúpstæð áhrif á mig. Það styrkti löngun mína til að nota líf mitt sem allra best til að þjóna Jehóva.“ Peter gerðist brautryðjandi í kjölfarið. Hann vann einnig á Betel og starfaði síðar í svæðisbyggingarnefnd. „Hjálparstarfið, sem ég tók þátt í árið 1974, mótaði lífsstefnu mína,“ segir Peter. Ertu ungur að árum? Gætirðu líkt eftir Peter? Hver veit nema þátttaka í hjálparstarfi geti mótað lífsstefnu þína í þjónustu Jehóva.

Getur þú lagt hönd á plóginn?

18. Hvað geturðu gert ef þig langar til að taka þátt í hjálparstarfi? (Sjá einnig greinina „Það mótaði lífsstefnu hans“.)

18 Langar þig til að kynnast gleðinni sem fylgir hjálparstarfi? Ef svo er skaltu hafa í huga að hjálparstarfsmenn eru oft valdir úr hópi þeirra sem vinna við byggingu ríkissala. Láttu öldungana í söfnuðinum þínum vita að þig langi til að fylla út umsókn. Öldungur með mikla reynslu af hjálparstarfi bendir á eftirfarandi: „Farðu ekki á hamfarasvæðið fyrr en þú hefur fengið formlegt boð um það frá hjálparstarfsnefndinni.“ Það stuðlar að því að hjálparstarf okkar gangi skipulega fyrir sig.

19. Hvernig eiga hjálparstarfsmenn þátt í að sýna fram á að við séum lærisveinar Krists í raun og sannleika?

19 Hjálparstarf er einstök leið til að sýna að við elskum hvert annað eins og Kristur sagði okkur að gera. Slíkur kærleikur er merki þess að við séum í raun og sannleika lærisveinar Krists. (Jóh. 13:34, 35) Það er mikil blessun að eiga að ótal fúsa verkamenn sem heiðra Jehóva með því að veita dyggum þegnum ríkis hans neyðaraðstoð þegar þörf krefur.

a Í þessum kafla er rætt um hjálparstarf í þágu trúsystkina okkar. Oft og tíðum njóta þó fleiri góðs af hjálparstarfi okkar. – Gal. 6:10.

b Páll notar fleirtölumynd orðsins diaʹkonos (þjónn) þegar hann talar um „safnaðarþjóna“. – 1. Tím. 3:12, New World Translation.

c Sjá greinina „Aiding Our Family of Believers in Bosnia“ (Hjálp handa trúsystkinum okkar í Bosníu) í Varðturninum 1. nóvember 1994, bls. 23-27.

Hve raunverulegt er ríki Guðs í þínum augum?

  • Hvernig vitum við að hjálparstarf er þáttur í heilagri þjónustu okkar við Jehóva?

  • Hver eru þrjú helstu markmið hjálparstarfs okkar?

  • Hvaða varanlegu áhrif hefur hjálparstarf?

  • Hvernig tengist hjálparstarf okkar fyrirmælum Jesú í Jóhannesi 13:34?

SJÁLFBOÐALIÐAR UM HEIM ALLAN VEITA NEYÐARAÐSTOÐ

MIÐ- OG VESTUR-AFRÍKA

Árið 1994 voru að minnsta kosti 800.000 manns myrt í þjóðarmorðum í Rúanda. Í kjölfarið varð talsverð ólga í öðrum löndum í Mið-Afríku og flóttamannabúðir troðfylltust. Vottar Jehóva í Belgíu, Frakklandi og Sviss komu nauðstöddum trúsystkinum sínum til hjálpar og fluttu um 300 tonn af fatnaði, lyfjum, tjöldum, matvælum og öðrum hjálpargögnum flugleiðis á svæðið. Áður en langt um leið voru hjálpargögnin komin í hendur þurfandi bræðra og systra.

Í Afríku starfar teymi votta sem í eru tíu læknar og hjúkrunarfræðingar frá Frakklandi. Þau reyna að liðsinna bræðrum og systrum sem þjást af völdum borgarastríðs, hungursneyðar og sjúkdóma. Á síðastliðnum tveim árum hefur teymið sinnt meira en 10.000 sjúkratilfellum. Starf þessara votta er Jehóva og söfnuði hans til heiðurs. Einn af hjúkrunarfræðingunum segir: „Þegar við komum á svæði til að liðsinna bræðrum okkar og systrum segir fólk með augljósri virðingu: ‚Þetta eru vottar Jehóva. Þau eru komin til að hjálpa trúsystkinum sínum.‘“ Trúsystir sagði eftir að hjúkrunarfræðingur hafði liðsinnt henni: „Takk fyrir, systir mín. Takk fyrir, Jehóva.“

Stundum getur verið þörf á hjálparstarfi eftir alvarleg slys. Árið 2012 létust 13 vottar í umferðarslysi í Nígeríu en þeir tilheyrðu allir einum litlum söfnuði. Auk þess voru 54 alvarlega slasaðir. Hjálparstarfsnefnd sá til þess að hver einasti þeirra fengi umönnun allan sólarhringinn. Þegar kona, sem lá á spítalanum, sá hve vel var hugsað um þessa slösuðu votta hringdi hún í prestinn sinn og sagði: „Enginn frá kirkjunni okkar hefur heimsótt mig. Komdu á spítalann og sjáðu votta Jehóva sýna kærleika í verki.“

Þó að missir bræðra og systra í þessum litla söfnuði væri sár var kærleikur og umhyggja trúsystkina þeim til mikillar huggunar. Sú umönnun, sem hjálparstarfsmennirnir veittu, hafði sterk áhrif á þau og var sumum í söfnuðinum hvatning til að boða fagnaðarerindið af enn meira kappi en áður. Fyrir slysið voru 35 boðberar í söfnuðinum. Á einu ári fjölgaði þeim upp í 60.

ÁSTRALÍA

Sjötíu vottar þurftu að yfirgefa heimili sín þegar flóð urðu á strandsvæði Queensland árið 2013. Mark og Rhonda urðu að forða sér ásamt dóttur sinni og leituðu til fjöldahjálparstöðvar sem komið hafði verið upp. Þar var troðfullt af fólki. „Það var eiginlega hvergi hægt að setjast,“ segir Rhonda. Þyrlur voru að koma og fara og ærandi hávaðinn jók á spennuna sem lá í loftinu. „Hvað eigum við að gera?“ spurði hún kvíðin. Mark bað heitt og innilega til Jehóva. „Um hálftíma síðar stoppaði bíll við hjálparmiðstöðina og þrír bræður stigu út,“ segir Rhonda. „Þegar við hittumst sögðu þeir: ‚Þið komið með okkur. Þið fáið að gista hjá bróður í söfnuðinum.‘“ Rhonda bætir við: „Það er erfitt að lýsa tilfinningum okkar á þessu augnabliki þegar við upplifðum ást og umhyggju safnaðar Jehóva.“

Meira en 250 sjálfboðaliðar hröðuðu sér á flóðasvæðið til að hjálpa trúsystkinum sínum. Roskinn bróðir segir: „Hópur votta birtist bara allt í einu og vann hörðum höndum við að hreinsa hjá mér hátt og lágt. Við hjónin eigum aldrei eftir að gleyma hvernig þeir komu okkur til hjálpar.“

BRASILÍA

Árið 2008 þurftu um 80.000 manns að flýja heimili sín vegna flóða og aurskriðna í Santa Catarina-ríki. Haft var eftir íbúa á svæðinu að þetta hefði verið eins og „flóðbylgja af leir, leðju og trjám“. Allmargir vottar leituðu hælis í mótshöll. „Þeir voru ekki með neitt annað en aurug fötin sem þeir stóðu í,“ segir Márcio, umsjónarmaður mótshallarinnar. „Húsið okkar hrundi,“ segir systir nokkur. „Það var sárt að sjá það hverfa á augabragði en ég gleymi aldrei hvernig bræður og systur hughreystu okkur. Það voru svo margir sem sýndu okkur ást og umhyggju. Þessi lífsreynsla kenndi mér hve viturlegt það er að safna andlegum fjársjóðum.“

Vottar Jehóva flokka og dreifa hjálpargögnum fyrir hamfarasvæði í Brasilíu.

Hjálparmiðstöð var sett upp í mótshöll í Santa Catarina í Brasilíu árið 2009. Á gólfinu eru vistir sem gefnar voru.

Aurskriður hafa lagt heilu hverfin í rúst í fjallshlíðum í grennd við borgina Rio de Janeiro. Stofnaðar hafa verið fastar hjálparstarfsnefndir til að geta brugðist fljótt og vel við tíðum hamförum af þessu tagi. Eftirlitsmenn (valdir bræður sem búa á svæðinu) gera nefndinni viðvart þegar hætta er talin á aurskriðum. Innan skamms eru sjálfboðaliðar komnir á svæðið á bílum sem eru merktir „Vottar Jehóva – hjálparstarf“. Hjálparsveitirnar eru vel búnar og allir hafa fyrir fram ákveðin verkefni. Hjálparstarfsmennirnir klæðast vestum sem eru greinilega merkt Vottum Jehóva. Þeir aðstoða slasaða bræður og systur í samstarfi við bræður í spítalasamskiptanefndinni. Hjálparstarfsmenn hafa meðferðis matvæli, vatn, sjúkravörur, fatnað og hreinsiefni. Það er gríðarleg vinna að hreinsa hús eftir aurskriðu. Sem dæmi má nefna að ekki alls fyrir löngu fjarlægðu 60 sjálfboðaliðar fjögur vörubílshlöss af aur af aðeins einu heimili.

BÚNIR UNDIR NEYÐARÁSTAND

Hið stjórnandi ráð hefur beðið deildarskrifstofur um allan heim að gefa út leiðbeiningar handa safnaðaröldungum og farandumsjónarmönnum um undirbúning og viðbrögð við neyðarástandi. Áður en neyðarástand skellur á þurfa öldungar til dæmis að ganga úr skugga um að þeir hafi undir höndum símanúmer og heimilisföng allra í söfnuðinum.

ÞEGAR NEYÐARÁSTAND SKAPAST

  1. Öldungur hefur samband við fjölskyldu í söfnuðinum.

    Safnaðaröldungar hafa samband við alla boðbera.

  2. Öldungar gefa umsjónarmanni öldungaráðsins skýrslu.

  3. Upplýsingaferli milli umsjónamanna öldungaráða, farandhirða og ábyrgðra bræðra og deildarskrifstofa.

    Umsjónarmenn öldungaráða gefa farandumsjónarmönnum skýrslu og öðrum bræðrum sem fara með ábyrgð og eru í sambandi við deildarskrifstofuna.

  4. Vatns- og matarbyrgðir.

    Séð er fyrir mat, vatni, húsaskjóli og læknisaðstoð eins fljótt og hægt er, svo og andlegum og tilfinningalegum stuðningi.

  5. Farið yfir upplýsingar um þörf á aðstoð á hamfarasvæði.

    Deildarskrifstofan greinir ritaranefnd hins stjórnandi ráðs frá ástandi og þörfum.

  6. Neyðaraðstoð veitt.

    Hjálparstarfsnefnd skipuleggur neyðaraðstoð og hjálpar bræðrum og systrum að ná sér á strik til lengri tíma litið.

  7. Flugvél á lofti.

    Ritaranefndin metur þarfirnar og ákvarðar hvort þörf sé á aðstoð sjálfboðaliða erlendis frá.

HJÁLPARGAGN HANDA HJÁLPARSTARFSMÖNNUM

Forsíða bæklingsins Jehovah’s Witnesses and Disaster Relief.

Í JÚNÍ 2013 var gefinn út bæklingur sem nefnist Jehovah’s Witnesses and Disaster Relief (Vottar Jehóva og hjálparstarf). Hann er sérstaklega ætlaður opinberum starfsmönnum í Bandaríkjunum sem hafa umsjón með neyðaraðstoð. Í bæklingnum er gefið ágrip af því hjálparstarfi sem við höfum staðið fyrir frá 1945. Þar er einnig kort sem gefur yfirlit yfir neyðarstoð sem við höfum veitt víða um heim. „Bræður, sem starfa í hjálparstarfsnefndum, nota þennan bækling til að mynda tengsl við helstu aðila á svæðum þar sem hætt er við náttúruhamförum,“ segir öldungur sem tekur þátt í að skipuleggja neyðaraðstoð. „Þegar þessir aðilar vita af hjálparstarfi okkar eigum við auðveldara með að fá leyfi frá þeim til að fara inn á svæði þar sem hamfarir hafa orðið.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila