Til vinstri: Hjálparstarfsmenn í Síle vinna að því að gera við hús hjóna eftir eyðandi elda. Til hægri: Tvær systur í Nígeríu fá neyðarbirgðir eftir að héraðið þeirra varð illa úti í hættulegu flóði.
HVERNIG ERU FRAMLÖGIN NOTUÐ?
Neyðaraðstoð árið 2023 – „við kynnumst kærleika Jehóva frá fyrstu hendi“
26. JANÚAR 2024
Biblían sagði fyrir að „þjóð [myndi] ráðast gegn þjóð og ríki gegn ríki“ og að það yrðu hamfarir við „lokaskeið þessarar heimsskipanar“. (Matteus 24:3, 7) Við höfum séð þessi spádómsorð rætast á þjónustuárinu 2023.a En mitt í stríðsátökum og náttúruhamförum í næstum 100 löndum hafa vottar Jehóva endurspeglað kærleika Jehóva. Hvernig?
Á þjónustuárinu 2023 urðu trúsystkini okkar fyrir meira en 200 hamförum, ýmist af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara. Yfir 10 milljón bandaríkjadalir voru notaðir af lögaðilum Votta Jehóva til að standa straum af hjálparstafi. Þetta er viðbót við þá hjálp sem trúsystkini sem búa í nánd við hamfarasvæðin hafa lagt af mörkum. Skoðum nú hvernig framlögin voru notuð í tveim af þeim hamförum sem trúsystkini okkar urðu fyrir.
„Sannur kærleikur er til“
Sums staðar í Nígeríu eru árstíðabundin flóð algeng. En í október árið 2022 urðu verstu flóð sem gengið höfðu yfir í 10 ár. Yfir 676.000 hektarar ræktaðs lands eyðilögðust og tvær milljónir manna þurftu að yfirgefa heimili sín. Deildarskrifstofan í Nígeru brást skjótt við og skipaði nefndir til að stýra hjálparstarfinu og til að sjá fyrir andlegri uppörvun.
Bræður í Nígeru fóru um vegi sem höfðu í raun skolast í burtu og yfir straumþungar ár til að koma hjálpargögnum til skila.
Áhrifin á trúsystkini okkar
7.505 boðberar þurftu að yfirgefa heimili sín.
860 heimili skemmdust eða eyðilögðust algerlega.
Vatnstjón varð á 90 ríkissölum og einni mótshöll.
Notkun fjárframlaga
Meira en 250.000 bandaríkjadalir voru notaðir í hjálparstarf. Það fólst meðal annars í …
mat eins og hrísgrjónum, baunum og núðlum.
nauðsynlegum heimilisbúnaði eins og dýnum og flugnanetum.
viðgerðum eða endurbyggingu húsa.
Hvernig tryggðu bræðurnir að framlögin væru notuð skynsamlega? Meðal annars með því að gera rækilega úttekt á hverri byggingu til að meta hvort hægt væri að gera við hana. Þegar þurfti að endurbyggja hús frá grunni var notaður einfaldur byggingarmáti eins og venja er á þessum slóðum.
Trúsystkini okkar sem fengu hjálp eru mjög þakklát. Ein systir sagði: „Flóðið setti tilveru okkar úr skorðum vegna þess að býlin okkar eyðilögðust og við misstum heimilið. Það var svo mikill léttir þegar trúsystkini komu samdægurs og hjálpuðu okkur og sáu okkur fyrir öruggu húsaskjóli. Það var mikill léttir þegar við fengum matföng frá deildarskrifstofunni. Við vorum orðlaus þegar við sáum uppfyllingu orðanna í Jóhannesi 13:34, 35 frá fyrstu hendi … Sannur kærleikur er til. Ég og öll fjölskylda mín viljum koma innilegum þökkum á framfæri við bræður og systur fyrir að koma okkur til hjálpar á hárréttum tíma.“
Tekið var eftir hjálparstarfi okkar úti í samfélaginu. Fylkishöfðingi í Sabagreia í Bayelsa-fylki sagði: „Það eru margar stofnanir og kirkjur í heiminum en aðeins Vottar Jehóva hafa gert eitthvað í líkingu við þetta … Söfnuðurinn ykkar er einn sá besti í heiminum.“
„Við sjáum kærleika Jehóva frá fyrstu hendi“
Í febrúar árið 2023 urðu yfir 400 eldar í Síle sem ollu meiriháttar eyðileggingu. Yfir 430.000 hektarar lands brunnu, þar á meðal svæði sem hafa mikla þýðingu fyrir innviði landsins. Flytja þurfti um 8.000 manns frá heimilum sínum. Skömmu eftir að eldarnir fóru að loga byrjaði deildarskrifstofan að skipuleggja hjálparstarf.
Í Síle byggðu hjálparstarfsmenn nýtt hús í stað hins fyrra sem var of illa farið til að hægt væri að gera við það.
Áhrifin á trúsystkini okkar
222 boðberar þurftu að yfirgefa heimili sín.
20 heimili eyðilögðust.
Notkun fjárframlaga
Meira en 200.000 bandaríkjadalir voru notaðir í hjálparstarf. Það fólst meðal annars í …
mat og vatni.
eldsneyti, hreinsibúnaði og lyfjum.
endurbyggingu húsa.
Fjölskylda nokkur var í áfalli yfir því að allar eigur hennar höfðu eyðilagst, þar með talið heimilið og fyrirtækið. Það varð til þess að þau gátu ekki framfleytt sér. Fyrstu dagana olli það þeim mikilli streitu að sjá tóma lóðina þar sem heimili þeirra hafði áður staðið. En þegar endurbyggingin komst í gang fór þeim smám saman að líða betur. Þegar þau sáu kærleikann og hlýjuna sem streymdi frá sjálfboðaliðunum reyndist þeim auðveldara að glíma við tilfinningar sínar. Fjölskyldan var svo snortin af reynslu sinni að hún lagði fram krafta sína við að endurreisa hús annars bróður.
Margir bræðra okkar og systra voru snortin af hjálparstarfinu. Einn bróðir sagði: „Fyrirkomulag Jehóva með hjálparstarfsnefndir er dásamlegt. Daginn eftir hamfarirnar voru þeir komnir á staðinn og sáu okkur fyrir grundvallarnauðsynjum. Það snertir mann að lesa um hjálparstarf í öðrum heimshlutum. En þegar þú upplifir það sjálfur lítur málið öðruvísi út. Maður kann enn betur að meta söfnuðinn, það hvernig bræðurnir líkja eftir eiginleikum Jehóva og hve umhugað þeim er um að við höfum það sem við þurfum efnislega, andlega og tilfinningalega. Við sjáum kærleika Jehóva frá fyrstu hendi.“
Hamförum fjölgar eftir því sem nær dregur endalokum þessarar heimsskipanar. (Lúkas 21:10, 11) Engu að síður sjáum við líka hvernig kærleiksríkur konungur okkar, Jesús Kristur, er með okkur fyrir tilstilli safnaðarins „alla daga allt þar til þessi heimsskipan endar“. (Matteus 28:20) Örlæti ykkar til alþjóðastarfsins inn á donate.jw.org og með öðrum hætti, auk þess að bjóða fram tíma ykkar og krafta, sýnir að þið styðjið Guðsríki og kærleiksríkan konung þess. Takk fyrir örlæti ykkar og stöðuglyndi.
a Þjónustuárið 2023 hófst 1. september 2022 og endaði 31. ágúst 2023.