SAGA 29
Jehóva valdi Jósúa
Móse var búinn að leiða Ísraelsþjóðina í mörg ár og núna var hann bráðum að fara að deyja. Jehóva sagði við hann: ‚Þú munt ekki leiða Ísraelsþjóðina inn í fyrirheitna landið. En ég ætla að leyfa þér að sjá landið.‘ Þá bað Móse Jehóva um að velja nýjan leiðtoga til að passa upp á fólkið. Jehóva sagði við hann: ‚Farðu til Jósúa og segðu honum að ég hafi valið hann.‘
Móse sagði Ísraelsmönnunum að hann myndi bráðum deyja og að Jehóva hefði valið Jósúa til að leiða þá inn í fyrirheitna landið. Síðan sagði Móse við Jósúa: ‚Ekki vera hræddur. Jehóva hjálpar þér.‘ Stuttu seinna fór Móse upp á Nebófjall þar sem Jehóva sýndi honum landið sem hann hafði lofað Abraham, Ísak og Jakobi. Móse var 120 ára þegar hann dó.
Jehóva sagði við Jósúa: ‚Farðu yfir Jórdanána og inn í Kanaansland. Ég mun hjálpa þér alveg eins og ég hjálpaði Móse. Gleymdu ekki að lesa í lögum mínum á hverjum degi. Ekki vera hræddur. Vertu hugrakkur. Farðu og gerðu eins og ég hef sagt þér.‘
Jósúa sendi tvo njósnara til Jeríkóborgar. Í næstu sögu lærum við meira um hvað gerðist þar. Þegar njósnararnir komu til baka sögðu þeir að núna væri góður tími til að fara inn í Kanaansland. Daginn eftir sagði Jósúa þjóðinni að taka saman tjöldin. Síðan sendi hann prestana sem báru sáttmálsörkina á undan að Jórdanánni. Það var mjög mikið vatn í ánni. En um leið og prestarnir stigu í vatnið hætti áin að streyma og vatnið rann í burtu. Prestarnir gengu út í miðja ána og stóðu þar á meðan öll Ísraelsþjóðin fór yfir. Heldurðu að þetta kraftaverk hafi minnt fólkið á það sem Jehóva gerði við Rauðahafið?
Loksins, eftir öll þessi ár, voru Ísraelsmennirnir komnir inn í fyrirheitna landið. Þeir gátu byggt hús og borgir. Þeir gátu sáð korni og ræktað víngarða og ávaxtagarða. Það var svo margt gott að borða og drekka í fyrirheitna landinu að það var kallað „land sem flýtur í mjólk og hunangi“.
„Jehóva mun alltaf leiða þig og sjá um þig, jafnvel í skrælnuðu landi.“ – Jesaja 58:11.