Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.5. bls. 28-32
  • Talið um dýrð konungdóms Guðs

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Talið um dýrð konungdóms Guðs
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Biblíuleg fyrirmynd
  • Fyrirhyggja og undirbúningur
  • Við getum vænst góðs árangurs
  • Haltu áfram að tala um konungdóm Guðs!
  • Þú getur vitnað óformlega
    Ríkisþjónusta okkar – 2010
  • Ertu undirbúinn að vitna óformlega?
    Ríkisþjónusta okkar – 2009
  • Lofum Jehóva með því að vitna óformlega
    Ríkisþjónusta okkar – 2003
  • Verið iðin við að vitna
    Ríkisþjónusta okkar – 2003
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.5. bls. 28-32

Talið um dýrð konungdóms Guðs

„Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.“ — SÁLMUR 145:11.

1. Hver er aðalástæðan fyrir því að Jehóva hefur gefið okkur hæfileikann til að tala?

JEHÓVA hafði ákveðið markmið með því að gefa okkur hæfileikann til að tala. (2. Mósebók 4:11) Hann var fyrst og fremst sá að lofgjörð um Guð skyldi ‚streyma okkur af vörum.‘ (Sálmur 119:171, 172) Eins og sálmaritarinn Davíð sagði: „Öll sköpun þín lofar þig, [Jehóva], og dýrkendur þínir prísa þig. Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu. Þeir kunngera mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns. Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns.“ — Sálmur 145:10-13.

2. Á hvaða vegu erum við knúin til að láta ‚lof um Guð streyma fram‘?

2 Smurðir fylgjendur Jesú Krists og félagar þeirra af ‚múginum mikla‘ eru ákafir að lofa Jehóva, ‚konung eilífðarinnar.‘ (Opinberunarbókin 7:9; 15:3) Rækilegt nám í Biblíunni með hjálp Varðturnsins og annarra kristinna rita getur veitt okkur nákvæma þekkingu á Guði sem er eins og uppspretta af hreinu, hressandi, lífgandi vatni. Þá verður ‚lind viskunnar sem rennandi lækur‘ fyrir okkur. (Orðskviðirnir 18:4) Við finnum okkur knúin til að láta ‚lof streyma okkur af vörum‘ þegar við berum vitni hús úr húsi og tökum þátt í öðrum greinum þjónustunnar. En óformlegur vitnisburður á sér einnig biblíulega fyrirmynd.

Biblíuleg fyrirmynd

3. Nefndu dæmi um óformlegan vitnisburð sem Jesús Kristur gaf.

3 Fyrsta prédikun Jesú eftir að hann var smurður heilögum anda átti sér stað þar sem hann bjó. Þangað bauð hann Jóhannesi, Andrési og líklega Pétri. Þeir eyddu öllum deginum þar og Jesús gaf augljóslega rækilegan vitnisburð við þessar óformlegu aðstæður. (Jóhannes 1:35-42) Það var líka við óformleg skilyrði, þegar Jesús „gekk“ þaðan, er hann sá Matteus við tollbúðina og sagði við hann: „Fylg þú mér!“ sem Matteus gerði. — Matteus 9:9.

4. Hvað sagði Jesús þegar hann bar vitni fyrir samverskri konu og hver var árangurinn?

4 Jesús var besta dæmið um að ‚lind viskunnar sé sem rennandi lækur.‘ Þótt hann sæti þreyttur og svangur við Jakobsbrunn í grennd við Síkar bar hann vitni fyrir samverskri konu sem kom þangað til að sækja vatn. „Hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu,“ sagði Jesús. „Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.“ Þessi óformlegi vitnisburður leiddi til þess að Jesús prédikaði fyrir hópi sem kom fyrir hvatningarorð konunnar til að heyra hvað hann hefði að segja. — Jóhannes 4:6-42.

5. Hvernig báru Filippus trúboði og Páll postuli óformlega vitni?

5 Filippus trúboði kallaði til vagns, sem átti leið hjá, og bar óformlega vitni fyrir eþíópska hirðmanninum sem sat í honum og las Jesaja spámann. Filippusi var boðið að stíga upp í vagninn og hann boðaði hirðmanninum „fagnaðarerindið um Jesú.“ Það varð til þess að hirðmaðurinn lét skírast. (Postulasagan 8:26-38) Þegar Páll postuli var leystur úr hlekkjum í miklum jarðskjálfta í Filippí bar hann óformlega vitni fyrir fangaverðinum. Árangurinn varð sá að „[hann] var . . . þegar skírður og allt hans fólk.“ — Postulasagan 16:19-34.

6. Hvernig báru lærisveinar Jesú trúlega óformlega vitni eftir að Stefán var grýttur?

6 Óformlegur vitnisburður er nú á dögum ein leið til að boða fagnaðarerindið þar sem kristið starf okkar er takmörkum háð. En jafnvel þótt við séum ofsótt knýr hjartað okkur til að tala um dýrð konungdóms Guðs. Eftir að Stefán var grýttur til bana dreifðust flestir hinna ofsóttu lærisveina. Þeir héldu þó áfram að boða fagnaðarerindið og þeir hafa vafalaust oft gripið tækifærið til að gefa óformlegan vitnisburð. — Postulasagan 8:4-8; 11:19-21.

7. Hvað gerði Páll meðan hann sat í stofufangelsi og hvaða spurningu vekur það?

7 Óformlegur vitnisburður er ein leið til að tala um dýrð konungdóms Guðs ef við sitjum í fangelsi eða erum bundin heima sökum veikinda eða fötlunar. Páll var í tvö ár í varðhaldi í Róm. Í stað þess að sitja með hendur í skauti stefndi hann til sín fólki og „tók á móti öllum þeim, sem komu til hans. Hann boðaði Guðs ríki og fræddi um Drottin Jesú Krist með allri djörfung, tálmunarlaust.“ (Postulasagan 28:16-31) Þetta er afbragðsgott fordæmi. Gætir þú gert eitthvað svipað ef þú getur ekki af einhverjum orsökum borið vitni hús úr húsi?

8. Hvaða árangri skilaði óformlegur vitnisburður Páls?

8 Þar eð skipt var um verði hjá Páli með einhverju millibili heyrðu margir þeirra hann tala við aðra um dýrð konungdóms Guðs. Við getum þó verið viss um að hann hafi líka borið beint vitni fyrir þessum vörðum. Svo áhrifaríkur var þessi óformlegi vitnisburður að Páll gat sagt: „Það, sem fram við mig hefur komið, hefur í raun orðið fagnaðarerindinu til eflingar. Því að það er augljóst orðið í allri lífvarðarhöllinni og fyrir öllum öðrum, að ég er í fjötrum vegna Krists og flestir af bræðrunum hafa öðlast meira traust á Drottni við fjötra mína og fengið meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust.“ (Filippíbréfið 1:12-14) Ef við sætum í fangelsi og væri meinað að bera formlega vitni gætum við eftir sem áður talað um konungdóm Guðs. Ef við gerum það mun það auk þess byggja upp hugrekki bræðra okkar.

9, 10. Hvaða veraldlegar heimildir gefa til kynna að frumkristnir menn hafi borið óformlega vitni?

9 Óformlegur vitnisburður var svo algengur meðal frumkristinna manna að jafnvel mörgum árum síðar var sagt: „Frá kristnum rithöfundi, sennilega í Karþagó um árið 200, fáum við mynd . . . af hámenntuðu fólki. Þrír ungir lögfræðingar, nánir vinir, dvelja daglangt við ströndina. Tveir eru kristnir, sá þriðji heiðinn. Tal þeirra beinist fljótlega að trúmálum . . . Frásögunni af hinum löngu rökræðum þeirra lýkur svo: ‚Við héldum allir þrír hamingjusamir heimleiðis. Einn var hamingjusamur vegna þess að hann hafði kynnst hinni kristnu trú, hinir vegna þess að þeir höfðu leitt hann til hennar.‘ Ekki er gefið í skyn að frásagan sé sannsöguleg; hún er hluti af varnarræðu eftir Minucius Felix. Eigi að síður lýsir hún því sem átti sér stað meðal æðri stétta þjóðfélagsins.“ (Church History 1 — The First Advance: A.D. 29-500 eftir John Foster, bls. 46, 48) Þessi frásaga sýnir einnig að óformlegur vitnisburður var ekki útdauður meðal þeirra sem játuðu kristna trú á þeim tíma.

10 Um frumkristna menn hefur einnig verið sagt: „Þeim fjölgaði stöðugt sem tóku kristna trú og boðuðu Krist hvar sem þeir fóru, hvort heldur í tengslum við dagleg störf sín eða vegna ofsókna . . . Heill herskari þeirra notaði dagleg störf sín, hver sem þau voru, sem leið til að útbreiða trú sína.“ (The Missionary Enterprise eftir Edwin Munsell Bliss, bls. 14) Já, hinir fyrstu boðberar Guðsríkis báru bæði formlega og óformlega vitni.

Fyrirhyggja og undirbúningur

11. Hvað getum við lært af Jesú um það að beina athyglinni að sannindum Guðs?

11 Eins og Jesús og fyrstu fylgjendur hans ættum við að bera vitni bæði formlega og óformlega. Til að það megi heppnast er þörf á fyrirhyggju og undirbúningi. Þegar Jesús bar óformlega vitni eða kenndi talaði hann um börn, fæði, klæði, fugla, blóm, veður og vinnu sem dæmi. (Matteus 4:18, 19; 6:25-34; 11:16-19; 13:3-8; 16:1-4) Við getum líka notað næstum hvaðeina sem umræðuefni til að hefja máls á sannindum Guðs.

12. Hvernig gætir þú búið þig undir að bera vitni áður en þú leggur í ferðalag?

12 Við getum borið óformlega vitni fyrir fólki sem situr í lystigarði, stendur í biðröð í verslun og svo framvegis. Í Aþenu talaði Páll „hvern dag á torginu við þá, sem urðu á vegi hans.“ (Postulasagan 17:17) En við þurfum að búa okkur undir óformlegan vitnisburð. Átt þú í vændum ferðalag með flugvél, langferðabifreið eða járnbrautarlest? Taktu þá með þér biblíu og nokkur smárit, tímarit eða bæklinga. Það eitt að lesa eitthvert kristið rit í almennu flutningatæki eða annars staðar er oft kveikjan að samræðum.

13. Sýndu með dæmi hvernig bera mætti vitni fyrir öldruðum förunaut.

13 Vingjarnleg inngangsorð eru auðvitað upphafið. Handbókin Rökrætt út af Ritningunni hefur að geyma tillögur að kynningarorðum fyrir þjónustuna hús úr húsi, en hægt er að aðlaga sumar þeirra óformlegum vitnisburði. Ef þú ert á ferðalagi og situr til dæmis við hliðina á öldruðum farþega gætir þú sagt: „Ég heiti . . . Ég hef hugsað talsvert mikið um tilgang lífsins. Margir eru svo önnum kafnir af að afla sér viðurværis að þeir hafa tæplega tíma til að hugsa um tilgang lífsins. Þegar aldurinn færist yfir gerum við okkur hins vegar grein fyrir að lífið er frekar stutt og margir fara þá að spyrja sig hvort lífið eigi ekki að veita okkur neitt meira en þetta. Álítur þú að Guð hafi einhvern tilgang með tilveru okkar?“ Gefðu sessunaut þínum tækifæri til að svara. Síðan gætir þú talað um tilgang Guðs með mannkynið og vakið athygli á þeim dásemdum sem lofað er í Opinberunarbókinni 21:3, 4. Til að gefa góðan óformlegan vitnisburð getur þú líka notfært þér önnur atriði sem þú hefur lært á safnaðarsamkomum og af kristnum ritum.

Við getum vænst góðs árangurs

14. Hvaða árangri skilaði óformlegur vitnisburður bróður sem var á ferðalagi?

14 Eins og Jesús og fyrstu fylgjendur hans getum við búist við góðum árangri af óformlegum vitnisburði. Tökum dæmi: Vottur, sem var í flugferð, talaði við herforingja sem hafði verið kvæntur í 20 ár. Kona þessa manns var í ánauð fíkniefna, hafði nokkrum sinnum reynt að svipta sig lífi og hafði í hyggju að fara frá honum og taka upp sambúð við yngri mann. Þegar votturinn talaði um þá biblíulegu hjálp sem tímaritið Varðturninn og förunautur þess, Vaknið!, hefðu veitt honum þáði foringinn strax áskrift að blöðunum og bað um að þau yrðu send til konunnar hans. Aðrir farþegar heyrðu það sem votturinn sagði. Árangur þessa vitnisburðar var sá að hann tók 22 áskriftir og dreifði 45 blöðum og 21 bók!

15, 16. (a) Nefndu dæmi um að óformlegur vitnisburður fyrir vinnufélögum hafi borið góðan árangur. (b) Hvað getum við lært af þessum frásögum?

15 En hvað um það að bera óformlega vitni fyrir vinnufélögum? Bróðir einn lét nokkur eintök af tímaritum okkar liggja frammi í búningsherbergi á vinnustað sínum. Vinnufélagi hans las þau, hafði samband við bróðurinn og fékk áskrift að þeim. Hann þáði einnig biblíunám og sneri baki við spilltu líferni, en konan hans rauk hins vegar á dyr í hvert sinn sem Guð var nefndur með nafni. Þegar maðurinn vildi segja sig úr kirkjunni kom presturinn í heimsókn til að ræða málið við hann en hitti konuna eina heima. Skortur prestsins á trú og lygar hans um votta Jehóva komu konunni á óvart, því að hún hafði séð manninn sinn breytast til hins betra. Hún sagði prestinum: „Þú getur líka skrifað mig og börnin úr kirkjunni!“ Með tíð og tíma urðu þessi hjón skírðir vottar.

16 Fyrir mörgum árum bar bróðir, sem nú býr í Bandaríkjunum, óformlega vitni fyrir ungum vinnufélaga á Englandi og tók hann með sér á kvikmyndasýningu sem vottar Jehóva stóðu fyrir. Þrjátíu og einu ári síðar fékk bróðirinn þetta bréf: „Ég vil gjarnan segja þér frá því að vitnisburðurinn, sem þú gafst [unga manninum], kom að gagni, því að um það bil tveim árum síðar talaði annar bróðir við hann, skildi eftir hjá honum tímarit og tók hann með sér í Ríkissalinn . . . Hann varð vottur, lét skírast árið 1959 og er nú öldungur í söfnuði sínum . . . Um 14 árum síðar varð konan hans vottur og lét einnig skírast. Tveim árum eftir það skírðist dóttir hans og er nú reglulegur brautryðjandi í North Derbyshire . . . Þessi örlitli vitnisburður, sem þú gafst á sínum tíma í Ashford, varð til þess að þessi náungi, kona hans og dóttir, frænka hans og dóttir hennar, eiginmaður og fimm börn, og eitt af börnum annarrar dóttur frænkunnar, eru öll orðin vottar. . . . Ted, ég vil gjarnan þakka þér innilega því að ég er járniðnaðarmaðurinn og sagan, sem ég hef verið að segja, er sagan af því hvernig þú barst vitni fyrir mér og þeim afleiðingum sem það hafði.“

17. Hvaða tækifæri hafa ungir þjónar Jehóva til að bera óformlega vitni?

17 Þið ungir þjónar Jehóva hafið ykkar eigin akur til að bera vitni á, þar sem eru skólafélagar ykkar og kennarar. Notfærið þið ykkur ritgerðir, stíla og önnur tækifæri til að bera óformlega vitni? Nemi í almennum framhaldsskóla í Ekvador, sem var að nema Biblíuna, notaði Vaknið! þann 22. ágúst 1985, þar sem fjallað var um Híróshíma, sem heimild að ritgerð. Ritgerð stúlkunnar fékk hrós dómara í alþjóðlegri ritgerðasamkeppni og hún fékk ferð til Japans í verðlaun. Það er að sjálfsögðu ekki markmið kristinna rita að hjálpa skólanemum að sigra í ritgerðasamkeppni, en þetta dæmi sýnir fram á gildi ritanna og þann góða vitnisburð sem hægt er að gefa Guði til lofs í skólanum.

18. Hver varð árangurinn af stuttum vitnisburði fyrir konu sem vildi taka herbergi á leigu?

18 Systir þurfti af fjárhagsástæðum að leigja út herbergi. Þegar kona hringdi til að spyrjast fyrir um herbergið sagði systirin henni að hún væri einn af vottum Jehóva og gæti ekki leyft að nokkuð ósiðlegt færi fram á heimili hennar. Gestir yrðu að fara hóflega snemma á kvöldin og kæmu karlmenn í heimsókn yrði að sjást til þeirra meðan á heimsókninni stæði. Konan í símanum hikaði en sagði svo: „Ég nam þegar ég var unglingur en það höfðaði ekki til mín. Ég fór því í háskóla.“ Systirin spurði þá hvort hún hefði áhuga á að hefja biblíunám að nýju og hún svaraði játandi. Með tímanum urðu konan sem hringdi, móðir hennar og systir vígðir þjónar Jehóva — aðeins vegna þess að systir bar óformlega vitni.

19. Hver varð árangurinn af óformlegum vitnisburði á Bahamaeyjum?

19 Kaþólsk kona á Bahamaeyjum fékk samviskubit út af því að hún hafði ekki sótt kirkju í fimm ár. Einn sunnudagsmorgun lagði hún fótgangandi af stað í rigningu til kirkju. Þrír vottar áttu leið þar hjá í bifreið og buðu henni far — og báru vitni. Þegar þeir komu til kirkjunnar langaði hana til að vita meira og sat áfram í bifreiðinni meðan verið var að sækja biblíunemanda. Aftur var ekið fram hjá kirkjunni og enn vildi hún heyra meira þannig að hún varð þeim samferða til Ríkissalarins. Opinberi fyrirlesturinn fjallaði um sama efni og rætt hafði verið í bílnum. Biblíunám var hafið með konunni, hún bað manninn, sem hún bjó með (föður barna hennar fjögurra) að flytja út af heimilinu og síðan lét hún skírast á móti í Nassau árið 1986. Hún fagnaði því mjög að einhver skyldi hafa borið óformlega vitni fyrir henni!

Haltu áfram að tala um konungdóm Guðs!

20. (a) Hvernig ber að líta á óformlegan vitnisburð í samanburði við þjónustuna hús úr húsi? (b) Hvað getur sá gert sem finnst erfitt að bera óformlega vitni?

20 Óformlegur vitnisburður kemur aldrei í staðinn fyrir hina reglubundnu þjónustu á akrinum. Prédikun hús úr húsi er greinilega bæði biblíuleg og árangursrík aðferð. (Postulasagan 5:42; 20:20, 21) Samt skilar óformlegur vitnisburður góðum árangri og þjónar Jehóva ættu að eiga hlut í honum. Hvar sem fólk er að finna — ættingja, vinnufélaga, skólafélaga og aðra — bjóðast okkur tækifæri til að tala um dýrð konungdóms Guðs. Láttu því hvorki ótta né óframfærni vera þér fjötur um fót. (Orðskviðirnir 29:25; 2. Tímóteusarbréf 1:6-8) Ef þú ert hikandi við að bera óformlega vitni getur þú beðið eins og ofsóttir lærisveinar Jesú. Þeir báðu Guð: „[Jehóva], . . . veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.“ Var bæn þeirra heyrð? Já, því að lokinni bæninni „hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.“ — Postulasagan 4:23-31.

21. Hvað ætti að hvetja okkur til að bera vitni hvenær sem tækifæri gefst?

21 Þú skalt því leggja þig fram um að rækta jákvæð viðhorf til óformlegs vitnisburðar. Láttu kærleika til Jehóva koma þér til að bera vitni við alls kyns kringumstæður. Sýndu eldmóð og láttu sannleikann streyma fram hvenær sem færi gefst. Haltu áfram að tala um dýrð konungdóms Guðs.

Hverju svarar þú?

◻ Hvaða biblíulegur grundvöllur er fyrir óformlegum vitnisburði?

◻ Nefndu dæmi um hvernig hægt sé að undirbúa sig fyrir óformlegan vitnisburð.

◻ Hvaða árangurs má vænta ef við berum óformlega vitni?

◻ Hvernig ber að líta á óformlegan vitnisburð í samanburði við þjónustuna hús úr húsi?

[Mynd á blaðsíðu 29]

Berð þú óformlega vitni, líkt og Páll, ef þú hefur ekki færi á að fara hús úr húsi?

[Mynd á blaðsíðu 31]

Ef við erum undirbúin getum við gefið góðan, óformlegan vitnisburð.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila